Monday, November 23, 2009

Við erum bókaormar

Vorum að setja nýtt inn á síðuna - lista yfir bækur sem við erum nýbúin að lesa og mælum með. Við uppfærum síðan listann stöku sinnum. Þeir sem hafa áhuga á bókum og lestri geta kíkt á þetta og smellt á titil bókar, þá ætti að birtast umfjöllun eða linkur á bókina.

Sunday, November 22, 2009

Basta Ya

Basta Ya eða Enough is enough eða Nú er nóg komið eru spænsk grasrótarsamtök að mínu skapi. Talsmaður þeirra og einn af stofnendum er Fernando Savater sem er fæddur og uppalin í San Sebastian, mikill baskamaður en alfarið á móti ETA sem og öllum öðrum hryðjuverkum. Basta YA býður alla borgara (frá öllum þjóðernum og löndum) til að taka þátt í að berjast fyrir þremur meginatriðum:

  • Against terrorism of any sort, regardless of origin or intensity.
  • Support for all victims of terrorism or of political violence.
  • Defend the Rule of Law, the Constitution and the Statute of Autonomy of the Basque Country.

Fernando Savatar er í algjöru uppáhaldi hjá mér. Hann er prófessor, heimspekingur og rithöfundur og uppáhaldsbókin mín eftir hann hefur einmitt verið þýdd á íslensku. Hún heitir Siðfræði Handa Amador og er algjörlega í einu orði frábær. Bókin er ekki kennslubók í siðfræði en heldur ekki skáldsaga um siðfræði. Hún er í raun bók sem Fernando skrifar til sonar síns sem er á unglingsaldri - ætluð honum sem leiðarljós í lífinu - bók sem segir frá og útskýrir nokkur grunngildi sem mér finnst að við ættum öll að geta unnið að því að lifa eftir til að lifa betra lífi.


Mæli með að allir gefi börnunum sínum (unglingum) þessa bók í jólagjöf og lesi hana síðan með þeim í góðu tómi.

Viðtal við Fernando (á ensku) um Frelsi fyrir Baskaland og bókina Siðfræði Handa Amador.


Basta Ya heimasíðan á ensku

Wednesday, November 18, 2009

Bilbao

...í lok nóvember. Fengum okkur göngutúr í sólinni og góða veðrinu.

Alltaf eitthvað fallegt að sjá.


Búið að hengja upp jólaljósin á brúnni milli gamla hverfisins og fjármálahverfisins. Það þarf ekkert að kveikja á þeim alveg strax held ég.


Þetta hús finnst mér alltaf jafn flott.



Almenningsbókasafn í Abando - æðislegir stafirnir í gluggunum.




Gamalt og nýtt mætist... ein af óteljandi fallegum kirkjum í Bilbao í hverfinu Indauxtu. Þarna fyrir aftan má síðan sjá svakalegan glerturn sem rís á ógnarhraða og kemur til með að verða stærsti turn í Baskalandi.

Eins mikið og ég vil halda í falleg hús og gamla borgarmynd þá verð ég eiginlega að segja að þeim hefur tekist ótrúlega vel upp með að blanda saman gömlu og nýju hérna í borginni. Samanber myndina af rauða spegla húsinu sem sómir sér vel innan um mis gamlar blokkir.

lengri leiðin...

Í ljósi síðustu færslu hefur verið tekin sú sameiginlega ákvörðun á þessu heimili að ég mun hér eftir taka sporvagn og ganga lengri leið í ræktina til þess að hámarka öryggi mitt og lágmarka áhyggjur velunnara og vina.

Tuesday, November 17, 2009

San Fransisco

Ég hugsa að daglega lífið okkar Lárusar sé ekki jafn hversdagslegt og líf annarra - eða jafnvel enn hversdagslegra?

Ég er að meðaltali í skólanum tvisvar sinnum í viku. Hina dagana rembist ég við að lesa eitthvað merkilegt og skrifa eitthvað enn merkilegra. Síðan fer ég á fund með leiðbeinanda og fæ ýmsar ráðleggingar sem ég reyni að botna eitthvað í þegar heim er komið og þá hefst ferlið aftur. Ég reyni að finna eitthvað af viti til að lesa sem síðan verður til þess að ég geti skrifað eitthvað vitsmunalegt.

Öðru hvoru hef ég dug og kjark í mér til að fara í ræktina. Ræktin sjálf er æðisleg en leiðin sem ég neyðist til að ganga til að komast að henni er ekki svo æðisleg. Gatan sem liggur að ræktinni er einfaldlega ekki sú álitlegasta og ég fæ ómælda og í alla staði óeftirsóknarverða (það er að segja ég sækist ekki eftir) athygli á meðan ég geng þennan um það bil 15 mínútna spotta. Þetta er kannski ekki svo alvarlegt og athyglin felst aðallega í saklausum hrópum og eftir á köllum. Algengustu frasarnir eru "rubia" sem þýðir bara einfaldlega ljóska og "guapa" sem er nú ekki amalegra en svo að það þýðir sæta (myndi kannski gleðjast ef það kæmi frá einhverjum öðrum en ókunnugum karlpeningi sem hefur því miður ekki mjög vinalegt yfirbragð á sér). Síðan færist stundum fjör í leikinn og strákarnir reyna að brúka ensku til þess að ná athygli þessarar rúbíu sem virðist vera ansi merkileg með sig, enda er hún búin að læra að stinga nefinu langt upp í loft og strunsa áfram eins og um hálfgert kapphlaup væri að ræða. Þá heyrast jafnvel setningar á borð við "hello darling", "how are you" og "see you later" (og þá þarf ég iðulega að bíta í tunguna á mér til að svara ekki "aligaiter"). En stundum getur hitnað aðeins í kolunum og orð eins og "puta", "puta madre", "sexo" sem og eitthvað muldur sem tengist rassi og brjóstum heyrast á götunni góðu - sem heitir því skemmtilega nafni San Fransisco.

