Wednesday, December 31, 2008

Fyrstu áramótin...

...ekki í faðmi foreldra, Möggu frænku og fjölskyldu. Engin áramótabrenna, engir flugeldar sem skotið er upp af hraðahindrun á Heiðmörkinni, ekkert ár sem feidar út í sjónvarpinu. En allt er breytingum háð og í ár ætlum við skötuhjú að eiga notalega kvöldstund tvö saman. Elda góðan mat og hitta síðan vini síðar um kvöldið. 

Matseðill kvöldsins er svohljóðandi: 

Forréttur: Brucettur með geitaosti, parmaskinku og kirsuberjatómötum

Aðalréttur: Beef Wellington (look it up ég er mega stressuð að elda þetta), með heimatilbúnni sveppamyrju, vafið inn í smjördeig og parmaskinku, kryddaðar kartöflur og salat. 

Næturréttur: (til að eiga þegar við komum heim af djamminu) Hvítlauks-pennepasta með ólívum, shallotlauk og chilli. 

Við eigum ekta kampavín inn í ískáp og hlökkum mikið til að prófa öðruvísi áramót ;) 

 

Tuesday, December 30, 2008

Annáll

Við enduðum síðasta ár í trylltu áramótapartý heima hjá meistara Jakobi í Hveragerði og dönsuðum okkur inn í nýtt ár með tilheyrandi harðsperrum og höfuðverk á fyrsta degi ársins 2008. Árið sem fylgdi í kjölfarið einkenndist af bæði taumlausri gleði, hausverk og harðsperrum og öllu þar á milli. Ég fagnaði 26 ára afmælinu mínu í janúar þrátt fyrir að Lalli reyndi að halda því fram að ég væri orðin 27 ára. Lárus hóf (óafvitandi) sitt síðasta tímabil í Hamri (í bili amk) og

Í febrúar góðærinu skelltum við kærustuparið okkur á farmiða til Mexico og upphófst mikil tilhlökkun og niðurtalning fram að vori. Í febrúar heimsótti ég líka höfuðstað norðurlandsins, fór á skíði í fyrsta skipti í langan tíma og hitti námskonuna systur mína, aðra ættingja og vini. Í febrúar tók ég tímamótaákvörðun og hætti sem fimleikaþjálfari. Ákvað að taka spennandi og krefjandi vinnu á rannsóknarsetri í háskólanum fram yfir og einbeita mér að því að klára kennslufræðina. Á svipuðum tíma og Kastró vék úr forsetaembætti á Kúbu var farin ógleymanleg fjölskylduferð að Rangá þar sem fólk flaug niður stiga, rotarar frá Siglufirði rotuðust sjálfir, fólk læsti sig úti um miðjar nætur og heitir pottar urðu kaldir.

Mars rann upp með vanalegu skólastússi og körfubolta hjá okkur báðum. Lárus í fullu að klára alþjóðasamskiptin og ég að reyna að uppeldisfræða unglinga í FÁ. Páskafrí í foreldrahúsum og huggulegheit sem því fylgja. Lærdómurinn og fall Hamars í 1. deild var allt saman bærilegt vegna fyrirhugaðrar Mexicoferðar.

Apríl hófst á frekari lærdómi, ritgerðar- og verkefnaskilum hjá bæði mér og Lárusi. Við styttum okkur stundir með nokkrum ferðum í Laugar Spa þar sem við fórum í gufubað og hrutum svo í takt í hvíldarherberginu. Apríl einkenndist einnig af endurminningum og örlítilli fortíðarþrá hjá mér. Seint í apríl fórum við skötuhjú einn eftirmiðdaginn út að skokka og tókum í kjölfarið þá ákvörðun að flytja til Danmerkur. Orsakasamhengið er enn töluvert óljóst.

Í maí sendi ég inn umsókn í mastersnám í Evrópskum menntunarfræðum, nánar tiltekið í Lifelong Learning sem ég kann ekki að þýða á góða íslensku. Í byrjun maí rann loksins upp Cancun ferðin góða sem farin var með góðum vinum. Hótelið var æðislegt, koktelarnir svalandi, hitinn æðislegur en á stundum óbærilegur, margt að skoða og margt að upplifa. Á síðasta degi ferðarinnar skók jörðin suðurlandið á Íslandi og hinn eini sanni suðurlandsskjálfti reið yfir. Það var frekar erfitt að vita af húsbanni, þyrlum sveimandi og fólkinu sínu heima fyrir þegar maður er staddur á bar í Mexico og getur lítið gert. En sem betur fer fór nú betur en á horfðist og flest allt tjón var bætanlegt þar sem engin missti líf eða limi í hamaganginum.

Í júní kláraði ég kennsluréttindin og útskrifaðist. Lalli kláraði líka öll fögin við alþjóðasamskiptin og fór að huga að ritgerð. Í júní vann ég á rannsóknarsetrinu við undirbúning rannsóknar og Lalli kenndi litlum pjökkum og píum körfubolta á milli þess að sinna starfi aðstoðarþjálfara hjá landsliðinu. Við skötuhjú fórum að huga að flutningum þar sem við höfðum tekið þá ákvörðun að flytja til Danmerkur hvort sem ég kæmist inn í námið eða ekki. Sumarið einkenndist því miður af svörtu skýi sem hékk yfir fjölskyldunni vegna veikinda Bjarna Páls hetjunnar okkar sem leyfði ljósinu að taka sig í júlí. Skarð í hjörtu og líf okkar allra. En sólin sest og hún rís að nýju og lífið heldur áfram í einhverri mynd. Í júlí fundum við íbúðina okkar sem við erum nú svo ánægð með og verðum í fram á sumar.

Um verslunarmannahelgina skelltum við okkur hringinn með mömmu og pabba sem var hin mesta skemmtun. Við heimsóttum staði sem annað hvort voru týndir í bernskuminningum eða við höfðum aldrei komið á. Ísland er svo fallegt og sumarið, veðrið og náttúran lék við okkur. Í ágúst héldum við áfram að kynnast landinu okkar þegar við fórum í eitt mesta stuð brúðkaup ársins til Hrefnu og Stebba í Reykhólasveit. Um miðjan ágúst var síðan förinni heitið til Kóngsins Köben og við hófum nýja áfanga í lífi okkar beggja. Kaupmannahöfn tók á móti okkur með sól og blíðu og Lalli samdi við úrvalsdeildarliðið SISU hérna í Kaupmannahöfn.
Í september byrjðai ég í masters náminu og Lalli á fullu í körfuboltanum. Við komum okkur vel fyrir á Matthæusgade 48 og urðum strax Vestrebro fólk í húð og hár. Nýr skóli, nýtt nám, nýjir vinir, nýr klúbbur, ný vinna... allt svo spennandi og framandi og lífið varð töluvert meira krefjandi en oft áður. Í lok september ákvað ég mitt í allri hringiðunni að taka þátt í keppni um tillögu að nýjum miðbæ í Hveragerði og kynntist fyrir vikið Tinnu frænku minni enn betur ásamt fleira afskaplega góðu og hæfileikaríku fólki. Lárus varð fyrir því óhappi að meiðast í lok undirbúningstímabils og var því miður óleikhæfur í næstum tvo mánuði.

Mitt í öllu nýjabruminu, gleðinni og hamingjunni minnir lífið á sig og afi kvaddi óvænt í október. Sólin sem skein í Köben í október gat ekki lýst upp þann daginn og við flugum heim í jarðaför og fjölskyldustundir. Kreppan skall á um svipað leyti og fór nú svona í fyrstu fram hjá okkur þar sem lífið er mikilvægara en peningar. Engu að síður fengum við aðeins að finna fyrir því þegar mjólin fór að kosta okkur 500 kall og húsaleigan farin að telja nokkur hundruð þúsundin. En eins og fyrr sagði þá heldur lífið áfram og við fengum okkur meiri vinnu og héldum ótrauð áfram að vinna að okkar hugðarefnum. Staðráðin í því að hingað værum við komin til að læra og lifa og þá skyldi það halda.

Eftir þrotlausa sjúkraþjálfun og æfingar fór Lárus að geta spilað aftur og í nóvember fór lífið að taka á sig rútínukennda mynd aftur. Skólinn, karfann og allt þetta venjulega. Ég fór á ráðstefnu til Bilbao og skoðaði borgina og skólann sem ég kem til með að stunda í september á nýju ári. Ég spreytti mig einnig sem forfallakennari í nóvember með eftirminnilegum hætti. Í desember veltum við fyrir okkur að halda jólin í Köben en tókum síðan ákvörðun að koma heim og knúsa vini og ættingja.

Já árið var svo sannarlega litað af bæði gleði og sorg eins og flest önnur ár. Hvert ár kennir manni að meta lífið og tilveruna upp á nýtt og skoða hlutina í víðara samhengi. Þetta ár er engin undantekning á því. Næsta ár verður eflaust enn lærdómsríkara og framundan eru skemmtilegir tímar held ég :)

Lent í Köben

Þá erum við mætt á Matthæsugade aftur eftir afskaplega stutt en einstaklega notalegt jólafrí á Íslandinu góða. Það er óhætt að segja að við höfum notið tímans vel og í raun og veru náðum við að hitta ótrúlega marga vini okkar og ættingja þrátt fyrir afar stutta dvöl. Hluti tímans fór samviskusamlega í að læra og huga að ritgerðarsmíðum en annars fór mestur tíminn í að innbyrða mat og drykk og ferðast á milli staða til að láta dekra við sig. Við höldum að við þurfum ekki mikið að borða fyrr en í fyrsta lagi í febrúar eða mars.... 

Engu að síður var það okkar fyrsta verk að kaupa pítsu af uppáhalds ítalska bakaranum okkar á Vesterbrogade um leið og við stigum fæti inn í Kaupmannahöfn, borða hana og taka síðan góðan lúr í notalega rúminu okkar hérna í huggulegu íbúðinni okkar. Alltaf gott að finna fyrir *notó* tilfinningu þegar maður kemur aftur heim. 

Alltaf flykkjast fleiri Íslendingar til Köben. Við komum með fyrstu leiguna hennar Hlínar Guðna með okkur hingað út og Jónas bróðir hennar kíkti í kaffi til okkar áðan, tók við peningunum. Það verður spennandi fyrir þau systkin Hlín og Helga að flytja til borgarinnar eftir áramótin. Við plönuðum að hitta á Jónas og Lísu á morgun og fylgjast saman með skaupinu og jafnvel kíkja eitthvað út í partý þegar líða færi á nóttina. 

Hérna eru byrjað að sprengja flugelda út um allt líkt og heima. Það verður víst rosa show á morgun víðs vegar um borgina og við erum nokkuð spennt að sjá hvernig Danir fagna nýju ári og hlökkum til að taka þátt í hátíðarhöldunum. Hversdagsleikinn og rútínan eru nú samt fljót að segja til sín og Lalli á að mæta á æfingu strax í kvöld. Eins gott að taka vel á því fyrir fyrsta leik sem er 7. janúar nk. 

Ný önn byrjar ekki fyrr en í febrúar hjá mér en skilin og prófin eru á næsta leyti. Það verður heldur betur huggulegt þegar fyrstu önninni líkur og ég get farið yfir hvernig þetta stendur allt saman hjá mér. Nauðsynlegt að nota fyrstu önnina í nýjum skóla til að læra af henni og sjá hvernig maður stendur í samanburði við aðra og svona. 


Tuesday, December 16, 2008

Jólin nálgast

Við skötuhjúin vöknuðum upp við jarðskjálfta snemma í morgun. Það virðist sem óalgeng og nánast ómöguleg tíðindi fylgi okkur þegar við förum erlendis. Snjór í Buenos Aires, jarðskjálftar í Danmörku. 

Skondið að segja frá því líka að þegar við fluttum inn í íbúðina okkar í haust, sáum við að fyrir ofan rúmið er hilla og í henni er olíuljós, svona kar með olíu og kveikiþræði í. Ég spurði Lárus í smá kaldhæðni hvort það væri ekki vissara að fjarlægja þetta kerti úr hillunni, ef það kæmi mögulega jarðskjálfti... ástæðan er sú að Lárus er ógeðslega paranoid yfir jarðskjálftum heima og það má ekkert vera fyrir ofan höfðagaflinn. Kertið var náttúrlega ekki fært, vegna þess að það koma ekkert jarðskjálftar í Danmörku... fyrr en í nótt. 

