Thursday, May 27, 2010

Tilhlökkunarefnin

Við hlökkum til að koma til Íslands í sumar.

Ég ætla að

-grilla (mest pulsur)
-fara í útilegur (já þið lásuð rétt)
-fara á Vestfirði (þar sem ég hef heyrt að fólk búi þar)
-fara í sund (helst á hverjum degi)
-borða bragðaref (líka helst á hverjum degi)
-knúsa vini mína (alla með tölu og skilja engann útundan)
-knúsa fjölskylduna (lengi og oft og svo aftur og svo aðeins lengur)
-skoða börn (vina minna sem virðast öll vera í útungunarkeppni)
-skoða elgosið (æ nei það er hætt, bömmer)
-skrifa grein (þetta er ekki bara afslöppunarferð ef þið hélduð það)

hlakka til þangað til....

Tuesday, May 25, 2010

Spennandi veðbanki

Hér með býðst öllum vinum og vandamönnum að taka þátt í spennandi veðbanka. Opið verður fyrir veðmál fram til 15. ágúst 2010.

Um er að ræða æsispennandi veðmál þar sem veðjað er um næsta áfangastað og heimili okkar Lárusar. Í boðinu eru eftirfarandi valmöguleikar:

1. Bilbao
2. Reykjavík
3. Kaupmannahöfn
4. Barcelona

Til þess að upplýsa þátttakendur örlítið þá set ég hér með pros/cons fyrir hvern stað eins og staðan lítur út í dag 25. maí 2010. Þessar forsendur gætu hins vegar breyst og því hvet ég alla til að fylgjast vel með gangi mála.

BILBAO KOSTIR
-góð vinasambönd að myndast
-lærum spænsku
-möguleikar á doktorsnámi

BILBAO ÓKOSTIR
-fá körfuboltalið
-lítið um vinnutækifæri
-rignir ógeðslega mikið

BARCELONA KOSTIR
-súper fín strönd
-fullt af körfuboltaliðum (og Lakers eru að spila í október)
-lærum spænsku

BARCELONA ÓKOSTIR
-rosa erfitt að fá vinnu
-engir vinir
-byrja allt upp á nýtt

REYKJAVÍK KOSTIR
-fjölskylda
-vinir
-vinna í boðinu

REYKJAVÍK ÓKOSTIR
-lærum enga spænsku
-lítil laun og dýrt að lifa
-förum aldrei út aftur ef við komum heim??

KÖBEN KOSTIR
-vinir
-körfuboltalið
-vinna jafnvel

KÖBEN ÓKOSTIR
-engin spænska
-kalt kalt kalt
-dýrt að leigja

Fólki er líka frjálst að segja sína skoðun á þessu og leggja til fleiri atriði í kosti eða ókosti einnar eða fleiri borga. Línur munu skýrast í sumar og í allra síðasta lagi um miðjan ágúst.



BILBAO




BARCELONA


REYKJAVÍK


KAUPMANNAHÖFN

Saturday, May 08, 2010

Viðburðir og verkefni

Það vantar svo sannarlega ekki verkefnin í lífið hjá okkur Lárusi þessa dagana. Mastersverkefnið mitt er verkefni í stærri kantinum og tekur því ríflega af tíma, orku og anda sem annars færi til dæmis í að skrifa langar og innihaldsríkar færslur á netið.

Heljarinnar Ítalíuferð var líka stórt en mun skemmtilegra verkefni. Í andans ofboði tókst okkur að smala allri fjölskyldunni saman eftir lúxushremmingar (eins og að vera fastur á 5 stjörnu hóteli) í mismunandi löndum. Fjölskyldufaðirinn sýndi af sér einstakt hugprýði og ferðaðist aleinn yfir hafið stóra sem skilur að Ísland og alla hina í heiminum. Þar sem hann lenti í Skotlandi tókst honum að húkka sér far til höfuðborgar Bretlands og endaði þar í faðmi sinnar heittelskuðu. Ég er ekki frá því að mamma og pabbi hafi elskað hvort annað eins og einni gráðu heitar eftir aðskilnaðinn.

Að minnsta kosti fannst mömmu nauðsynlegt að segja mér í gegnum síma að sama hversu heitt og mikið hún elskaði mig (og finndist ég algjörlega frábær) þá væri hún samt ekki tilbúin til að eiga heima hjá mér ef að til þess kæmi að eldgosið myndi aftra för hennar um ókomna tíð til Íslands. Svo sagði hún með smá trega í röddinni "þá vil ég nú heldur bara vera föst að eilífu með pabba þínum".

Já, eldfjöll virðast geta komið ýmsum hugleiðingum af stað... Við Lalli áttum líka okkar rómantísku daga í boði eldfjallsins þar sem enduðum á því að dinglast ein um Milanó tveimur dögum lengur en áætlað var. Dagarnir voru vel nýttir í eldheita og rómantíska göngutúra sem fólu í sér mörg stopp á huggulegum veitingahúsum. Fjölskyldan sameinaðist svo að lokum í Milanó, dreif sig í að kaupa GPS tæki, leigja stationvagon og hélt af stað upp í ítölsku alpana. Brúðkaupið var sko ekki minna verkefni. Upp úr stendur auðvitað maturinn, annað væri ósæmandi í ítölsku brúðkaupi. Á sjálfan brúðkaupsdaginn fórum við samtals í þrjár mismunandi veislur þar sem við fengum "eitthvað smotterí" að borða. En vorum sem betur fer ennþá svöng þegar kom að lokaveislunni þar sem matseðillinn taldi 10 rétti. Brúðhjónin voru yfirmáta falleg bæði tvö og eru nú á brúðkaupsferðalagi um Kanada, USA og einhverjar tropical eyjar sem ég man ekki hvað heita.

Mamma fékk síðan smjörþefinn af því hvernig er að búa hjá mér, í 30 fermetra íbúðinni okkar, þegar þau komu með okkur til Bilbao og eyddu rúmri viku hérna í Baskalandi. Þau fengu líka vini sína frá Þýskalandi með sér í för og skoðuðu alla króka og kima hér í kringum Bilbao. Voru stórhrifin af Guggenheim safninu sjálfu en minna hrifin af gömlum ryðguðum reiðhjólum sem voru hluti af sýningunni. Ég fékk síðan stórskemmtilegt tækifæri til að kynnast Kiddu frænku minni og manninum hennar. En það vill svo til að þau búa hérna rétt hjá Bilbao.

Næsta vika og þarnæsta verða ekki síður stútfullar af viðburðum og verkefnum. Fleiri gestir eru væntanlegir ef eldfjallið setur ekki strik í reikninginn og ég verð með mitt annað ráðstefnuerindi. Í þetta skiptið í Barcelona - sem er einmitt næsti áfangastaður okkar Lárusar í leit okkar að lokaáfangastað.







Ást & Yndi.