Friday, November 26, 2010

Keflvísk kósýheit

Í ágústlok fannst mér heldur kuldalegt til þess að hugsa að flytja "upp á völl" eins og það er kallað eða á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll enda er byggðin staðsett upp á miðri heiði, þeirri sem nefnist Miðneðsheiði.

Þessi dreifða og sundurslitna byggð gæti ekki verið ólíkari þeim miðbæjarkjörnum sem ég hef búið í á síðast liðnum fjórum árum sem eru í réttri röð: Miðbær Reykjavíkur, miðbær Kaupmannahafnar og miðbær Bilbao. Nú í fyrsta lagi er óskaplega langt á milli húsa og að Amerískum hætti er heiðin nánast malbikuð af bílastæðum. Hér við blokkina mína - sem er númer eittþúsund tvöhundruð tuttugu og fimm (þrátt fyrir þá augljósu staðreynd að ekki séu svo margar íbúðir til staðar) er til dæmis gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á hverja íbúð - planið hér fyrir utan dekkar því 24 rúmgóð stæði. Þessi einfalda (eða öllu heldur tvöfalda) regla gildir fyrir allar blokkir á svæðinu og því held ég það væri þjóðráð að halda bíladagana árlegu næst hérna á Ásbrú en ekki á Akureyri. Enda nóg af lausum stæðum...

En það er fleira sem skilur að. Við Ásbrú eru til að mynda engar sólahrings búðir líkar þeim sem ég vandist fljótlega á við Eggertsgötu í Reykjavík og Vesterbrogade í Kaupmannahöfn. Hér er ekki heldur hægt að stóla á Tyrkneska kebabsölumenn síðla næturs eða árla morguns þegar hungrið sverfur að en það kom sér oftar en ekki vel bæði á götum Kaupmannahafnar sem og í miðbæ Bilbao. Hér á Ásbrú hef ég heldur ekki rekist á einn einasta stað sem selur eitt rauðvínsglas og lítinn smárétt á spotprís eða girnilegan núðlurétt á 500 kall.

Já það er staðreynd að hér er lengra á milli húsa og lítið um úrval veitingastaða. En þrátt fyrir ólæknandi veitingastaðaást og þörfina fyrir að hafa fullt af fólki í kringum mig hefur mér tekist að þykja vænt um Ásbrú og Miðnesheiðina sem hún stendur á. Með hverjum deginum líður mér meira eins og "heima" og ég hef lært að meta ýmislegt nýtt og notalegt.

Á morgnanna þegar ég rölti í vinnuna get ég ekki annað en dáðst að því ótrúlega útsýni sem íbúum Ásbrúar býðst. Í morgunlogninu er ekkert minna en magnað að líta yfir fjallahringinn og sjá Snæfellsjökul í allri sinni dýrð. Norðurljós og stjörnur skína töluvert skærar hér á heiðinni en í miðborgum Danmerkur og Spánar og í aðdraganda jólanna hefur síðan verið einstaklega ljúft að kúra inni í hlýrri íbúð með kveikt á kertum og hlusta á vindinn blása (sem hann gerir ósjaldan hérna).

Fjöllin, útsýnið, víðáttan og vindurinn búa til sérstaka stemmingu sem eru koktell af Keflvískum kósýheitum.

Thursday, November 18, 2010

Æ það reddast...

Síðan við fluttum heim höfum við skötuhjú haft meira en nóg að gera. Hr. Jónsson vinnur í grunnskóla sem umsjónakennari og það eitt og sér er starf fyrir heilt þorp en ekki eina manneskju... "it takes a village to raise a child..." þið vitið. Síðan er það körfuboltinn, æfingar og einkaþjálfun. Ég er semsagt að reyna að færa björg í bú líka og er að kenna bæði upp í HÍ og hérna suður með sjó í Keili. Síðan er ég líka að vinna að rannsóknum fyrir Háskólann sem er auðvitað ótrúlega skemmtilegt og nauðsynleg fyrir svona námslúða eins og mig.