Við búum nú ekki í nýjustu íbúðinni eða húsnæðinu og leiðslurnar í húsinu okkar hrukkur eitthvað til, það tók daginn að koma heita vatninu á aftur. Jarðskjálftinn var samt hið mesta grey miðað við það sem við eigum að venjast. Við rétt svo rugguðum til í rúminu og þjófavarnakerfið í nokkrum bílum fór í gang fyrir utan. Meira var það nú ekki. 

Annars styttist í okkur. Það er klárlega alltof mikið að gera hjá okkur fram að heimför og líklegast verðum við bæði að vinna eitthvað á Íslandinu. En við minnum hvort annað á það hversu gott það er að hafa mikið að gera, og hversu heppin við erum að hafa nóg fyrir stafni. Manni leiðist þá ekki á meðan :) 

Síðasti leikurinn hjá Lárusi á fimmtudaginn næstkomandi og ég klára skólann formlega á morgun, miðvikudag. Fór í smávegis próf í gær sem heppnaðist bara ágætlega held ég... Hvernig mér gengur kemur nú reyndar ekki í ljós fyrr en seint í janúar - þetta er soddan ferli. Fyrst er það að skila ritgerðum, svo er næstum mánaðarfrí sem á víst að fara í undirbúning fyrir vörn sem fer fram 23. og 25. janúar. Ég er að vona að ég fái að kenna aðeins hjá CIS í þessu mánaðarfríi... væri ekki verra að eiga fyrir leigunni :) 

Annars erum við Lárus í góðum málum vinnulega séð, ég tók 12 tíma vakt í DPU um daginn. Stóð heilan dag og hellti jólabjór og snafs ofan í prófessorana mína, það var semsagt julefrokost hjá kennurum og starfsliði skólans. Síðan hef ég þurft að segja nei oftar en já við forfallakennslu, þar sem akkúrat í augnablikinu verð ég að vinna að verkefnunum mínum í skólanum. Fimleikarnir ganga þrusu vel og ég kenni 20 krökkum einu sinni í viku að fara í handahlaup og arabastökk. Lárus er síðan farinn að kenna badminton einu sinni í viku við sama skóla, CIS. Hann lætur krakkana fara í runu og allir eru hamingjusamir :) 

Svo ég monti mig nú aðeins af Hr. Jónssyni þá var honum líka boðin meira vinna hjá SISU. Vinna sem felst í því að vera manager yfir öllum leikjum hjá SISU, það er að segja öllum körfuboltanum, ekki bara elítuliðinu. Hann kemur þar af leiðandi til með að stýra öllu keppnistengdu fyrir allt SISU liðið. Síðan var hann tilnefndur sem fyrirliði SISU Copenhagen í síðustu viku og spilar nú sinn annan leik sem fyrirliði á fimmtudaginn næsta :) 

Þegar ég les yfir færsluna þá sé ég að líf okkar tengist óneitanlega hinum ýmsu skammstöfunum. Bara svona til að fólk glöggvi sig á þessu þá stendur SISU fyrir körfuboltafélagið sem Lárus keppir með, SISU Copenhagen er elítuliðið eða semsagt meistaraflokkur karla, sem er sérstakt félag með sérstakan framkvæmdarstjóra og stjórn. DPU er skólinn minn www.dpu.dk fyrir þá sem hafa áhuga og stendur fyrir Danmarks Pædagogiske Universitet. CIS stendur fyrir Copenhagen International School og það er semsagt skólinn sem við Lalli erum bæði að vinna hjá við að kenna fimleika og badminton og sem forfallakennarar. 

Já þá er það semsagt komið á hreint... Við hlökkum ofsalega til að koma heim og eiga notalegar stundir með vinum og fjölskyldu. Efast um að ég skrifi staf í fríinu á Íslandi, því ég ætla svo sannarlega að njóta þess að kúpla mig algjörlega út úr netheimum, tölvunotkun og öllu slíku. 

Þess vegna segi ég bara: Gleðileg jól, takk fyrir að lesa og takk fyrir allar kveðjurnar og kommentin - við kunnum ofslega vel að meta það að fólk sé að fylgjast með okkur. Megi nýja árið færa ykkur öllum ógrynnin öll af gleði og gæfu, hamingju og heilsu. 

Ást & Kossar
E+L


Thursday, December 11, 2008

Sjónvarpsleikur

Minnum alla vini og vandamenn nær og fjær á sjónvarpsleikinn í kvöld. Leikur á móti Horsholm, heldur betur spennandi viðureign þar á ferð þar sem Horsholm situr í 6. sæti deildarinnar og SISU í 8. sæti. Eftir hrikalega hittni í síðasta leik er vonandi að skytturnar í liðinu hjá SISU komist í gang og þá ætti þetta að verða alvöru leikur. Leikurinn verður sýndur í sjónvarpinu klukkan 19:15 að dönskum tíma og 18:15 að íslenskum tíma. Þeir sem eru með sjónvarpsstöðina DK4 geta fylgst með í sjónvarpinu og hinir á netinu á heimasíðu DK4 www.dk4.dk 

Annars gengur allt sinn vangagang hérna í Vesterbro. Ég er alveg í spreng að reyna að klára sem mest áður en ég kem heim um jólin til að geta nú örugglega átt notaleg og stress frí jól. Fer í próf á mánudaginn og síðustu "supervision" tímana mína á þriðjudaginn nk.  Eftir það lýkur skólanum og þá verð ég vonandi langt komin með seinni ritgerðina. 

Góðar stundir þangað til næst.

Saturday, December 06, 2008

*ESSAY WRITING*

Allt á fullu hérna á Matthæusgade í ritgerðarskrifum. Lárus skrifar um íþróttir, þróunaraðstoð og alþjóðasamskipti og ég skrifa um borgaravitund, kennsluaðferðir, þekkingarsamfélagið og það að læra fyrir lífið. Ég er að keppast við að skrifa sem mest í dag til að geta kíkt á leik með Lalla í Aarhus á morgun. Sisu er að keppa við lang sterkasta liðið í dönsku deildinni, Bakken Bears svo það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer allt saman. 

Líka spennandi fyrir mig borgarbarnið að komast aðeins út fyrir miðborgina þar sem ég hef ekki nema tvisvar sinnum á ævinni farið eitthvað annað en um miðsvæði Köben. Fyrir mörgum árum heimsótti ég Ollerup (sem ég held að sé einhverstaðar á Jylland) til að læra fimleika. Þar voru bara risa stór græn engi, einn risa stór fimleikaskóli og mörg lítil svínabú. Í gær fór ég síðan í ca klukkutíma ferðalag út fyrir miðborgina í lítinn bæ sem heitir Horsholm til að skoða heimavistar - efterskole í tengslum við námið mitt. Skólinn stendur við ofsalega fallegt vatn og mikinn skóg og í svakalega fallegri náttúru, ekki amalegt að vera 14 til 18 ára unglingur í svona umhverfi að læra á óhefðbundin og skemmtilegan hátt. Þeir sem hafa áhuga þá er þetta heimasíðan þeirra www.isteroed.dk. 

Annars erum við bara ennþá í skýjunum með skemmtilega afmælishelgi og góðan félagsskap. Tusund tak til ykkar sem voruð með okkur og líka þeirra sem sendu kveðjur og pakka og voruð eflaust með okkur í anda :) 

Thursday, November 27, 2008

Allt að gerast...

Búið að vera heldur betur mikið að gera og bloggið eftir því í lamasessi. Ég skrapp eins og einhverjir vita til Bilbao til að kynnast bæði skóla borg aðeins áður en ég held þangað á vit ævintýranna í september. Ferðin sjálf hefði alveg getað verið ögn ánægjulegri þar sem ég hóstaði mig í gegnum hana og var hálf meðvitundarlaus af slappleika. Engu að síður spennandi borg og æðislega sjarmerandi skóli.





Guggenheimsafnið jaðraði auðvitað bara við hálfgerða geðveiki en flott var það!! Við lærðum líka helling á að ferðast svona mörg saman, bekkurinn þjappaðist saman og það var ómetanlegt að fá að kynnast Londonhópnum (krökkunum sem eru á sama stað og ég í náminu en eru að læra í London) og öllum prófessorunum frá London að auki. Gerir reyndar ákvörðun um stað á 4. önninni aðeins flóknari, ég sem ætlaði aldrei til London er nú allt í einu orðin frekar svag fyrir því að skella mér þangað á síðustu önninni - af hverju ekki að taka þetta bara með trompi og fara á alla þrjá staðina og læra í öllum þremur skólunum??

Lárus og félagar unnu fyrsta leikinn sinn í langan tíma og rúlluðu yfir Horsens sem var mjög ánægjulegt. Hr. Jónsson sem á eitt stykki stórafmæli á morgun - já giskiði nú - er allur að koma til og á vonandi eftir að eiga góðan leik næsta laugardag þegar Sisu tekur á móti Roskilde. Helgin verður einkar skemmtileg og spennandi fyrir þær sakir að mamma og pabbi ætla að kíkja á okkur, fylgjast með körfubolta og bjóða okkur í julefrokost... ekki slæmt það!

Við Lalli erum síðan bæði komin með annan fótinn inn í hinn frábæra skóla CIS (www.cis-edu.dk) þar sem Lalli verður líklegast líka substitute kennari þar auk þess að kenna íþróttir í svokölluðu after school activities fyrir krakkana. Alltaf gott að skapa tengsl og fá tækifæri á að þéna nokkrar danskar krónur.

Ég, Tinna frænka, Haukur og Maggi (einstaklega færir og skemmtilegir arkitektar) erum síðan að leggja lokahönd á tillögu okkar að nýjum miðbæ í Hveragerði. Tillagan er frekar nýstárleg og nokkuð "wild" svo ég sletti aðeins en að mínu mati ótrúlega spennandi og vel framkvæmanleg og án efa besti kosturinn fyrir Hveragerðisbæ. Skilafrestur er 1. desember svo helgin verður undirlögð...

Setjum inn fullt af myndum frá afmælishelginni miklu og heimsókn...

Monday, November 17, 2008

...

Dagur tvö í forfallakennslunni var eins og þið höfðuð flest spáð mun auðveldari og nú hafði ég líka nokkur tromp uppi í erminni til að róa krakkastóðið ;) Þau voru hin ljúfustu og enduðu daginn á að lita stóra og fallega mynd handa mér. 



Helgin fór nú svona eins og við plönuðum nokkurn vegin í lærdóm. Kíktum reyndar aðeins út og hittum vini okkar. Við fengum líka heimsókn frá kvikmyndagerðarfólki sem ætlar að koma hérna einn dag í nóvember og taka upp mynd. Þau voru algjörlega heilluð af gamaldags 50's 60's lúkkinu og sögðu að þessari íbúð mætti aldrei breyta. Nú vissu allir í film-bransanum hvar ætti að taka upp myndir sem þyrftu gamaldags setting. Stelpan sem leigir okkur hefur áður leyft tökur á kvikmyndum hérna inni og þess vegna vissu þau af íbúðinni. Við erum alsæl þar sem við fáum smávegis borgað fyrir ómakið - sem er alls ekki neitt þar sem ég verð á Spáni og Lárus í vinnunni daginn sem þau taka upp. 

Sunnudeginum eyddum við á Loppemarked og versluðum nokkrar jólagjafir. Vinir og fjölskylda verða semsagt að sætta sig við gjafir keyptar á flóamarkaði þetta árið. Ég veit að mamma var að vonast eftir einhverju frá Arne Jacobsen en því miður fann ég ekkert frá honum á markaðnum mamma ;) 

Við fengum líka uppáhalds litlu fjölskylduna okkar hérna úti í heimsókn á laugardaginn í tilefni þess að ég, húsmóðir með meiru, bakaði eplaköku. Ekki amalegt það. Er búin að fá svo mikið heimabakað hjá Tinnu og Janusi að ég varð hreinlega að spreyta mig sjálf.

Annars er jólabjórinn auðvitað kominn í bæinn og við Lalli kíktum auðvitað á hverfisbarinn okkar til að fagna. Verst að okkur finnst hann ekkert voðalega spes. Tuborg Classic er alltaf bara bestur.
 







Thursday, November 13, 2008

Ms. Eva

Fyrsti dagurinn minn sem substitute teacher liðinn og mér líður eins og hafi orðið fyrir bíl. Mig óraði nú bara ekki fyrir því að sex ára gömul börn gætu verið svona fjörug!! Við erum að tala um það að ég var mætt í skólann 7:45 og kom heim um 16:00 ekki búin að fá eina mínútu í pásu til að borða eða drekka. 

