Thursday, December 30, 2010

Doktorsdraumurinn

Fæ fiðrildi í magann þegar ég sé auglýsta spennandi doktorsstyrki í einhverjum skólum í útlöndum - ég er áskrifandi af ýmsum síðum og fæ því sent nokkru sinnum í viku einhver ægilega spennandi tilboð um styrki. Reyndar eru flest þeirra verulega utan þess ramma sem ég hef einhverja hæfileika á. Til dæmis virðist endalaust vanta stjarneðlisfræðinga, kjarnorkusérfræðinga eða jafnvel einhverja sem eru sérhæfðir á sviði sjávarfalla.

En stundum læðist inn einn og einn styrkur sem er eins og hannaður fyrir mig og mitt áhugasvið. Ég býð tækifæris. Set stefnuna á greinaskrif og kennslu næsta árið og safna í sarpinn. Geri svo dúndurumsókn eftir um það bil ár og fæ styrk aldarinnar (kallast þetta ekki að setja sér markmið annars - eða er þetta meira svona óskyhyggja?).

Hvort heldur sem er, þá er ég alltaf jafn spennt fyrir framhaldinu og finnst ég ekki alveg búin að ná markmiðunum fyrr en ég klára PhD og næ að dýpka mig enn frekar í rannsóknum og sérhæfingu um borgaravitund og menntun. Slíka dýpkun og sérhæfingu er ekki mögulegt að ná fram nema að fá borgað fyrir það að rannsaka. Nám og kennsla fléttast enda alltaf saman á endanum og þannig lít ég á doktorsnámið - sem þriggja ára (lágmarks) vinnusamning við ákveðinn háskóla og fræðasviðið í heild sinni. Síðan er maður svo skandinavískur í hugsun að fjölskyldan verður samt að fá sinn skerf og rúmlega það og þess vegna lít ég til þess að doktorsnámið mitt geti boðið upp á fæðingarorlof, lífeyrisréttindi og sjúkratryggingar. Þetta er alls ekki sjálfsagt í flestum löndum öðrum en Norðurlöndum. Prófessorinn minn á Spáni tók til dæmis framan fram yfir börn og sagði það einfalt reiknisdæmi þar í landi. Ef þú ætlaðir að klára doktorspróf, fá góða stöðu við virtan háskóla og geta sinnt rannsóknum (ráðstefnum, skrifum, erindum og öllu sem því fylgir) þá eignastu ekki börn. Ef þú eignast börn þá sættiru þig einfaldlega við minna (eða nærð þér í kall sem fær að sinna sínum frama á meðan þú sinnir barninu).

En ég eins og flestar íslenskar konur á mér draum um að geta gert bæði og vinn því jafnt og þétt að því markmiði að finna leiðir og lausnir sem leyfa mér að njóta þess að vinna að skemmtilegu og krefjandi starfi auk þess að eiga gæðastundir með maka og fjölskyldu. Vamos a ver!

Monday, December 27, 2010

Huggulegheit að vanda...

Skruppum í ótrúlega vel heppna aðventuferð til Svíðþjóðar. Stokkhólmur er falleg borg - óþarflega köld kannski akkúrat á meðan við heimsóttum hana enda kaldasta tímabil í sögu Svíþjóðar síðan veðurmælingar hófust að sögn RÚV. Kuldinn kom hins vegar ekki að sök enda nutum við yndislegrar gestristni Hildar og Hjartar og höfðum það huggulegt bæði innan dyra sem utan. Drukkum jólaglögg, borðuðum piparkökur með gráðosti, fórum á söfn, kíktum óvenjulítið í búðir en vorum þeim mun duglegri að detta inn á kaffihús og veitingastaði.

Oft fannst okkur eins og við værum komin heim enda margt líkt með Danmörk og Svíþjóð. Það fylgdi því notaleg tilfinning að sjá til dæmis ýmsar kunnulegar vörur í kjörbúðinni og að stimpla lestarmiðann. Það er samt líka margt ólíkt og við vorum ekki frá því að stéttsiptingin væri öllu meiri í Stokkhólmi en Kaupmannahöfn. Við rákumst til dæmis varla á litað fólk í miðbænum en úthverfamollin voru hins vegar full af slæðuklæddum konum. Við erum bæði á því að þessi ferð kalli einungis á aðra ferð sem verður þá farin að vori til. Það er vafalaust magnað að upplifa Stokkhólm yfir sumartímann - siglandi á milli allra gullfallegu eyjanna. Þegar gestgjafarnir okkar verða búni að fjárfesta í siglandi farartæki þá pöntum við okkur far hið snarasta.

Við komum síðan bara beint heim í jólin og að venju vorum við dekruð upp fyrir haus í foreldrahúsum. Of stór skammtur af gjöfum, mat og öðrum huggulegheitum. Við erum búin að njóta og erum enn að njóta þess að vera í löngu og góðu jólafríi. Það kemur sér nefnilega vel að vera kennari yfir jólin þar sem við fáum bæði gott frí milli jóla og nýárs. Að vanda nýtist fríið reyndar helst til þess að undirbúa sjúkrapróf og komandi önn. Við byrjum síðan aftur að kenna 4. janúar (afmælisdagurinn hennar mömmu). Ég lýk haustönninni í Keili á fyrstu tveimur vikunum í janúar og starta síðan nýju námskeiði í BA náminu í uppeldis- og menntunarfræðinni í Háskólanum í janúar. Ég tek við námskeiði sem á sér sérstakan stað í "námshjartanu" mínu. Námskeiðið heitir "samskipti í uppeldis- og fræðslustarfi" og er eitt af skyldunámskeiðunum í uppeldisfræðinni. Það gaf mér svo mikið að sitja þennan kúrs á sínum tíma að ég er hálf nervus að taka við kennslunni núna - enda vil ég að nemendur fái tækifæri til að upplifa námsefnið á jafn jákvæðan hátt og ég gerði á sínum tíma. Ég hlakka að minnsta kosti til að fá að fara í gegnum skemmtilegt og krefjandi efni með hópi BA nema.

...já það er margt að hlakka til á nýju ári!


Sunday, December 05, 2010

Spænskir siðir = íslenskur vandræðagangur

Alla tíð hef ég staðið mig að því að hlægja pínulítið inní mér að fólki sem er að flytja aftur til Íslands eftir að hafa búið um tíma í útlöndum og er þá allt í einu komið með rosa hreim, segist ekki muna íslensk orð eða talar í sífellu um hvernig hlutirnir voru nú gerðir í útlandinu... Það er semsagt eins og aumingjans fólkið eigi í ægilegum erfiðleikum með að aðlaga sig að íslenskri menningu (þrátt fyrir að hafa átt heima hér á landi bróðurpartinn af lífinu).

Síðan gerist það, eftir að við komum heim til Íslands eftir einungis rúm 2 ár í útlegð, að ég stend mig í sífellu að því að sletta einhverju á spænsku eða ensku og finnst ég ekki finna íslensku orðin. Ég roðna alveg niður í tær og hundskammast mín þegar ég heyri sjálfa mig segja: “Æ ég man ekki alveg íslenska orðið”. Ég fékk líka smá hnút í magann þegar Lalli spurði mig að því um daginn hvort ég væri viss um að mamma og pabbi skyldu allt sem ég segði við þau því helmingurinn af því sem ég segði væri ekki íslenska. Ég sagðist nú halda það! Að minnsta kosti jánkuðu þau alltaf og hlustuðu á mig... Lalli setti bara upp einhvern svip sem hægt var að túlka sem “Einmitt Eva!”.

Verst þykir mér þó þegar ég haga mér ekki alveg eftir tilætluðum en óskrifuðum siðareglum íslenskrar menningar... og til þess að réttlæta ýmislega ósæmilega eða óæskilega hegðun þá hef ég brugðið á það lúalega ráð að skrifa hana alfarið á hughrif mín og reynslu af annarri og ólíkri menningu. Um daginn skrifaði ég til dæmis um passlegt kæruleysi og óskipulag. En upp á síðkastið hefur borið á öllu verri og alvarlegri hegðunarvandamálum.

Fyrir nokkrum vikum fór ég semsagt í einstaklega huggulegt afmælisboð hjá góðri vinkonu minni. Þegar ég kem inn í stofu voru nánast allir veislugestir mættir (er að vinna í þessu með tímasetningarnar). Eðli málsins samkvæmt þekkti ég flest af þessu fólki sem eru vinir mínir eða kunningjar... eða svona þið vitið ég hef allavega séð myndir af þeim á facebook!

Eins og sjálfsagt þykir kyssi ég afmælisbarnið til lukku með daginn og smelli svo líka kossum á fyrsta fólkið sem ég mæti þegar ég kem inn sem voru stelpur sem ég þekki vel en hef ekki séð lengi. Nú, ég held síðan uppteknum hætti og kyssi einn eða tvo stráka sem hafði nú ekkert hitt oft (eða kannski aldrei) áður en vissi svosem alveg hverra manna þeir voru...

Akkúrat þarna, á þessum tímapunkti, skynja ég að yfir stofuna og veislugesti færast gífurleg vandræðalegheit. Þið vitið að mannfólkið er búið þeim kosti að geta upplifað tilfinningar annarra (kallast empathy) og þessvegna gráta til dæmis lítil börn ósjálfrátt ef þau heyra önnur börn gráta. Þannig leið mér í um það bil 10 sekúndur. Ég fann vandræðatilfinninguna hellast yfir mig og upplifði hvernig veislugestir voru farnir að hugsa: Jeminn ætli hún kyssi MIG næst!

Nú, þar sem ég er ekki ungabarn og get hrist af mér samhyggðina hægi ég aðeins á mér í kossaflensinu en segi síðan stundarhátt með smá afsökunartón í röddinni: “Ég kyssi bara alla fyrst ég er byrjuð....” (síðan hlæ ég smá til að reyna að gera gott úr þessu).

Þetta virtist sem betur fer virka þar sem andinn í stofunni varð aðeins léttari og fólki fannst það kannski geta undirbúið sig fyrir komandi koss á kinn(!). Síðan hélt ég uppteknum hætti og kyssti restina af veislugestum eldsnöggt á kinnina og reyndi að láta þetta ekki alveg eyðileggja veisluna.

Þeim sem virtust hvað mest brugðið yfir þessum atgangi héldu sig í hæfilegri fjarlægð frá mér það sem eftir lifði að veislunni og seinna heyrði ég útundan mér að einhverjir voru greinilega ennþá að jafna sig þar sem fólk talaði saman inni í stofu “já hún kyssti víst bara ALLA þegar hún kom”.

Þessi veisla er því miður ekkert einsdæmi hvað varðar óviðeigandi snertingu, kossa eða innileika af minni hendi. Fyrir nokkru síðan hitti ég til dæmis fólk í IKEA sem ég hafði ekki hitt í mörg ár og kyssti þá strákinn (sem ég þekki ágætlega) á kinnina þegar ég heilsaði honum. Konan hans (sem ég þekki hins vegar ekki) varð auðvitað yfirmáta vandræðaleg og hann ennþá frekar. Ég áttaði mig ekki á þessum mistökum fyrr en kossinn var yfirstaðinn og skaðinn skeður.

Héðan í frá tek ég mig taki og hef í heiðri íslenska handabandið og hæfilega fjarlægð frá náunganum!

Saturday, December 04, 2010

Tilhlökkun og jólakúla

Við erum orðin ansi spennt fyrir aðventuferðinni okkar í ár. Það verður í fyrsta skiptið sem ég fer til Svíþjóðar og ég sé fram á ekta sænska jólastemmingu. Ég er smá vafa með hvort ég eigi að klára jólagjafakaupin fyrir ferðina eða ekki. Það er ansi freistandi að segjast ætla að kaupa allt í H&M en raunin er samt sú að ég mig langar ekkert sérstaklega til að þræða búðirnar alla dagana með sífellt stækkandi kúlu framan á mér.

