Saturday, November 30, 2013

Hér í hverfi 43 í húsi númer 289 eru fullkomin rólegheit á laugardagskvöldi sem þessu kærkomin. Við hjónin erum ennþá að jafna okkur eftir að hafa skemmt okkur langt fram á nótt í gærkvöldi. Norska sendiráðið bauð norðurlandabúum í afar huggulegt jólaboð. Við borðuðum yfir okkur af purursteik og piparkökum í frábærum félagsskap fólks frá öllum norðurlöndunum sem á það sameiginlegt að vera búsett og vinnandi hér í Lilongwe. Eitt af því sem aðgreinir norðurlandabúanna hér í Malaví frá öðrum er fjöldi karlkynsmaka sem fylgt hafa eiginkonum sínum yfir hnöttinn og eru það sem mætti kalla "househusbands". Yfirgnæfandi meirihluti heimavinnandi húsfeðra hér í Malaví eru semsagt skandinavískir að uppruna. Þessir eðalmenn hafa stofnað með sér félag (sem Lárus var innvinklaður í á fyrsta degi) sem þeir kalla "STuDs". Nafnið á félaginu vísar til þess mikla álags sem makar útivinnandi kvenna þurfa að þola og stendur fyrir Spouses Travelling under Durance. Skemmtiatriði kvöldsins snéru flest að því að lýsa streitumiklu, flóknu og erfiðu lífi makanna sem felst aðallega í því að skutla konum og börnum í vinnu og skóla, hittast í cappochino á besta kaffihúsi bæjarins, finna út hvar besti osturinn er seldur þann daginn, spila golf, fara í ræktina, drekka bjór.... þið getið ímyndað ykkur. 

Við skemmtum okkur konunglega í boðinu og vorum ekki komin hingað heim fyrr en undir morgun. Hera Fönn átti einnig mjög gott kvöld enda í ekki síðri félagsskap en foreldrarnir. Nýjastu meðlimirnir í íslendingahópnum hér í Malaví eru yndisleg fjölskylda sem við höfum fengið að kynnast á undanförnum vikum. Fjölskyldan öll kom í eitt allsherjar sleep over hingað til okkar í gærkvöldi sem gladdi  Heru Fönn óskaplega. Nýir vinir, gleði og gaman langt fram á kvöld. 

Nú erum við hins vegar þreyttari en orð fá lýst enda kemur sólin alltaf upp klukkan 5 með tilheyrandi fuglasöng og lífi. Heimasætan vaknaði um það bil klukkutíma seinna eins og venjulega og bað mömmu sína vinsamlegast um að koma fram og græja kornflex og mangó í morgunmat - sem ég og gerði. Það er þess vegna ósköp heillandi að fara upp í ból fyrir miðnætti í kvöld og sofa jafnvel til 7 ef að heppnin er með mér! 

Tuesday, November 26, 2013

Þakklæti fyrir leikskólana!

Í morgun lögðum við extra snemma af stað í leikskólann hennar Heru Fannar (Rainbow!) til þess að móðirin gæti einstaka sinnum farið með barnið í leikskólann og komið í veg fyrir þann misskilning (eða óskhyggju) af hálfu leikskólakennaranna að Lárus sé einstæður faðir. Á leikskólanum er ekki skortur á leikskólakennurum eins og heima á Íslandi - ó nei aldeilis ekki. Ef ég ætti að giska myndi ég halda að það væri ca 1 kennari á 1--2 börn. Síðan eru það ráðskonurnar, konan sem opnar hliðið á morgnanna, maðurinn sem stýrir bílaumferðinni á bílastæðinu, fólkið sem sér um dýrin, byggingarnar, garðana.... and the list goes on. Reyndar er aðeins minna lagt upp úr prófgráðum og ég held að eini menntaði leikskólakennarinn sé leikskólastýran sjálf. En hvað sem menntun líður er starfsfólkið allt óksaplega vinalegt, barnvænt og kann sitt fag. Hera Fönn byrjar daginn sinn á að fara í stóra úti/inni stofu sem er full af leikföngum og þar er frjáls leikur í morgunsvalanum. Hún hefur síðan val yfir daginn um ótal afþreygingu og leik. Hún lærir líka markvisst um stafina, formin og litina. Í leikskólanum eru söngstundir, útivera, þemadagar og allt það sem við tengjum við gott leikskólastarf. Ég er óskaplega þakklát fyrir að hafa fundið leikskóla sem við erum öll ánægð með. Leikskóla sem aðstoðar okkur foreldrana við uppeldið á barninu okkar. Veitir okkur fullorðna fólkinu ákveðið frelsi (til að sinna vinnu og heimili) og barninu tækifæri til að umgangast jafnaldra í skipulögðu og örvandi starfi. 