Þau tala svo mikið og svo hátt og eru frá alls konar löndum. Rífast um alla hluti, fara undir borð og upp í glugga. Reyna að blekkja forfalla kennarann (mig) með ýmsum ráðum. Tala mörg mismunandi tungumál, eru æst og óþolinmóð en líka voða sæt þegar þau segja Ms. Eva do you know that in every second a new baby is born! 

Vá hvað það er miklu miklu miklu erfiðara að kenna börnum sem sum skilja þig ekki, sum tala dönsku, sum ensku, sum ítölsku, sum spænsku og sum þýsku. Líka óendanlega erfitt að hafa ekki orðaforða til að segja allt sem ég vil segja. Ég þarf miklu meiri tíma en venjulega til að hugsa og það er ekki mjög heillavænlegt í þessu umhverfi þar sem maður verður að geta svarað fyrir sig einn tveir og bingó og verið fljótur að leysa ýmis konar ágreining og misskilning. Annar dagur á morgun með sama hóp - þá verð ég kannski aðeins komin upp á lagið með að búa til stopp merki eða time out merki með höndunum. Stundum virkar táknmál bara betur ;) 

Hr. Jónsson fékk svo eftir allt saman leikbann (ætla að sleppa því að úthúða dómurunum) sem þýðir að hann tekur út bannið í næsta leik sem er bikarleikur um 4 liða úrslit. Eins gott að þeir standi sig kapparnir án hans og fari nú að spýta í lófana og hysja upp um sig buxurnar = vinna leik.

Komandi helgi og næsta vika verður undirlögð í lærdóm þar sem ég er að missa úr tvo heila daga nánast í dag og á morgun. Á föstudaginn eftir viku flýg ég síðan suður á bóginn í tengslum við námið mitt. Ráðstefna og seminar í Bilbao - ekki leiðinlegt það! Verð rúmlega helgina þar, kem síðan heim til Köben og geri klárt fyrir fyrstu heimsóknina frá Íslandi!! 





Wednesday, November 12, 2008

Hér verður boðið upp á góðar fréttir...

Á meðan Lalli býr til nesti handa okkur (skyrdrykk) frammi í eldhúsi ætla ég að uppfæra bloggið með góðum fréttum. Ekki vanþörf á svoleiðis fréttum hef ég heyrt.

Ég fékk vinnu og svo meiri vinnu! Ég byrja að vinna sem fimleikaþjálfari í desember eins og áður hefur komið fram (þetta er alveg eins og ekta fréttaveita). Síðan hef ég verið að bíða eftir því að verða kölluð í viðtal vegna forfallakennslu og fékk loksins símtal í kvöld þar sem ég var ekki boðuð í viðtal heldur einfaldlega beðin um að koma og kenna á fimmtudag og föstudag. Fyrsta forfallakennslan felst í að kenna 1. bekk - væntanlega bara allt sem er á dagskránni þessa tvo daga. Síðan er bara vonandi að sem flestir verði forfallaðir og veikir á næstu vikum og mánuðum! 

Aðrar góðar fréttir eru þær að Lalli fékk ekki leikbann fyrir þessar blessuðu ásetningsvillur sem voru dæmdar á hann í síðasta leik (sem voru að sjálfsögðu afar óréttmætar og óþarfa væl í dómurunum). Dómararnir sáu víst sjálfir að þetta var algjör rugl dómur og skrifuðu þar af leiðandi ekkert leikbann á skýrsluna. Lalli er því geim í næsta leik sem verður þann 20. nóvember á móti Randers í bikarkeppni. 

Monday, November 10, 2008

...

Engar fréttir eru góðar fréttir... eða hvað? 

Það sem er helst að frétta af okkur skötuhjúum er:

Lalli spilaði fyrsta deildarleikinn sinn í vetur. Var bara þrusugóður í fætinum en aðeins of keppnis kannski þar sem hann var rekinn útaf með 2 ásetningsvillur þegar 8 mínútur voru eftir af leiknum. Leikurinn tapaðist svo með 3 stigum stigum sem var einstaklega svekkjandi. Til allra lukku tekur hann líklegast út leikbannið sem hann fékk í bikarleik í næstu viku og getur því vonandi sýnt stjörnuleik þann 29. nóvember svona í tilefni þess að mamma og pabbi eru að koma til að horfa og svo auðvitað í tilefni þrítugsafmælisins...!! 

Á jákvæðari nótum þá er ég komin með vinnu frá og með 1. desember nk. Kem til með að kenna fimleika sem "after school activity" fyrir krakka í CIS sem er international einkaskóli hérna í Köben. Ég á einnig möguleika á að vinna eitthvað sem forfallakennari sem er einkar jákvætt fyrir fjárhaginn. 

Sem smá mótvægi við alla þá umræðu sem hefur verið í gangi um að Íslendingar fái slæmt viðmót í Danmörku og annars staðar erlendis þá langar mig að koma með örlítið innlegg. Við, og allir vinir okkar (að mér vitandi) hafa ekki fengið neitt nema ótrúlega góðan skilning á stöðunni og ástandinu. Fleiri en einn og tveir hafa boðist til að hjálpa okkur að finna vinnur, við höfum fengið allan þann frest sem við þurfum varðandi greiðslur og fólk er upp til hópa mjög boðið og búið að gera allt sem það getur til að létta manni lífið og hefur í raun og veru töluverðar áhyggjur af manni - sem mér fannst bara ótrúlega sérstakt og fallegt. Þeir íslendingar sem hafa fengið slæmt viðmót eru að ég held algjör undantekning frá því sem gengur og gerist í eðlilegu samfélagi fólks. 

Einmitt og akkúrat... og ekki orð um það meira ;) 




Monday, November 03, 2008

Vinir

Áttum gott laugardagsvköld með vinafólki okkar frá Litháen, þeim Agne og Alanas. Alanas er að spila með Lalla í Sisu og flutti hingað með konunni sinni Agne. Þau eru nýgift og skruppu 10 daga til Tælands í brúðkaupsferð. Eru þess vegna frekar brún og sælleg á þessum myndum og við Lalli lítum út fyrir að vera veik eða þá að það vanti einhver litarefni í okkur....







Wednesday, October 29, 2008

...

Þeir sem fylgdust með á netinu í gærkvöldi vita nú þegar að Sisu tapaði afar mikilvægum heimaleik í gærkvöldi gegn Næstved. Ég nenni nú ekki að kryfja það til hlýtar en segi bara að þetta lagist allt saman þegar Lárus er orðinn leikhæfur. 

Hérna í Kaupmannahöfn er ennþá yndislegt veður, sólin skín ca annan hvern dag og hitinn ennþá í kringum 10-14 stigin. Ekki amalegt það, sérstaklega þar sem við fengum sko heldur betur forsmekkinn af vetrinum í Íslandsheimsókninni okkar í síðustu viku. Þá var nú gott að koma hingað í sól og gott veður. 

Vöruúrvalið í búðunum gefur hins vegar sterklega til kynna að jólin séu að nálgast! Alveg magnað hvernig tíminn getur liðið á þvílíkum ógnarhraða. Ótrúlegt til þess að hugsa að um jólin verður deildin og körfuboltatímabilið hálfnað, ég búin að skila tveimur stórum ritgerðum og 1/4 af náminu mínu lokið. 

Lokaritgerðirnar mínar fjalla um Citizenship Education. Ég verð með tvær mismunandi nálganir. Annars vegar ætla ég að skoða stefnur og tilmæli Evrópusambandsins og Evrópuráðsins er varða citizenship education í samhengi við stóra alþjóðlega rannsókn sem IEA lét gera á borgaravitund ungmenna í 30 löndum víðsvegar um heim. Hins vegar ætla ég að einbeita mér meira að einstaklingnum og setja námskenningar um mikilvægi þátttöku nemenda og mikilvægi opinna og þroskandi samræðna í citizenship education.  

Þetta er allt saman mjög skemmtilegt að skoða - sérstaklega þar sem citizenship education sem slík þekkist ekki í miklu mæli á Íslandi eða innan íslensk menntakerfis. Það er hægt að finna líkindi með citizenship education og lífsleikni eða þeirri kennslu sem fer fram í einhverjum samfélagsfræði tímum. 

Jæja nóg af akademískri umræðu, ætla að spara orðin í ritgerðirnar. Veitir víst ekki af enda um engar smá ritgerðir að ræða. Ég er hins vegar að leita að vinnu enda þýðir ekki að ætla að láta Lárus algjörlega sjá um að halda okkur uppi í krepputíðinni. Ég var svo einstaklega heppin að vera boðuð í starfsviðtal á föstudaginn í Copenhagen International School sem er grunn- og menntaskóli hérna í Kaupmannahöfn þar sem kennt er á ensku og mótast af mjög alþjóðlegu og multicultural umhverfi. Nú er bara að standa sig vel í viðtalinu og krossleggja putta :) 

Tuesday, October 28, 2008

Bein útsending

Í kvöld verður bein útsending á netinu frá tv-heimaleik Sisu gegn Næstved. Leikurinn byrjar klukkan 19:15 að dönskum tíma sem útleggst sem 18:15 að íslenskum tíma. Hægt er að horfa á beina útsendingu á heimasíðu sjónvarpsstöðvarinnar: 

www.dk4.dk 

Myndir

Setti nokkrar nýjar myndir síðan í október, meðal annars nokkrar afar hressandi af ofnavandamálum okkar Lárusar!

Við erum búin að gera nokkrar tilraunir til að taka myndir í vetur. Förum ævinlega með myndavélina batteríslausa, týnum hleðslutækinu eða erum ekki með það með okkur. En batnandi fólki er best að lifa... 

Physio-therapistinn hann Lárusar ráðlagði honum að spila ekki leikinn á morgun og skynsemin uppmálum tók Lárus þeim ráðum og ætlar að hvíla. Ég var voðalega glöð með það enda held ég að það margborgi sig "in the long run" eins og þeir segja ;) 

Sunday, October 26, 2008

...

Fyrst af öllu viljum við óska sætustu afmælisstelpu í öllum alheiminum til hamingju með afmælið!!  Elska Emma okkar við sendum kossa og knús til þín hérna í gegnum bloggið og vonandi áttu eftir að eiga frábæran afmælisdag!! 


Við vöknuðum í morgun og skidum ekkert í því að klukkurnur í tölvunum okkar voru einum tíma of seinar miðað við aðrar klukkur. Eftir smá þras um hvort klukkan væri hálf ellefu eða hálf tólf þá áttuðum við okkur á því að klukkan var færð aftur á bak um einn tíma í nótt. Frekar notalegt að græða klukkutíma og lengja daginn örlítið. 

Sisu spilaði 4 leikinn sinn á tímabilinu í gærkvöldi og töpuðu með 4 stigum eftir mjög spennandi og jafnan leik. Liðið sem þeir spiluðu við er búið að vinna alla sína leiki og er efst á meðan Sisu hefur unnið 1 leik en tapað 3 og er þar af leiðandi um miðja deild eða í 6. sæti af 10 liðum. Ef við lítum björtum augum á stöðuna þá er Sisu búið að spila 4 mjög erfiða leiki við þau fjögur lið sem skipa sér í efstu sætin þannig að næstu leikir ættu að verða auðveldari viðureignar. Fyrir utan þá staðreynd að Lárus verður auðvitað með í næstu leikjum sem mun breyta leiknum þeirra all verulega held ég. Í dag er engin vara pointguard sem getur tekið boltann almennilega upp - þannig að þeir verða eflaust voðalega fegnir strákarnir þegar Lalli verður orðinn góður í lærinu. Næsti leikur er stór sjónvarpsleikur og allir miðar uppseldir fyrir löngu. Leikurinn verður á þriðjudaginn á heimavelli Sisu gegn liðinu Næstved sem Lárus var líka að hugsa um í ágúst þegar við komum. 

Jæja þeir sem skilja ekkert í körfubolta geta byrjað að lesa hérna... Um næstu helgi er okkur boðið í partý sem kallast Hallo-Wali og samblanda af Halloween og Dewali sem er indversk hátíð sem snýst um að upphefja ljósið og góða anda innra með fólki. Krökkunum í bekknum mínum fannst sniðugt að blanda saman þessum tveimur hátíðum úr austri og vestri og úr því varð þessi hátíð sem þau kalla Hallo-Wali. Mér finnst þetta alveg stórkostleg hugmynd þar sem fólk verður í grímubúningum að kveikja á kertum og lofa ljósið og góða anda að indverskum sið. Svona er nú hægt að sameina mismunandi kúltúr og menningu á jákvæðan hátt :) 

Jæja snúðar og snúllur nú ætla ég að nýta tímann á meðan Lárus er úti að skokka og læra smávegis. 