Kúlan er orðin að algjöru fyrirbæri finnst mér. Þar inni iðar allt af lífi og fjöri, spriklum og spörkum og mér finnst stundum eins og kúlan sé einhverskonar sjálfstætt "unit" framan á mér sem tengist mér sjálfri ekkert sérstaklega mikið. Ég er farin að finna töluvert fyrir aukinni þyngd framan á mér og sárvorkenni því fólki sem dagsdaglega ber utan á sér aukakíló.

Ef ég lyfti undir bumbuna núna þá finn ég hvernig léttir á bæði lífbeini og mjóbaki. Þar sem aukakílóin mín í dag eru ekki mitt "venjulega" ástand þá finn ég mikinn líkamlegan mun á mér og geri mér mjög vel grein fyrir því hversu mikilvægt það er að halda góðri heilsu og líkamlegum styrk bæði fyrir, á meðan og eftir meðgöngu.


Friday, November 26, 2010

Keflvísk kósýheit

Í ágústlok fannst mér heldur kuldalegt til þess að hugsa að flytja "upp á völl" eins og það er kallað eða á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll enda er byggðin staðsett upp á miðri heiði, þeirri sem nefnist Miðneðsheiði.

Þessi dreifða og sundurslitna byggð gæti ekki verið ólíkari þeim miðbæjarkjörnum sem ég hef búið í á síðast liðnum fjórum árum sem eru í réttri röð: Miðbær Reykjavíkur, miðbær Kaupmannahafnar og miðbær Bilbao. Nú í fyrsta lagi er óskaplega langt á milli húsa og að Amerískum hætti er heiðin nánast malbikuð af bílastæðum. Hér við blokkina mína - sem er númer eittþúsund tvöhundruð tuttugu og fimm (þrátt fyrir þá augljósu staðreynd að ekki séu svo margar íbúðir til staðar) er til dæmis gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á hverja íbúð - planið hér fyrir utan dekkar því 24 rúmgóð stæði. Þessi einfalda (eða öllu heldur tvöfalda) regla gildir fyrir allar blokkir á svæðinu og því held ég það væri þjóðráð að halda bíladagana árlegu næst hérna á Ásbrú en ekki á Akureyri. Enda nóg af lausum stæðum...

En það er fleira sem skilur að. Við Ásbrú eru til að mynda engar sólahrings búðir líkar þeim sem ég vandist fljótlega á við Eggertsgötu í Reykjavík og Vesterbrogade í Kaupmannahöfn. Hér er ekki heldur hægt að stóla á Tyrkneska kebabsölumenn síðla næturs eða árla morguns þegar hungrið sverfur að en það kom sér oftar en ekki vel bæði á götum Kaupmannahafnar sem og í miðbæ Bilbao. Hér á Ásbrú hef ég heldur ekki rekist á einn einasta stað sem selur eitt rauðvínsglas og lítinn smárétt á spotprís eða girnilegan núðlurétt á 500 kall.

Já það er staðreynd að hér er lengra á milli húsa og lítið um úrval veitingastaða. En þrátt fyrir ólæknandi veitingastaðaást og þörfina fyrir að hafa fullt af fólki í kringum mig hefur mér tekist að þykja vænt um Ásbrú og Miðnesheiðina sem hún stendur á. Með hverjum deginum líður mér meira eins og "heima" og ég hef lært að meta ýmislegt nýtt og notalegt.

Á morgnanna þegar ég rölti í vinnuna get ég ekki annað en dáðst að því ótrúlega útsýni sem íbúum Ásbrúar býðst. Í morgunlogninu er ekkert minna en magnað að líta yfir fjallahringinn og sjá Snæfellsjökul í allri sinni dýrð. Norðurljós og stjörnur skína töluvert skærar hér á heiðinni en í miðborgum Danmerkur og Spánar og í aðdraganda jólanna hefur síðan verið einstaklega ljúft að kúra inni í hlýrri íbúð með kveikt á kertum og hlusta á vindinn blása (sem hann gerir ósjaldan hérna).

Fjöllin, útsýnið, víðáttan og vindurinn búa til sérstaka stemmingu sem eru koktell af Keflvískum kósýheitum.

Thursday, November 18, 2010

Æ það reddast...

Síðan við fluttum heim höfum við skötuhjú haft meira en nóg að gera. Hr. Jónsson vinnur í grunnskóla sem umsjónakennari og það eitt og sér er starf fyrir heilt þorp en ekki eina manneskju... "it takes a village to raise a child..." þið vitið. Síðan er það körfuboltinn, æfingar og einkaþjálfun. Ég er semsagt að reyna að færa björg í bú líka og er að kenna bæði upp í HÍ og hérna suður með sjó í Keili. Síðan er ég líka að vinna að rannsóknum fyrir Háskólann sem er auðvitað ótrúlega skemmtilegt og nauðsynleg fyrir svona námslúða eins og mig.

Allavega þetta er allt gott og blessað og alls ekkert einsdæmi... ég og Lalli erum ekkert "ofur" ef þið fáið það á tilfinninguna (sem þið fenguð samt örugglega ekki). Þegar ég tala við vinkonur mínar eru þær nefnilega langflestar sjálfar í mörgum vinnum eða jafnvel mörgum vinnum OG skóla. Síðan eiga þær líka þrjú börn og mæta reglulega í ræktina. Það er því augljóst að ég tapa þessari keppni strax enda bara með eitt barn sem er meira að segja ennþá í maganum - og eina ræktin mín er slökunar-meðgöngujóga á þriðjudagskvöldum sem ég er nýbyrjuð í.

Staðreyndin er nefnilega sú að fólk hérna á Íslandi er upp til hópa ofvirkt, vinnusjúkt og þarf sífellt að vera allt í öllu - allstaðar. Ég var eiginlega búin að gleyma þessu samfélagsmunstri þangað til að ég kom heim aftur og sogaðist inn í þetta fyrirkomulag nánast frá fyrsta degi. Nú er ég ekki að kvarta enda vita allir að áttunda dauðasyndin (amk hérlendis) er að kvarta yfir því að það sé of mikið að gera. Í þeim anda spurjum við fólk hvort það sé "ekki brjálað að gera" til þess að staðfesta velgengni og velmegun náungans en ekki endilega til þess að láta okkur annt um til dæmis heilsu viðkomandi.

Þrátt fyrir að hafa sogast hratt inn í þessa skemmtilega klikkuðu hringiðu hef ég átt í örlitlum erfiðleikum með að aðlaga mig að þessum aðstæðum. Ég er til dæmis ennþá mjög oft á spænskum tíma og er þar af leiðandi oftar en ekki aaaaðeins of sein. Ég keypti ekki dagbók fyrr en nokkrum mánuðum eftir að við komum heim (enda var ég löngu hætt að nota slíkt aparat) og lenti þar af leiðandi ítrekað í því að tví- og þríbóka mig á hin og þessi stefnumót. Ég afrekaði til dæmis að vera búin að bóka mig í viðtal í Reykjavík í síðustu viku á sama tíma og ég átti að vera í 20 vikna sónarskoðun og reyndar líka á kennarafundi í Keili... Úbbs!

Nú það skrýtna og skemmtilega við þetta allt saman er að þrátt fyrir annríkið, stressið, ofbókanir og áætlanir úr skorðum þá hef ég nákvæmlega engar áhyggjur af þessu ástandi og þetta truflar mig ekki vitund. ÞAÐ er mjög óvenjulegt þar sem venjulega myndi ég takast á við þessar aðstæður (eins og ég hef alltaf gert hingað til) með því að reita hár mitt, fá stresskast og hætta að borða.

En nú er öldin önnur! Ég held nefnilega að einu hormónabreytingarnar sem fylgja krílinu í kúlunni séu of stórir skammtar af kæruleysishormóni. Ég er ekkert sérstaklega viðkvæm, ekki slæm í húðinni, ekki skapstór, ekki grátgjörn, finn ekki til í brjóstunum og fæ ekki reiðiköst eða önnur merkjanleg hormónaviðbrögð... nema þau að mér er bara gjörsamlega alveg slétt sama þó svo að það sé mikið að gera hjá mér. Mitt í öllu stressinu og kapphlaupinu segi ég einfaldlega við sjálfan mig "æ þetta reddast" og það besta er að það gerir það yfirleitt alltaf.

Ég mæli með að fólk þrói með sér slatta af kæruleysi (með barneignum eða án) og taki á móti öllu jóla/vinnu/fjölskyldu stressinu með því að slaka örlítið á, yppta öxlum og leyfa hlutunum að ráðast.

Tuesday, November 16, 2010

Jólaskapið

Síðastliðin ár hef ég ekki fundið beint fyrir einhverju jólaskapi, jólaanda eða jólafíling - allt eftir því hvað fólk kýs að kalla þetta hugarástand sem virðist grípa marga í desember eða nóvemberlok (eða jafnvel í október).

Ég velti því fyrir mér núna hvað valdi því að ég finni nú allt í einu fyrir einhverjum undarlegum tilfinningum sem ég held að ég verði að skrifa á "jólaskap" - ég er farin að hlakka til jólanna, ég hugsa um jólagjafir, jólaskraut og jólakort. Ég hef meira að segja velt því fyrir mér að gera aðventukrans (eitthvað sem ég hef aldrei á ævinni gert). Síðustu ár höfum við nefnilega verið búsett erlendis og ég held að það hljóti að hafa haft áhrif á þennan annars litla jólaáhuga fram að þessu. Að minnsta kosti virðist jólaandinn svífa yfir íslenskum vötnum og ég er sífellt minnt á það að jólin séu á næsta leyti.

Rjúpnaveiðitímabilið var fyrsta áminningin og ég fékk strax vatn í munninn þegar ég fór að heyra fréttir af rjúpnaveiðiskyttum í hættu upp á miðjum heiðum. Uuu þetta gæti misskilist - ekki það að ég hafi fengið vatn í munnin yfir óförum rjúpnaveiðimanna heldur auðvitað yfir bráðinni sem ég vissi að þeir væru að hætta lífi og limum fyrir.

Síðan eru það þessi lúmsku skilaboð sem smokra sér inn í undirmeðvitundina og fara þar að móta allskyns hugmyndir og langanir. Til dæmis er ekki farið að spila jólalög í útvarpinu ennþá - enda bara 16. nóvember og eins gott að reyna að draga þetta alveg fram í desember til þess að við fáum ekki öll ógeð af Helga Björns og "þó ég nenni" laginu hans. Hins vegar er farið að lesa smáauglýsingarnar með undirspili sem minnir æði margt á lagið "rúdolf með rauða nefið". Á stöð 2 er síðan auðvitað byrjað að auglýsa jóladagskránna með tilheyrandi hátíðarblæ og laginu "someday at Christmas" sem undirspili.

Þar sem ég er sísvöng þessa dagana og litla krílið í maganum virðist þurfa endalausa orku þá gaula garninar látlaust þegar mín er freistað með auglýsingum um hvert jólahlaðborðið á fætur öðru. Mig langar að minnsta kosti á fimm mismunandi jólahlaðborð og ég sem hef aldrei haft neitt sérstaklega gaman af slíkum borðum og ekki lagt það í vana minn að sitja við slík borð.

Mamma mín vinnur á vinnustað þar sem er sífellt verið að bjóða upp á eitthvað húllumhæ. Hún spyr mig til dæmis mjög reglulega hvort ég kunni ekki einhverja nýja og skemmtilega samkvæmisleiki - sem er mjög undarleg spurning þar sem ég stunda sjaldnast þess lags samkvæmi - það er að segja þau sem fólk fer í leiki og notar til þess blöðrur og kústsköft. Auk þess hef ég ekki unnið á föstum vinnustað í fleiri ár og hef því nánast enga reynslu af árshátíðum eða starfsmannaskemmtunum.

