Sunday, April 17, 2016

Hér og nú

Sítrónurnar falla af trjánum og veturinn í Malaví nálgast með yndislega svöl kvöld og morgna og heiðbláan himinn. Klukkan er sjö og reykjarlyktin berst með morgungolunni frá nærliggjandi þorpum þar sem malavískar konur matbúa morgungrautinn yfir opnum eldi. Haninn í næsta húsi hóf raust sína um fimm leytið og fyrstu sólargeislarnir smeygðu sér inn um gluggann um klukkan sex. Þá vaknaði líka yngsti fjölskyldumeðlimurinn og heimasætan skreið upp í til okkar. Fullkomin eining.

Við eyddum gærkvöldinu í félagsskap fólks sem kann að segja skemmtilegar sögur og njóta stundarinnar. Við höfum kynnst fólki hér í Malaví sem kemur frá ótal ólíkum löndum og sinnir mismunandi verkefnum en hefur á einhvern undraverðan hátt svo sameiginlega sýn á lífið. Að njóta, virða og elska.

"Mamma við skulum bara vera í núhugsun" sagði Hera Fönn við mig um daginn þegar við ræddum fortíð og framtíð. Það er takmarkið - að njóta samveru, fólks, umhverfis og aðstæðna á meðvitaðan og markvissan hátt næstu mánuðina þangað til að Malavíævintýrið okkar rennur sitt skeið og önnur taka við.