Hér í Malaví gerum við okkur hins vegar óhjákvæmilega grein fyrir því að við erum í hópi afar fárra og útvaldra sem hafa efni á og aðstæður til að njóta slíkra forréttinda. Það er alls ekki gefið að koma barninu sínu í leikskóla og þessi tiltekni skóli sem Hera Fönn er í er dýrari en leikskólar heima á Íslandi verða nokkurn tíman. Í Malaví fá einungis rétt tæp 30% barna leikskólaþjónustu af einhverju tagi. Þegar ég segi "þjónstu" þá á ég ekki við það sem ég taldi upp hér að ofan. Nei það er langur vegur frá. Einu almennu leikskólarnir í Malaví eru nefnilega eingöngu reknir af sjálfboðaliðum í hverju samfélagi fyrir sig og eru því afar óstöðugir og tilviljunarkenndir. Tilkoma þeirra er engu að síður gríðarleg viðbótarþjónusta við Malavískar konur sem annars eru bundnar börnum sínum allan daginn og verða þar af leiðandi langflestar af tækifærum til vinnu eða menntunar. Reyndar vinna allar konur hér sama hvað börnum líður - þær binda bara börnin á bakið fyrstu þrjú árin og halda áfram að strita. Af því leiðir að meirihluti barna hér í Malaví nær ekki fullkomlegum líkamlegum þroska, hæð eða þyngd. Leikskólarnir umræddu eru kallaðir Community Care Centers og eru í raun og veru frekar nýir af nálinni. UNICEF hefur unnið að því síðastliðin ár að styrkja þessa þjónustu með ýmsum hætti. Til að mynda hafa verið haldin námskeið fyrir konurnar sem starfa sem sjálfboðaliðar í leikskólunum. Þá hefur verið reynt að styrkja ákveðinn fjölda skóla með grunnaðbúnað eins og drykkjavatni og klósettaðstöðu.

Það sem mér finnst hins vegar vera ein af stærri vörðum í átt til gæðaleikskólamenningar og bættrar stöðu og heilsu barna hér í Malaví eru svo kallaðir Early Learning Development Standards eða staðlar fyrir þroska ungra barna. UNICEF hefur á undanförnu ári aðstoðað jafnréttisráðuneytið og menntamálaráðuneytið við að þróa og gefa út slíka staðla. Staðlarnir eru til þess ætlaðir að hafa opinber viðmið um hvað þykir eðlilegt fyrir börn að geta, kunna eða afreka á hverju aldurskeiði fyrir sig. Heima á Íslandi þykir okkur þetta sjálfsasgt og jafnvel oft á tíðum jaðra við afskiptasemi. Vaxtakúrvan og þroskaprófin umdeildu eru til að mynda hluti af svona stöðlum. Við getum leyft okkur að gera grín að þroskaprófunum og ypta öxlum þegar börnin okkar (til að mynda barnið mitt) fylgir ekki kúrvunni en ástæðan fyrir því að við getum leyft okkur að taka slíka staðla misalvarlega er hið ótrúlega góða kerfi sem umlykur börnin okkar. Við vitum með nokkurri vissu að ólíkar stofnanir og aðilar fylgjast með því að barnið okkar þroskist og dafni á heilbrigðan hátt allt frá fæðingu. Ef að frávika verður vart eru ótal leiðir færar og ýmiskonar þjónusta í boði til þess að gera líf barnanna okkar betra hvað varðar jöfn tækifæri og gæði. Við höfum auk þess aðgengi að ógrynni af upplýsingum - sjálf var ég áskrifandi að upplýsingaveitu á netinu (www.babycenter.com) sem sendi mér aldurstengdar upplýsingar frá fæðingu Heru Fannar og til dagsins í dag. Mörg börn Í Malaví deyja af því að foreldrar þeirra og umönnunaraðilar einfaldlega vissu ekki betur, gátu ekki betur eða kunnu ekki betur.