Um síðustu helgi sakaði ég mömmu meira að segja um að hafa bara örugglega ekkert merkilegra að gera í vinnunni en að skipuleggja skemmtanir, vöfflukaffi, leynivinaleiki, jóladagatal og föndurdaga en þær ásakanir voru eingöngu byggðar á öfund minni og áhyggjum yfir því að það yrði ekkert jólalegt gert í vinnunni minni. Ég tók því gleði mína á ný þegar ég sá að búið var að hengja blað upp á vegg í vinnunni í gær þar sem hverjum degi í desembermánuði var ætlað eitthvað jólalegt hlutverk. Það verður jólahlaðborð (sem ég reyndar kemst ekki í - en ég er að fara út að borða á svo góðan stað sama kvöld að ég græt það ekki - enda snýst þetta allt um matinn) og það verður jólahúfudagur, jólakaffi, jólabrunch og jólapakkadagur.

Þetta líst mér allt saman vel á og ætla sko heldur betur að rækta þessa skrýtnu tilfinningu sem minnir mann á það hvernig manni leið sem barni - að hlakka stanslaust til jólanna í næstum tvo mánuði!


Thursday, October 21, 2010

Nýtt líf

Við komum heim til Íslands í sumarfrí.

Júlí og ágúst voru sneisafullir af sól, vinum, ferðalögum, fjölskyldufundum, hlátri og gleði. Enda flugu þessir mánuðir hjá á hraða ljóssins og þegar ég stóð fyrir framan afgreiðslukonuna á skattstofu Hafnarfjarðar fyrir tveimur vikum síðan og var innt eftir því hvenær ég kom til Ísland þá horfði ég lengi á konuna, hugsaði mig vel um og sagði svo: "Veistu ég er eiginlega bara nýlent en ég held samt að ég hafi komið um miðjan júlí".

Núna erum við ennþá á Íslandi og það er ekki lengur sumarfrí. Við vorum svo lánsöm bæði tvö að fá nóg að gera um leið og við komum heim. Enda tók ég varla eftir septembermánuði, október þykist vera að klárast áður en ég næ í skottið á honum og jólaskrautið er komið í IKEA.

Já það er staðreynd og engin lygi að hlutirnir gerast hratt á Íslandi. Við komum heim, byrjuðum að vinna í þremur vinnum, fluttum inn í íbúð, fengum bíl til afnota og... bjuggum til barn!

Nokkrum vikum eftir að við komum heim fannst mér þreytan og lystarleysið orðið grunsamlega viðloðandi og ég skaust því inn á klósett í Smáralind og pissaði á prufu sem ég hafði keypt í apótekinu. Á meðan beið Lárus frammi á gangi og virti fyrir sér nýjustu bíóauglýsingarnar. Íslenska bíómyndin Boðberi var nýjasta nýtt í bíó (hef ekki séð hana) og tvö lítil blá strik inni á klósetti voru sannarlega boðberi um nýtt og breytt líf.

Að uppgötva að maður eigi von á barni er eitt af þessum augnablikum sem maður ímyndar sér oft hvernig eigi eftir að raungerast. Ég hafði óljósa hugmynd um að annað hvort myndi ég hoppa af gleði, æpa og öskra eða gjörsamlega falla saman af kvíða og ráðaleysi og enda volandi í fósturstellingu (mun líklegri til þess síðara).

Hvorugt gerðist þó og ég sat einfaldlega inni á klósettbásnum, hlustaði á unglingsstúlkur á næsta bás tala um meik og varagloss og brosti örlítið út í annað. Hjartað tók ekki einu sinni auka kipp. Ég horfði silkislök á prufuna og hugsaði einfaldlega: Já auðvitað! Þvínæst labbaði ég fram, kyssti Lárus til hamingju og við skáluðum í jarðaberja-smoothies á kaffihúsinu ENERGIA í Smáralind.

Síðan þá hef ég hins vegar upplifað heilt tonn af tilfinningum og á eflaust eftir að upplifa annað eins á seinni hluta meðgöngunnar. Ég er svona rétt að komast yfir þá tilfinningu að mér finnist ég vera að plata þegar ég segi fólki að við Lárus eigum von á barni. Mér fannst mjög lengi eins og þetta væri frekar lélegur djókur (enda er ég alls ekki góð í að segja brandara) og í hvert skipti sem ég sagði orðið "ólétt" upphátt bjóst ég allt eins við því að fólk myndi skella upp úr eða taka "yehhh right" pakkann á mig og ekki trúa mér.

En svo virðist sem að bæði fjölskylda okkar og vinir hafi á einhvern undarlegan hátt verið töluvert betur undirbúin fyrir þessar fréttir heldur en við þar sem setningar á borð við "já loksins" eða "kominn tími til"... hafa ómað í eyrum okkar. En auðvitað eru allir að rifna úr gleði og það erum við líka - sérstaklega á þeim stundum sem 150 slög á mínútu berast okkur til eyrna í mæðraskoðuninni.

Það verður spennandi að takast á við nýtt líf (í orðsins fyllstu merkingu) hér á Íslandi. Hversu lengi eða hvað við tökum okkur nákvæmlega fyrir hendur verður að koma í ljós. En eitt er víst að við ætlum bæði að njóta hverrar mínútu á meðan við erum hér, grípa tækifærin, vera með fjölskyldu og vinum og lifa í núinu en huga jafnframt að framtíðinni - sem er óneitanlega ögn meira spennandi þegar von er á nýrri manneskju í heiminn.

Tuesday, August 10, 2010

Nýtt tímabil - ný verkefni

Ísland kallar!!

Þegar allir voru æstir í Íslandi þá fluttum við útlanda. Þegar allir eru uppgefnir á Íslandi þá flytjum við aftur heim.

Við stefnum á Íslandsdvöl í amk eitt ár með möguleika á einhverju framhaldi. Ný vinna, nýtt körfuboltalið, nýtt heimili og ný reynsla! Spennandi tímar framundan, líf og fjör.

Wednesday, July 28, 2010

Sumarsæla

Dagarnir líða bjartir og fagrir. Tíminn tifar án nokkurar fyrirhafnar. Sumartíminn á Íslandi er bæði hljóðlaus og lævís. Dagarnir langir og næturnar svalar. Rökkrið blekkir og bíður manni inn í nóttina sem síðan lýsist jafnharðan upp aftur og laumar sér inn í allar rifur og glufur.


Thursday, July 22, 2010

Another Iceland


Vestfirðir eru annað Ísland. No doubt about it. Stykkishólmur, Flatey, Tálknafjörður, náttúrulaugar, miðnætursól, Hafnarnes, Flateyri, næturkajak, látrabjarg, rauðusandar, Breiðavík, sjósund, hvítar strendur, göngutúrar, trúnó, vinátta og gleði. Ferðalagið gaf góðan tón fyrir sumarið sem verður vonandi bara fullt af ljúfum stundum með vinum og fjölskyldu.

Hlökkum til að fá vinafólk okkar frá Spáni í heimsókn um og eftir Verzlunarmannahelgina. Þá verður brunað austur og vonandi fylgir sólin okkur áfram á ferðalögunum.




Sunday, July 04, 2010

Erum komin heim til Íslands. Öll fjölskyldan beið okkar hér í Brúarhvamminum með suprizeveislu. Yndislegt líf og við erum endalaust þakklát fyrir allt góða fólkið okkar.

Erum spennt fyrir komandi mánuði sem einkennist af yndislegri samveru með vinum og vandamönnum. Fórum í yndislega skírn í dag, hittum á góða vini og eigum von á enn fleiri góðum stundum.


Friday, June 25, 2010

Kaflaskil

Enn ein kaflaskilin í lífinu okkar Lárusar.

Síðasta vikan í Bilbao staðreynd. Árið hefur liðið heldur betur hratt og við erum reynslunni ríkari. Auk þess græddum við líka nokkra vini og sitthvora MA gráðuna.

Sibba systir og Gestur kærastinn hennar eru væntanleg á morgun og við ætlum að eyða síðustu dögunum í Bilbao með þeim. Reyndar förum við meira að segja á undan þeim heim - en ekki nema deginum fyrr því þannig fengum við hentugasta flugið.

Hlakka til að eyða viku í Bilbao í algjörri afslöppun, búðum og veitingastöðum (ekki að það sé einhver nýbreytni). Sjáumst á Íslandi - þar sem ég reikna með að skrifa minna en knúsa ykkur öll þeim mun meira.

Besos y abrazos

E+L

Sunday, June 20, 2010

sól sól skín á mig

loksins sól og hitinn yfir 20 stig, reyndar eigum við von á gestum í næstu viku svo það dugar eflaust skamt. Á okkur hvílir nefnilega smá "gestabölvun" með æðislegum gestum kemur miður geðslegt veður. Þetta hefur nánast staðist upp á hverja einustu gestakomu fyrir utan þá fyrstu - en hún var líka allskostar óplönuð og óvænt.

Vinir okkar í Bilbao hafa eiginlega bannað okkur að fá fleiri gesti þar sem veðrið virðist ekki leika við okkur í þann tíma. Spurning hvað gerist í næstu viku??

Ég er ósofin, óvakin og með óráði svona yfir höfuð held ég almennt. Vika í skil og ég krossa putta fyrir því að þetta gangi upp. Ef ekki þá tek ég U-turn í skólamálum og gerist veðurfræðingur, ræddi þessa hugmynd í dag við Lárus sem tók vel í hana.

Lifið heil - með sól í hjarta!

Monday, June 14, 2010

þegar botnin á rúminu gefur sig...

Þá hlýtur að vera komin tími til að flytja.

Erum búin að fjárfesta í miðum sem koma okkur alla leið heim til Íslands. Ódýrasti og hentugusti kosturinn er að fara í gegnum allt að þrjár borgir á Spáni áður en við leggjum af stað yfir Atlantshafið. BILBAO-BARCELONA-ALICANTE-KEFLAVIK er ferðplanið sem lítur svona fljótt á litið alls ekki út fyrir að vera hentugt. Á einhvern óskiljanlegan hátt er þessi áætlun engu að síður mun styttri heldur en til dæmis að fljúga frá London og til Íslands. Ég held að það gerist stundum eitthvað óskiljanlegt þegar maður pantar sér flug, tími verður afstæður og kílómetrar og fjarlægðir ennþá skrýtnari. En nóg um það, ég treysti flugfélögunum.... (!!!)

Erum nú í miklum ham við að pakka ofan í kassa, undirbúa komu gesta og krossa við ýmis "to do" atriði sem ég hef samviskusamlega skrifað á blað og hengt upp á vegg í stofunni.

Eitt atriðið er til dæmis: Klára MA ritgerð!! Meira um það á öðrum bloggum...

og að veðrinu (Lalli heldur að í mér búi leyndur draumur um að verða veðurfræðingur, held hann hafi eitthvað til síns máls) en það er búið að vera ógeðslega leiðinlegt veður hér í Bilbao nákvæmlega jafn lengi og það er búið að vera frábært á Íslandi. Rigning og (ókei ekki rok) en samt svona suddaveður eins og maður myndi kalla það á Íslandi. Ef það verður 27 stiga hiti á norðausturlandi um næstu helgi eins og spáð er þá fer ég ráðum móður minnar og sæki um skólastjórastöðuna á Þórshöfn!

En já semsagt, Lárus vaknaði í nótt á gólfinu, því botninn í rúminu okkar gaf sig. Ekki í fyrsta skiptið reyndar. Sem segir okkur kannski að það sé komin tími til að skipta um íverustað. Ágætis merki um að flytja sig um set.

Wednesday, June 09, 2010

Rífur upp meðaltalið

Þetta blogg kemur til með að rífa upp meðaltalið sem minnst hefur verið á í fyrri bloggum.

Lyftingar og hlaup ganga vel, skrif ganga vel og veðrið er gott. Það er svona það helsta, ef frá er talið brákuð rist (ofmat á eigin fimi borgar sig ekki) og harðsperrur sem ágerast með hverjum degi þrátt fyrir fögur loforð Lárusar um að þetta gangi yfir fljótlega.

