Thursday, August 14, 2008

Flutt

Þá erum við semsagt flutt og tilveran rétt að byrja hér í Kaupmannahöfn. Ég hefði nú aldeilis átt að hrósa okkur meira fyrir að vera EKKI með yfirvigt þar sem hún reyndist vera um það bil 20 kg þegar á flugvöllinn var komið. Elskulegur innritunardrengurinn gaf okkur hins vegar æði mikinn séns og rukkaði okkur nákvæmlega ekki neitt – heldur brosti bara blítt til okkar og spurði hvort við værum að flytja...

Við komuna til Köben lá okkur heldur betur á að komast í nýju íbúðina og því vorum við einstaklega glöð þegar töskurnar okkar tvær komu fyrstar á færibandið. Við þustum því út í leigubíl áleiðis til borgarinnar og vorum komin hálfa leið inn í Köben þegar við uppgötvuðum að í reynd áttu töskurnar að vera þrjár. Við bættum nefnilega einni tösku við í farangursgeymsluna í blálokin við innritun svona fyrst að innritunardrengurinn var svona almennilegur.

Þetta uppátæki kemur kannski ekki nánustu ættingjum á óvart en sem betur fer endaði það allt saman vel. Við báðum leigubílstjórann vinsamlegast að taka U-beygju og bruna aftur á völlinn. Sem hann og gerði með glöðu geði enda mælirinn kominn hátt í 1000 danskar krónur. Taskan fannst síðan með hjálp starfsmanns og við vorum einstaklega ánægð með að endurheimta videocameruna, myndavélina og hjólalykilinn sem var með því dýrmætara í töskunni.

Við komum því töluvert seint um kvöld að Matthæusgade þar sem hin danska Trine beið okkar til að afhenda okkur íbúðina. Við ráfuðum aðeins um fyrir utan húsið þar sem við sáum engan augljósan inngan að íbúðarhúsnæði heldur blasti við okkur risastórt andyri að verslunarmiðstöð. Eftir smá leit fundum við dyrabjöllu og nafnið hennar Trine. Trine bauð okkur velkomin og opnaði innganginn að verzlunarmiðstöðinni.

Eins og okkur grunaði þá eigum við heima á 5. hæð fyrir ofan nýbyggðan (Júní 2008) verslunarkjarna í Vesterbro. Verslunarmiðstöðin tengir saman Matthæusgade og Vesterbrogade og hefur að geyma afar mikilvægar verslanir eins og Mödström og Message (umdeilanlegt kannski...) en ætli Netto sé ekki sú verslun sem við eigum eftir nýta okkur einna mest. Að ég tali nú ekki um að við innganginn okkar er líkamsræktarstöðin SATS sem er mjög fín stöð. Það duga víst engar afsakanir lengur hér á bæ... Já staðsetningin er semsagt bara frábær í alla staði.

Íbúðin sjálf er síðan æði hugguleg og ekki yfir neinu að kvarta þar. Ég sem hafði undirbúið mig undir sturtuhaus fyrir ofan klósettið og tengi í vaskinn eða eitthvað álíka mix – en gekk hinsvegar inn í flísalagt baðherbergi með sér sturtu og hitastýrðum blöndunartækjum. Brúnu og appelsínugulu flísarnar skipta engu máli þegar sturtan er jafn stór og raun ber vitni. Hvílíkur lúxus!! Annars er íbúðin rúmgóð og björt. Nóg pláss fyrir gesti og hún Trine var svo elskuleg að skilja eftir luftmadrass fyrir okkur þar sem hana grunaði að það yrði gestkvæmt. Við erum búin að eiga stutt spjall við tvo elskulega nágranna. Þau eiga samtals um það bil fimm hunda en það heyrist nú ekkert í þeim... ennþá að minnsta kosti. Hundarnir eru mjög vinalegir og komu í smá heimsókn til okkar í gær...

Við erum svo lukkuleg að vera ennþá inni í danska kerfinu síðan fyrir tveimur árum og þurfum því bara að sækja um sygesikringskort og velja okkur lækni. Við fórum niður í bæ til að gera þetta í dag en gleymdum auðvitað vegabréfunum (kemur ættingjum enn og aftur örugglega ekki á óvart) og gátum því ekkert gert... svo við fórum bara á Salonen í staðinn (sem er uppáhalds kaffihúsið okkar) og fengum okkur lífrænar samlokur og hummus. Stefnum á að redda CPR númerinu bara á morgun og ég er meira að segja búin að fá leiðbeiningar frá Hildi um það hvaða lækni ég á að velja. Ég á að biðja um denne smuk læger pa lægehuset i Vesterbro... eða eitthvað álíka. Það er allavega einn mjög sætur læknir þar sem heitir Jesper.

