Friday, February 26, 2010

rafmagnsofninn

fer inn í geymsluskápinn í dag. Og það þrátt fyrir að hitinn eigi eftir að fara eitthvað aðeins niður áður en hann fer varanlega upp aftur. Síðastliðna mánuði hafa borist hingað rafmagnsreikningar upp á rétt tæpar 100 EUR sem er náttúrlega alltof mikið og eiginlega ekki í boðinu fyrir námsfólk. Að því gefnu að hitinn fari ekki aftur mikið niður fyrir 10 gráðurnar þá verður ekki fýrað upp aftur hér á þessu heimili fyrr en í fyrsta lagi í október eða nóvember.

Það yljar okkur líka að þessa dagana detta inn heimsóknir og ferðaplön fyrir vorið og sumarið og tilhlökkunin er mikil. Á dagatalið er búið að merkja inn með mismunandi litum og tilheyrandi glósutækni komu foreldra, vina, svilkonu og mágs, systur og fylgisveins. Við höfum einnig tryggt okkur flugmiða til Ítalíu, hótel og bílaleigubíl.

En á undan þessum ævintýrum öllum ætlum við að heimsækja Salamanca með spænskum vinum. Borgin heillar sannarlega en ekki síður stemmingin í kringum þessa ferð. Það er nettur menntaskóla-andi sem svífur yfir vötnum. Mér líður pínu lítið eins og við séum að fara í "íþróttaferð" (þar sem aldrei voru stundaðar neinar íþróttir að ráði nema þá helst glasalyftingar) svona eins og í Verzló í gamla daga. En ferðin er líka einstakt tækifæri fyrir okkur Lárus að kynnast vinum okkar betur og láta reyna á tungumálið fyrir alvöru!

Wednesday, February 24, 2010

Nei, þú hér??

Tilfinningin um að "eiga heima" einhverstaðar kemur vitanlega ekki strax þegar maður flytur í nýja borg. Fyrst þarf að kynnast hverfinu sínu, heilsa nokkrum sinnum upp á kaupmanninn á horninu, fara á hverfisböbbinn oftar en einu sinni og svo framvegis. Mín tilfinning um að "eiga heima" í Bilbao kom hins vegar í dag þegar við Lárus ráfuðum inn á eitthvað kaffihús og hittum þar fyrir tilviljun einhvern sem við þekkjum. Spænskt par sem Lalli kynntist í gegnum körfuboltann. Það að hitta kunningja eða vini á förnum vegi er alveg einstaklega heimilislegt, sérstaklega í milljón manna stórborg þar sem hver dagur býður upp á nýtt hverfi til að skoða og nýjar götur til að mæla...

fenomenial!!

Já ef það er ekki tilefni til að skrifa um matargerð núna!!

Fórum "aðeins út að borða" á þriðjudagskvöldi í Bilbao. Þar sem við búum niðrí bæ höfum við ekki prófað helming staðanna sem eru hérna megin við ánna en engu að síður þekkjum við bæinn ágætlega vel. Staðurinn sem varð fyrir valinu í kvöld er staður sem býður ekki upp á neinn sérstakan aðalrétt heldur einungis "platos especiales" sem eru nokkurs konar diskar af góðgæti... Fyrsti rétturinn okkar var kolkrabba carpaccio. Fyrir þá sem þekkja til nauta carpaccio sem hefur jú verið nokkuð vinsælt á Íslandi sl. ár skýrir þetta sig kannski sjálft en fyrir hina þá er kolkrabba carpaccio niðurskorinn hrár kolkrabbi marineraður í olíu og rauðum pipar... *ekkert nema lostæti*

Annar rétturinn okkar var nýbakað brauð með lomo iberico (úrvals skinku) - þarf varla að ræða hversu ljúfeng skinkan var!! síðasti rétturinn var síðan foe gras (andalifur) með rifsberjasultu, stjörnuávöxtum, kavíar, súrum gúrkum og gulrótum.... Ég veit, hljómar alveg absúrd samsetning en það er einmitt það sem gerði þetta svo ótrúlega sérstakt og spennandi!! Ég get varla skrifað annað en.....

Mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmm!!!! þetta var út fyrir ósónlagið gott og ekkert minna en það, takk fyrir. Drukkum með 2 glös af Crianza frá 2005 sem var algjört himnaríki!

Tuesday, February 23, 2010

og þvotturinn þornar á snúrunni

Sólin skín í Baskalandi þessa dagana og hitinn fór upp í 19 gráður í gærdag. Henni er hins vegar ekki jafn skipt veðursældinni og í Valencia eru mikil flóð, rigningar og leiðindaveður. En á meðan þetta helst svona hjá okkur er sannkallað vor í lofti.