Allavega þetta er allt gott og blessað og alls ekkert einsdæmi... ég og Lalli erum ekkert "ofur" ef þið fáið það á tilfinninguna (sem þið fenguð samt örugglega ekki). Þegar ég tala við vinkonur mínar eru þær nefnilega langflestar sjálfar í mörgum vinnum eða jafnvel mörgum vinnum OG skóla. Síðan eiga þær líka þrjú börn og mæta reglulega í ræktina. Það er því augljóst að ég tapa þessari keppni strax enda bara með eitt barn sem er meira að segja ennþá í maganum - og eina ræktin mín er slökunar-meðgöngujóga á þriðjudagskvöldum sem ég er nýbyrjuð í.

Staðreyndin er nefnilega sú að fólk hérna á Íslandi er upp til hópa ofvirkt, vinnusjúkt og þarf sífellt að vera allt í öllu - allstaðar. Ég var eiginlega búin að gleyma þessu samfélagsmunstri þangað til að ég kom heim aftur og sogaðist inn í þetta fyrirkomulag nánast frá fyrsta degi. Nú er ég ekki að kvarta enda vita allir að áttunda dauðasyndin (amk hérlendis) er að kvarta yfir því að það sé of mikið að gera. Í þeim anda spurjum við fólk hvort það sé "ekki brjálað að gera" til þess að staðfesta velgengni og velmegun náungans en ekki endilega til þess að láta okkur annt um til dæmis heilsu viðkomandi.

Þrátt fyrir að hafa sogast hratt inn í þessa skemmtilega klikkuðu hringiðu hef ég átt í örlitlum erfiðleikum með að aðlaga mig að þessum aðstæðum. Ég er til dæmis ennþá mjög oft á spænskum tíma og er þar af leiðandi oftar en ekki aaaaðeins of sein. Ég keypti ekki dagbók fyrr en nokkrum mánuðum eftir að við komum heim (enda var ég löngu hætt að nota slíkt aparat) og lenti þar af leiðandi ítrekað í því að tví- og þríbóka mig á hin og þessi stefnumót. Ég afrekaði til dæmis að vera búin að bóka mig í viðtal í Reykjavík í síðustu viku á sama tíma og ég átti að vera í 20 vikna sónarskoðun og reyndar líka á kennarafundi í Keili... Úbbs!

Nú það skrýtna og skemmtilega við þetta allt saman er að þrátt fyrir annríkið, stressið, ofbókanir og áætlanir úr skorðum þá hef ég nákvæmlega engar áhyggjur af þessu ástandi og þetta truflar mig ekki vitund. ÞAÐ er mjög óvenjulegt þar sem venjulega myndi ég takast á við þessar aðstæður (eins og ég hef alltaf gert hingað til) með því að reita hár mitt, fá stresskast og hætta að borða.

En nú er öldin önnur! Ég held nefnilega að einu hormónabreytingarnar sem fylgja krílinu í kúlunni séu of stórir skammtar af kæruleysishormóni. Ég er ekkert sérstaklega viðkvæm, ekki slæm í húðinni, ekki skapstór, ekki grátgjörn, finn ekki til í brjóstunum og fæ ekki reiðiköst eða önnur merkjanleg hormónaviðbrögð... nema þau að mér er bara gjörsamlega alveg slétt sama þó svo að það sé mikið að gera hjá mér. Mitt í öllu stressinu og kapphlaupinu segi ég einfaldlega við sjálfan mig "æ þetta reddast" og það besta er að það gerir það yfirleitt alltaf.

Ég mæli með að fólk þrói með sér slatta af kæruleysi (með barneignum eða án) og taki á móti öllu jóla/vinnu/fjölskyldu stressinu með því að slaka örlítið á, yppta öxlum og leyfa hlutunum að ráðast.

Tuesday, November 16, 2010

Jólaskapið

Síðastliðin ár hef ég ekki fundið beint fyrir einhverju jólaskapi, jólaanda eða jólafíling - allt eftir því hvað fólk kýs að kalla þetta hugarástand sem virðist grípa marga í desember eða nóvemberlok (eða jafnvel í október).