Nú. Hvert er ég að fara með þessu? Einfaldlega í þá átt að þrátt fyrir að hægt sé að finna gloppur eða vankanta á kerfinu á Íslandi (og að sjálfsögðu má alltaf gera betur) þá ber okkur samt að þakka fyrir það að hafa fæðst inn í samfélag þar sem kerfið er til þess gert að halda utan um hvert barn sem fæðist. Þar sem menntun og fræðsla er á því stigi að við teljum okkur oft vita betur en kúrvan eða vaxtarprófið (sem er oft raunin). Og síðast en ekki síst fyrir að hafa aðgengi að sérsniðinni aðstöðu í formi leikskóla og þar innan hámenntuðu og metnaðarfullu starfsfólki (þetta leyfi ég mér að segja þar sem ég þekki slíkt fólk afar persónulega) En því miður er það svo að hér í Malaví þar sem slíkum mannauð eða aðstöðu er ekki fyrir að fara gætu slíkar upplýsingar og viðmið orðið barni til lífs. Ef að til að mynda móðir eða umönnunaraðili í leikskóla rekin af sjálfboðaliðum í afksekktu þorpi í Malaví fær haldbærar upplýsingar og fræðslu um eðlilegt holdarfar, heilsu og getu barna á tilteknu aldurskeiði og getur brugðist við frávikum með tilheyrandi leiðum er víst að framtíð barna í Malaví er bjartari. 

Monday, November 25, 2013

Skúli rafvirki

Elskurnar okkar!

Hér í Malaví gengur lífið sinn vanagang ef hæt er að tala um slíkt. Viðgerðir og framkvæmdir í húsinu hafa nú staðið yfir í rúmar tvær vikur og við erum í raun og veru ansi hissa á hversu vel gengur. Hér hefur allt verið málað að utan eins og við minntumst á um daginn - í fallega hvítu þökk sé eftirtekt og eftirfylgni Lárusar. Síðan þá hefur einnig verið skipt um nokkrar brotnar flísar í eldhúsinu og lúin moskítónet fyrir hurðunum, þakrennur og skyggni hafa verið máluð og skipt um spegla á baðherberjum. Kósýheitin aukast með hverjum deginum þó svo að hlutirnir gerist ansi hægt og rólega. Við fengum til dæmis rafvirkja til að koma og græja títt nefndan "generator" á þann hátt að ég gæti kveikt á honum inni þegar rafmagnsleysið gerir vart við sig. Hann tók um það bil viku í að vinna verkið - og þurfti á þeim tíma að fá nokkrum sinnum frí til þess að vera viðstaddur ýmsa fjölskyldu- og menningarviðburði. Rafvirkinn lauk síðan vinnunni sinni í gær - nema hvað að Lárus tók þá eftir því að allt virkaði í húsinu í dag nema eldavélin og lýsingin hjá vörðunum okkar. Rafvirkinn kom þá aftur við hjá okkur og gerði við það sem hafði vantað upp á. Nema hvað að þegar maður fær iðnaðarmenn heim til sín þá þarf að leggja út fyrir bensíni (sem fer hríðhækkandi). Um kvöldmatarleytið kom í ljós að nú þegar eldavélin virkaði þá voru öll ljós úti. Þá var aftur kallað í rafvirkjann sem Lárus segir að líti út eins og góð blanda af Don King og Bill Cosby (?). Hann kom með liðsauka með sér og fékk loksins allt til að virka - og fékk auðvitað auka bensínpening að launum. 

Nú njótum við fjölskyldustundar með rafmagn á öllum tækjum og horfum öll þrjú saman á Lion King II - á ensku til að æfa litlu prinsessuna á heimilinu. 

See you later and good night...  