Lalli fer á fyrstu æfinguna sína í dag hjá Sisou og því ríkir mikil eftirvænting. Annars vöktum við langt fram á nótt í gær að fylgjast með ólympíuleikunum og eigum eflaust eftir að gera það áfram næstu daga og nætur.

Margrét litla Rós er í aðlögun á vöggustofu og stendur sig eins og hetja. Vinkar bless og leikur sér alveg eins og herforingi. Ég veit ekki hvort mín aðlögun (næstu tvær vikur) í skólanum verður jafn lukkuleg. Ég er ekki jafn mikil hetja og Margrét og þarf án ef á meiri stuðning að halda en 1 árs gamalt barn. Þá er ég nú heppin að eiga bestustu Hildi... Við fengum Hildi og Ágúst til dæmis strax í heimsókn sem var æði og þau buðu okkur í mat fyrsta kvöldið og BEZT í HEIMI er að þau eru í rölt færi.

9 comments:

Anonymous said...

Hæ elskurnar og til hamingju með flutningana til Köben. Gott að heyra að allt gekk vel svona hingað til allavega hehe. Þið eigið pottþétt eftir að hafa það massa gott þarna og Eva mín þú átt sko eftir að spjara þig í aðlögun í skólanum eins og öllu öðru sem þú tekur þér fyrir hendi.

Hafið það rosa gott og ég efast nú ekki um það að þú verðir duglegri en Hildur í blogginu svo maður getur núna farið að fylgjast vel með lífinu í kaupmannahöfn hehee.

kiss og knús, bið að heilsa hinum dönunum.

kv. Hafný-stóra bumba

Lalli og Eva said...

Knúz til baka Hafný og gangi þér ofsalega vel á meðgöngunni :)

Anonymous said...

Hehehe kemur mér ekki á óvart að þið hafið byrjað þetta með smá ævintýri ;)Gott að heyra að íbúðin er góð og henni fylgi búðir!! Ég fer bráðlega að íhuga bókun til Köben :)

Kv,
Guðrún

Anonymous said...

Sæl krúttin mín,,, ég verð nú að játa að mér finnst þetta Danmerkurævintýri bara algjört rugl hihi því ég á eftir að sakna ykkar í vetur og borða saman gírnum okkar....
Leitt að við gátum ekki hitt ykkur áður en þið fóruð en svona er bara sumarið 2008.. busy busy
kossar frá okkur á Holtsgötunni
p.s. Stormur er að byrja í aðlögun hjá dagmömmu á máundag :-)

Lalli og Eva said...

Jedúdda mía... hvernig getur þetta verið!! Þessi börn þau stækka svo fljótt... í alvöru talað!

Knús til baka til ykkar á Holtsgötuna, já svona var þetta sumar bara. Algjört madness. Við erum nú aðeins rólegri gír hérna í Köben núna ;)

Við ættum nú aldeilis að geta valið úr góðum stöðum til að borða saman á þegar þið komið í 30 ára afmælisferð til Köben! Ekki satt ;)

Guðrún það eru 20 skref og 15 sekúndur í lyftu (í alvöru sko) í búðirnar... Hver býður betur??

Anonymous said...

oooo mig langar nú bara að flytja út til Köben þegar ég les þetta :) eitthvað SVO spennandi og mikil rómantík yfir köben alltaf finnst mér :)

Átt eftir að standa þig vel í aðlögunni þinni :) Hafdís Una var að klára sína aðlögun inn á leiksóla og gekk svona líka vel :) hehe

Hlakka til að lesa bloggið þitt í vetur :)

Stórt knús að norðan
Valgý

Lalli og Eva said...

Ohhh þessi börn eru svo dugleg - segi nú ekki annað. Takk elskan og passaðu nú upp á Sibbu sys í vetur fyrir mig!!

Knús á Ak. :)

Anonymous said...

Hæ elsku Eva og Lalli
Gott að vita að þið séuð komin til okkar í danaveldi. Hlakka til að fylgjast með og auðvitað eruð þið alltaf velkomin í heimsókn til okkar í Horsens ef þið farið í smábæjargírinn :-) Gangi þér vel í skólanum Eva,og þér Lalli í körfunni, ég er einmitt líka að byrja í skólanum 27. ágúst, mikil spenna.

Knús og kossar
Jóna Kristín, Atli og gríslingarnir í Horsens

Lalli og Eva said...

Hææææ Jóna og fjölskylda!! Já það er sko aldrei að vita nema að við kíkjum við í sveitina einhverntíman í vetur ;)

Við verðum allavega eitthvað á ferðinni þar sem Lalli fer út um alt DK að spila körfu.

Gangi þér líka súper vel í skólanum og verðum í bandi.

Knúz og kiss