Tuesday, December 30, 2008

Annáll

Við enduðum síðasta ár í trylltu áramótapartý heima hjá meistara Jakobi í Hveragerði og dönsuðum okkur inn í nýtt ár með tilheyrandi harðsperrum og höfuðverk á fyrsta degi ársins 2008. Árið sem fylgdi í kjölfarið einkenndist af bæði taumlausri gleði, hausverk og harðsperrum og öllu þar á milli. Ég fagnaði 26 ára afmælinu mínu í janúar þrátt fyrir að Lalli reyndi að halda því fram að ég væri orðin 27 ára. Lárus hóf (óafvitandi) sitt síðasta tímabil í Hamri (í bili amk) og

Í febrúar góðærinu skelltum við kærustuparið okkur á farmiða til Mexico og upphófst mikil tilhlökkun og niðurtalning fram að vori. Í febrúar heimsótti ég líka höfuðstað norðurlandsins, fór á skíði í fyrsta skipti í langan tíma og hitti námskonuna systur mína, aðra ættingja og vini. Í febrúar tók ég tímamótaákvörðun og hætti sem fimleikaþjálfari. Ákvað að taka spennandi og krefjandi vinnu á rannsóknarsetri í háskólanum fram yfir og einbeita mér að því að klára kennslufræðina. Á svipuðum tíma og Kastró vék úr forsetaembætti á Kúbu var farin ógleymanleg fjölskylduferð að Rangá þar sem fólk flaug niður stiga, rotarar frá Siglufirði rotuðust sjálfir, fólk læsti sig úti um miðjar nætur og heitir pottar urðu kaldir.

Mars rann upp með vanalegu skólastússi og körfubolta hjá okkur báðum. Lárus í fullu að klára alþjóðasamskiptin og ég að reyna að uppeldisfræða unglinga í FÁ. Páskafrí í foreldrahúsum og huggulegheit sem því fylgja. Lærdómurinn og fall Hamars í 1. deild var allt saman bærilegt vegna fyrirhugaðrar Mexicoferðar.

Apríl hófst á frekari lærdómi, ritgerðar- og verkefnaskilum hjá bæði mér og Lárusi. Við styttum okkur stundir með nokkrum ferðum í Laugar Spa þar sem við fórum í gufubað og hrutum svo í takt í hvíldarherberginu. Apríl einkenndist einnig af endurminningum og örlítilli fortíðarþrá hjá mér. Seint í apríl fórum við skötuhjú einn eftirmiðdaginn út að skokka og tókum í kjölfarið þá ákvörðun að flytja til Danmerkur. Orsakasamhengið er enn töluvert óljóst.

Í maí sendi ég inn umsókn í mastersnám í Evrópskum menntunarfræðum, nánar tiltekið í Lifelong Learning sem ég kann ekki að þýða á góða íslensku. Í byrjun maí rann loksins upp Cancun ferðin góða sem farin var með góðum vinum. Hótelið var æðislegt, koktelarnir svalandi, hitinn æðislegur en á stundum óbærilegur, margt að skoða og margt að upplifa. Á síðasta degi ferðarinnar skók jörðin suðurlandið á Íslandi og hinn eini sanni suðurlandsskjálfti reið yfir. Það var frekar erfitt að vita af húsbanni, þyrlum sveimandi og fólkinu sínu heima fyrir þegar maður er staddur á bar í Mexico og getur lítið gert. En sem betur fer fór nú betur en á horfðist og flest allt tjón var bætanlegt þar sem engin missti líf eða limi í hamaganginum.

Í júní kláraði ég kennsluréttindin og útskrifaðist. Lalli kláraði líka öll fögin við alþjóðasamskiptin og fór að huga að ritgerð. Í júní vann ég á rannsóknarsetrinu við undirbúning rannsóknar og Lalli kenndi litlum pjökkum og píum körfubolta á milli þess að sinna starfi aðstoðarþjálfara hjá landsliðinu. Við skötuhjú fórum að huga að flutningum þar sem við höfðum tekið þá ákvörðun að flytja til Danmerkur hvort sem ég kæmist inn í námið eða ekki. Sumarið einkenndist því miður af svörtu skýi sem hékk yfir fjölskyldunni vegna veikinda Bjarna Páls hetjunnar okkar sem leyfði ljósinu að taka sig í júlí. Skarð í hjörtu og líf okkar allra. En sólin sest og hún rís að nýju og lífið heldur áfram í einhverri mynd. Í júlí fundum við íbúðina okkar sem við erum nú svo ánægð með og verðum í fram á sumar.