Kiss og knús á ykkur öll...

Thursday, October 23, 2008

Heima og heiman...

Ahhh hvað var nú gott að koma heim á Matthæusgade aftur. Komum með trilljón töskur og hjól og þurfum næstum stærri íbúð fyrir allt dótið sem við drusluðum með okkur heim. Allt var þetta þó eitthvað gífurlega mikilvægt. Harðfiskur, vetrarföt, lýsi og ullarsokkar svo eitthvað sé nefnt. Fyrir utan allt nammið sem Hildur María pantaði... en ég borðaði áður en hún fékk helminginn af því. 

Athöfnin gekk ofsalega vel og við náðum að hitta fleiri heldur en við bjuggumst við en auðvitað ekki alla sem við hefðum viljað hitta samt. Svona er þetta bara - verst að allir sem höfðu ætlað sér að kíkja til Köben á næstunni er náttúrlega löngu hættir við öll slík plön... en engu að síður er nóg pláss í stofunni hjá okkur og við rukkum ekki svooo mikið. 

Nú tekur við skóli, æfingar og vinna. Ég er með nokkrar vinnur í deiglunni núna og fer vonandi í einhver viðtöl í næstu viku, læt vita betur þegar þetta fer að skýrast. Á meðan framfleytir Lalli okkur með því að skakklappast í vinnuna og hvetja hina strákana á æfingum. Annars er hann allur að koma til og fær vonandi að vera smávegis með á æfingu í dag og hann setur síðan stefnuna á að spila sjónvarpsleik þann 30. október nk. sem er heimaleikur á móti Randers. 

Við áttum annars bara ágætlega huggulegt Iceland Express flug heim. Við bjuggumst við að það yrði hálf tóm vél þar sem fæstir væru nú að smella sér til útlanda svona í miðri kreppunni. Á leiðinni til Íslands var það nefnilega raunin - vélin var svo fámenn að það var heil sætaröð á mann. Það var hins vegar ekki þannig í morgun og vélin var stútfull. Í vélinni voru semsagt við Lárus. Einn vinkonuhópur að fara í tjúttferð til Köben og voru heldur betur orðnar hressar strax um hálf sjö leytið í morgun - búnar að kaupa allt vínið í fríhöfninni til að spara og byrgja sig upp áður en komið væri í dýra útlandið! Fyrir aftan þær sat síðan Klovn (úr þáttunum) ásamt kærustu og síðan fullt af fólki sem hafði örugglega unnið einhverja ferð til Íslands í boði hans. Það fólk var með fulla poka af dóti og vöru frá Íslandi og hafði örugglega gert kjarakaup síðustu daga. Restin voru síðan erlendir verkamenn á leiðinni heim. Nánast ennþá í vinnugallanum, örugglega dauðfegnir að komast heim og geta farið að vinna fyrir decent kaupi.

Veit ekki hvort þetta flug endurspeglar Ísland í dag en það var allavega voðalega gott að koma heim og geta knúst alla fjölskylduna. Líka gott að geta komið aftur hingað heim á Matthæusgade 48.

 

Tuesday, October 21, 2008

tíminn flýgur

Stoppið á Íslandi er varla byrjað og nánast búið. 

Ég er þrátt fyrir allt búin að hitta nokkra vini og vinkonur og eiga ómetanlegar stundir með þeim. Við hittum fjölskylduna hans Lalla á einu bretti í gærkvöldi sem var alveg yndislegt og fengum síðan skammt af minni fjölskyldu í dag sem var líka gott þrátt fyrir að við værum saman komin til að kveðja afa gamla. Hefðum ekki getað fengið betra veður og athöfnin var í alla staði falleg og góð. 

Síðasti dagur heimsóknarinnar verður eflaust nýttur til að fara í sundlaugina í Laugarskarði og hlaða batteríin fyrir "heimkomu" til Danmerkur, lærdóm, ritgerðarskrif, körfuboltaæfingar og endurhæfingu. 

Næsti leikur hjá Lalla er síðan á laugardaginn næsta og við vonum auðvitað hið besta, semsagt að kappinn geti spilað nokkrar mínútur... Pakka í kvöld og svo flugrútan aðfaranótt fimmtudags. 
 


Thursday, October 16, 2008

Heim á leið

Ísland fagra Ísland eftir einungis nokkra klukkutíma - sjáum til hvernig ég fíla mig í ástandinu heima. Lalli kemur síðan á mánudaginn og við verðum fram á fimmtudag. 

Fengum gleðifréttir í gærkvöldi. Sátum yfir nokkrum rauðvínsglösum með stelpunni sem við leigjum af og hún framlengdi samningnum við okkur um nokkra mánuði svo núna þurfum við ekki að hafa áhyggjur af íbúðamálum fyrr en í fyrsta lagi um mitt næsta sumar. Gleði og glaumur!! 

Lalli er ennþá haltur og með afar ófunksjónelt læri og hné en mætir þrisvar í viku í nudd og sjúkraþjálfun svo vonandi verður hann góður fyrir þarnæsta leik. Liðið er auðvitað bara hálft lið án hans finnst mér - og reyndar mörgum öðrum líka :) 

En nú er að pakka og skrifa lista númer ég veit ekki hvað... Sjáumst kannski heima! 

Sunday, October 12, 2008

Fyrirmyndarforeldrar

Ég hef alla tíð tekið foreldra mína mér til mikillar fyrirmyndar. Þau eru stoð mín og stytta og mínir helstu aðdáendur. Þau hafa líka alið mig vel upp og kennt mér að hafa falleg og góð gildi að leiðarljósi í lífinu. Verandi mínir helstu aðdáendur og stuðningsmenn vilja þau auðvitað allt fyrir mig gera. 

Ég ræddi við mömmu á msn í dag þar sem hún spurði mig hvað væri í kvöldmatinn hjá mér. Ég er ekki mjög framtakssöm í eldhúsinu og sagði henni því sem satt var að það væri skúffukaka í kvöldmatinn hjá mér. Ég sagði jafnframt að mig langaði samt helst af öllu í fisk (vitandi það að tengdaforeldrar mínir ætluðu að hafa fisk í kvöldmatinn hjá sér). Mamma sagði við mig: Auðvitað elskan við höfum fisk þegar þið komið - allt fyrir ykkur. 

Um það bil 10 mínútum síðar tilkynnti hún mér að pabbi stæði brosandi út að eyrum með stærðarinnar fisk í hendinni fyrir utan gluggann hjá henni. Hann gerði sér nefnilega lítið fyrir og stökk niður að á og veiddi fisk um leið og prinsessan bað um fisk. Já það kostar ekki alltaf peninga að dekra litla barnið í fjölskyldunni!

Síðan voru sendar myndir af aflanum og þeim huggulega kvöldverði sem bíður okkar við heimkomu. 

Ég elska þau svo mikið. 




lífið og tilveran

Þá held ég að það sé löngu orðið tímabært að koma nokkrum stöfum á blað. Við höfum að sjálfsögðu verið einstaklega upptekin af kreppunni, gjaldeyris- og gengismálum og þeirri staðreynd að allir reikningarnir okkar voru frystir af dönsku bönkunum og ekki séns að millifæra íslenska peninga síðustu daga. En eins og ég hef sagt áður og ætla að halda fast í þá erum við samt ótrúlega heppin þjóð. Fyrir utan þær náttúruauðlindir sem við eigum (sem ég vil nú sem minnst þurfa að ganga á) þá eigum við líka bara ótrúlegan mannauð og því má ekki gleyma. Við eigum vel menntað fólk á öllum aldri. Allir kunna að lesa, allir eiga kost á ókeypis menntun og með slíkt bakland eigum við svo vel að geta komist í gegnum þetta ástand.

Já nú set ég punkt um þessi málefni öll - aldeilis búið að ræða þetta hérna í danska landinu fram og til baka og allir sammála um að það sé lítið hægt að gera annað en að vera bjartsýnn.... og fara síðan að leita sér að vinnu til eiga fyrir næstu leigu ;)

Það er nú líka þannig að lífið minnir sífellt á hversu hverfult það er og síðasta mánudag var dagurinn hans afa runnin upp. Lífið tók heldur betur U beygju þar sem ég stóð í háskólagarðinum í 18 stiga hita, sól og blíðu, með brosið út að eyrum eftir vel heppnaðann fund með kennaranum mínum og fékk síðan símhringingu um að afi hefði dáið. Ef ég byggi yfir ofurkröftum þá hefði ég hugsað mig heim á Ísland strax til að geta haldið utan um ömmu mína sem er að missa annan helminginn af sjálfri sér og knúsað mömmu mína sem er að missa pabba sinn. En einu ofurkraftarnir sem ég þekki eru lífið sjálft sem tekur og gefur til skiptist og við fáum yfirleitt engu ráðið um það hvenær við fáum eða hvenær við missum.

Nú erum við semsagt á leið heim til Íslands til að kveðja afa. Eins og ég skrifaði á bloggið mitt þá ætla ég að strjúka honum um skallann og kúra í hálsakotið hans í síðasta sinn. Ég legg af stað heim á fimmtudagskvöldið næsta og Lárus kemur á mánudeginum helgina eftir. Mestur tíminn fer í að knúsa fjölskylduna en ef einhver tími gefst til þá hittum við kannski á vinafólk...

Þessar tvær vikur hafa semsagt verið nokkuð rússíbanakenndar hjá okkur. Lárus meiddist á læri (fékk högg á lærvöðvann) fyrir um það bil tveimur vikum síðan og hefur ekki enn spilað leik í deildinni. Fyrsti leikurinn var á laugardaginn síðasta og leikur nr. tvö er í dag. Við vonum að hann verði orðinn betri fyrir þriðja leikinn sem er á sunnudaginn eftir viku. En hann er í sjúkraþjálfun, nuddi og góðri meðferð svo vonandi liggur leiðin bara upp á við. Hann er allavega farin að geta haltrað um en fyrst í stað þurfti að biðja leigubílstjóra að bera hann inn og út úr bílnum... svo hann er nú allur að koma til kallinn :)

Vona að lesturinn hafi ekki verið of niðurdrepandi því í raun veru erum við bara nokkuð góð og sátt með lífið og tilveruna. Allt hefur sinn gang og reynslan hefur kennt mér að það er mitt hlutverk í lífinu að reyna að gera það besta úr hverjum degi og öllum þeim aðstæðum sem við erum í. Við ráðum ekki við lífið en við ráðum svo sannarlega hvernig við tökumst á við það.

Knús á ykkur öll
E + L

Sunday, October 05, 2008

Hemmi Gunn

Hún Gústa mín póstaði þessu á Facebook og hér ljómar allt af gleði.

http://www.youtube.com/watch?v=-snDHxxuGSs

Friday, October 03, 2008

Svona er lífið...

Ég vogaði mér í fyrsta skiptið í langan tíma inn á heimasíðu Glitnis og alla leið inn á netbankann minn. Sat síðan í smá stund og grenjaði og vorkenndi okkur ógeðslega mikið og fannst lífið ótrúlega ósanngjarnt. Fannst ég algjörlega bjargarlaus og í vonlausri stöðu. Fór síðan í skólann og kvartaði þar yfir þessari ótrúlegu krísu sem væri nú á Íslandi. Peningarnir mínir væru nánast einskins virði og ég skuldaði helmingi meira í dag en í gær. 

Bekkjarfélagar mínir horfðu á mig stórum augum og spurðu hvort ég hefði ALDREI upplifað smá peningakreppu? Ég svaraði náttúrlega mjög móðguð að þetta væri ekkert SMÁ Ísland væri að fara á hausinn. Þau horfðu á mig vantrúuð og spurðu hvort við værum ekki ein af best settu OECD þjóðunum (hérna er OECD kallað "the rich countries club"). Jú ég hélt það nú svona á flestum sviðum en það gæti nú aldeilis breyst núna ef þetta ástand héldi áfram. Ég sagði síðan í löngu og mjög tilfinningaþrungnu máli frá því að nú kæmist ég ekki heim um jólin eða í brúðkaup bestu vinkonu minnar, ég ætti ekki einu sinni peninga til að borga næstu leigu og þyrfti að biðja um meira lán sem ég vissi ekkert hvort ég fengi eða ekki og svo framvegis og ef ég fengi það væri það á okurvöxtum sem ég yrði örugglega allt mitt líf að borga niður. 

