Monday, December 07, 2015

Afleiðingar veðurs

Akkúrat núna eru flestir heima á Íslandi búnir að gera einhverjar ráðstafanir vegna væntanlegs veðurofsa sem gengur yfir landið í kvöld. Sumir keyptu kannski einum poka of mikið í bónus - bara til vonar og vara - aðrir kveiktu óvart á öllum aðventukertunum í spenningskasti og einhverjir keppast við að baka til þess að róa taugarnar og "hafa kósý". 

Á meðan á þessu stendur lekur af okkur svitinn hér í hjarta Afríku þar sem sumarhitinn er í hámarki og rigningartímabilið ennþá svo að segja í startholunum. Í morgun skutlaði ég Heru Fönn fyrir allar aldir í leikskólann og fékk að launum eitt af betri bílastæðunum á planinu. Undir skyggni og stóru tréi, rétt hjá aðalhurðinni. Gæti ekki verið betra. Þegar ég kom út í bíl í hádeginu var ég því engan vegin viðbúin því að setjast inn í þann 45 gráðu suðupott sem myndast hafði í bílnum um morguninn. Þegar ég settist inn og lokaði hurðinni snarlega á eftir mér sortnaði mér fyrir augum og náði ekki andanum. Ég opnaði því hurðina aftur og hleypti "fersku og kaldara" (37 gráðu) lofti inn í bílinn til þess að ná áttum. 

Á leiðinni heim veðjaði ég við Heru Fönn um að það myndi rigna afar fljótlega. Ég svindlaði kannski smávegis því það var orðið svo rakt að rigningin var gjörsamlega áþreifanleg þrátt fyrir að það væri varla ský á himni. Það breyttist fljótt því fljótlega upp úr hádegi fóru að myndast feit og pattarleg ský á himninum sem gáfu góð fyrirheit um gusugang. Þegar ég renndi síðan í hlaðið heima hjá mér um kaffileytið var orðið ansi þungbúið. Nú voru hins vegar allir úti við því við skýin gáfu nú í fyrsta skiptið í langan tíma grið fyrir sólinni og því tækifæri til að leika sér úti. Hera og Chifundo voru í frisbee og Alexander fékk að horfa á þær stöllur úr hæfilegri fjarlægð vafinn inn í chitenga á baki barnfóstrunnar.

Nokkrum mínútum eftir að ég kom upphófst drynjandi þrumugangur, himininn logaði af eldingum og síðan kom HELLIDEMBA. Ekta útlandarigning - jaðraði við að vera hagl slík voru lætin. Allt saman þó beint niður og enginn veðurofsi þannig séð. Hvílíkur léttir! Hugtakið "gott fyrir gróðurinn" fær aðra og margfalda merkingu í landi þar sem hefur ekki rignt í um það bil 8 mánuði. Það er bókstaflega hægt að sjá með berum augum þegar plöntur og gras teygja sig eftir dropunum, vaxa og spretta. 

Einn af fylgifiskum regntímabilsins hér í Malaví er fjölgun á ýmsum skordýrum, þar á meðal eru fljúgandi maurar. Já einmitt, fljúgandi maurar. Í kvöld gerðist það að eftir rigninguna heltók okkur eitthvað kæruleysi, íslenskt veðurblæti og hugsunarleysi þegar við lokuðum ekki hurðunum eftir skúrinn heldur opnuðum hreinlega upp á gátt til að leyfa ferska loftinu að komast inn. Þetta þýddi að sjálfsögðu að það komst fleira inn en ferska loftið. Á nokkrum sekúndum fylltist eldhúsið af fljúgandi maurum sem leituðu í ljósið. Ég sýndi töluverða stillingu og hugrekki og óð í gegnum skýið til þess að loka útidyrahurðinni. Síðan lokaði þá af inni í eldhúsi og leitaði skjóls í stofunni. Lárus fór síðan og gerði út um þá með þar til gerðu spreyi. Samvinna! Annars eru þetta hin meinlausustu grey sem eiga sér afar stutta og dramantíska ævi. Við rigningar sem þessar fljúga þessir tilteknu maurar í massavís upp úr grasinu og leita beint í fyrstu ljóstýruna sem þeir sjá... flugið sem varir einungis í nokkrar mínútur endar með því að þeir missa vængina, falla til jarðar og drepast nokkrum mínútum eftir að þeir fengu frelsið og flugkraftinn! 

Flippaða hliðin á þessu öllu er síðan að nú lýsa verðirnir mínir um allan garð með vasaljósi í leit að þessum maurum því hér í landi þykja þeir hið mesta sælgæti steiktir á pönnu með dassi af salti. 


  

Wednesday, December 02, 2015

Þessi fallegi dagur...

Nánast án undantekningar og óháð vikudegi vaknar fjölskyldan um fimm leytið. Enda ekki eftir neinu að bíða. Sólin er farin að skína, haninn í næsta garði farinn að gala og litla mannlega vekjaraklukkan okkar hann Alexander Hafsteinn er glaðvaknaður og farin að hjala eftir mjólk að súpa. 