Sunday, November 10, 2013

Fréttabréf með stóru F-i

Nú er löngu komin tími á stöðufærslu og fréttir frá Afríku. Tíminn hefur liðið á ógnarhraða síðan við komum hingað sem er í undarlegri mótsögn við almenn rólegheit og tímaleysi heimamanna. Við erum loksins flutt inn í húsið okkar sem stendur við nafnlausa götu í hverfi 43 og er númer 289. Það þekkist best sem húsið í beygjunni með hvítu veggjunum og svarta hliðinu. Það verður að viðurkennast að mér hálf féllust hendur fyrst þegar við komum inn í húsið sem var óheyrilega skítugt og illa frágengið. brotnar klósettsetur, málningarslettur á gólfum, biluð blöndunartæki, myglaður eldhússkápur, gamlar matarleifar upp um allt.... Þessi mikilvæga og notalega "heima-tilfinning" virtist í órafjarlægð og jafnvel ómöguleg með öllu þennan fyrst dag. Eftir hugreystandi spjall við vini og fjölskyldu vorum við samt sem áður staðráðin í að gera þetta hús að heimilinu okkar og líta á björtu hliðarnar. Fyrsta daginn þreif ég svenherbergið hátt og lágt til þess að geta að minnsta kosti sofið án gæsahúðar. Dagarnir þar á eftir fóru í þrif og tiltekt og smátt og smátt hafa herbergin tekið á sig vistlegri blæ. Skortur á húsgögnum er enn verulegur en fer þó minnkandi. Við náðum að kaupa sófasett af einni samstarfskonu minni sem er að færa sig um set. Af henni keyptum við líka draumarúmið okkar. Hjónarúm með fjórum stólpum og moskítóneti sem límist ekki við andlitið á manni. Húsgögnin týnast inn og húsið hefur tekið töluverðum breytingum til batnaðar við það að vera málað að utan. Það er hins vegar ekki alveg gefið að treysta á iðnaðarmenn og eins gott að Lalli hefur tíma til að fylgjast með og taka út þær framkvæmdir sem eiga að fara fram hér á húsinu. Við höfðum til að mynda samið um að húsið væri málað hvítt (í sama lit og er núna en hann er orðinn ansi hreint lúinn og grár). Daginn sem málararnir komu og hófust handa tók Lalli eftir því að þeir voru með allt annan lit í dollunum, einhvern beis-brúnan sem var vafalaust ódýrasti liturinn í búðinni. Lalli gat sem betur fer stoppað þá af áður en húsið varð beisbrúnt. "Oh but boss but this is the original color of the house".... Hmmm já já en hvítt skal það vera! 

Nú förum við í reglulegar eftirlitsferðir og höldum fram sérfræðikunnáttu okkar í krafti þess að vera smiðsbörn, systkini og tengdabörn. Við vorum til dæmis ekki hér til að fara yfir málningarvinnuna sem unnin var innandyra - sem varð til þess að það eru vænar málningaslettur á öllum gólfum, gluggalistum, loftinu og víðar. Litirnir eru líka ansi vafasamir og á flestum stöðum hefur ekki verið splæst í meira en eina umferð. Ég er búin að vera með málningu á heilanum síðan við fluttum hingað og mér varð ljóst að glansmálning er vestrænn lúxus sem finnst ekki í Malaví. Málningin er því öll mött sem gerir það að verkum að það er nánast ógjörningur að þrífa veggina með öðru en þurri tusku. Blaut tuska á mattan vegg gerir yfirleitt bara illt verra.   

Við höfum komið okkur upp ansi góðri daglegri rútínu sem felst í því að vakna rétt fyrir sex, græja Heru Fönn í leikskólann og mig í vinnuna. Við leggjum af stað um sjö leytið og keyrum mig fyrst á UNICEF skrifstofuna og síðan Heru Fönn á Rainbow. Lalli fer og stússast (græja og gera fyrir heimilið í bland við tennis, golf og göngutúra) og sækir svo Heru aftur rétt fyrir hádegi. Þau eru komin í nokkrar grúbbur þar sem bæðið foreldrar og pössunarpíur koma með börn í allskonar föndur, músík og leikjaafþreygingu. Foreldrar skiptast á að undirbúa og halda svona uppákomur. Mjög gott fyrirkomulag því þetta eru flest allt foreldrar úr hverfinu okkar sem skipuleggja og því stutt að fara og gaman fyrir Heru Fönn að fá smá auka leiktíma með krökkunum úr hverfinu.