Æ Eva sögðu þau, mikið er yndislegt hvað þú kemur úr vernduðu umhverfi. Ég setti upp skeifu og hélt áfram að reyna að sýna fram á alvarleika málsins. Þau spurðu þá hvort það væri AIDS faraldur í landinu mínu, eða hvort það væri stríð, eða hvort það hefði yfir höfuð einhvern tíman verið stríð á Íslandi, eða hvort ég gæti ekki fengið fjölskylduna mína í heimsókn vegna þess að þeim væri neitað um visa, eða hvort ég ætti bræður sem þyrftu að fara í herinn til að deyja fyrir "ættjörðina"....

Ég reyndi að snúa upp á mig en var á endanum réttilega farin að þakka fyrir að eiga foreldra sem komast fyrirhafnarlaust í heimsókn til mín, fyrir að þurfa ekki að taka þátt í stríði, fyrir að vera ekki með AIDS og fyrir að eiga heima í ótrúlega góðu landi þrátt fyrir allt og allt - og trúið mér, mér finnst þetta ekki réttlætanleg eða ásættanleg staða enda búin að skæla nokkrum sinnum í síðustu viku yfir þessu hörmungarástandi. Sem er þó í samanburði við margt annað ekki svo slæmt og kemur vonandi til með að ganga yfir á endanum. 

Tuesday, September 30, 2008

hlýjindi

Það hefur verið frekar hlýtt og gott veður hérna síðan við komum. Í gær og í dag fór þó að draga fyrir sólu og blása hressilega. Við fórum því að huga að ofnum og kyndingu hérna í íbúðinni. Ofnarnir tveir voru því skrúfaðir í botn og kaldar tærnar settar í ullarsokka á meðan beðið var eftir hitanum í íbúðina... sem kom ekki. Engin hiti á ofnanna.

Minnug þess að í Argentínu síðasta sumar keyptum við rafmagnsofn og sváfum í flíspeysum í tvær vikur áður en við uppgötvuðum gólfhitakerfið ætluðum við að hafa samband við Trine sem við leigjum af og spurja hvort það væri ekki örugglega hiti í samningnum okkar. Í dag fékk ég síðan óvænta heimsókn frá Hildi og Ágústi. Þau komu með brauð og sætabrauð með sér. En komu líka með ómælda þekkingu á ofnum og hitakerfi Danmerkur. Ágúst gerði sér lítið fyrir og tappaði af ofninum í stofunni og taaaraaa! eins og eldingu væri veifað kom hiti á allan ofninn! Okkur hafði klárlega ekki dottið þetta í hug - fyrr hefðum við keypt annan rafmagnsofn líkt og í Argentínu forðum daga. Hildur gerði sér síðan lítið fyrir og uppgötvaði að í raun og veru eru þrír ofnar en ekki tveir í íbúðinni. Þriðji ofninn er vandlega falin við loftið í forstofunni. Hildur er greinilega örlítið stærri en meðalhæð heimilisfólksins er hér á bæ (eða bara svona athugul) og sá því þennan forláta ofn sem var auðvitað skrúfaður í bont líka...

Nú er bara tropical stemming í Matthæusgade 48. Heitt og gott og huggulegt.

Sunday, September 28, 2008

Annasöm vika framundan

Já það verður mikið að gera í næstu viku hjá okkur skötuhjúum. Lárus er á fullu að undirbúa fyrsta leik tímabilsins sem er á móti Bakken Bears nk. laugardag. Æfingaleikurinn á móti Grindavík tapaðist því miður með 4 stigum en auðvitað fannst mér Sisu þrátt fyrir tapið betra liðið. Sisu spilaði mjög fínan körfubolta og Lalli átti góðan leik. Þeir voru hins vegar ekki með fullskipað lið þar sem þá vantaði einn kana, einn Serba og einn Litháa sem koma allt til með að verða lykilmenn í liðinu að Lalla sögn. Þeir voru ekki komnir með leikheimild og verða líklegast ekki heldur með á móti Bakken. Leyfi, reddingar og skriffinska gengur aðeins hægar fyrir sér hér í landi heldur en á Íslandi! 

Þannig að útlitið er bjart og við vonumst auðvitað bara til að Sisu skipi sér í raðir bestu liða Danmerkur í vetur! 

Ég er síðan á fullu að vinna að tillögu um nýtt skipulag Hveragerðisbæjar. Er í góðum félagsskap í þessari vinnu þar sem Tinna Ottesen hönnuður (tinnaottesen.blogspot.com) og Haukur Þórðarson arkitekt vinna hana með mér - eða ég með þeim öllu heldur ;) Mjög spennandi verkefni og ég hef fulla trú á að við getum komið með margar skemmtilegar, skynsamlegar og spennandi hugmyndir fyrir nýjan miðbæ í Hveragerði. 

Annars er það skólinn og allt á fullu þar. Ritgerðarskrif eru að komast í góðan farveg vona ég þar sem ég hitti leiðbeinendurnar í næstu viku. Er komin með góða hugmynd að efni en það er svo sem alltaf breytilegt og á eflaust eftir að mótast eftir fyrsta fundinn við leiðbeinendur - til þess eru þeir nú :) 

Krónan er náttúrlega komin í 19 og það kostar hreinlega peninga að draga andann hérna á meðan við lifum ennþá á íslenskum peningum. Hvílík dýrðarstund sem það verður þegar við fáum fyrsta launaumslagið í dönskum krónum!! En á meðan lífið er svona ljúft og hitinn ennþá 18 gráður 28. september þá er varla yfir neinu að kvarta er það? 

Kossar og knús frá Köben 

ps. mér finnst pínu leim að biðja um kvitt í commentakerfið en það er samt alltaf voða gaman að sjá hverjir eru að lesa ;) 

pps. Set inn nýjar myndir eftir "to sekunder" eins og danir segja... 

Wednesday, September 24, 2008

Sisu vs. Grindavík

Spennandi leikur framundan á laugardaginn. Sisu spilar við Grindavík sem er í æfingaferð hérna í Danmörku. Leikurinn verður nokkurs konar generalprufa fyrir leiktíðina sem byrjar síðan formlega á laugardaginn þarnæsta. Leikurinn verður örugglega mjög spennandi þar sem Grindavík er heldur betur búið að bæta við sig mannskap og er með mjög öflugt lið. Hlakka mjög til að sjá leikinn en verður eflaust soldið skrýtið að sjá Lalla spila á móti þessu strákum hérna í Kaupmannöfn en ekki með félögum sínum úr Hamri.

Lísa og Jónas eru væntanlega í mat til okkar í kvöld. Eitt mjög gott sparnaðarráð sem Hrund samstarfskona mín af rannsóknarsetrinu kenndi mér er að þegar fátækir námsmenn bjóða í mat þá er ódýrast að vera með lasagnea og rauðvín. Rauðvínið er ódýrara en bæði gos eða bjór og hakkið kostar ekki svo mikið heldur. Svo það er víst það sem Jónas og Lísa þurfa að sætta sig við í kvöld. Hrund var námsmaður hérna í Köben í mörg mörg ár og kann sko heldur betur að gefa góð ráð í þeim efnum. Við ætlum að sýna Jónasi myndir frá Argentínu því hann er að fara þangað til að rannsaka einhverja steina fyrir MA verkefnið sitt. Get ég ekki valið mér eitthvað tengt Argentínu í MA ritgerðina mína??

Tuesday, September 23, 2008

Örlitlar útlitsbreytingar

Ég fékk smá kennslu í að breyta til og bæta við fídusum á bloggið okkar. Tinna frænka er nefnilega aðeins tölvuklárari en ég og hún á líka þessu flottu heimasíðu á blogspot þar sem hægt er að sjá hvað hún er að sýsla - sem er aldeilis margt spennandi og áhugavert. 

www.tinnaottesen.blogspot.com 

Breytingarnar fela aðallega í sér möguleika á því að smella á myndina af okkur og fá þá fleiri myndir - þannig að nú er komin beinn linkur á myndirnar. Síðan setti ég inn heimilisfangið okkar, e-mail adressu og símanúmer. 

Friday, September 19, 2008

Helgin framundan

og hér er ekkert sérstakt helgarstuð í gangi! Hvernig getur þetta verið? Kannski dagarnir fari bara allir á flakk í höfðinu á manni þegar það er ekki vinna eða skóli frá 9-5. Meira svona læra alltaf alla daga þegar maður getur.
Ég er reyndar komin á nokkuð gott flug í skólanum og gæti jafnvel þurft að viðurkenna að vera komin "á undan" í lestri ef það er hægt að tala um svoleiðis. Já keppnisskapið lætur nú kræla á sér öðru hverju. En annars snýst þetta nú aðallega um lokaverkefnin og ég hef nógan tíma til að hugsa um þau. Lárus er nú samviskusamlega byrjaður á MA ritgerðinni sinni eftir langa og frekar spaugilega ferð í Norðurbrú til að sækja heimildir. Lalli hafði semsagt skrifað staðsetningu bókarinnar (æ þið vitið svona bókasafns númer PP. 77.03 eða eitthvað álíka) sem hann leitaði að og þegar við komuna á bókasafnið (sem var í stærra lagi) ákvað hann að leita strax aðstoðar og spurði bókasafnsfræðinginn (sem var ekta dönsk kona í víðu pilsi og með hvítt hár) hvar þessa bók væri að finna. Konan leit á miðann, brosti hálf skringilega og bað okkur um að fylgja sér. Við eltum konuna eins og hlýðin og góð börn og komum síðan að hillunni þar sem bókin átti að vera staðsett. Konan benti á hillu fulla af bókum um kynlíf, kynlífsleiki og kynlífsdót og sagði: Já þið finnið hana semsagt örugglega hérna og svo flýtti sér burt og brosti góðlátlega til okkar.
Við stóðum hins vegar fyrir framan hilluna, horfðum síðan á hvort annað og ypptum öxlum. Ég spurði Lalla til öryggis hvort hann væri ekki örugglega að fara að skrifa um íþróttir og þróunarmál?? Eftir mikla leit í kynlífsbókarhillunni þá ákváðum við að fara aftur og leita ráða. Þá kom í ljós að Lalli hafði skrifað DP sem mátti allt eins taka sem PP og konan las sem slíka skamstöfun. PP á dönskum bókasöfnun stendur semsagt fyrir bækur um kynlíf - og þá vitið þið það!
Ég sagði nú ekkert frá því í síðasta bloggi, til að eyðileggja ekki stemminguna, en ég brann líka þessi ósköp í ljósalampa sem ég fór í eftir gufuna og spa-ið. Hver fer eiginlega í ljós núna á þessari vel upplýstu öld? Hmmm ég allavega og það í fyrsta skiptið í ca 7 ár (fór síðast í þeim tilgangi að verða brún og stöðluð fyrir fegurðarsamkeppni suðurlands). Núna eru meira að segja fegurðardrottningar hættar að fara í ljós - en það stoppaði mig nú ekki. Ég get varla verið í fötum svo brunnin er ég en þetta hefur skapað ómælda kátínu hérna á heimilinu því ég er rooosalega flekkótt og mjög hlægileg á að líta.
Já það er vert þess að reyna að sjá spaugilegu hliðarnar á hversdagslífinu þegar mjólkurlíterinn kostar okkur rúman 400 kall og allt annað er í samræmi við það. Downloadaði Dont worry, be happy með Bob Marley og ætla að hlusta á það á rípít í allt kvöld.