Okkur mæðgum til mikillar lukku, og fyrir þá sem ekki vita, er Lárus einstaklega mikill morgunrútínukall. Rútínan hans er okkar lukka því hún felst í því að við fáum morgunmat á hverjum morgni sem myndi á flestum heimilum flokkast sem algjör spari-morgunmatur. Normið er yfirleitt eggjahræra eða eggjakaka stútfull af grænmeti og vítamínum. Þessu fylgir jafnan ristað brauð ásamt jógúrt með ferskum jarðarberjum og heimagerðu múslí. Heimasætan vill yfirleitt smá kornflex líka og fær það. 

Eftir svona start á deginum getur lífið ekki annað en brosað við manni. Oftast er það líka raunin. Eftir að hafa kysst og knúsað kallana okkar keyrum við Hera Fönn á leikskólann hennar með útvarpið í botni. Í dag hlustuðum við á Ásgeir Trausta og sungum með. Sökum þess hversu snemma ég þarf að vera mætt á skrifstofuna er Hera oftast fyrst eða með fyrstu börnunum a leikskólann. Hún fer stundum með kál og gulrætur með sér til að gefa kanínunum sem skólinn heldur og fer nánast án undantekningar beint að róla enda ALLTAF veður til að leika úti. Leiðin á leikskólann er ekki löng en engu að síður er ótrúlega margt að sjá. Í fyrradag urðu til að mynda 10 afar skrautlegir (og vígalegir) hanar á vegi okkar og í gær hljóp apaköttur fyrir bílinn rétt áður en ég beygði inn á Unicef bílastæðið. Það er líka ótrúlega margt fólk á götunum. Hjólandi og gangandi. Fjögurra manna fjölskylda a einu hjóli. Konur í hefðbundnum klæðum að koma úr nærliggjandi þorpum með mörg kíló af tómötum á höfðinu og óteljandi börn í bláum skólabúningum á leið í skóla. Eftir rúm tvö ár hér í Malaví er ég ennþá jafn undrandi á öllu því sem fyrir augu ber, sérstaklega á morgnana þegar göturnar iða af lífi. Einstaka sinnum keyri ég líka fram hjá góðum vini okkar honum Gumma sem vinnur hjá Þróunarsamvinnustofnun og fer hjólandi í vinnuna. Ég þekki hann á hjálminum! 

Ég mæti í vinnuna um sjö leytið. Heilsa vörðunum sem vakta bílastæðið á chichewa "muli banji" og reyni síðan að ná stæði undir skyggni svo það verði líft í bílnum um hádegisleytið. Í vinnunni er enginn dagur eins en yfirleitt eyði ég fyrsta hálftímanum í að fara yfir tölvupóstinn og forgangsraða verkefnum. Akkúrat þessa dagana er mikið um skýrsluskrif og ársuppgjör bæði við þá sem hafa styrkt menntadeildina um fjármagn en líka innan Unicef. Síðan er ég þessar vikurnar að vinna að tveimur stórum verkefnum með menntamálaráðuneytinu hér í landi. Hið fyrra snýr að því að reyna að tryggja nokkrum forgangsatriðum úr menntaáætlun landsins brautargengi. Staðan er nefnilega sú að ráðuneytið getur ekki tekið við beinum styrkjum í gegnum þróunaraðstoð vegna fjármálaskandals sem kom upp hér í Malaví árið 2013. Þetta ástand hefur óneitanlega leitt til heilmikillar seinkunar á mikilvægum verkefnum. Norska sendiráðið hér í landi er með frábæran menntasérfræðing á sínum vegum sem hefur undanfarnar vikur unnið með mér í því að útbúa verkefni sem miðar eingöngu að því að styðja við þau verkefni sem eru efst á baugi samkvæmt menntaáætlun landsins til þess að reyna að sporna gegn þessari miklu seinkun á mikilvægum verkefnum. Norska sendiráðið leggur því til umtalsverða peninga til ráðuneytisins en beinir þeim í gegnum UNICEF til að tryggja gegnsæi og að allir sjóðir séu notaðir á réttmætan hátt. Ég hef skrifað um það áður hversu mikilvægt það er að mínu mati að styðja við þá ferla, ramma og áætlanir sem eru til staðar í landinu og það er markmiðið okkar í þessu verkefni númer eitt, tvö og þrjú. Við erum ekki að búa til okkar eigin verkefni heldur eingöngu að styðja við það sem stendur í áætluninni þeirra. Seinna verkefnið sem tekur mikinn tíma þessa dagana er afar spennandi verkefni sem snýst um að koma á gagnaöflun í rauntíma eða það sem kallast á ensku "real time monitoring". Í samvinnu við menntamálaráðuneytið erum við að koma á fót kerfi þar sem skólastjórar og kennarar geta sent upplýsingar í gegnum SMS um skólann sinn á viku til mánaðarfresti. Til dæmis hversu margir nemendur og kennarar eru mættir, upplýsingar um brottfall og hvort að matargjöf hafi átt sér stað eða ekki. Í aðstæðum þar sem sárafáir skólar búa við rafmagn og enginn í skólunum hefur aðgengi að tölvu er gagnaöflun af þessu tagi ómetanleg. Það er nefnilega svo ótrúlegt að hér eiga allir gsm síma (nema ég akkúrat þessa stundina). Það er hægt að fá mjög fína síma á ótrúlega lágu verði og einhvern veginn virðist sem að nákvæmlega þetta tæki sé það sem Malavar forgangsraða. Enda afar mikilvægt samskiptatæki. Gögnin sem kennararnir senda berast í rauntíma til ráðuneytisins sem og okkar í Unicef þar sem við getum greint þau og brugðist við á skömmum tíma til þess að bæta eða breyta eftir því sem þarf. 