Ein af verulega bjartari hliðum þess að hafa ákveðið að taka þetta hús er sannarlega staðsetningin. Við höfum hægt og rólega uppgötvað að talsvert af börnum sem Hera Fönn er með á deild í leikskólanum búa hér í götunni eða í næstu götum. Það er auðvitað ekki svo gott að börnin geti hlaupið sjálf hér á milli húsa - öryggisins vegna en það er engu að síður stutt að fara og í dagsbirtu getum við rölt saman og heimsótt litla vini og vinkonur. Það eru ekki bara vinir hennar Heru Fannar sem eru hér í göngufjarlægð heldur líka mjög gott og skemmtilegt fólk sem við höfum verið að kynnast á undanförnum tveimur mánuðum. Við eyddum kvöldstund með fjórum pörum (frá Noregi, Malaví, Hollandi og Danmörku) í gær sem öll eiga heima hér í kringum okkur og eru hressandi félagsskapur.

Ég hef verið á faraldsfæti í tengslum við vinnuna mína bæði innanlands og utan. Við ferðuðumst síðast til Blantyre í liðinni viku þar sem við héldum árlegan fund fyrir alla samstarfsaðilana okkar. Fórum yfir síðasta ár og skipulögðum næsta ár. Ég var með erindi um mikilvægi þess að gera reglulegt mat á því sem við erum að vinna að. Mikilvægi upplýsingabanka, rannsókna og greiningar til þess að geta sýnt með sannfærandi hætti fram á að við séum að ná árangri (eða ekki). Stór hluti stöðunnar minnar á skrifstofunni felst í því að halda utan um rannsóknir, passa upp á "monitoring og evaluation" ramma í hverju verkefni fyrir sig og gefa góð ráð til þess að öllum nauðysnlegum upplýsingum um árangur og stöðu verkefna sé haldið til haga. 

Blantyre er mun nærri því að vera BORG í hefðbundinni merkingu þessa orð. Þéttleiki og háhýsi, samliggjandi verslanir, barir og veitingastaðir setja nútímalegan blæ á borgina. Í Blantyre fann ég líka það sem ég hélt að fyrirfyndist ekki í Malaví - glansmálningu. Ekki í málningabúð heldur á veggjum klósetts á einum besta veitingastað sem ég hef farið á á ævi minni. Ég sat grínlaust á klósettinu og strauk veggina með hrifningarandvarpi. Lilongwe virðist ekki byggjast upp í sama anda og Blantyre. Hér eru vissulega háar byggingar en þær rísa með margra kílómetra millibili og eru umkringdar háum girðingum svo það vottar sárasjaldan fyrir lífi eða fólki á svæðinu. Gamli bærinn er reyndar alveg fullkomlega stappaður af fólki en hann er ekki sérlega aðlaðandi fyrir gangandi vegfarendur sem vilja eiga notalega stund án þess að þurfa að banda póstkorta-, ávaxta- og grænmetissölufólki frá sér í gríð og erg. En Lilongwe er að byggjast upp og kannski þéttist hún með árunum. Hún hefur  líka upp á þó nokkrar yndislegar perlur að bjóða og við erum hægt og rólega að finna "okkar" staði í borginni. Kaffihús með góðum cappochino. Veitingastað með frábærum indverskum mat. Sundlaug og grill sem er huggulegt að fara í á sunnudögum og svo framvegis. Í hvert skipti sem við finnum nýja staði sem eru litlar perlur í borginni líður okkur aðeins meira eins og "heima" og verðum aðeins öruggari fyrir vikið.

