Thursday, August 04, 2011

Einstæð móðir...

...í 8 daga og mikið vildi ég ekki gera þetta að vana! Að eiga barn er tveggja manna (og kvenna) verk í það minnsta. Það er nú ekki mikið fyrir litlu Fönn haft en engu að síður hlakka ég óendanlega til að fá pabba hennar aftur heim til okkar. Fyrir utan hvað ég sakna þess bara að hafa einhvern að spjalla við á kvöldin og morgnanna þá er ótrúlegt hvað allt verður miklu flóknara og erfiðara ef það eru ekki fjórar lausar hendur á heimilinu. En síðan venst þetta kannski bara og maður lærir að plana aðeins fyrirfram, taka hlutina til, hugsa fram í tíman og gera ráð fyrir því að vera einn.

Ég er að minnsta kosti búin að lenda nokkrum sinnum í því að vera komin með barnið á skiptiborðið og úr fötunum en ekki búin að ná mér í blautþurrkur (eða blautan svamp) og þá er ekki hægt að kalla "Æ Lalli nenniru..." Þá er bara að taka barnið upp aftur, ná í svampinn og vonast til þess að hún pissi ekki á mig á meðan (sem er óraunhæf ósk því henni verður iðulega mál þegar hún er loksins laus við bleyjuna).

Í kvöld pantaði ég pizzu og var reyndar svo heppin að mamma leit inn stuttu seinna og gat linað samviskubitið sem ég fékk yfir því að hafa panta pizzu fyrir mig eina. Hin þrjú kvöldin sem við mæðgur erum búnar að vera einar heima borðaði ég ekki neitt í kvöldmatinn. Fyrsta kvöldið uppgötvaði ég klukkan 10 þegar Hera Fönn var sofnuð að ég var mjög svöng og skellti þá í mig einni skál af serjósi svona rétt áður en ég háttaði hin tvö kvöldin fór ég bara svöng að sofa. Ég er semsagt ekki búin að elda neitt síðan Lalli fór enda glatað að elda fyrir einn. Ætli fólk sem býr eitt eldi einhverntíman kvöldmat? Hera Fönn hefur talað við pabba sinn á Skype á hverju kvöldi síðan hann fór og verður orðin vel sjóuð í millilandarsamtölum áður en hún nær að verða 5 mánaða. Hún saknar pabba síns held ég óskaplega - eða amk þess að vera í félagsskap einhvers annars en móður sinnar enda mikil partýpía og finnst fátt skemmtilegra en að vera á meðal fólks. Thank god fyrir mömmuklúbb á morgun!