Það besta við þetta veðurfar er samt sem áður ekki endilega hitinn eða sólin sem slík heldur minnkandi rakastig í loftinu sem gerir það að verkum að þvotturinn sem ég hengi út á snúru þornar á innan við sólahring en hangir ekki úti blautur eða rakur í viku eins og hefur verið síðastliðna 3 til 4 mánuði. Já það þarf ekki mikið til að gleðja mann!

Í síðustu viku uppgötvuðum við Argentískt veitingahús (sáum það bara álengdar, höfum ekki ennþá farið þangað) en erum æsispennt að prófa staðinn. Síðan höfum við gert tvær heiðarlegar tilraunir til að fara á annað grillhús sem heitir Henao 40 og á víst að vera eitt það allra besta hér í borginni. Í fyrsta skiptið var allt fullt og ekki séns að koma okkur að það kvöldið og í seinna skiptið var hreinlega lokað þrátt fyrir að það stæði á heimasíðunni þeirra að það væri opið. En allt er þegar þrennt er og við gefumst ekkert upp.

Sunday, February 21, 2010

Úrslitaleikurinn

Í dag fer fram úrslitaleikurinn í konunglegu bikarúrslitunum hér í Bilbao. Síðustu daga hefur öryggisgæslan í kringum og inni í höllinni aukist jafnt og þétt og nær líklegast hámarki í dag þar sem kóngurinn og drottningin mæta á leikinn í dag. Það verður sannkallaður risaslagur þar sem Barcelona og Madrid keppast um bikarinn. Það er nokkuð ljóst að meirihluti áhorfenda, það er að segja allir sem koma frá Baskalandi munu halda með Katalóníu og ekki Madrid.

Það er eitt sem hefur vakið furðu mína og ánægju. Í fjóra daga hefur núna safnast saman fólk alls staðar af frá Spáni (um það bil 15.000 manns) sem heldur allt með sitthvoru liðinu og það kallar og syngur og púar og hvetur til skiptis en ekki einu sinni eru búin að koma upp slagsmál af þeim toga sem oft eru kennd við íþróttaviðburði eins og þennan, kannski sérstaklega fótbolta. Borgin er full af fólki uppáklæddu í búninga sem hefur hátt og syngur en það er svo gott sem enginn í leit af einhverjum vandræðum. Það hefur aðeins bæst í lögregluliðið bæði í borginni og sérstaklega í kringum höllina en ég hef ekki einu sinni séð þá í action enda allir bara vinir um leið og leiknum lýkur alveg sama í hverslags búning þú ert eða með hvaða liði þú heldur.

Til fyrirmyndar!

Thursday, February 18, 2010

Öskudagur fyrir alla

Hér á Spáni sem og annars staðar í Evrópu hefur verið sannkölluð karnivals-stemming síðustu daga þar sem búningar og skrúðgöngur hafa sett svip sinn á bæinn. Aðaldagurinn hérna á Spáni er reyndar ekki kenndur við öskudag heldur eitthvað allt annað og hefur ívið trúarlegri skírskotun hér í samfélagi Jesúíta og kaþólikka heldur en heima á Fróni. Það er enginn dauður köttur inní tunnu og börn syngja ekki Sá ég Spóa 150 sinnum í keðjusöng fyrir vesælt starfsfólk í búðum eins og tíðkaðist í minni barnæsku.

Það verður seint sagt um Spánverja að þeir kunni ekki að skemmta sér eða búa til gott karnival. Hér í Bilbao hófst gamanið sl. laugardag þar sem fór meðal annars fram mikil og metnaðarfull búningakeppni innan spænska vinahópsins okkar. Allan daginn var það fullorðið fólk en ekki börn sem mátti sjá í búningum og um kvöldið var varla nokkur maður úti á götu sem "sýndi sitt rétta andlit". Okkur Lárusi fannst búningakeppnin í vinahópnum, sem fór fram í pörum, sniðugt og krúttlegt uppátæki en gerðum okkur litla grein fyrir alvarleika málsins fyrr en við sáum afrakstur margra daga vinnu og saumaskaps á laugardagskvöldinu.

David og Alfonso voru bob-sleðamenn frá Jamica. Hver man ekki eftir hinni stórskemmtilegu mynd Cool Runnings?

Ég veit ekki alveg hvað Iker og Monni voru en mér fannst þeir sætir.