En aftur að daglega lífinu... á skrifstofunni er ég með forláta viftu á skrifborðinu mínu sem ég útvegaði mér sjálf eftir að hafa lært af biturri reynslu að loftkælingin virkar sjaldnar en einu sinni í viku. Ég þarf að passa vel upp á hana því fólk girnist hana að sjálfsögðu í mestu hitabrælunni. Ég sit við glugga en hef mjög takmarkað útsýni. Beint út á bílastæðið! En ég sé reyndar líka UNICEF fánann sem blaktir beint fyrir utan gluggann minn og síðan heimsækir mig lítill skærgulur og blár fugl á hverjum degi. Hann situr á gluggasyllunni og goggar án afláts í rúðuna. Hann speglast nefnilega í rúðunni og heldur því að þar sé annar fugl alveg eins og hann. Ég hef reynt að gefa honum að borða en hann flýgur jafn harðan í burtu ef ég opna gluggann.

Ég er ennþá með Alexander á brjósti og fæ því að fara ca hálftíma fyrr úr vinnunni í hádegismat. Ég nýti tímann líka til að sækja Heru Fönn í leikskólann. Hún er yfirleitt inni þegar ég kem enda heitasti tími dagsins og varla verandi úti á þessum árstíma. Við kaupum oft banana og avakadó af sölumönnum við veginn á leiðinni heim. Þeir þekkja okkur vel en það er sama hversu oft ég versla af þeim þeir reyna alltaf að selja mér ávextina á hærri verði í dag en í gær. Undanfarið hefur reyndar verið mjög góður jarðarberja sölumaður fyrir utan leikskólann sem kemur með jarðarber inn í borgina sem vaxa sunnar í Malaví. Yndislega góð, safarík og á frábærum díl! Þessi tími í bílnum með Heru Fönn bæði til og frá leikskóla er okkur mæðgum mjög mikilvægur því þá náum við að spjalla heilmikið saman um margt sem skiptir máli. Það er líka búið að vera ómetanlegt að komast heim í hádeginu til að eiga smá fjölskyldutíma þar sem við erum öll saman í rólegheitum. Ég skutlast síðan aftur í vinnuna og skil öll krúttin eftir heima. Stundum skutlar Lárus mér og stússast eitthvað niðrí bæ (gerir allt sem þarf að gera semsagt). Hera Fönn leikur sér oftast við Chifundo vinkonu sína seinnipartinn sem á heima hér á lóðinni okkar og er dóttir hennar Gloríu sem hjálpar okkur með húsið og börnin. Hera og Chifundo bralla ótrúlegustu hluti saman, allt frá því að lita og púsla til þess að syngja þjóðsöng Malaví hástöfum. Þær eru alveg eins og systur (knúsast og slást) og eru báðar mjög heppnar að eiga hvor aðra. Lárus nýtir daginn sinn mjög vel í að vinna og læra, enda bæði að  sinna stórum kúnnahóp í fjarþjálfun og að klára diplómu í næringarþjálfun (fyrir utan að hugsa um konuna sína og börn). 

Kvöldverkin okkar eru mjög hefðbundin. Yfirleitt fær Hera að svamla í köldu baði á meðan Alexander tekur sér stuttan seinnipartslúr og við Lárus æfum á svefnherbergisgólfinu. Við eigum tvær jógadýnur og fjárfestum nýlega í einu lóði, bolta og teygju. Annars höfum við notast við það sem hendi er næst og gert allar æfingarnar í prógramminu hérna heima. Myrkrið kemur klukkan sex, á slaginu, og þá erum við yfirleitt öll orðin frekar lúin. Matartíminn okkar er nánast alltaf í fyrra fallinu og við erum oftast búin að gera vikumatseðil sem hjálpar ótrúlega mikið þegar kvöldin eru stutt og tíminn knappur. Börnin sofna yfirleitt um sjö leytið eftir sögu og söng og við Lárus stuttu seinna....