Stressið er samt hægt og rólega að læðast inn í vitund mína og veruleika. Mig dreymir alls konar vitleysu og vakna í svitabaði á hverjum morgni núna. Yfirleitt er ég að klúðra einhverju verkefni, búin að týna mikilvægum hlutum eða í hávaða rifrildi við enhvern sem ég myni aldrei rífast við í lifanda lífi.

Svona draumar eru auðvitað tengdir þeirri óumflýjanlegu staðreynd að það er allt að gerast í einu hjá mér og mér finnst dagarnir of stuttir. Í þessari viku á til dæmis stærsti hluti ritgerðarinnar að klárast, við þurfum að byrja að pakka, finna kassa, semja við leiguaðilana, finna pláss til að geyma dótið okkar, flytja það þangað, panta flug heim, fá skráða dagsetningu til að verja ritgerðina, útbúa enskuefni fyrir litlu gríslingana sem ég kenni.... og ég get eflaust látið mér detta eitthvað fleira í hug.

Held ég byrji samt bara á því að raða upp á nýtt í fataskápinn minn, eftir lit og notkun... það hefur reynst mér fljótlegasta, ódýrasta og besta sálfræðimeðferðin hingað til. Þegar ég lít yfir fataskápinn allan í röð og reglu þá hverfa allar áhyggjur úr huga mér og ég heyri fugla syngja.

Ást.

Friday, June 04, 2010

Fyrir þá...

sem lesa ennþá gamaldags blogg eins og þetta (þetta gæti alveg þýtt endilega skiljið eftir kveðju ef þið eruð að lesa).

Hér á Urazurrutia (erfiðasta götunafn sem ég hef búið við) er allt í standi. Ritgerðarskrif nálgast óðum endalokin og skiladagurinn rennur upp innan þriggja vikna (sem er meðallengd á milli blogga hjá mér) og því mætti ætla að þetta verði síðasta blogg fyrir hina langþráðu MA gráðu.

Sumarið er komið og Lárus er búinn að brenna tvisvar. Hann lítur út eins og mislitur karfi. Rauður að ofan og hvítur að ofan. Axlir og bak virðist ekki taka jafn vel við sól og fætur og magi. Ég hef hins vegar varla tekið lit.

Við höfum beðið spennt eftir spænska sumrinu, enda komum við hingað í fyrra í september og náðum þar af leiðandi einungis í skottið á því síðasta. Her af maurum (hermaurum) gerði vart við sig í íbúðinni okkar og bauð okkur með því velkomin í spænskt sumar. Við "flippuðum" eins og tekið er til orða hér í Bilbao og hlupum út í búð og keyptum stærsta skordýrasprey í heimi.

Við höfum líka tekið til við líkamsæfingar (ekki það að Lárus taki sér nokkurn tíman langt hlé frá slíkri iðju) en þá höfum við semsagt keypt okkur aðgang að líkamsræktarstöð og förum nú saman þrisvar sinnum í viku og lyftum lóðum í mest retro líkamsræktarstöð sem ég hef augum litið. Eigandinn er vaxtarræktartröll sem var upp á sitt allra besta í kringum 1985. Hann klæðist níþröngum spandexgalla frá toppi til táar (er ennþá í ágætis formi kallinn) og kemur keyrandi í vinnuna á Harley Davidson móturhjóli, sem hann keyrir alla leið inn í stöð og leggur því á milli hlaupabrettanna.

Í stöðinni er ekki hægt að fara í neina "stelputíma" en það er nóg af lóðum, tækjum og tólum. Upp um alla veggi hanga myndir af aðalkappanum (eigandanum) afar fáklæddum í hinum ýmsu vaxtarræktarpósum. Einn veggurinn er hlaðinn verðlaunum. Hann státar meðal annars af Olympia verðlaunum, Spánarmeistaratitlum, Evrópumeistaratitlum og fleiri stórmeistaratitlum í vaxtarrækt. Þeir sem eru inní þessum heimi ættu kannski að kannast við kauða sem heitir Cracia eins og líkamsræktarstöðin sjálf, skýrð í höfuðið á honum.

Ég hef fulla trú á því að við verðum bæði tvö í fanta formi þegar þessum mánuði líkur.
Vamos a ver!

Thursday, May 27, 2010

Tilhlökkunarefnin

Við hlökkum til að koma til Íslands í sumar.

Ég ætla að

-grilla (mest pulsur)
-fara í útilegur (já þið lásuð rétt)
-fara á Vestfirði (þar sem ég hef heyrt að fólk búi þar)
-fara í sund (helst á hverjum degi)
-borða bragðaref (líka helst á hverjum degi)
-knúsa vini mína (alla með tölu og skilja engann útundan)
-knúsa fjölskylduna (lengi og oft og svo aftur og svo aðeins lengur)
-skoða börn (vina minna sem virðast öll vera í útungunarkeppni)
-skoða elgosið (æ nei það er hætt, bömmer)
-skrifa grein (þetta er ekki bara afslöppunarferð ef þið hélduð það)

hlakka til þangað til....

Tuesday, May 25, 2010

Spennandi veðbanki

Hér með býðst öllum vinum og vandamönnum að taka þátt í spennandi veðbanka. Opið verður fyrir veðmál fram til 15. ágúst 2010.

Um er að ræða æsispennandi veðmál þar sem veðjað er um næsta áfangastað og heimili okkar Lárusar. Í boðinu eru eftirfarandi valmöguleikar:

1. Bilbao
2. Reykjavík
3. Kaupmannahöfn
4. Barcelona

Til þess að upplýsa þátttakendur örlítið þá set ég hér með pros/cons fyrir hvern stað eins og staðan lítur út í dag 25. maí 2010. Þessar forsendur gætu hins vegar breyst og því hvet ég alla til að fylgjast vel með gangi mála.

BILBAO KOSTIR
-góð vinasambönd að myndast
-lærum spænsku
-möguleikar á doktorsnámi

BILBAO ÓKOSTIR
-fá körfuboltalið
-lítið um vinnutækifæri
-rignir ógeðslega mikið

BARCELONA KOSTIR
-súper fín strönd
-fullt af körfuboltaliðum (og Lakers eru að spila í október)
-lærum spænsku

BARCELONA ÓKOSTIR
-rosa erfitt að fá vinnu
-engir vinir
-byrja allt upp á nýtt

REYKJAVÍK KOSTIR
-fjölskylda
-vinir
-vinna í boðinu

REYKJAVÍK ÓKOSTIR
-lærum enga spænsku
-lítil laun og dýrt að lifa
-förum aldrei út aftur ef við komum heim??

KÖBEN KOSTIR
-vinir
-körfuboltalið
-vinna jafnvel

KÖBEN ÓKOSTIR
-engin spænska
-kalt kalt kalt
-dýrt að leigja

Fólki er líka frjálst að segja sína skoðun á þessu og leggja til fleiri atriði í kosti eða ókosti einnar eða fleiri borga. Línur munu skýrast í sumar og í allra síðasta lagi um miðjan ágúst.



BILBAO




BARCELONA


REYKJAVÍK


KAUPMANNAHÖFN

Saturday, May 08, 2010

Viðburðir og verkefni

Það vantar svo sannarlega ekki verkefnin í lífið hjá okkur Lárusi þessa dagana. Mastersverkefnið mitt er verkefni í stærri kantinum og tekur því ríflega af tíma, orku og anda sem annars færi til dæmis í að skrifa langar og innihaldsríkar færslur á netið.

Heljarinnar Ítalíuferð var líka stórt en mun skemmtilegra verkefni. Í andans ofboði tókst okkur að smala allri fjölskyldunni saman eftir lúxushremmingar (eins og að vera fastur á 5 stjörnu hóteli) í mismunandi löndum. Fjölskyldufaðirinn sýndi af sér einstakt hugprýði og ferðaðist aleinn yfir hafið stóra sem skilur að Ísland og alla hina í heiminum. Þar sem hann lenti í Skotlandi tókst honum að húkka sér far til höfuðborgar Bretlands og endaði þar í faðmi sinnar heittelskuðu. Ég er ekki frá því að mamma og pabbi hafi elskað hvort annað eins og einni gráðu heitar eftir aðskilnaðinn.

Að minnsta kosti fannst mömmu nauðsynlegt að segja mér í gegnum síma að sama hversu heitt og mikið hún elskaði mig (og finndist ég algjörlega frábær) þá væri hún samt ekki tilbúin til að eiga heima hjá mér ef að til þess kæmi að eldgosið myndi aftra för hennar um ókomna tíð til Íslands. Svo sagði hún með smá trega í röddinni "þá vil ég nú heldur bara vera föst að eilífu með pabba þínum".

Já, eldfjöll virðast geta komið ýmsum hugleiðingum af stað... Við Lalli áttum líka okkar rómantísku daga í boði eldfjallsins þar sem enduðum á því að dinglast ein um Milanó tveimur dögum lengur en áætlað var. Dagarnir voru vel nýttir í eldheita og rómantíska göngutúra sem fólu í sér mörg stopp á huggulegum veitingahúsum. Fjölskyldan sameinaðist svo að lokum í Milanó, dreif sig í að kaupa GPS tæki, leigja stationvagon og hélt af stað upp í ítölsku alpana. Brúðkaupið var sko ekki minna verkefni. Upp úr stendur auðvitað maturinn, annað væri ósæmandi í ítölsku brúðkaupi. Á sjálfan brúðkaupsdaginn fórum við samtals í þrjár mismunandi veislur þar sem við fengum "eitthvað smotterí" að borða. En vorum sem betur fer ennþá svöng þegar kom að lokaveislunni þar sem matseðillinn taldi 10 rétti. Brúðhjónin voru yfirmáta falleg bæði tvö og eru nú á brúðkaupsferðalagi um Kanada, USA og einhverjar tropical eyjar sem ég man ekki hvað heita.

Mamma fékk síðan smjörþefinn af því hvernig er að búa hjá mér, í 30 fermetra íbúðinni okkar, þegar þau komu með okkur til Bilbao og eyddu rúmri viku hérna í Baskalandi. Þau fengu líka vini sína frá Þýskalandi með sér í för og skoðuðu alla króka og kima hér í kringum Bilbao. Voru stórhrifin af Guggenheim safninu sjálfu en minna hrifin af gömlum ryðguðum reiðhjólum sem voru hluti af sýningunni. Ég fékk síðan stórskemmtilegt tækifæri til að kynnast Kiddu frænku minni og manninum hennar. En það vill svo til að þau búa hérna rétt hjá Bilbao.

Næsta vika og þarnæsta verða ekki síður stútfullar af viðburðum og verkefnum. Fleiri gestir eru væntanlegir ef eldfjallið setur ekki strik í reikninginn og ég verð með mitt annað ráðstefnuerindi. Í þetta skiptið í Barcelona - sem er einmitt næsti áfangastaður okkar Lárusar í leit okkar að lokaáfangastað.







Ást & Yndi.

Wednesday, April 14, 2010

vikur, dagar, ár...

Lífið okkar Lárusar virðist hálf súrealískt þegar rannsóknarskýrslur, eldgos, flóð og aðrar ógnir og óvættir líta dagsins ljós á Íslandi. Tíminn flýgur áfram og eitthvað nýtt og spennandi virðist gerast á hverjum degi.

Lárus var það sem kallast grasekkill á íslensku en "Rodrigues" á spænsku á meðan ég skrapp í nokkurskonar vinnuferð til Kaupmannahafnar. Þrátt fyrir makaleysið átti hann samt góða viku, spilaði körfubolta, þjálfaði og eyddi góðum tíma með vinum sínum. Í danaveldi átti ég fyrirkvíðanlegt samtal við skattinn sem endaði eins og í ævintýri (góðu ævintýri ekki neinu Grimm ævintýri). Ég eyddi líka tíma með nokkrum góðum vinkonum og vinum sem minnti mig rækilega á gildi vináttu og notalegheita í lífinu. Ég fór í klippingu, borðaði góðan mat og hjólaði um alla borg með vindinn í fangið - semsagt afar frískandi og upplífgandi ferð.