En nú mega ættingjar og vinir ekki örvænta eða halda að ég sé ekki örugg hérna í baskaborginni. Þessi gata er nú yfirleitt mönnuð nokkrum lögreglumönnum og það var einmitt sagt frá því í fréttum í síðustu viku að nýbúið er að koma upp eftirlitsmyndavélakerfi á allri götunni.

Það er því aðallega þegar vantar upp á dug frekar en kjark þegar ég fer ekki í ræktina.

Wednesday, November 11, 2009

Það er heldur...

...tómlegt í íbúð númer 7 við ánna Nervion hér í Bilbao. Frábærir gestir komu til okkar og fóru svo aftur eins og gestum er von og vísa. Það var ómetanlega skemmtilegt að fá þau Höllu og Bjögga til okkar og yndislegt að láta minna sig á hversu ljónheppin við erum með fólk í kringum okkur. Vinir okkar eru æði!

Því miður voru veðurguðirnir ekki jafn spenntir fyrir komu þeirra skötuhjúa til Spánar og skelltu á beljandi rigningu og hagléli í fimm daga. Það gerði nú ekki mikið til því þau Halla Rós og Björgvin eru bjartsýnisfólk í meira lagi og létu ekki (ó)veðrið hafa áhrif á sig. Það var því með bros á vör og sól í hjarta sem við skáluðum í nokkrum bjórum, borðuðum góðan mat, hlupum á milli búða í "smá úða", þrjóskuðumst til að kaupa ekki regnhlífar, fórum í körfuboltagleði, dönsuðum til klukkan sex um morgunin, töluðum langt fram á morgun, sváfum langt fram eftir degi, borðuðum pinxtos, lögðum á ráðin um Ameríkuferðir, skáluðum fyrir jafnrétti, fórum næstum því í spilavíti og áttum hreint út sagt frábærar stundir saman. Takk fyrir yndislega ferð þið fallega fólk!

Nú tekur veruleikinn við, sem hefur sínar jákvæðu og neikvæðu hliðar eins og lífið sjálft. Skóli, vinna, skrifa, lesa og svo framvegis. En það er líka komin fiðringur í okkur fyrir heimferð í desember.

Tuesday, November 03, 2009

Haustrigning, gestir og ráðstefna

Þann 1. nóvember kom haustið til Bilbao. Þrátt fyrir að laufin hafi gulnað eilítið og eitt og eitt slysast til að falla til jarðar síðustu vikur þá hefur lítið annað minnt á haustið fyrr en það birtist okkur í formi úrhellis rigningar á fyrsta degi nóvembermánaðar. Það var sko engin surimiri rigning sem oft einkennir Bilbao og er nokkurs konar úði sem maður finnur varla fyrir.








Haustið kom okkur jafn mikið á óvart og veturinn virðist koma Íslendingum á óvart á hverju ári. Við vorum til að mynda ennþá klædd í sumarfatnað líkt og Íslendingar eru oftast ennþá á sumardekkjunum þegar fyrsti snjóbylurinn skellur á.

En þá er það semsagt opinbert, sumarið hefur kvatt í bili og nú hlökkum við bara til að koma heim í alvöru vetur og vonumst auðvitað eftir hvítum jólum með öllu tilheyrandi. Við ætlum að leyfa okkur gott jólafrí og verðum heima í næstum því mánuð. Tengdapabbi minn spurði reyndar að því hvort að þessi heimsókn okkar ætti ekki að vera skemmtileg þegar hann frétti hvað við yrðum lengi.... ;) Við gerum okkar besta til að halda uppi stuðinu í rúmar þrjár vikur og þær verða án efa mun fljótari að líða en aðrar þrjár vikur í dagatalinu.

En það er fleira sem lætur okkur hlakka til þessa dagana - ekki á morgun heldur hinn er von á gestum og við getum einfaldlega ekki beðið. Við hefðum nú svo sem alveg óskað þeim betra veðurs en veðurfar er nú einu sinni hugarfar og smá hrollur er bara hollur - eða það lærðist okkur og vinafólki okkar amk í Argentínu forðum daga.

Þessi komandi heldi verður undirlögð hjá okkur því ekki nóg með að við séum að taka á móti góðu fólki heldur er líka ráðstefna á milli skóla hjá mér. Institute of Education í London og Danish School of Education koma líka og þrír árgangar af MA LLL fólki sameinast á einni ráðstefnu hér í Bilbao. Ég ætla nú að reyna að vera sem minnst á ráðstefnunni og sem mest með gestunum en verð samt sem áður að vera með stutt erindi um ritgerðina og svona aðeins að sýna mig og sjá framan í annað fólk - til þess er leikurinn gerður.

Góðar stundir og njótið helgarinnar - við ætlum sko að njóta í botn!!