Ég velti því fyrir mér núna hvað valdi því að ég finni nú allt í einu fyrir einhverjum undarlegum tilfinningum sem ég held að ég verði að skrifa á "jólaskap" - ég er farin að hlakka til jólanna, ég hugsa um jólagjafir, jólaskraut og jólakort. Ég hef meira að segja velt því fyrir mér að gera aðventukrans (eitthvað sem ég hef aldrei á ævinni gert). Síðustu ár höfum við nefnilega verið búsett erlendis og ég held að það hljóti að hafa haft áhrif á þennan annars litla jólaáhuga fram að þessu. Að minnsta kosti virðist jólaandinn svífa yfir íslenskum vötnum og ég er sífellt minnt á það að jólin séu á næsta leyti.

Rjúpnaveiðitímabilið var fyrsta áminningin og ég fékk strax vatn í munninn þegar ég fór að heyra fréttir af rjúpnaveiðiskyttum í hættu upp á miðjum heiðum. Uuu þetta gæti misskilist - ekki það að ég hafi fengið vatn í munnin yfir óförum rjúpnaveiðimanna heldur auðvitað yfir bráðinni sem ég vissi að þeir væru að hætta lífi og limum fyrir.

Síðan eru það þessi lúmsku skilaboð sem smokra sér inn í undirmeðvitundina og fara þar að móta allskyns hugmyndir og langanir. Til dæmis er ekki farið að spila jólalög í útvarpinu ennþá - enda bara 16. nóvember og eins gott að reyna að draga þetta alveg fram í desember til þess að við fáum ekki öll ógeð af Helga Björns og "þó ég nenni" laginu hans. Hins vegar er farið að lesa smáauglýsingarnar með undirspili sem minnir æði margt á lagið "rúdolf með rauða nefið". Á stöð 2 er síðan auðvitað byrjað að auglýsa jóladagskránna með tilheyrandi hátíðarblæ og laginu "someday at Christmas" sem undirspili.

Þar sem ég er sísvöng þessa dagana og litla krílið í maganum virðist þurfa endalausa orku þá gaula garninar látlaust þegar mín er freistað með auglýsingum um hvert jólahlaðborðið á fætur öðru. Mig langar að minnsta kosti á fimm mismunandi jólahlaðborð og ég sem hef aldrei haft neitt sérstaklega gaman af slíkum borðum og ekki lagt það í vana minn að sitja við slík borð.

Mamma mín vinnur á vinnustað þar sem er sífellt verið að bjóða upp á eitthvað húllumhæ. Hún spyr mig til dæmis mjög reglulega hvort ég kunni ekki einhverja nýja og skemmtilega samkvæmisleiki - sem er mjög undarleg spurning þar sem ég stunda sjaldnast þess lags samkvæmi - það er að segja þau sem fólk fer í leiki og notar til þess blöðrur og kústsköft. Auk þess hef ég ekki unnið á föstum vinnustað í fleiri ár og hef því nánast enga reynslu af árshátíðum eða starfsmannaskemmtunum.

Um síðustu helgi sakaði ég mömmu meira að segja um að hafa bara örugglega ekkert merkilegra að gera í vinnunni en að skipuleggja skemmtanir, vöfflukaffi, leynivinaleiki, jóladagatal og föndurdaga en þær ásakanir voru eingöngu byggðar á öfund minni og áhyggjum yfir því að það yrði ekkert jólalegt gert í vinnunni minni. Ég tók því gleði mína á ný þegar ég sá að búið var að hengja blað upp á vegg í vinnunni í gær þar sem hverjum degi í desembermánuði var ætlað eitthvað jólalegt hlutverk. Það verður jólahlaðborð (sem ég reyndar kemst ekki í - en ég er að fara út að borða á svo góðan stað sama kvöld að ég græt það ekki - enda snýst þetta allt um matinn) og það verður jólahúfudagur, jólakaffi, jólabrunch og jólapakkadagur.

Þetta líst mér allt saman vel á og ætla sko heldur betur að rækta þessa skrýtnu tilfinningu sem minnir mann á það hvernig manni leið sem barni - að hlakka stanslaust til jólanna í næstum tvo mánuði!