Thursday, September 18, 2008

Miðvikudagskvöldin

...eru kósýkvöld hjá mér og Lárusi. Á miðvikudögum er nefnilega körfuboltafrí og þá eigum við séns á að borða saman kvöldmat og jafnvel kíkja í bíó eða gera eitthvað svona sem kærustupör gera. Í kvöld fórum við í DGI byen í spa og huggulegheit. Höfðum áður prófað spa og kurbad í Frederiksberg Svommehallen þannig að við ákváðum að prófa þetta núna. Fórum í þemasánu klukkan 9 þar sem þemað var indjánar. Sánan virkar þannig að nokkurs konar sánameistari eða sá sem stjórnar sánunni hækka hitann með mismunandi vatni (appelsínu, sídrusviði og svo framvegis) þannig að sánan lyktar mjög vel og verður mjög heit. Síðan fengum við smá pásu og var hún notuð til að bera á sig papaya olíu og drekka vatn, eftir það var farið aftur í gufuna og hún hituð enn frekar. Í annari pásunni er farið í ískalt baðkar með um það bil 5° k-ldu vatni og síðan aftur í gufuna. Sánameistarinn sveiflar handklæði um gufuna og færir þannig hitann til og frá og beinir honum að hverjum og einum í gufunni. Í lok gufunnar er hún síðan hituð all verulega og eftir það hellir gufumeistarinn ísmolum yfir alla í gufunni (sem eru á þeim tímapunkti afar kærkomnir). Að lokum fá allir ávexti, djús og vatn. Frekar næs!! Við eigum örugglega eftir að fara aftur og prófa franska þemað eða finnska þemað :)

Nú sitjum við yfir miðnætur lasagnea og rauðvínsglasi... Já stundum er gott að geta sagst vera "í útlöndum" og leyft sér ýmisleg huggulegheit í miðri viku.

Monday, September 15, 2008

Ný vinnuvika...

Við skötuhjú vorum frekar þreytt í morgun eftir annasama helgi. Mér er þó kannski minnst vorkunn þar sem ég þurfti ekki að vakna fyrr en 8:30 og slappaði af alla helgina. Lárus keppti hins vegar þrjá æfingaleiki og ferðaðist 8 tíma í rútu milli Svíþjóðar og Danmerkur og vaknaði síðan um 7 til að vera komin í lestina klukkan 8.

Jónsson var semsgt fjarverandi alla helgina sökum körfubolta en mér leiddist þó alls ekki þar sem ég fékk góða heimsókn frá Bjarneyju og Hadda. Haddi var einmitt sjálfur í keppnisferðalagi og fengu þau að krassa á stofugólfinu hjá mér - strax komin góð reynsla á vindsængina og tvöföldu sænginga sem ég fjárfesti í fyrir framtíðarheimsóknir. Það var bara notalegt að hafa þau í heimsókn og ég fór og horfði á fyrsta körfuboltaleikinn minn í vetur - en klárlega ekki þann síðasta :)

Varðandi gengi á æfingamótinu hans Lalla getum við bara sagt að honum hafi gengið ágætlega, síðan er aftur annað mál með gengi liðsins. En þetta var góð reynsla og gott mót til að fá hópinn saman skildist mér á honum. Hann verður síðan bara að blogga sjálfur ef honum finnst ég rangtúlka staðreyndir :)

Vinnan hjá Lalla gengur vel og það er sko nóg að gera alltaf - ekki slegið slöku við hjá mr. Money Maker - yfirmanninum hans. Skólinn minn gengur líka vel. Ég þarf bráðlega að fara að velja mér efni í lokaritgerðirnar mínar tvær sem allt stendur og fellur með á þessari önn. Ég er opin fyrir öllum hugmyndum þar sem efnið er frjálst og hugurinn minn fer ekki nema í þúsund hringi á hverjum degi með þetta! Eina kríterían er að önnur þarf að tengjast The knowledge society og hin þarf að tengjast The learning individual... Já látið ykkur nú detta eitthvað sniðugt í hug :)

Set inn nokkrar myndir hérna fyrir þá sem lifa ekki á 21. öldinni og eru þar af leiðandi ekki með Facebook (sem er reyndar algjör tímaþjófur og alls ekki holl afþreyging - mæli ekki með að fólk fái sér aðgang).

http://www.picasaweb.google.com/evahardar

Ást og kossar

Tuesday, September 09, 2008

Frá útlandinu

Er allt fínt að frétta - þetta helst þó:

Ég fór á dönskunámskeið í skólanum. Svokallaðan crash course og kann núna að segja Jeg hedder Eva og jeg er fra Island.

Kennarinn á dönskunámskeiðinu gerði óspart grín að Íslendingum og tilkynnti hátt og snjallt (með ómældri kaldhæðni) að það væri ótrúlegt að Íslendingar væru svo menningarlegir að eiga meira að segja sinfóníu og dansflokk og svo lét hann alla í bekknum klappa fyrir mér og fannst hann ótrúlega sniðugur. Þá bætti Alex (stelpa frá Svartfjallalandi) við að Íslendingar hefðu líka unnið Dani í handbolta og þá hætti hann að hlægja. Hann gerði eina tilraun enn til að gera lítið úr Íslandi með því að nefna hversu heimskuleg stefna væri við lýði á Íslandi að búa til íslensk orð fyrir allt og ekkert og nefndi dæmi sínu til stuðning orðið pocket disco (vasadiskó auðvitað - en ekki hvað??) sem væri í öllum öðrum löndum walk man (sem kemst ekki í hálfkvisti við vasadiskó). Krökkunum fannst pocket disco miklu betra orð og nú er engin með ipod í bekknum mínum heldur ganga allir með pocket disco :)

Lalli er að fara að keppa í Svíþjóð um helgina. Nú verða æfingaleikir hjá honum allar helgar fram að móti. Mikill metnaður og spenna í gangi í liðinu held ég. Ég er orðin mjög spennt að kíkja á leik og hlakka mikið til að sjá hvort ég fái ekki VIP sæti í höllinni. Lalli vinnur líka eins og versti íslendingur (en ekki Dani) sem á vonandi eftir að sjá okkur fyrir salti í grautinn næstu mánuðina.

Höfum aðeins verið að velta fyrir okkur jólunum - hvar og hvernig - en það kemur nú allt betur í ljós þegar nær dregur og við sjáum betur hvernig gengur með ritgerð, vinnu, bikarkeppni og fleiri þætti sem allir hafa áhrif á ferðalög, fjárráð og svo framvegis.

Þangað til næst...






Saturday, September 06, 2008

Kósý kvöld í kvöld...


Sitjum núna í rólegheitum í sófanum að horfa á Noregur - Ísland... Döfuls!! Noregur voru að komast yfir!!
Vorum að koma af frekar kósý veitingastað sem heitir Toves have eða garðurinn hennar Tove. Tove Ditlevsen er/var (dó 1976) einn frægasti rithöfundur Dana og heita bæði skólar og verslunarmiðstöðvar í höfuðið á henni núna. Í Toves Have er boðið upp á ekta danskan mömmu-mat með bernessósu og huggulegheitum.
Lárus spilaði fyrsta æfingarleikinn í dag og komst að sjálfsögðu í byrjunarliðið. Þeir unnu leikinn með 30 stigum og voru bara nokkuð sáttir. Ég hélt smá partý fyrir bekkinn minn í gærkvöldi þar sem við hittumst yfir nokkrum drykkjum áður en við fórum á Vega til að dansa smávegis. Gærkvöldið var hin mesta skemmtun hjá okkur báðum þar sem Lalli fór á svokallað karlakvöld sem er haldið reglulega hérna af nokkrum afar hressum strákum. Þar var mikið sungið, borðað og spilað á gítar....nýjasta updeit af leiknum: Við erum búin að jafna!

Vinnan hjá Lalla gengur svona líka vel. Yfirmaðurinn hans er frekar fyndinn gaur. Þvílíkt ríkur og vinnur eins og geðsjúklingur... Lalli sagði í dag að hann héldi að hann væri einn mesti kapitalisti Danmerkur. Hann er engu að síður að fíla sig vel í vinnunni og fær nóg að gera og nóga ábyrgð. Þeir fóru saman í vikunni að skoða snekkjuna hans (yfirmaðurinn á semsagt snekkju) og nú bíðum við Lalli spennt eftir að vera boðið í snekkjuna einn daginn. Lalli keyrir síðan um á 350 hestafla Benz jeppa í vinnuni og fékk þau vinsamlegu skilaboð frá yfirmanninum að hafa báðar hendur á stýri - þar sem síðasti aðstoðarmaður hans klessukeyrði bílinn tvisvar...

Allt gott að frétta og myndir eru væntanlegar bráðum fyrir fjölskyldumeðlimi og vini sem bíða í ofvæni. Við erum bara eitthvað ægilega löt við að taka myndir. Skóli, vinna og karfa taka allan okkar tíma núna en við bætum úr því bráðlega. Læt tvær myndir af okkur fylgja með - svona til að þið munið hvernig við lítum út.
Ég með nýja Indverska skrautið mitt - fékk fullt af ótrúlega fallegu svona andlits- og handarskrauti gefins frá Tariku vinkonu minni.

Lalli að chilla fyrir framan sjónvarpið í stofunni.








Tuesday, September 02, 2008

...

Tíminn flýgur og þessi vika markar "alvöru lífsins" hjá okkur skötuhjúum hérna í Danaveldi.
Ég fór í fyrsta eiginlega tímann minn í gær og lærði heilmargt um the learning individual in a Lifelong perspective. Ég verð í skólanum þrisvar í viku og í study groups þar á milli. Allt námiðá þessari önn miðast við tvö lokaverkefni sem felst í tveimur nokkuð stórum ritgerðum (64.000 orð) í sitt hvoru faginu. Ég fæ leiðbeinanda með hvorri ritgerð fyrir sig - sem mér finnst algjör lúxus by the way. Skiladagur er 2. janúar og síðan þarf ég að verja þær 23. og 24. janúar. Þetta virkar allt hálf öfugsnúið finnst mér þar sem ég á að vera í skólanum til 15. desember (fer í stutt próf þá) og fæ síðan frí allan janúar nánast.
Lalli fór í VINNUNA í morgun. Já hann "negldi einn feitann" (svo maður vitni nú í Ásdísi Rán). Spurning hvort ég verði jafn vinsæl körfuboltafrú og hún fótboltafrú? Ég gæti nú unnið eitthvað í þessu - eða hvað finnst ykkur? (þetta blogg hennar er sko næstum uppáhalds bloggið okkar Lalla - dæmi nú hver fyrir sig).
Uuu já aftur að alvöru lífsins - þá bauðst Lárusi semsagt vinna hjá liðinu og byrjaði í morgun. Starfið felur í sér að sjá um allt sem snýr að liðinu þegar kemur að leikjum, starfsfólki, sölu á varningi og svo framvegis. Hann á semsagt að halda utan um umgjörðina fyrir liðið út á við. Ég er æsispennt að heyra hvernig fyrsti dagurinn í vinnunni hjá honum lukkaðist en mér heyrðist á honum í gær að hann fengi eigin skrifstofu og fartölvu sem er nú heldur betur fullorðins á okkar mælikvarða :)
Annars höfum við alveg haft tíma líka í að kanna hverfið, rölta um í góða veðrinu og njóta þess að vera í pínu útlanda gír. Um helgina var 25 stiga hiti og sunshine og við spottuðum fullt af góðum veitingarstöðum, búðum og börum til að bjóða vinum og fjölskyldu á (eða láta þau bjóða okkur á) þegar þau koma í heimsókn. Við chilluðum líka í Íslendinga-garðinum hjá Hildi og Ágústi og grilluðum síðan BBQ rif og kjúlla um kvöldið. Já þetta líf er ekki eintóm vinna og skóli - líka huggulegheit að hætti dana.
Síðan er von á tölvunni okkar á morgun svo þið getið öll andað léttar ;) Ragga og Stebbi eru á ferðinni og ætla að vera svo yndisleg að taka hana með. Þau eru að fara á REM tónleika hérna í Parken og það er ekki laust við að okkur langi pínu pons... sjáum til hvað vísa skvísa segir við mig á eftir þegar ég fer að taka út.
Hafið það annars bara öll huggulegt og eigiði góða viku!!

Sunday, August 31, 2008

Myndir hérna í bili

Hérna setti ég nokkrar myndir frá fyrstu dögunum okkar (vikunum). Ég er samt að leita að einhverjum varanlegum stað (síðu) til að setja myndirnar á svo allir geti haft góðan aðgang að þeim.

Thursday, August 28, 2008

Í Köben er ennþá sumar...

Veit ekki hvernig veðrið hefur verið heima en hérna spáir um það bil 25 stiga hita og blíðu um helgina. Sem er reyndar kærkomið þar sem það hefur rignt óvenju mikið finnst okkur síðan við komum.
Á sunnudaginn var yndislegt veður og við hjóluðum til móts við uppáhalds litlu fjölskylduna okkar og borðuðum með þeim pítsu á meðan Margrét Rós lék sér á rólóvelli. Hún er svo mikið krútt að það er leitun að öðru eins. Hún er farin að babla rosa mikið en ég skil ekki neitt sem hún segir... Held samt að hún sé að reyna að segja Eva. Ef þið viljið lesa meira um krúttílínuna þá bendi ég á heimasíðuna hennar: www.msmargret.blogspot.com. Þar eru líka frábærar myndir sem Hildur María tekur af henni.

