Tuesday, May 19, 2009

Sveiflur

Og þær tengjast hvorki suðri né sól eins og sumum hefði jafnvel dottið í hug. Hér á bæ eru geðsveiflur mun algengara fyrirbæri "á þessum síðustu og verstu tímum". Heyrði um daginn af fólki sem var alveg komið með ofnæmi fyrir þessu orðatilæki heima á Íslandi. Í mínum huga tengist það hins vegar ekki efnhagsástandi eða kreppu á nokkurn hátt heldur miklu frekar þeirri staðreynd að eftir 7 daga á ég að skila inn tveimur viðamiklum ritgerðum um ansi flókin málefni. Efni þeirra og innihald koma síðan til með að ákvarða um það hvort ég lýk þessari önn með sóma eða bara alls ekki. 

Um svipað leyti og var búin að sitja sveitt við að bæta, laga og stytta þessi blessuðu ritverk mín í um það bil 8 klukkustundir samfleytt (án árangurs) fékk í sendan póst frá Ítalíu þar sem mér var tilkynnt að fresturinn til að skila inn útdrætti og uppkasti af fyrirlestri (sem ég kem til með að halda í ágúst) væri nú óðum að renna út. Ég fékk vægt taugaáfall og tók þá mikilvægu ákvörðun að gefast upp... í kvöld að minnsta kosti. Eða þangað til að geðsveiflurnar snúast í aðra átt, sem þær gera jú alltaf á endanum. 

Annars er allt í sómanum hérna í Vesterbro. Við skötuhjú vinnum og lærum eins og síðustu blogg hafa gefið glöggt til kynna. Fengum yndislega gesti um helgina og áttum góðar stundir með þeim þrátt fyrir að hafa þurft að senda þau nokkru sinnum ein út að spássera, þar sem bækurnar kölluðu. Gestirnir fengu að kynnast Vesterbro nokkuð vel þar sem við Lárus erum orðin ansi heimakær og hliðholl hverfinu okkar. En Vesterbro er nú ekki verra en nokkurt annað hverfi svo ég held að þeim Berglindi og Hilmari hafi ekki líkað það illa að spóka sig mest um hér í vesturhluta Kaupmannahafnar. 

Stærstu fréttir vikunnar eru hins vegar án efa þær að Lárus sér nú heiminn í nýju ljósi þar sem hann dreif sig í sjónmælingu og er hér með hættur að reyna að "æfa" sjónina með því að píra augun. Hann kom heim með linsur í dag og er alsæll með nýju sjónina :) 

Hér verður bloggað að mun meiri krafti og gleði eftir að skóla lýkur!! 

Wednesday, May 13, 2009

European Master in Lifelong Learning: Policy and Management

Langaði bara að minna á þetta stórskemmtilega og fjölbreytta nám sem ég er bæði að nema og vinna við þessa stundina. Við erum í smá markaðsherför þessar vikurnar og vorum að láta gera nýjan upplýsingabækling sem má nálgast með því að smella hérna: MA LLL BÆKLINGUR

Eins og flestir gera sér grein fyrir eru menntakerfi misjöfn eins og þau eru mörg þrátt fyrir alþjóðlegar menntustefnur og áhrif frá alþjóðlegum stofnunum líkt og Evrópusambandinu, OECD og UNESCO. Í anda Dewey og "learning by doing" hugsjóna hans, er okkur ætlað að nema við fleiri en eitt menntakerfi innan Evrópu og hefst því annað árið mitt nú í haust í Bilbao á Spáni.

Námið spannar nánast öll svið sem tengjast á einn eða annan hátt menntun og námi í afar víðum skilningi. Þá á ég við formlegt jafnt sem óformlegt nám, grunnnám, skyldunám, háskólanám, nám með vinnu, námskeið, fullorðinsfræðsla og svo framvegis. Ég hef á þessu eina ári vissulega lært og aflað mér þekkingar á öllum þessum sviðum í samhengi við menntakerfi og menntastefnur innan sem utan Evrópu. Hins vegar hef ég líka haft tækifæri til að þróa með mér mitt eigið sérsvið sem fellur undir borgaravitund og lýðræði menntunar. Ég hef getað nálgast prófesora og aðra fræðimenn sem starfa og skrifa innan þessa sviðs auðveldlega og hef fengið mikinn stuðning og hvatningu í þeim verkefnum sem ég hef tekið mér fyrir hendur. 