Þegar við fluttum inn í húsið okkar ættleiddum við kisu - kisan fékk ekki nafn til að byrja með en á endanum spurðum við fyrri eiganda hvaða nafn kisan hefði. Kisan hét Clover sem útleggst sem Smári á íslensku. Við höfum því kallað kisuna Smára, Clover eða bara hreinlega kisu. Við fundum hins vegar út í dag að kisan er stelpa... en það er nú algjört aukaatriði. Lárus, sem er ekki mikill kattamaður, sættir sig ágætlega við kisuna en er þó ekkert sérlega hrifin af henni. Kisa er hins vegar mjög hrifin af Lárusi og gerir í því að reyna að vingast við hann. Fyrsta daginn tók Lalli upp á því að henda kisu út með tilþrifum þegar hún var að þvælast upp á borði. Ég hóstaði aðeins yfir meðferðinni á kettinum og minnti Lalla á að hann væri fyrirmynd litlu dömunnar sem fylgdist grannt með. Lalli fussaði eitthvað aðeins yfir því þangað til daginn eftir þegar hann kom að Heru Fönn þar sem hún var búin að rogast með kisu í fanginu inn ganginn fram að eldhúsdyrum og grýtir henni svo út með skömmum..... (já það læra nefnilega börnin sem fyrir þeim er haft...). 

Hera Fönn, sem hefur verið óskaplega dugleg að aðlagast nýju umhverfi, langoftast með bros og þolinmæði að vopni, hefur þó átt aðeins erfitt með að vera góð við kisu. Hún virðist taka það út á kisu að hvergi í daglega lífinu er hún við stjórnvölin, enda tæplega sem hún skilur aðra eða er skilin. Aumingja kisa má forða sér þegar Hera Fönn skipar henni fyrir, togar í rófuna hennar, ýtir henni fram og til baka og stjórnast með hana. Kötturinn er hins vegar ekki ennþá strokin að heima og er ótrúlega þolinmóð við Heru Fönn. Á meðan höldum við áfram að reyna að gera litlu skessu grein fyrir því að kisa vill ekki láta baða sig í dúkkubaði, borða við dúkkuborð eða sofa í vagni. 

Hið daglega 6-9 rafmagsleysi hrjáir okkur akkúrat í þessum skrifuðum orðum þar sem við erum ekki enn búin að koma generatornum (auka rafmagnsstöð sem keyrir hluta af húsinu upp þegar rafmagnið fer) í fullt gagn. Við erum ekki alveg komin í flæði við þetta stöðuga rafmagsleysi og erum ennþá alveg gapandi hissa í hvert skiptið sem rafmagnið fer. Við lærum þetta vonandi fljótlega og verðum ekki með pizzuna og fröllurnar hálf hitaðar um hálf sjö leytið þegar allt dettur út. Ég er aðeins öfundsjúk út í vinafólk okkar í næsta húsi sem vinnur fyrir norska sendiráðið - þau eru án efa með stærsta og háværasta generatorinn í hverfinu því  ég vakna á nóttinni ef að hann fer í gang og svalahurðirnar mínar hristast eins og um undanfara að jarðskjálfta væri að ræða. Rafmagnsleysið er þó kannski einna verst upp á viftuleysi að gera. Þegar hitinn er orðinn að jafnaði 40 gráður alla daga er viftuleysi mun alvarlegra en ljósleysi. Við vorum með plön um að fá okkur loftkælingu í húsið en það er ansi kostnaðarsamt og heilmikið fyrirtæki að setja hana upp svo við höfum sætt okkur við loftvifturnar sem eru til staðar bæði í stofunni og í svefnherberginu. Þær eru líka ansi góðar og við höfum ekki verið í miklum vandræðum fram að þessu. Vonandi komumst við yfir heitasta tímabilið sem stendur yfir núna og fram í miðjan desember. Um leið og rigningarnar hefjast lækkar hitinn og loftslagið allt breytist. Við erum reyndar mjög spennt yfir rigningunni enda mun allt hér umhorfs breytast verulega, gras og plöntur vaxa af krafti og borgin breyta um svip. Rigningartímabilið hér er ekki einn samfelldur skúr heldur rignir frekar seinnipartinn og á nóttunni, loftið hreinsast og hitastigið er bærilegra... það verður yndislegt tilbreyting.  

Nú ætlum við fjölskyldan að fara að gæða okkur á hálfheitu pizunni og skipuleggja vikuna sem framundan er. Góðar stundir, ást og friður frá Malaví.