Það var samt ágætt að koma aftur í faðm ástmannsins, fá smá skammt af sól og sumaryl, finna stresshnútinn myndast í maganum og opna bækurnar. Nú er vika í Ítalíuferðina og á þessari viku þarf ansi mikið að gerast í ritgerðarmálum. Ég var þess fullviss í gær að ég hefði góðar tvær vikur til stefnu en svona svíkur tíminn mann oft og iðulega. Þá er bara að setja í fimmta gír og læra bæði nótt og dag - skipuleggja hvern klukkutíma og vona það besta

Við erum ennþá svo gott sem grunlaus um hvað framtíðin (næsta haust) kemur til með að bjóða okkur upp á og höfum ekki tekið neina ákvörðun um borg, land, stað eða störf... við lifum á ystu nöf!

Síðar vinir, óskum allra góðrar viku og segjum næst frá Ítalíuför okkar





Thursday, April 08, 2010

Pastellitaðir páskar

Við eyddum páskunum með spænskum vinum. Heimsóttum nokkrar borgir og nokkur lítil fjallaþorp, gistum í fjallakofa, elduðum góðan mat, áttum góðar stundir og erum alsæl með öðruvísi en stórgóða páskahelgi.

Castille y León er stórkostlegt hérað á Spáni. Allt öðruvísi en Baskaland. Undurfallegir og mildir pastellitir; gul og ljósbrún jörð, ljósblár himinn og bleikir steinar... Storkar með hreiður efst í kirkjuturnum og á raflínumöstrum. Týndur froskur í Salamanca, háskólinn, kirkjan, fólkið og allt hitt. Undurfagurt.

Muy bien - todo (sem var einmitt frasi ferðarinnar).



Tuesday, March 30, 2010

Salamanca

Erum á leið til Salamanca á morgun ásamt 15 krökkum. Leigjum okkur hús og skoðum okkur um í Castille y León yfir páskana. Ég hlakka til að sjá aðra hlið á Spáni. Hlakka til og kvíði fyrir að eyða nokkrum dögum með krökkum sem tala BARA spænsku.

Hér eru framtíðarpælingar á hverjum degi. Ekki mikið um niðurstöður þó. Enda hefur okkur farist best að láta tækifærin koma til okkar, örlítið óvænt. Ég er samt soldið svona við það að fríka út í óvissunni. Get ekki sagt að ég sé að njóta þess að vita ekki hvar við ætlum að eiga heima í haust, eða hvernig við ætlum að borga húsaleigu.

Auðvitað er þetta lúxusvandamál að reyna að ákveða hvar maður vill eiga heima í veröldinni. Ekki erum við föst neinstaðar og engin neyðir okkur til neins. Það sannast samt engu að síður máltækið að sá á kvölina sem á völina. Aðallega finnst mér nauðsynlegt að fá vinnu einhverstaðar. Þá gæti ég vel við unað, nánast hvar sem er í heiminum.


Við sendum ykkur annars bara sjóðheitar páskakveðjur og vonum að þið hafið það gott um hátíðirnar.

Ást og gleði

E+L

Friday, March 26, 2010

Ég sé....

Spurning hvað er hægt að lesa út úr þessu kaffisulli? Kannski næsta land eða borg sem við komum til með að búa í... eða eitthvað ennþá meira spennandi? Er ekki annars alveg hægt að spá í kaffi sem lendir óvart á fótaskemli eins og kaffi í bolla. Ps. Lárus drakk úr þessum bolla fyrir þá sem vilja spreyta sig.



Tuesday, March 23, 2010

Pakkaflóð

Sjaldan er ein báran stök. Fengum ekki einn eða tvo pakka í dag heldur þrjá pakka fulla af mismunandi góðgæti. Hér verður ekki nammiskortur á næstunni.



Lestur og skriftir halda áfram - eilítið erfitt þegar veðrið batnar með hverjum deginum. En svona fer fyrir fólki sem ákveður að skrifa MA ritgerð um vor og sumar... á Spáni.

Saturday, March 20, 2010

Föstudagur í Frakklandi

...skruppum í dagsferð til Frakklands. St. Juan de Luz er endalaust fallegur strandbær, með 6 strendur og litlar hellulagðar götur, ekta frönsk kaffihús og bakarí og öðru dúllerí. Langaði að flytja þangað strax og ég kom inn í bæinn.


Thursday, March 18, 2010

Jákvæðnin seytlar á ný inn í líf okkar. Enda ekki mikið sem við getum kvartað yfir þó svo að ég reyni stundum að finna eitt og annað smávægilegt og gera úr því heilmikið mál.

Vorið hefur verið að minna á sig og hitinn nálgast nú 20 gráðurnar þriðja daginn í röð. Það spáir nú reyndar ekki svona góðu um helgina en þetta er allt á réttri leið myndi ég ætla.

MA skrifin ganga hægt en vel fyrir sig. Ég skrifa eitthvað smá á hverjum degi og er best ef ég næ smá "samfellu" í daginn. Er með 500 orða markmið á dag, sem gengur nú svona lala - en ég bæti yfirleitt upp lélega daga með því að taka smá skurk aðra daga og afreka þá kannski allt upp í rúmlega 1000 orð. Orðafjöldinn er kannski ekki svo gífurlegur en ég miða við "góð" orð. Semsagt engin bull orð, helst bara eitthvað sem ég er sátt við og þarf ekki mikið að endurorða. Síðan situr í mér eilíf ritskoðun eftir að hafa verið í námskeiðinu "málstofa - efst á baugi" hjá Jóni Torfa í HÍ. Allir þeir sem hafa tekið þetta námskeið vita um hvað ég er að tala.

Þar var ekki skrifuð ein setning nema að hún hefði alveg stútfullt gildi, segði allt sem segja þyrfti en væri samt gjörsamlega laus við allan óþarfa. Það er því svo að í hvert skipti sem ég skrifa eina vesæla setningu þá hefst ritskoðunin í hausnum á mér og ég spyr mig: "segir þessi setning eitthvað mikilvægt?" "er þessi setning til bóta fyrir verkið sjálft?" "bætir hún nýrri þekkingu við verkið?" "er hún nauðsynleg fyrir lesendann að lesa?" og svona mæti lengi telja... Kannski ekki mjög efektívt þegar maður ætti bara að vera að skrifa "í flæðinu"...

En það er ekkert svoleiðis hjá mér þegar ég skrifa ritgerðir - það er meira svona eitt þrep í einu, upp langan og brattan stiga og ekki mikið um frjáls og óheft skrif.

Um helgina verður aðeins meira stuð á okkur skötuhjúum en vanalega þar sem ég ætla að setja stigaklifrið á hold og við ætlum að skreppa til Loredo sem er smábær á milli Bilbao og Santander. Bærinn skartar brjálæðislega langri og fallegri strandlengju og því er vonast eftir góðu veðri. Held reyndar að það eigi að rigna! En engu að síður skemmtilegt að komast aðeins út fyrir borgina og skoða sig um í Baskalandi. Við förum nokkuð stór hópur saman í ferðina. Allir ætla að njóta þess að á morgun er "día del padre" eða feðradagur sem er, í feðraveldinu Spáni, auðvitað heilagur frídagur.

"Mæðradagurinn kemur síðan alltaf upp á sunnudegi og þá eldar konan læri" sagði vinur okkar í gær þegar hann var að útskýra hefðir og siði Spánverja. Ég sit á feministanum í mér og þakka fyrir góðan frídag í þetta skiptið :)

Njótið helgarinnar!

Monday, March 15, 2010

einn, tveir..

og á lappir!

Vöknuðum klukkan 8 í morgun sem hefur ekki gerst síðan ég þurfti að mæta síðast í flug. Átti tíma á svona ókristilegum tíma hjá lækninum, ekkert til að hafa áhyggjur af. Svo við skunduðum af stað í morgunsvalanum. Sólin varla komin upp og syfjaðir Spánverjar á leið í skóla eða vinnu um allar götur. Við ætluðum síðan í búðina eftir læknisheimsóknina en komumst að því að hún opnar ekki svona snemma. Fórum þá á ekta spænskt kaffihús, smekkfullt af gömlum körlum að reykja vindla og gömlum konum með bleikan áfengan drykk í glasi. Fengum okkur spænska tortillu með osti og skinku, nýpressaðan ávaxtasafa og kaffi. Stórfín leið til að starta þessari viku sem ég held að verði miklu betri en flestar aðrar vikur í febrúar!

Ást og gleði

Wednesday, March 10, 2010

"í lamasessi"

Ég er svo hrifin af tölum að ég var næstum hætt við að blogga þegar ég uppgötvaði að ég myndi eyðileggja þá tölulegu staðreynd að á þessu bloggi eru 250 færslur. Nú verða þær 251 sem er náttúrlega arfaslök tala. En það kemur einhver betri um síðir...

Á Spáni hefur snjóað heil ósköp á ólíklegustu stöðum eins og í Barcelona og víðar. Hér í Bilbao snjóaði aðeins en fólk er nú nokkuð vant því að fá yfir sig smá slyddu og því var Bilbao ekki "í lamasessi" á meðan Barcelona var sögð vera svo - þar sem meðal annars 200.000 manns misstu rafmagn og hita í marga daga vegna slyddunnar.

Snjórinn var hins vegar fyrirboði fyrir örlitlum hindrunum sem henda víst allt gott fólk í lífinu. Sama dag og hitinn fór niður fyrir núllið, fengum við vinalegt bréf frá skattayfirvöldum í Danmörku þar sem ég var vinsamlegast beðin um að borga helminginn af skólastyrknum mínum til samfélagsins aftur.

Í því fjármálaumhverfi sem einkennir Ísland í dag (það sem allir skulda trilljónir og milljarðar eru bara fyrir pelabörn) virðist kannski ein milljón íslenskar kr. ekki vera svo ýkja há upphæð... Ég hef hins vegar ekki verið mikið í því "að græða" og finnst því alveg nóg um að eiga að borga skattinum helminginn af styrknum mínum sem var jú ætlaður til þess að lifa, borga leigu og læra fram á næsta haust. Sama dag hugnaðist mér líka að kíkja inn á "mitt svæði" hjá LÍN til þess eins að komast að því að ég hafði hreinlega gleymt (!!) að sækja um námslán fyrir haustönnina. Ég hafði hins vegar ekki gleymt að taka svimandi háan yfirdrátt sem átti að greiðast með námslánum (sem eru nú gleymd og grafin).

Svona getur lífið verið snúið stundum - og það mætti segja að þó svo að Bilbao hafi ekki verið í lamasessi sökum slyddu þá hafi tvær sálir í eldri hluta borgarinnar lamast að hluta til við síður en svo uppörvandi fréttir daginn sem snjóaði á Spáni.

En nú er bara að snúa vörn í sókn og leita að frk. Pollýönnu því hún er þarna einhverstaðar - um leið og hún fær kraft í lappirnar þá sprettur hún fram .... ég er viss um það.

Blogga þegar hún mætir á svæðið!

Saturday, March 06, 2010

Læra - borða - sofa

Það glittir í sólskin í Bilbao þó svo að vorið sem ég básúnaði og lofaði hérna um daginn hafi hörfað í bili. Hitinn fór niður fyrir frostmark í gærnótt. Dagarnir núna snúast aðallega um að læra þangað til að hungrið segir til sín þá skreppum við hjúin út í "menu del día" og borðum okkur sprengsödd. Hér um bil án undantekningar hef ég þurft að leggja mig í dágóðan tíma eftir að hafa fengið mér þennan klassíska miðdegisverð Spánverja og þaðan held ég að síestan sé meira og minna upprunin. Það er ekki endilega það að hitinn sé svo kæfandi að fólk verði hreinlega bara að loka sig af í 3 klukkutíma á dag (enda hefur mér alltaf þótt það hæpin útskýring á fyrirbærinu síesta).