Talandi um myndatökur þá fór ég með Hildi í stúdíóið í fyrradag og við tókum milljónþúsund myndir held ég. Í alls konar settings og með alls konar þemu. Ég skemmti mér konunglega og vona að Hildur hafi fengið eitthvað bitastætt í möppuna sína... eða að minnsta kosti æft sig í stúdíóljósmyndun. Mér finnst hún alveg ótrúlega klár by the way....

Lalli fór í dag og skráði sig á Konunglega bókasafnið og er þar með tæknilega byrjaður á MA ritgerðinni sinni. Hann kom síðan heim með fullt af nýju Sisu Kobenhavn dóti og nú erum við formlega Sisufélagar eins og kom fram í færslunni á undan. Deildin byrjar í október og mamma og pabbi hafa nú þegar boðað sig í heimsókn þann 10. október til að kíkja á heimaleik.
Erum enn að leita eftir einhverjum sem gæti tekið nýju tölvuna okkar með frá Íslandi sem fyrst. Ef þið vitið af einhverjum á leiðinni til Köben þá látið okkur endilega vita. Ég var bara að bulla með að hún þyrfti að fara í handfarangur hún getur auðvitað líka farið í ferðatösku og hún er í kassa og í kassanum er frauðplast sem verndar hana. Soooo if you have a little space eða vitið um einhvern sem gæti bætt þessu við sig. Allt í þágu menntunar og aukinnar netnotkunar.

Monday, August 25, 2008

Hr. Jónsson

Leikstjórnandinn Lárus Jónsson sem leikið hefur lengst af með Hamri hefur samið við danska úrvalsdeildarfélagið SISU í Kaupamannahöfn. Þar með fetar Lárus í spor Þorsteins Hallgrímssonar og Jóns Kr. Gíslasonar sem báðir léku með SISU.
Lárus flutti til Danmerkur nú í sumar vegna náms konu sinnar og komst í samband við SISU menn og var skrifað undir samning í vikunni.Karfan.is heyrði í Lárusi og spurði hverjar væntingarnar væru fyrir veturinn.„Væntingar til liðsins eru töluverðar miðað við í hvaða sæti liðið var í fyrra. Krone [Jesper Krone þjálfari SISU] sagði að stjórnin setti stefnuna á undanúrslit en hann sagði að raunhæft markmið væri að komast í úrslitakeppni og sjá svo hvar við stöndum.”Hvert reiknar þú með að verði hlutverk þitt í liðinu?„Mitt hlutverk í liðinu verður að leiða liðið þar sem flestir leikmenn SISU eru ungir að árum. Jes Hansen sem er Íslendingum kunnugur er að taka fram skóna að nýju og verður elsti leikmaður liðsins (32ára) svo kem ég þrítugur og einn leikmaður er 27 ára en aðrir eru í kringum 20 árin.Liðið virðist vera vel mannað af dönskum leikmönnum. Svo bætast við tveir kanar og einn Serbi og tveir Litháar.”
Jesper Krone þjálfari SISU Þá heyrði karfan.is í Jesper Krone þjálfara liðsins og spurði hvernig honum litist á að fá Lárus.„Lárus hefur æfti með SISU í rúmlega viku og ég er mjög ánægður með hann sem leikmann og einstakling. Hann gefur sig 100% í allar æfingar og hlustar vel og er auðvelt að þjálfa hann. Hann hefur einnig fallið vel inn í hópinn. Eftir fyrstu æfingu voru margir sem spurðu mig hvort hann myndi spila með okkur í vetur, þeim leist mjög vel á það.Lárus kemur til liðs við félags sem hefur misst þrjá leikstjórnendur frá síðasta tímabili, svo hann ætti að eiga góðan séns á miklum spilatíma. Hann er góður stjórnandi og leiðir hópinn, það er einmitt leikmaður sem við höfum þörf fyrir. Ég hef trú á að það hversu ákafur hann er á æfingum smiti út frá sér til hinna í liðinu, sem gerir ekkert nema að gera liðið betra.Við erum að bíða eftir tveimur litháískum leikmönnum og þangað til þeir koma er Lárus eini alvöru leikstjórnandinn sem við erum með. Það er m.a. ein af ástæðunum fyrir því að hann er gríðarlega mikilvægur fyrir liðið okkar. Ég er vissum að Lárus og SISU eiga eftir að vinna vel saman og ég hlakka mikið til að þjálfa hann á komandi tímabili”.
Tekið af www.karfan.is

Sunday, August 24, 2008

Myndir

Hér má sjá fallegustu mæðgur Danmerkur og þó víða væri leitað....














Útsýnið af svölunum okkar - það var sommerfest í garðinum þennan dag :)














Í historical túr með bekknum mínum...
Þarna má sjá gædinn, Söru frá París, Julie frá Shang Hæ og Roger frá Filipseyjum.
















Aftur í historical tour og þarna má sjá í helming af Söru, Isidoru frá Serbíu, Abe frá Eþíópíu, Tariku frá Indlandi, Chetan frá Indlandi og Esther frá Þýskalandi.

Saturday, August 23, 2008

Vá!

Það er ekki leiðinlegt að vera íslendingur í útlöndum núna! Allir í bekknum mínum eru farnir að halda með Íslandi af því að þeirra lönd eru flest dottin út og eiga ekki séns á verðlaunum í neinu meira (nema Kína). Úff við verðum að finna okkur góðan stað til að horfa á leikinn á sunnudaginn.

Thursday, August 21, 2008

meira af okkur

Nú er fyrsta vikan hér um bil liðin og við höfum komið okkur nokkuð vel fyrir. Síðan síðast höfum við afrekað ýmislegt:
* Lalli "útvegaði" okkur hjól svo nú eigum við tvö hjól :)
* Keðjan er reyndar dottin af gamla hjólinu og ég kem henni ekki aftur á...
* Ég fór í risa historical sightseeing um Köben - vá hvað er margt sem ég vissi ekki um borgina!
* Lalli er nánast búinn að skrifa undir samning hjá körfuknattleiksliðinu Sisu - Vhúppa!! (eins og Valdimar litli frændi minn myndi segja).
* Við erum komin með þráðlaust net í íbúðina og það er svooo næs
* Ég valdi mér ný gleraugu í dag!!
* Lalli lék í bíómynd í dag
og margt fleira... á morgun verður spennandi dagur í skólanum hjá mér þar sem við förum í Evrópuráðið og menntamálaráðuneytið í heimsókn. Hlakka mikið til auk þess sem það stefnir allt í fyrsta (af mörgum) bekkjarpartýum vetrarins. Stelpurnar frá Austur-Evrópu og Þýskalandi geta varla beðið eftir að komast í drykkjuleiki...

Monday, August 18, 2008

daglegt líf...

Jæja þá var fyrsta skóladeginum mínum að ljúka og Lalli farin á þriðju körfuboltaæfinguna sína... Semsagt allt að komast í fastar skorður. Lalli er svona nánast búinn að ákveða hvar hann ætlar að æfa og spila í vetur. En það kemur nú samt allt betur í ljós þegar líða tekur á undirbúningstímabilið. Við tókum rölt í hverfinu okkar í gær og fundum hrikalega góðan Tælenskan stað rétt hjá sem við eigum pottþétt eftir að heimsækja nokkuð oft. Hverfið leggst alltaf betur og betur í okkur. Það er bæði notalegt og hugglegt en samt centralt og stutt í allt fjörið.
Aðeins um skólann: Við erum 16 í bekknum mínum frá öllum heimshornum. Með mér í bekk eru til dæmis krakkar frá Eþíópíu, Pakistan, Kamerún, Kína, Indlandi, Filipseyjum, Serbíu og Svartfjallalandi. Þannig að kúltúrblandan er afar áhugaverð og ég hlakka til að vinna með jafn fjölbreyttum hópi - á pottþétt eftir að læra ótrúlega margt nýtt og spennandi. Það er haldið einstaklega vel utan um prógrammið og dagskráin er frekar þétt. Skólinn er æðislega fallegur og býður upp á skemmtilegt lærdómsumhverfi bæði inni og úti. Fyrir mjög suttu síðan var hann tekinn í gegn og hluti af honum endurnýjaður. Til dæmis var rutt út risa stóru bílastæði og búinn til mjög fallegur svona campus garður sem myndar nokkurs konar miðju um allar byggingarnar. Innvolsið er síðan auðvitað frekar skandinavískt. Til dæmis er allt frekar ljós og stílhreint og síðan er yndislega mikið af svona "almenningi" eða afslöppunarherbergjum. Held að metnaðarfullu og kláru elítu krökkunum frá Indlandi hafi ekkert litist á gæjann sem gaf okkur the tour around campus. Því hann opnaði endalaus herbergi með svölum og sófum og sagði: "If you feel like relaxing, talking, sleeping or having a coffe or a smoke then this is the room". Mitt helsta áhyggjuefni var einmitt að kúrsinn yrði ekki nægilega metnaðarfullur en ég þarf sko alls ekki að hafa áhyggjur af því. Miðað við daginn í dag og kröfurnar sem var lagt upp með þá verður þetta ekkert nema vinna næstu tvö árin sýnist mér!
Ég var búin að vera frekar mikið stressuð í vikunni yfir öllu tengdu skólanum og hafði af því miklar áhyggjur að ég yrði ekki nægilega fluent í ensku og að ég myndi ekki koma með nægilega góðan bakgrunn. Komst síðan að því í dag að auðvitað voru allir í bekknum jafn stressaðir og ég að mæta í fyrsta skiptið nema þau voru auðvitað í mun verri stöðu. Skilja ekki bofs í tungumálinu og finnst þau gjörsamlega vera á tunglinu svona kúltúrlega séð. Síðan uppgötvaði ég að ég er bara nokkuð góð í ensku og hef alveg ágætis bakgrunn fyrir þetta nám. Allar áhyggjur foknar út í veður og vind og ég varð allt í einu sú sem skyldi mest og kunni mest í "surviving Copenhagen"... sem er þeirra helsta áhyggjuefni þessa dagana.
Við Lalli erum svo heppin að eiga góða að í hverju horni hérna í Köben og erum því bara í súper málum. Við heimsóttum til dæmis Tinnu og Janna á laugardaginn og hjálpuðum þeim að flytja í nýja æðislega staðsetta íbúð rétt við Söerne. Fluttum á þvílíkum methraða að annað eins hefur ekki sést. Flutningabílstjórinn bauð meira að segja Lárusi helgarvinnu hann var svo impressed :) Ástæðurnar fyrir afkastagetunni voru aðallega tvær. Í fyrsta lagi kostar fullt (fyrir fátæka námsmenn) að leigja stóran flutningabíl á helgartaxta og í öðru lagi þurftum við að ná að flytja allt út úr gömlu íbúðinni og inn í nýju íbúðina áður en handboltaleikurinn byrjaði. Sá leikur fór nú betur en það leit út í fyrstu!! Við gátum allavega fagnað eins og við hefðum unnið... gerðum það meðal annars með því að kíkja á barinn Joline sem þær íslensku Dóra og Dóra Dúna eiga / reka. Þar var mikil stemming og barinn er alveg ágætis staður til að tjútta á.
Annars eru það bara nokkur praktísk atriði sem við eigum eftir að ganga frá. Erum í vandræðum með heimilistölvuna okkar. Hún er algjörlega malfunctional - full af vírusum og harða drifið er líklegast ónýtt og því lítið hægt að gera (nema setja hana í rándýra viðgerð). Síðan var búið að lofa okkur þráðlausu interneti sem virkar ekki eins og stendur... við höfum verið að reyna að hugsa það til að virka en ég held að við endum á því að hringja í netfyrirtækið og fá einhvern hingað til að laga það fyrir okkur.
Já og eitt enn: Ef einhver er á leiðinni til Köben frá Íslandi mjög fljótlega (í næstu eða þarnæstu viku) og getur tekið eina splunkunýja fartölvu með sér (og jafnvel eitt hjól) þá væri það algjör draumur. Tölvan yrði að fara sem handfarangur en hjólið getur farið í heilu lagi út í farangrinum.
Þrusum inn myndum svona við tækifæri. Ég var eiginlega sú eina sem kom til dæmis ekki með myndavél í skólann í dag. Bekkjarfélagar mínir tóku hins vegar myndir af öllu mögulegu og ómögulegu. Ég ætla að vera dugleg að taka myndir næstu daga :)
Þangað til næst...