Mánudag, þriðjudag og miðvikudag var síðan tileinkaður börnum og þeirra karnivalgleði. Börn út um allan bæ breyttust í prinsessur eða nornir, kisur eða ljón, batman eða súperman. Eftir mjög svo vísindalega könnun mína sem fólst í að skoða og meta búninga barnanna á meðan ég skrapp niður í bæ í gær og á mánudaginn þá virðist mér sem sígaunakonur og karlar hafi verið vinsælasti búningurinn í ár. Man ekki eftir að hafa beðið um að vera sígaunakona... Ég var yfirleitt norn eða prinsessa til skiptis (segir kannski eitthvað um mitt innra eðli sem togast á)

Um helgina tekur við annað karnival sem inniheldur ekki mikið af búningum ef frá eru taldir körfuboltabúningar þeirra 8 liða sem koma til með að berjast um konungsbikarinn í körfubolta hér í borginni á næstu fjórum dögum. Við Lárus eigum miða á herlegheitin og erum nokkuð spennt fyrir helginni. Kóngurinn mætir á svæðið sem og um það bil þúsund aðdáendur frá Barcelona og aðrir þúsund frá Madrid. Getur ekki klikkað!

Friday, February 12, 2010

Komin heim

...til Bilbao eftir frábæra og yndislega afslappandi Kaupmannahafnarferð. Það er bara best í heimi að hitta vini sína, slappa af, hafa engar áhyggjur og vera í fríi. En allt frí tekur enda og við komum heim til Bilbao í gærkvöldi í snjókomu og frost! Ekki alveg það sem við höfðum vonast til enda fórum við í um það bil 17 stiga hita. En veðrið er víst bara svona í öllum heimshornum núna, síbreytilegt og frekar óskiljanlegt. Til dæmis er miklu heitara á Íslandi núna en hérna hjá okkur á Spáni.

Njótið bara vel sem eruð á Íslandi!

Ferðin hefði ekki getað verið mikið lengri hjá okkur þar sem nú tekur við smá enskukennsla hjá mér og leikur og æfingar hjá Lalla. Hann er líka að leita fyrir sér í vinnu sem einkaþjálfari og hefur fengið eitt tilboð frá stórri líkamsræktarstöð. Erum svona að vega og meta framtíðarplön en erum ekki í neinum alvarlegum pælingum ennþá. Enda nógur tími til stefnu og við líka ákveðin í að njóta þess sem Bilbao og N-Spánn hefur upp á að bjóða þangað til eitthvað annað tekur við.

Hver mánuður framundan hefur sitt aðdráttarafl og sínar skyldur þannig að tíminn verður án efa ekki lengi að líða og áður en ég veit af verður komið sumar og síðan aftur haust. Þess vegna er um að gera að lifa í núinu en leyfa sér samt sem áður að dreyma og hlakka til framtíðarinnar.

Í mars ætlum við til dæmis að eyða langri helgi með spænskum vinapörum okkar í fjallakofa í fjöllunum hérna í nágrenninu. Við förum nokkur saman, flest strákar úr körfuboltanum og konurnar (kærusturnar) þeirra. Allt krakkar á okkar aldri sem við höfum kynnst ágætlega fram að þessu og líkar ofsalega vel við.

Aprílmánuður er síðan mikið tilhlökkunarefni þar sem við erum boðin í brúðkaup á Ítalíu og við erum ótrúlega spennt að fara. Við ætlum að fara nokkrum dögum fyrr, hjálpa til við undirbúning og njóta þess að skoða okkur um á N-Ítalíu. Við Lalli höfum einu sinni áður heimsótt Arabel (tilvonandi brúður) og fjölskylduna þeirra og vorum í sannkallaðri paradís allan tíman svo við iðum í skinninu að komast aftur til þeirra.

Í lok apríl og byrjun maí - eftir brúðkaupið ætla mamma og pabbi síðan að koma til okakr og skoða sig um í Bilbao og San Sebastian með vinafólki sínu frá Þýskalandi. Við hlökkum til að sýna þeim um og kenna þeim að borða pinxtos og drekka xtakoli.

Um sumarið er síðan von á fyrst Ottó og Elfu (sem við erum búin að bíða ótrúlega lengi eftir og hlökkum meira en allt til að fá) og Sibbu systur og kærastanum hennar sem eru á ferðinni um alla Evrópu að ég held og því frábært að þau komi við á Spáni til að heimsækja bæði Bilbao og San Sebastian.

Semsagt - nóg framundan!

Ást og Yndi

E+L

Monday, February 01, 2010

Á leið

í ferðalag!

Það vill svo (ó)heppilega til að við "neyðumst" til að heimsækja Kaupmannahöfn í fjárhagslegum erindagjörðum.

Hlökkum til að hitta allt frábæra fólkið okkar í Köben.