Hitinn hérna á N-Spáni er bara sæmilegur, fer sjálfsagt aldrei mikið yfir 30 og á veturnar er hreinlega bara hrollkalt í amk 3 mánuði. Menu del día er hins vegar þannig máltíð að maður getur lítið annað gert en að leggja sig eftir matinn. "Seðillinn" kostar 10 EUR og samanstendur af þremur réttum. Primero Plato sem getur verið allt mögulegt, oftast er þó í boði salat, súpa, pastaréttir, aspasréttir, brauð með pate eða svona réttir í léttari kantinum (þó svo að risa diskur af pasta og brauði sé ekkert sérstaklega létt fyrir mér). Segundo Plato er síðan aðalrétturinn og þá er yfirleitt hægt að velja á milli 3-4 fisk eða kjötrétta. Ég er núna fyrst farin að þora í fiskinn því yfirleitt er hann reiddur fram með haus og sporði og öllu tilheyrandi og ég hef því ekki lagt í það. Kemur sér illa núna að hafa aldrei unnið í fiski! Á seðlinum í gær var hins vegar eitthvað sem hét Salmonita og ég hélt nú að ég væri frekar örugg með lax. Eftir að hafa næstum borðað mig pakksadda af salati með eggjum, síld og brauði þá kom Salmonit-að (í mínum huga lítill lax) á borðið til mín í líki þriggja mjög svo undarlegra fiska. Þeir litu út eins og risavaxin síld með stóran haus og svört augu. Ég gerði mitt besta í að flaka og beinhreinsa og þetta smakkaðist bara þónokkuð vel. Þjónarnir fylgdust hins vegar grannt með mér allan tíman og mig grunar að þeim hafi ekki fundist mikið til aðfaranna koma hjá mér.

Í eftirrétt er síðan hægt að fá sér ís, ávexti, ost og bara yfirleitt allt milli himins og jarðar. Í gær spilaði tungumálið aðeins með mig og það er greinilega langt í land hjá mér... Ég sem hélt að ég væri einmitt komin á "veitingastaða levelið" í spænskunni. En ég ætlaði semsagt að biðja um súkkulaðiköku en fékk geitaost í staðin. Eftir svona þriggja rétta máltíðir sem skolað er niður með flösku af rauðvíni og flösku af vatni þá er heppilegt að gangan heim er ekki löng og leiðin í rúmið enn styttri. Síðan vaknar maður endurnærður (eða mjög stúrin og myglaður eins og ég) um 6 leytið og fer aftur út á röltið samkvæmt hefðinni.

Thursday, March 04, 2010

Hið venjulega blogg

Stundum fæ ég samviskubit yfir því að skrifa of hversdagslegt og leiðinlegt blogg. Það hvarflar iðulega að mér að ég þurfi að flíka pólitískum skoðunum, sniðugri heimspeki eða jafnvel einhverju fræðilegu. Í það minnsta einhverju fréttnæmu til þess að geta réttlæt skrifþörfina.

Hins vegar er það svo að þau blogg sem ég les eru lang sjaldnast þannig skrifuð. Í blogghringnum mínum svokallaða (blogg sem ég kíki jafnvel vikulega á) eru nefnilega einmitt "hin venjulegustu blogg". Blogg frá Jóni og Gunnu sem fjalla yfirleitt bara um daginn og veginn. Ég hef nefnilega lúmskt gaman af því að lesa um gráan hversdagleikann í lífi annars fólks. Ég er reyndar örlítið veik fyrir þeim hversdagsleika sem gerist annarstaðar en á Íslandi og því eru ýmiskonar ferðblogg oft ofarlega á lista hjá mér. Hins vegar er það þannig að ég verð fljótt leið á að lesa kvabbið, argaþrasið og svekkelsið sem einkennir mörg þau blogg sem eru í gangi núna.

Nú má ekki misskilja mig sem svo að mér finnist ekki bæði nauðsynlegt og í alla staði frábært að fólk geti tjáð sig um samfélagsleg og pólitísk málefni á veraldarvefnum. Ég er meira að segja þeirrar skoðunar að internetið sem slíkt, blogg og annar samskiptamáti í gegnum netið geti bætt lýðræðið okkar heilmikið og sé ein af "leiðunum" við að þróa lýðræðishugmyndina í nútímasamfélagi. Það er gott og gilt að fólk komi skoðunum sínum á framfæri og noti þennan vettvang til þess. Bloggin virðast engu að síður fljótlega renna saman í eitt og eftir stendur ekki mikið sem breytir, bætir eða kætir.

Hið hversdagslega blogg er aftur á móti mun nær sagnahefðinni og það er kannski þess vegna sem það höfðar betur til mín. Mér finnst ég vera að lesa litlar örsögur um líf fólks og þar sem fólk, alls konar fólk, hefur alltaf átt hug minn og hjarta þá heillast ég upp úr skónum við það eitt að lesa að kona í París stundi morgunleikfimina sína af mikilli samvisku eða að fjölskylda í Ameríku sé komin í umhverfisverndar átak og flokki nú allt rusl eða að maður í Barcelona hafi lent í vandræðum með að kaupa kennaratyggjó.


Ást

Friday, February 26, 2010

rafmagnsofninn

fer inn í geymsluskápinn í dag. Og það þrátt fyrir að hitinn eigi eftir að fara eitthvað aðeins niður áður en hann fer varanlega upp aftur. Síðastliðna mánuði hafa borist hingað rafmagnsreikningar upp á rétt tæpar 100 EUR sem er náttúrlega alltof mikið og eiginlega ekki í boðinu fyrir námsfólk. Að því gefnu að hitinn fari ekki aftur mikið niður fyrir 10 gráðurnar þá verður ekki fýrað upp aftur hér á þessu heimili fyrr en í fyrsta lagi í október eða nóvember.

Það yljar okkur líka að þessa dagana detta inn heimsóknir og ferðaplön fyrir vorið og sumarið og tilhlökkunin er mikil. Á dagatalið er búið að merkja inn með mismunandi litum og tilheyrandi glósutækni komu foreldra, vina, svilkonu og mágs, systur og fylgisveins. Við höfum einnig tryggt okkur flugmiða til Ítalíu, hótel og bílaleigubíl.

En á undan þessum ævintýrum öllum ætlum við að heimsækja Salamanca með spænskum vinum. Borgin heillar sannarlega en ekki síður stemmingin í kringum þessa ferð. Það er nettur menntaskóla-andi sem svífur yfir vötnum. Mér líður pínu lítið eins og við séum að fara í "íþróttaferð" (þar sem aldrei voru stundaðar neinar íþróttir að ráði nema þá helst glasalyftingar) svona eins og í Verzló í gamla daga. En ferðin er líka einstakt tækifæri fyrir okkur Lárus að kynnast vinum okkar betur og láta reyna á tungumálið fyrir alvöru!

Wednesday, February 24, 2010

Nei, þú hér??

Tilfinningin um að "eiga heima" einhverstaðar kemur vitanlega ekki strax þegar maður flytur í nýja borg. Fyrst þarf að kynnast hverfinu sínu, heilsa nokkrum sinnum upp á kaupmanninn á horninu, fara á hverfisböbbinn oftar en einu sinni og svo framvegis. Mín tilfinning um að "eiga heima" í Bilbao kom hins vegar í dag þegar við Lárus ráfuðum inn á eitthvað kaffihús og hittum þar fyrir tilviljun einhvern sem við þekkjum. Spænskt par sem Lalli kynntist í gegnum körfuboltann. Það að hitta kunningja eða vini á förnum vegi er alveg einstaklega heimilislegt, sérstaklega í milljón manna stórborg þar sem hver dagur býður upp á nýtt hverfi til að skoða og nýjar götur til að mæla...

fenomenial!!

Já ef það er ekki tilefni til að skrifa um matargerð núna!!

Fórum "aðeins út að borða" á þriðjudagskvöldi í Bilbao. Þar sem við búum niðrí bæ höfum við ekki prófað helming staðanna sem eru hérna megin við ánna en engu að síður þekkjum við bæinn ágætlega vel. Staðurinn sem varð fyrir valinu í kvöld er staður sem býður ekki upp á neinn sérstakan aðalrétt heldur einungis "platos especiales" sem eru nokkurs konar diskar af góðgæti... Fyrsti rétturinn okkar var kolkrabba carpaccio. Fyrir þá sem þekkja til nauta carpaccio sem hefur jú verið nokkuð vinsælt á Íslandi sl. ár skýrir þetta sig kannski sjálft en fyrir hina þá er kolkrabba carpaccio niðurskorinn hrár kolkrabbi marineraður í olíu og rauðum pipar... *ekkert nema lostæti*

Annar rétturinn okkar var nýbakað brauð með lomo iberico (úrvals skinku) - þarf varla að ræða hversu ljúfeng skinkan var!! síðasti rétturinn var síðan foe gras (andalifur) með rifsberjasultu, stjörnuávöxtum, kavíar, súrum gúrkum og gulrótum.... Ég veit, hljómar alveg absúrd samsetning en það er einmitt það sem gerði þetta svo ótrúlega sérstakt og spennandi!! Ég get varla skrifað annað en.....

Mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmm!!!! þetta var út fyrir ósónlagið gott og ekkert minna en það, takk fyrir. Drukkum með 2 glös af Crianza frá 2005 sem var algjört himnaríki!

Tuesday, February 23, 2010

og þvotturinn þornar á snúrunni

Sólin skín í Baskalandi þessa dagana og hitinn fór upp í 19 gráður í gærdag. Henni er hins vegar ekki jafn skipt veðursældinni og í Valencia eru mikil flóð, rigningar og leiðindaveður. En á meðan þetta helst svona hjá okkur er sannkallað vor í lofti.

Það besta við þetta veðurfar er samt sem áður ekki endilega hitinn eða sólin sem slík heldur minnkandi rakastig í loftinu sem gerir það að verkum að þvotturinn sem ég hengi út á snúru þornar á innan við sólahring en hangir ekki úti blautur eða rakur í viku eins og hefur verið síðastliðna 3 til 4 mánuði. Já það þarf ekki mikið til að gleðja mann!

Í síðustu viku uppgötvuðum við Argentískt veitingahús (sáum það bara álengdar, höfum ekki ennþá farið þangað) en erum æsispennt að prófa staðinn. Síðan höfum við gert tvær heiðarlegar tilraunir til að fara á annað grillhús sem heitir Henao 40 og á víst að vera eitt það allra besta hér í borginni. Í fyrsta skiptið var allt fullt og ekki séns að koma okkur að það kvöldið og í seinna skiptið var hreinlega lokað þrátt fyrir að það stæði á heimasíðunni þeirra að það væri opið. En allt er þegar þrennt er og við gefumst ekkert upp.

Sunday, February 21, 2010

Úrslitaleikurinn

Í dag fer fram úrslitaleikurinn í konunglegu bikarúrslitunum hér í Bilbao. Síðustu daga hefur öryggisgæslan í kringum og inni í höllinni aukist jafnt og þétt og nær líklegast hámarki í dag þar sem kóngurinn og drottningin mæta á leikinn í dag. Það verður sannkallaður risaslagur þar sem Barcelona og Madrid keppast um bikarinn. Það er nokkuð ljóst að meirihluti áhorfenda, það er að segja allir sem koma frá Baskalandi munu halda með Katalóníu og ekki Madrid.