Um verslunarmannahelgina skelltum við okkur hringinn með mömmu og pabba sem var hin mesta skemmtun. Við heimsóttum staði sem annað hvort voru týndir í bernskuminningum eða við höfðum aldrei komið á. Ísland er svo fallegt og sumarið, veðrið og náttúran lék við okkur. Í ágúst héldum við áfram að kynnast landinu okkar þegar við fórum í eitt mesta stuð brúðkaup ársins til Hrefnu og Stebba í Reykhólasveit. Um miðjan ágúst var síðan förinni heitið til Kóngsins Köben og við hófum nýja áfanga í lífi okkar beggja. Kaupmannahöfn tók á móti okkur með sól og blíðu og Lalli samdi við úrvalsdeildarliðið SISU hérna í Kaupmannahöfn.
Í september byrjðai ég í masters náminu og Lalli á fullu í körfuboltanum. Við komum okkur vel fyrir á Matthæusgade 48 og urðum strax Vestrebro fólk í húð og hár. Nýr skóli, nýtt nám, nýjir vinir, nýr klúbbur, ný vinna... allt svo spennandi og framandi og lífið varð töluvert meira krefjandi en oft áður. Í lok september ákvað ég mitt í allri hringiðunni að taka þátt í keppni um tillögu að nýjum miðbæ í Hveragerði og kynntist fyrir vikið Tinnu frænku minni enn betur ásamt fleira afskaplega góðu og hæfileikaríku fólki. Lárus varð fyrir því óhappi að meiðast í lok undirbúningstímabils og var því miður óleikhæfur í næstum tvo mánuði.

Mitt í öllu nýjabruminu, gleðinni og hamingjunni minnir lífið á sig og afi kvaddi óvænt í október. Sólin sem skein í Köben í október gat ekki lýst upp þann daginn og við flugum heim í jarðaför og fjölskyldustundir. Kreppan skall á um svipað leyti og fór nú svona í fyrstu fram hjá okkur þar sem lífið er mikilvægara en peningar. Engu að síður fengum við aðeins að finna fyrir því þegar mjólin fór að kosta okkur 500 kall og húsaleigan farin að telja nokkur hundruð þúsundin. En eins og fyrr sagði þá heldur lífið áfram og við fengum okkur meiri vinnu og héldum ótrauð áfram að vinna að okkar hugðarefnum. Staðráðin í því að hingað værum við komin til að læra og lifa og þá skyldi það halda.

Eftir þrotlausa sjúkraþjálfun og æfingar fór Lárus að geta spilað aftur og í nóvember fór lífið að taka á sig rútínukennda mynd aftur. Skólinn, karfann og allt þetta venjulega. Ég fór á ráðstefnu til Bilbao og skoðaði borgina og skólann sem ég kem til með að stunda í september á nýju ári. Ég spreytti mig einnig sem forfallakennari í nóvember með eftirminnilegum hætti. Í desember veltum við fyrir okkur að halda jólin í Köben en tókum síðan ákvörðun að koma heim og knúsa vini og ættingja.

Já árið var svo sannarlega litað af bæði gleði og sorg eins og flest önnur ár. Hvert ár kennir manni að meta lífið og tilveruna upp á nýtt og skoða hlutina í víðara samhengi. Þetta ár er engin undantekning á því. Næsta ár verður eflaust enn lærdómsríkara og framundan eru skemmtilegir tímar held ég :)

4 comments:

Anonymous said...

Gaman að lesa annálinn ykkar. Margt svo spenandi búið að gerast hjá ykkur og örugglega ekki síðra ár í vændum :)
Njótiði áramótanna í Danmörkunni og
Við sjáumst svo hress á nýja árinu!
...Ég er búin að lofa að vera dugleg að kíkja á Hlín svo hún fái ekki heimþra svo vonandi komum við oftar í höfuðborgina á árinu 2009 :)

Hilsen, Bjarney

Anonymous said...

Frábær pistill!
Vá hvað allir ættu nú að skrifa svona pistil, þó ekki væri nema bara fyrir sig!

Lalli og Eva said...

Æðislegt, hlakka til að sjá ykkur meira á nýju ári Bjarney og Haddi :)

Já gott að skrifa niður hvað var gott, hvað var aðeins verra og hugsa aðeins um hvernig maður tæklaði síðasta ár :)

Áramótakveðjur frá Köben.

Anonymous said...

Vá hvað maður áttar sig á því hvað tíminn er fljótur að líða þegar maður les yfir svona ársyfirlit!

Kv,
Guðrún