Friday, August 15, 2008

Heimilisfang og símanúmer

Fyrir þá sem vilja ná í okkur bréfleiðis eða kíkja í heimsókn:

Matthæusgade 48 C
4. sal -425 c/o T.T. Nielsen
1666 Kobenhavn V.
Danmark

Fyrir þá sem vilja ná í okkur símleiðis eða senda sms:

Lalli +45 5349 1510
Eva +45 5340 2048

Thursday, August 14, 2008

Flutt

Þá erum við semsagt flutt og tilveran rétt að byrja hér í Kaupmannahöfn. Ég hefði nú aldeilis átt að hrósa okkur meira fyrir að vera EKKI með yfirvigt þar sem hún reyndist vera um það bil 20 kg þegar á flugvöllinn var komið. Elskulegur innritunardrengurinn gaf okkur hins vegar æði mikinn séns og rukkaði okkur nákvæmlega ekki neitt – heldur brosti bara blítt til okkar og spurði hvort við værum að flytja...

Við komuna til Köben lá okkur heldur betur á að komast í nýju íbúðina og því vorum við einstaklega glöð þegar töskurnar okkar tvær komu fyrstar á færibandið. Við þustum því út í leigubíl áleiðis til borgarinnar og vorum komin hálfa leið inn í Köben þegar við uppgötvuðum að í reynd áttu töskurnar að vera þrjár. Við bættum nefnilega einni tösku við í farangursgeymsluna í blálokin við innritun svona fyrst að innritunardrengurinn var svona almennilegur.

Þetta uppátæki kemur kannski ekki nánustu ættingjum á óvart en sem betur fer endaði það allt saman vel. Við báðum leigubílstjórann vinsamlegast að taka U-beygju og bruna aftur á völlinn. Sem hann og gerði með glöðu geði enda mælirinn kominn hátt í 1000 danskar krónur. Taskan fannst síðan með hjálp starfsmanns og við vorum einstaklega ánægð með að endurheimta videocameruna, myndavélina og hjólalykilinn sem var með því dýrmætara í töskunni.

Við komum því töluvert seint um kvöld að Matthæusgade þar sem hin danska Trine beið okkar til að afhenda okkur íbúðina. Við ráfuðum aðeins um fyrir utan húsið þar sem við sáum engan augljósan inngan að íbúðarhúsnæði heldur blasti við okkur risastórt andyri að verslunarmiðstöð. Eftir smá leit fundum við dyrabjöllu og nafnið hennar Trine. Trine bauð okkur velkomin og opnaði innganginn að verzlunarmiðstöðinni.

Eins og okkur grunaði þá eigum við heima á 5. hæð fyrir ofan nýbyggðan (Júní 2008) verslunarkjarna í Vesterbro. Verslunarmiðstöðin tengir saman Matthæusgade og Vesterbrogade og hefur að geyma afar mikilvægar verslanir eins og Mödström og Message (umdeilanlegt kannski...) en ætli Netto sé ekki sú verslun sem við eigum eftir nýta okkur einna mest. Að ég tali nú ekki um að við innganginn okkar er líkamsræktarstöðin SATS sem er mjög fín stöð. Það duga víst engar afsakanir lengur hér á bæ... Já staðsetningin er semsagt bara frábær í alla staði.

Íbúðin sjálf er síðan æði hugguleg og ekki yfir neinu að kvarta þar. Ég sem hafði undirbúið mig undir sturtuhaus fyrir ofan klósettið og tengi í vaskinn eða eitthvað álíka mix – en gekk hinsvegar inn í flísalagt baðherbergi með sér sturtu og hitastýrðum blöndunartækjum. Brúnu og appelsínugulu flísarnar skipta engu máli þegar sturtan er jafn stór og raun ber vitni. Hvílíkur lúxus!! Annars er íbúðin rúmgóð og björt. Nóg pláss fyrir gesti og hún Trine var svo elskuleg að skilja eftir luftmadrass fyrir okkur þar sem hana grunaði að það yrði gestkvæmt. Við erum búin að eiga stutt spjall við tvo elskulega nágranna. Þau eiga samtals um það bil fimm hunda en það heyrist nú ekkert í þeim... ennþá að minnsta kosti. Hundarnir eru mjög vinalegir og komu í smá heimsókn til okkar í gær...

Við erum svo lukkuleg að vera ennþá inni í danska kerfinu síðan fyrir tveimur árum og þurfum því bara að sækja um sygesikringskort og velja okkur lækni. Við fórum niður í bæ til að gera þetta í dag en gleymdum auðvitað vegabréfunum (kemur ættingjum enn og aftur örugglega ekki á óvart) og gátum því ekkert gert... svo við fórum bara á Salonen í staðinn (sem er uppáhalds kaffihúsið okkar) og fengum okkur lífrænar samlokur og hummus. Stefnum á að redda CPR númerinu bara á morgun og ég er meira að segja búin að fá leiðbeiningar frá Hildi um það hvaða lækni ég á að velja. Ég á að biðja um denne smuk læger pa lægehuset i Vesterbro... eða eitthvað álíka. Það er allavega einn mjög sætur læknir þar sem heitir Jesper.

Lalli fer á fyrstu æfinguna sína í dag hjá Sisou og því ríkir mikil eftirvænting. Annars vöktum við langt fram á nótt í gær að fylgjast með ólympíuleikunum og eigum eflaust eftir að gera það áfram næstu daga og nætur.

Margrét litla Rós er í aðlögun á vöggustofu og stendur sig eins og hetja. Vinkar bless og leikur sér alveg eins og herforingi. Ég veit ekki hvort mín aðlögun (næstu tvær vikur) í skólanum verður jafn lukkuleg. Ég er ekki jafn mikil hetja og Margrét og þarf án ef á meiri stuðning að halda en 1 árs gamalt barn. Þá er ég nú heppin að eiga bestustu Hildi... Við fengum Hildi og Ágúst til dæmis strax í heimsókn sem var æði og þau buðu okkur í mat fyrsta kvöldið og BEZT í HEIMI er að þau eru í rölt færi.

Tuesday, August 12, 2008

Dagurinn fyrir daginn sem við flytjum...

er í dag.
Þá er allt klappað og klárt og ekkert annað að gera en að vaka alla nóttina og horfa á strandblakið eða jafnvel júdóið. Missti klárlega af öllum fimleikunum um helgina og vakti þar af leiðandi í alla nótt til að horfa á "the best of" Lárusi til mikillar mæðu. Honum fannst til dæmis tónlistin ekki mjög flott og vildi alls ekki sjá aftur og aftur þega Santos gerði tvöfalt streit á gólfi. Erum búin að pakka í tvær töskur - veit þið trúið því ekki en við erum actually að fara út með tvær ferðatöskur og ekki eitt kíló umfram leyfilega farangursþyngd! Og nú minni ég alla á að við erum að fara að flytja af landi brott næstu tvö árin. Reyndar ætlum við að gera heiðarlega tilraun til að fara með sex töskur í handfarangur...
Lárus er kominn með leiðbeinenda í Masterstnámið og ég er búin að fá senda þrjá 100 síðna bæklinga um kynningarvikurnar, námið sjálft, lesefni fyrir hvern tíma og allt um það hvernig á að lifa lífinu í Kaupmannahöfn. Það er óhætt að halda að það verði hugsað vel um mig og aðra tilvonandi nemendur í þessu námi.
Fyrir þá sem hafa ekki enn hugmynd um hvað við erum að fara að gera... Þá er förinni heitið til Köben, öðru sinni til að eiga heima þar - nema í lengri tíma í þetta skiptið. Ég ætla að setjast á skólabekk og reyna við meistaragráðuna. Lalli er töluvert eldri og reyndari en ég og er einungis einni ritgerð frá því að verða meistari í alþjóðasamskiptum. Ritgerðina ætlar hann að massa í vetur ásamt því að skora fullt af körfum í dönskum körfubolta. Það hefur eitthvað vafist fyrir fólki hvað ég er að fara að læra og það er spurning um að reyna að koma því í orð. European Master in Lifelong Learning: Policy and Management er hið virðulega heiti námsins og held ég að nafnið sjálft geri fólki jafnvel örlítið erfitt fyrir að skilja restina. Námið er á vegum Evrópuráðsins og er Mastersnám í menntunarfræðum - þar sem ég afla mér sérþekkingu á sviði menntamála. Áherslan er síðan á hugtak eða stefnu sem kallast Lifelong Learning sem gæti útlagst sem símenntun eða lífsmenntun. Á Íslandi hafa þessi hugtök viljað loða við endurmenntun eingöngu. Í dag er Evrópuráðið hins vegar að leggja upp með að allt menntakerfið, frá leikskóla og upp úr, taki tillit til þess að við ættum að geta lært og haft aðgang að námi og þekkingu allt okkar líf. Fyrsti kúrsinn sem ég sit endurspeglar að einhverju leyti það sem allt námið snýst um. Þar er fjallað um The new educational order eða nýtt menntakerfi og nýja hugsun í fræðslu- og menntamálum. Þar sem áherslan er ekki endilega lögð á að við þurfum að mennta okkur til þess að verða eitthvað eitt ákveðið allt okkar líf - heldur að menntun og þekking sé eitthvað mun sveigjanlegra og endurmótanlegra.

Svona til að setja þetta í samhengi þá hefur til dæmis "ömmu og afa" kynslóð oftast bara unnið við eitt starf og það hefur án efa mótað þeirra "identity" eða sjálfsmynd að mjög miklu leyti. Næsta kynslóð þar á eftir menntaði sig fyrir ákveðið starf en hafa mörg hver síðan gengið í gegnum einhverja endurmenntun þegar upplýsingaflæði og tækni fóru að bjóða upp á að þekking og nýjar upplýsingar skiluðu sér á mun meiri hraða en áður. Mamma fór til dæmis í Háskólann fyrir nokkrum árum og skipti síðan um starf núna fyrir rúmu ári. Þá hafði hún unnið á sama staðnum í ca 20 ár. Fæstir krakkar á mínum aldri sjá fyrir sér að verða í sama starfinu næstu 20-30-40 árin....
Já já já... blablabla (ég hef alltaf verið soldið léleg að koma mér að kjarna málsins) en pointið er þá nokkurn vegin það að menntastefnur framtíðarinnar þurfa að taka mið af því að við erum ekki endilega að mennta fólk til að verða eitthvað ákveðið fyrir lífstíð. Menntun er líka orðin aðgengilegri fyrir fleira og fleira fólk og ætti að auðvitað að vera aðgengileg fyrir alla. Endalaust upplýsingaflæði á netinu gerir það til dæmis að verkum að oft vita nemendur í grunnskólum miklu meira um eitthvað efni en kennarar þeirra. Allar þessar breytingar í hugsunarhætti og þjóðfélagi samræmast ekki endilega því menntakerfi sem er við lýði í flestum löndum og hefur verið við lýði alveg frá því á iðnöld þegar mikilvægt var að mennta fólk beint til allra þeirra nýju starfa sem mynduðust við tæknivæðingar þess tíma.
Jæja nú er Lalli farin að hlægja að því hvað ég skrifa mikið og ég efast um að þið séuð einhverju nær eða hafið dottið út þarna einhvers staðar í 20-30-40... En ég segi alltaf að það er gott að fólk hefur mismunandi áhugamál og lærir mismunandi hluti... Annars væri nú lífið einsleitt.
En svona til að koma Lárusi að líka þar sem þetta er jú sameiginlegt blogg... Þá er vinnuheitið á ritgerðinni hans: Alþjóðasamskipti, íþróttir og þróunarmál. Þið getið síðan reynt að ímynda ykkur efnistök út frá því... mér finnst þetta hljóma frábærlega spennandi og sýnir einmitt Lifelong Learning hugtakið í allri sinni dýrð. Íþróttakennari sem fer í alþjóðasamskipti en hefur líka mikinn áhuga á þróunarmálum og nær að sameina þetta allt saman í einu verkefni.
En nóg af blaðri í bili - lengdin á blogginu er ekki endilega lýsandi fyrir það sem koma skal... lofa hins vegar ágætis upplýsingaflæði um það sem á daga okkar drífur í Kaupmannahöfn. Þeir sem við náðum ekki að kveðja (sem voru alltof margir): Kiss og knúz og allir auðvitað velkomnir í heimsókn!!