Það er eitt sem hefur vakið furðu mína og ánægju. Í fjóra daga hefur núna safnast saman fólk alls staðar af frá Spáni (um það bil 15.000 manns) sem heldur allt með sitthvoru liðinu og það kallar og syngur og púar og hvetur til skiptis en ekki einu sinni eru búin að koma upp slagsmál af þeim toga sem oft eru kennd við íþróttaviðburði eins og þennan, kannski sérstaklega fótbolta. Borgin er full af fólki uppáklæddu í búninga sem hefur hátt og syngur en það er svo gott sem enginn í leit af einhverjum vandræðum. Það hefur aðeins bæst í lögregluliðið bæði í borginni og sérstaklega í kringum höllina en ég hef ekki einu sinni séð þá í action enda allir bara vinir um leið og leiknum lýkur alveg sama í hverslags búning þú ert eða með hvaða liði þú heldur.

Til fyrirmyndar!

Thursday, February 18, 2010

Öskudagur fyrir alla

Hér á Spáni sem og annars staðar í Evrópu hefur verið sannkölluð karnivals-stemming síðustu daga þar sem búningar og skrúðgöngur hafa sett svip sinn á bæinn. Aðaldagurinn hérna á Spáni er reyndar ekki kenndur við öskudag heldur eitthvað allt annað og hefur ívið trúarlegri skírskotun hér í samfélagi Jesúíta og kaþólikka heldur en heima á Fróni. Það er enginn dauður köttur inní tunnu og börn syngja ekki Sá ég Spóa 150 sinnum í keðjusöng fyrir vesælt starfsfólk í búðum eins og tíðkaðist í minni barnæsku.

Það verður seint sagt um Spánverja að þeir kunni ekki að skemmta sér eða búa til gott karnival. Hér í Bilbao hófst gamanið sl. laugardag þar sem fór meðal annars fram mikil og metnaðarfull búningakeppni innan spænska vinahópsins okkar. Allan daginn var það fullorðið fólk en ekki börn sem mátti sjá í búningum og um kvöldið var varla nokkur maður úti á götu sem "sýndi sitt rétta andlit". Okkur Lárusi fannst búningakeppnin í vinahópnum, sem fór fram í pörum, sniðugt og krúttlegt uppátæki en gerðum okkur litla grein fyrir alvarleika málsins fyrr en við sáum afrakstur margra daga vinnu og saumaskaps á laugardagskvöldinu.

David og Alfonso voru bob-sleðamenn frá Jamica. Hver man ekki eftir hinni stórskemmtilegu mynd Cool Runnings?

Ég veit ekki alveg hvað Iker og Monni voru en mér fannst þeir sætir.


Mánudag, þriðjudag og miðvikudag var síðan tileinkaður börnum og þeirra karnivalgleði. Börn út um allan bæ breyttust í prinsessur eða nornir, kisur eða ljón, batman eða súperman. Eftir mjög svo vísindalega könnun mína sem fólst í að skoða og meta búninga barnanna á meðan ég skrapp niður í bæ í gær og á mánudaginn þá virðist mér sem sígaunakonur og karlar hafi verið vinsælasti búningurinn í ár. Man ekki eftir að hafa beðið um að vera sígaunakona... Ég var yfirleitt norn eða prinsessa til skiptis (segir kannski eitthvað um mitt innra eðli sem togast á)

Um helgina tekur við annað karnival sem inniheldur ekki mikið af búningum ef frá eru taldir körfuboltabúningar þeirra 8 liða sem koma til með að berjast um konungsbikarinn í körfubolta hér í borginni á næstu fjórum dögum. Við Lárus eigum miða á herlegheitin og erum nokkuð spennt fyrir helginni. Kóngurinn mætir á svæðið sem og um það bil þúsund aðdáendur frá Barcelona og aðrir þúsund frá Madrid. Getur ekki klikkað!

Friday, February 12, 2010

Komin heim

...til Bilbao eftir frábæra og yndislega afslappandi Kaupmannahafnarferð. Það er bara best í heimi að hitta vini sína, slappa af, hafa engar áhyggjur og vera í fríi. En allt frí tekur enda og við komum heim til Bilbao í gærkvöldi í snjókomu og frost! Ekki alveg það sem við höfðum vonast til enda fórum við í um það bil 17 stiga hita. En veðrið er víst bara svona í öllum heimshornum núna, síbreytilegt og frekar óskiljanlegt. Til dæmis er miklu heitara á Íslandi núna en hérna hjá okkur á Spáni.

Njótið bara vel sem eruð á Íslandi!

Ferðin hefði ekki getað verið mikið lengri hjá okkur þar sem nú tekur við smá enskukennsla hjá mér og leikur og æfingar hjá Lalla. Hann er líka að leita fyrir sér í vinnu sem einkaþjálfari og hefur fengið eitt tilboð frá stórri líkamsræktarstöð. Erum svona að vega og meta framtíðarplön en erum ekki í neinum alvarlegum pælingum ennþá. Enda nógur tími til stefnu og við líka ákveðin í að njóta þess sem Bilbao og N-Spánn hefur upp á að bjóða þangað til eitthvað annað tekur við.

Hver mánuður framundan hefur sitt aðdráttarafl og sínar skyldur þannig að tíminn verður án efa ekki lengi að líða og áður en ég veit af verður komið sumar og síðan aftur haust. Þess vegna er um að gera að lifa í núinu en leyfa sér samt sem áður að dreyma og hlakka til framtíðarinnar.

Í mars ætlum við til dæmis að eyða langri helgi með spænskum vinapörum okkar í fjallakofa í fjöllunum hérna í nágrenninu. Við förum nokkur saman, flest strákar úr körfuboltanum og konurnar (kærusturnar) þeirra. Allt krakkar á okkar aldri sem við höfum kynnst ágætlega fram að þessu og líkar ofsalega vel við.

Aprílmánuður er síðan mikið tilhlökkunarefni þar sem við erum boðin í brúðkaup á Ítalíu og við erum ótrúlega spennt að fara. Við ætlum að fara nokkrum dögum fyrr, hjálpa til við undirbúning og njóta þess að skoða okkur um á N-Ítalíu. Við Lalli höfum einu sinni áður heimsótt Arabel (tilvonandi brúður) og fjölskylduna þeirra og vorum í sannkallaðri paradís allan tíman svo við iðum í skinninu að komast aftur til þeirra.

Í lok apríl og byrjun maí - eftir brúðkaupið ætla mamma og pabbi síðan að koma til okakr og skoða sig um í Bilbao og San Sebastian með vinafólki sínu frá Þýskalandi. Við hlökkum til að sýna þeim um og kenna þeim að borða pinxtos og drekka xtakoli.

Um sumarið er síðan von á fyrst Ottó og Elfu (sem við erum búin að bíða ótrúlega lengi eftir og hlökkum meira en allt til að fá) og Sibbu systur og kærastanum hennar sem eru á ferðinni um alla Evrópu að ég held og því frábært að þau komi við á Spáni til að heimsækja bæði Bilbao og San Sebastian.

Semsagt - nóg framundan!

Ást og Yndi

E+L

Monday, February 01, 2010

Á leið

í ferðalag!

Það vill svo (ó)heppilega til að við "neyðumst" til að heimsækja Kaupmannahöfn í fjárhagslegum erindagjörðum.

Hlökkum til að hitta allt frábæra fólkið okkar í Köben.

Thursday, January 28, 2010

Vinna með skóla...

er eitthvað soldið séríslenskt. Að minnsta kosti þekkist það lítið sem ekkert í Evrópu að fólk í fullu námi sé sífellt að vinna meðfram skólanum. Á Íslandi er þetta frekar regla en eitthvað annað. Ég byrjaði að vinna með skólanum í 9. bekk (vann á sumrin miklu fyrr - byrjaði að passa börn hálfan daginn sumarið sem ég var 10 ára). Ég þjálfaði fimleika tvisvar í viku í 9. og 10. bekk og eyddi flestum helgum líka í þjálfun og aðra vinnu tengda fimleikunum. Í menntaskóla þjálfaði ég líka allt upp í 5 sinnum í viku með skólanum og vann flestar helgar í fataverslun. Í háskólanáminu mínu vann ég líka við að þjálfa og fór fljótlega að vinna innan skólans; aðstoða við kennslu, rannsóknir og fleira í þeim dúr. Bottom line: Ég hef unnið meðfram námi frá því að ég var 14 ára eins og svo margir aðrir íslenskir krakkar.

Ég minnist þess að í Verzló þurfti ég iðulega að færa rök fyrir þessari vinnu þar sem kennurunum mínum fannst auðvitað (og réttilega líka) að nám sé full vinna og að nemendur ættu þar af leiðandi að eyða tíma sínum í að læra heima en ekki að vinna sér inn pening (sem færi bara í einhvern óþarfa hvort eð er). Ég held nú reyndar að vinnan sem slík hafi ekki endilega haldið mér frá lærdómnum á Verzlunarskólaárunum, frekar að djammið og útstáelsið (sem þurfti einmitt að vinna fyrir) hafi rænt mig tíma og orku til að standa mig sæmilega á prófum. En ég útskrifaðist að lokum og allt fór vel ;)

Í aðra röndina er ég pínulítið stolt af þessari íslensku seiglu og í sjálfu sér skil ég (ennþá amk) ungt fólk sem þykist þurfa að vinna endalaust til að eiga fyrir hinu og þessu. Það býr jú einfaldlega í einu mesta neyslusamfélagi veraldar leyfi ég mér að segja og vill ekki verða útundan. Þetta er líka merki um ákveðið sjálfstæði og sjálfsbjargarviðleitni því ekki getur allt ungt fólk beðið mömmu og pabba endalaust um peninga. Á hinn bóginn finnst mér þetta ekki endilega "ideal" aðstæður. Við Lárus tókum stóra ákvörðun sumarið 2005 og ákváðum að eyða því í Kaupmannahöfn og vinna "bara 5 tíma á dag" - rétt til að eiga fyrir bjór og pizzu. Við eyddum fyrstu vikunum í að afsaka og réttlæta þessa ákvörðun okkar við alla þá sem urðu á vegi okkar. Það fyndna var að engum í Kaupmannahöfn fannst þetta neitt merkilegt. Krakkar á okkar aldri voru eiginlega bara hálf hissa á því að við værum að eyða sumarfríinu okkar í að vinna eitthvað yfir höfuð! Þegar ég byrjaði í MA náminu haustið 2008 ákvað ég að gera tilraun til að vinna EKKERT með náminu. Ég ætlaði að tileinka náminu allan minn tíma. Fyrr en varði var ég komin í forfallakennslu í grunnskóla, fimleikaþjálfun og í vinnu innan háskólans!

Nema hvað, síðasta önn er fyrsta önnin síðan ég var 14 ára þar sem ég hef í raun og veru ekki unnið neitt með skóla. Það skapast fyrst og fremst af því að ég tala ekki tungumálið fullkomlega og kannski líka af því að nú ætlaði ég virkilega að reyna að einbeita mér að skólanum...

Í dag réð mig í vinnu við að kenna litlum spænskum krökkum ensku. Sem betur fer segi ég nú bara!! Nú er ég hætt að reyna að berjast á móti íslensku ofvirkninni og hlakka til að hafa eitthvað að gera fyrir utan skóla... Á meðan það inniheldur ekki stanslaust djamm og útstáelsi þá held ég að það bitni ekki á frammistöðu minni í skólanum. Ef það fer að gera það... þá er ég amk í æfingu frá því í Verzló að rökræða og réttlæta þetta allt saman fyrir kennurunum mínum!

Bókaormar

Vorum að bæta við nýjum bókum sem við erum búin að vera að lesa á "við mælum með" listann okkar. Lárus er hins vegar búinn að lesa miklu miklu fleiri. Mér reiknast til að hann hafi lesið núna frá því að við fluttum út - og nú ýki ég ekki - svona um það bil 30 bækur. Þannig að ef ykkur vantar hugmynd af góðri bók, spyrjuð þá Lalla.

