Thursday, October 21, 2010

Nýtt líf

Við komum heim til Íslands í sumarfrí.

Júlí og ágúst voru sneisafullir af sól, vinum, ferðalögum, fjölskyldufundum, hlátri og gleði. Enda flugu þessir mánuðir hjá á hraða ljóssins og þegar ég stóð fyrir framan afgreiðslukonuna á skattstofu Hafnarfjarðar fyrir tveimur vikum síðan og var innt eftir því hvenær ég kom til Ísland þá horfði ég lengi á konuna, hugsaði mig vel um og sagði svo: "Veistu ég er eiginlega bara nýlent en ég held samt að ég hafi komið um miðjan júlí".

Núna erum við ennþá á Íslandi og það er ekki lengur sumarfrí. Við vorum svo lánsöm bæði tvö að fá nóg að gera um leið og við komum heim. Enda tók ég varla eftir septembermánuði, október þykist vera að klárast áður en ég næ í skottið á honum og jólaskrautið er komið í IKEA.

Já það er staðreynd og engin lygi að hlutirnir gerast hratt á Íslandi. Við komum heim, byrjuðum að vinna í þremur vinnum, fluttum inn í íbúð, fengum bíl til afnota og... bjuggum til barn!

Nokkrum vikum eftir að við komum heim fannst mér þreytan og lystarleysið orðið grunsamlega viðloðandi og ég skaust því inn á klósett í Smáralind og pissaði á prufu sem ég hafði keypt í apótekinu. Á meðan beið Lárus frammi á gangi og virti fyrir sér nýjustu bíóauglýsingarnar. Íslenska bíómyndin Boðberi var nýjasta nýtt í bíó (hef ekki séð hana) og tvö lítil blá strik inni á klósetti voru sannarlega boðberi um nýtt og breytt líf.

Að uppgötva að maður eigi von á barni er eitt af þessum augnablikum sem maður ímyndar sér oft hvernig eigi eftir að raungerast. Ég hafði óljósa hugmynd um að annað hvort myndi ég hoppa af gleði, æpa og öskra eða gjörsamlega falla saman af kvíða og ráðaleysi og enda volandi í fósturstellingu (mun líklegri til þess síðara).

Hvorugt gerðist þó og ég sat einfaldlega inni á klósettbásnum, hlustaði á unglingsstúlkur á næsta bás tala um meik og varagloss og brosti örlítið út í annað. Hjartað tók ekki einu sinni auka kipp. Ég horfði silkislök á prufuna og hugsaði einfaldlega: Já auðvitað! Þvínæst labbaði ég fram, kyssti Lárus til hamingju og við skáluðum í jarðaberja-smoothies á kaffihúsinu ENERGIA í Smáralind.

Síðan þá hef ég hins vegar upplifað heilt tonn af tilfinningum og á eflaust eftir að upplifa annað eins á seinni hluta meðgöngunnar. Ég er svona rétt að komast yfir þá tilfinningu að mér finnist ég vera að plata þegar ég segi fólki að við Lárus eigum von á barni. Mér fannst mjög lengi eins og þetta væri frekar lélegur djókur (enda er ég alls ekki góð í að segja brandara) og í hvert skipti sem ég sagði orðið "ólétt" upphátt bjóst ég allt eins við því að fólk myndi skella upp úr eða taka "yehhh right" pakkann á mig og ekki trúa mér.

En svo virðist sem að bæði fjölskylda okkar og vinir hafi á einhvern undarlegan hátt verið töluvert betur undirbúin fyrir þessar fréttir heldur en við þar sem setningar á borð við "já loksins" eða "kominn tími til"... hafa ómað í eyrum okkar. En auðvitað eru allir að rifna úr gleði og það erum við líka - sérstaklega á þeim stundum sem 150 slög á mínútu berast okkur til eyrna í mæðraskoðuninni.

Það verður spennandi að takast á við nýtt líf (í orðsins fyllstu merkingu) hér á Íslandi. Hversu lengi eða hvað við tökum okkur nákvæmlega fyrir hendur verður að koma í ljós. En eitt er víst að við ætlum bæði að njóta hverrar mínútu á meðan við erum hér, grípa tækifærin, vera með fjölskyldu og vinum og lifa í núinu en huga jafnframt að framtíðinni - sem er óneitanlega ögn meira spennandi þegar von er á nýrri manneskju í heiminn.