Nú í ágúst fer ég, ásamt einum MA nema og einum doktorsnema, sem fulltrúi Danish School of Education til Ítalíu og verð með erindi á ráðstefnu. Ráðstefnan í heild sinni fellur undir  hatt "comparative education" eða samanburðar menntunarfræði og þemað að þessu sinni er tengt áhrifum alþjóðavæðingar á menntakerfi og menntastefnur, lýðræði í menntun og fjölmenningu. Erindi mitt verður samanburður á borgaravitundarkennslu annars vegar í Danmörku og hins vegar á Íslandi. Ég mun skoða og fara yfir hvernig alþjóðavæðing og breytingar á alheimsvísu svo sem yfirburðir frjáls hagkerfis og aukin fjölmenning hafa haft áhrif á lýðræði og borgaravitund í báðum löndum. 

Áhugavert er að skoða hvernig Íslandi og Danmörk hefur tekist upp með borgaravitundar kennslu og lýðræði í menntamálum þar sem bæði löndin byggja menntakerfi sitt (með lögum og yfirlýstum markmiðum) á lýðræðislegum gildum og viðmiðum, þar sem félagslegt og menningarlegt jafnrétti er ein af undirstoðum almennrar grunnmenntunar. Ef vel gengur og ég fæ nógan tíma til að skrifa í sumar getur verið að ég reyni að koma niðurstöðum mínum og hugleiðingum á íslenskt form og í birtingu heima. 

Ef þið vitið um einhver sem hefur á huga á menntun, námi, einstaklingi, samfélagi og öllu þessu samspili... þá er MA LLL án efa áhugaverður kostur til náms. Fyrir utan það að í ár er námið frítt fyrir Evrópska stúdenta. Meira fyrir áhugasama hér á þessari síðu www.lifelonglearningmasters.org 


Monday, May 11, 2009

...svo rík

Eyrún, æskuvinkona mín er búin að vera í gisti hérna á Matthæusgade sl. tvo daga. Á þessum tveimur dögum höfum við talað jafn mikið og meðal manneskja myndi gera á um það bil tveimur mánuðum myndi ég ætla.

Vinkonur eru svo dýrmætar! Þessar tvær hitti ég til dæmis um páskana heima á Íslandi og hálf dagsstund með þeim var gulls ígildi. Nú er ég svo heppin að vera alveg að fá Berglindi og Hilmar hingað í heimsókn á fimmtudaginn. Endalaus gleði á M.48 :) 

    

Monday, May 04, 2009

Gríptu gæsina...

"Far er det sommer nu?" spurði lítil stelpa í sumarkjól og sandölum pabba sinn fyrir utan sundlaug í Gentofte um helgina. "Neeej faktiskt er det stadig forår nu" sagði pabbi hennar þá. Ekkert skrýtið að stelpuskottan hafi ruglast á árstíðum enda vorið búið að vera með eindæmum yndælt og veðursælt hérna í kóngsins Köben. Ég hef samviskusamlega, að íslenskum sið, ekki tímt að láta veðrið fara mikið fram hjá mér og gert heiðarlegar tilraunir til þess að læra á svölunum okkar. Ótrúlegt alveg hvað manni vinnst lítið í svona veðri samt, það slökknar bara á íslenska heilanum held ég, ef að hitinn fer mikið yfir 20 gráðurnar.  

Í morgun flögguðu allir strætisvagnar danska fánanum enda leit lítill prins dagsins ljós í morgun. Marie prinsessu var skutlað á fæðingardeildina af sínum heittelskaða í gærkvöldi og fæddi splunkunýjan prins inn í ört stækkandi konungsfjölskylduna. Veitir auðvitað ekkert af fleiri prinsum hér í Danmörku. 

Síðustu daga og vikur höfum við Lárus leitt hugann að íbúðum á Spáni. Alveg hreint ótrúlegt hvað tíminn okkar hérna í Kaupmannahöfn hefur liðið hratt. Fyrir tæpu ári fannst mér ég vera að skrifa undir eilífðar-samning með því að skrá mig í tveggja ára MA nám erlendis. Fyrra árið er hins vegar hér um bil liðið og næsti kafli tekur við innan skamms. Þrátt fyrir að flutningarnir til Spánar einkennist nær algjörlega af gleði og tilhlökkun þá örlar öðru hvoru fyrir örlitlum kvíða og óróleika. Það er alltaf ákveðin áhætta sem fylgir því að flytjast búferlum, rífa sig upp og hefja nýtt líf. Á sama tíma er það hins vegar áhættan, sem slík, sem getur einmitt verið uppspretta ævintýra og nýrra tækifæra. 

Tökum sjénsinn, lifum lífinu :) 

Ást og kossar

E+L