Ég er sjálf búin að lesa þarna Kirkju Hafsins sem er þykkur doðrantur upp á mörg hundruð blaðsíður og maður þarf aðeins að hafa sig í að byrja en eftir fyrsta kaflann er ekki séns að maður leggi bókina mikið frá sér. Ég las hana í matarboði hjá vinum okkar svo spennandi var hún. Þetta er samt enginn thriller (komin með nóg af þeim) heldur bara lífssaga manns sem elst upp í Barcelona á miðöldum og lendir í ýmsum háska, ævintýrum og raunum. Ég er síðan líka búin að lesa Hvíta Tígurinn sem ég mæli eindregið með. Auðveld og auðlesin bók sem lýsir Indlandi og lífi venjulegs fólks á afar raunsæan og kuldalegan hátt. Frábær lýsing á heimshluta sem við þekkjum í raun svo lítið til. Soldið svona survival of the fittest saga.

Wednesday, January 27, 2010

Kuldakast

Smávegis kuldakast sem skall á hérna Í Bilbao í gær. Í nótt fór hitinn niður í 0 gráður og var um það bil +6 þegar ég lagði af stað í síðasta prófið mitt í morgun. Ég andaði bara ofan í hálsmálið og var í tvennum sokkabuxum svo mér varð ekki meint af. Veit hins vegar ekki hvernig okkur Lárusi á eftir að reiða af þegar við fljúgum til Kaupmannahafnar eftir helgi. Þar er víst fimbulkuldi, snjóbylur og ekki hundi út sigandi.

Annars er tilfinningin góð sem fylgir því að hafa lokið við síðasta áfangaprófið í þessu meistaranámi. Nú tekur við frímánuður sem ég hafði hugsað mér að nota til að safna heimildum og undirbúa ritgerðarskrifin. Prófið gekk vel og ég ræddi um heima og geima við prófdómarann í rúman klukkutíma. Nánast ekkert um ritgerðina, mestmegnis um baskneska þjóðernisvitund, ETA, heimspeki, kúltúrmun á S-Spáni og N-Spáni, siðmenningu og fleira fróðlegt. Ég þekki hann aðeins þar sem hann var yfir prógramminu í fyrra en hætti nú í ár og var ráðinn sem forseti education-deildarinnar í staðinn. Honum finnst jafnvel skemmtilegra að tala en mér og þess vegna varð prófið svona í lengri kantinum en að lokum komumst við að þeirri niðurstöðu að hætta að masa og fallast á það að ritgerðin hefði bara verið í fína lagi. Einkunn fæ ég hins vegar ekki fyrr en 1. mars. Ég hugsa að hann hafi bara samþykkt þá einkunn sem leiðbeinandinn minn gaf mér (sem ég veit ekki enn hver er).

Þrátt fyrir kuldakastið erum við Lalli spræk að vanda og bjartsýn á komandi tímabil. Lalli verður að spila körfubolta fram í maí enda er deildin hérna töluvert stærra en heima og þar af leiðandi fleiri leikir spilaðir. Í vor og sumar er síðan von á fullt af góðum gestum og við erum aðeins byrjuð að skipuleggja tímann okkar til þess að engar tvær heimsóknir rekist nú á og til þess að hafa örugglega tíma fyrir allt það góða fólk sem ætlar að kíkja til okkar.

Sunday, January 24, 2010

BB

horfðum á Bilbao Basket tapa fyrir Vitoria sem var eiginlega bara ekkert leiðinlegt. Höllin sem BB spilar í er RISA stór og er staðsett inn í svokölluðu BEC eða Bilbao Exhibition Center sem hýsir miklu fleira en bara þessa annars huge körfuboltahöll. Leikurinn í dag var Derby leikur þar sem bæði lið eru staðsett á Viskaya og eru nágrannalið. Stemmingin var eftir því skemmtileg, mikið öskrað, æpt og sungið. Höllin tekur um það bil 15.000 manns og það er bara pjúra skemmtun að fara á svona leiki - sama hver úrslitin verða. Enda bjóst kannski engin við að BB myndi vinna Vitoria sem er mun ofar í deildinni en við.

Annars er allt að falla í ljúfan löð hjá okkur skötuhjúum ég klára síðasta prófið mitt í þessu námi á miðvikudaginn næstkomandi og þar með líkur allri vinnu sem ekki er beintengd MA ritgerðinni. Febrúar, sem er í raun frímánður þar sem næsta önn byrjar ekki fyrr en 1. mars, ætti að nýtast mér í heimildaröflun og undirbúning fyrir ritgerðina. Síðan er bara að eyða næstu mánuðum í að lesa og skrifa til skiptis.

Við erum ennþá í skýjunum yfir styrknum sem ég fékk og léttir okkur heldur betur lífið á komandi önn. Spurning hvort við þurfum ekki hreinlega að gera okkur ferð til Kaupmannahafnar til að sækja peningana og fagna með þeim sem hjálpuðu okkur að sækja um ;)

Tuesday, January 19, 2010

Afmælisdagurinn...

minn, 18. janúar sl. var samkvæmt mælingum versti dagur ársins 2010. Ástæðurnar gefa svosem tilefni til að ætla að þetta yrði slæmur dagur en samkvæmt einhverjum rannsóknum er líklegt að á þessum degi blandist saman slæmt veðurfar, lokanir á visakortum, yfirdrættir, jólaskuldir og almennt skammdegisþunglyndi. Þar hafið þið það!


Eins og vísindin höfðu spáð fyrir um varð dagurinn kannski ekki sá allra lukkulegasti. Ég eyddi um það bil 3 klukkutímum á læknavaktinni sem endaði með því að ég fékk ávísað lyfjaskammti sem dugar út árið. Ekkert alvarlegt svosem, króníska blöðrubólgan bara að gera vart við sig en engan veginn ánægjulegt heldur. Um kvöldið var síðan meiningin að lyfta sér örlítið upp og bæta fyrir frekar slappan dag. Þar sem ég er mikill sushi aðdáandi gerði ég dauðaleit að eina sushi staðnum í Bilbao og vildi ekkert annað fara. Okkur fór nú frekar fljótt að gruna eitthvað misjafnt þegar við sátum ALEIN inni á risastórum staðnum með þjónustustúlkurnar á næsta borði við okkur að rúlla inn sushi, plasta og leggja í mót sem kokkurinn kom svo og setti í frysti nánast fyrir framan nefið á okkur. Það þarf varla að taka það fram að sushið var vægast sagt skelfilegt, fiskurinn seigur, brúnn og gamall og hrísgrjónin hálf frosin ennþá. Öll herlegheitin voru síðan borin fram á einhverjum kínverskum drekabát úr timbri sem gerði það að verkum að sushið festist við timbrið og það flísaðist upp úr því þegar maður reyndi að losa sushið af. Huggulegt.

Við hlógum bara af þessu og héldum heim eftir að hafa gefist upp á sushinu og hrísgrjónavíninu sem okkur var boðið í sárabætur. Það var þó lán í óláni að á heimleiðinni duttum við inn á frábært vínhús, fengum súper gott hvítvín og æðislega þjónustu. Við merktum við staðinn sem "gestastaður" það er, staður til að fara með gesti á þegar við fáum næst heimsókn til Bilbao.

Þegar versti dagur ársins var yfirstaðinn tók við það sem mætti jafnvel kalla besti dagur ársins. Mér til mikillar gleði færði Ágúst Elvar okkur þær fréttir að heim til hans í Kaupmannahöfn hefði borist bréf og í því stæði að ég hefði hlotið skólastyrk úr svokölluðum Ragna Lorentz sjóð. Sjóðurinn er ætlaður fyrir íslenska stúdents sem nema menntafræði við DPU og ég rétt náði að sækja um á réttum tíma, Hildi Maríu vinkonu minni að þakka. Hún opnaði nefnilega bréf stílað á mig (sem barst heim til hennar í CPH) rétt fyrir jól og hringdi strax í mig og bað mig vinsamlegast um að senda inn umsókn.

Umsóknin virkaði svona líka vel og ég hlaut vægast sagt ríflegan styrk sem kemur vonandi til með að duga mér og Lárusi eitthvað fram eftir ári. Sannkölluð búbót og ég á eftir að þakka henni Rögnu Lorentz (veit ekkert hver það er samt) mikið og vel á næstu mánuðum fyrir að borga mér fyrir að skrifa MA ritgerð. Ég er eiginlega ennþá að ná þessu. Að vera á launum við að læra er náttúrlega draumastaða fyrir mig - eilífðarnámsmanninn. Lifelong learning kostar sitt :)

Kannski ég plati Lalla út í pinxtos og txakoli eftir körfuboltaæfingu í kvöld - það er nú í lagi að fagna pínu pons er það ekki?

Wednesday, January 13, 2010

2009 í máli og myndum


Janúar hófst með glaðningi frá Íslandi. Fullt af nammi, lýsi, harðfiski og flatkökum.



Við skötuhjú skelltum okkur líka til Aarhus að heimsækja Hadda og Bjarney


Valentínusardagurinn var haldinn hátíðlegur á okkar heimili í febrúar


Ég horfði á ófáa körfuboltaleiki með Agne



Námsmannalífið í Köben bauð bara upp á heimaklippingar :)


og veturinn bauð upp á nokkur pigeaften á Matthæusgade 48



Lárus gerði meira en að spila körfubolta í mars tók hann líka þátt í leik/dans sýningu sem byggðist á körfubolta og dansi.



Í apríl mætti síðan vorið til Köben og svalirnar voru óspart notaðar



Ég hélt fyrirlestur fyrir danska menntaskólanemendur



Við skruppum aðeins til Íslands og sáum BSO alveg splunkunýjan



Fyrstu sumargestirnir okkar til Köben voru Berglind og Hilmar :)




Stórfjölskyldan frá Giljum kom líka í heimsókn




sem og litla fjölskyldan úr Brúarhvammi



Við fórum síðan í surprize heimsókn til Íslands og næstum beint á Vopnafjörð



Það var blíða á Íslandi í ágúst



Við fluttum síðan inn í töluvert minni íbúð í Köben þar sem voru ekki svalir




En veðrið var gott og við borðuðum bara oftar úti í garði



og fórum oft á ströndina


Í ágúst hélt ég fyrirlestur um borgaravitund á ráðstefnu á Ítalíu í 40 stiga hita




Við fluttum síðan til Bilbao í byrjun september og þar tók blíðan á móti okkur



og Guggenheimsafnið í allri sinni dýrð


Lárus henti í eina meistararitgerð í september og útskrifaðist sem meistari í alþjóðasamskiptum



Við fengum síðan fyrstu gestina okkar sem voru á pílagrímsgöngu



Borðuðum góðan mat og ferðuðumst um Norður strönd Spánar




Lárus efst uppi....


...á þessari hæð


Næstu gestir sem vermdu stofugólfið - Halla og Bjöggi :)

Meira pinxtos....


2009 var ár gleði og sorgar eins og flest önnur ár. Við eignuðumst nýja vini og misstum aðra. Við fluttum frá Kaupmannahöfn til Bilbao og áttuðum okkur á gildi vináttu og fjölskyldunnar enn og aftur. Lentum í ýmsum ævintýrum og kynntumst nýrri menningu. Tókumst á við ýmis verkefni bæði andlega og líkamlega, unnum ýmsa sigra og höldum enn áfram að takast á við lífið og tilveruna.

Við erum spennt fyrir árinu 2010. Það mun vonandi færa okkur gleði og hamingju, ást og umhyggju fyrir hvort öðru og okkar nánustu. Við erum oftar sem áður ekki með niðurneglt plan fyrir árið og ætlum að taka opnum örmum á móti því sem okkur býðst. Í gegnum árin höfum við lært að lífið er ekki endilega alltaf dans á rósum og yfirleitt þarf að vinna örlítið fyrir hamingjunni. En við höfum líka lært að lífið býður upp á óteljandi möguleika og það er okkar að grípa tækifærin þegar þau gefast. Þykja vænt um hvort annað og vera sátt með það líf sem við veljum okkur.

Takk fyrir árið 2009 við hlökkum til að takast á við árið 2010 með ykkur öllum.

Eva + Lalli - satt og sannað :)