Tuesday, December 16, 2008

Jólin nálgast

Við skötuhjúin vöknuðum upp við jarðskjálfta snemma í morgun. Það virðist sem óalgeng og nánast ómöguleg tíðindi fylgi okkur þegar við förum erlendis. Snjór í Buenos Aires, jarðskjálftar í Danmörku. 

Skondið að segja frá því líka að þegar við fluttum inn í íbúðina okkar í haust, sáum við að fyrir ofan rúmið er hilla og í henni er olíuljós, svona kar með olíu og kveikiþræði í. Ég spurði Lárus í smá kaldhæðni hvort það væri ekki vissara að fjarlægja þetta kerti úr hillunni, ef það kæmi mögulega jarðskjálfti... ástæðan er sú að Lárus er ógeðslega paranoid yfir jarðskjálftum heima og það má ekkert vera fyrir ofan höfðagaflinn. Kertið var náttúrlega ekki fært, vegna þess að það koma ekkert jarðskjálftar í Danmörku... fyrr en í nótt. 

Við búum nú ekki í nýjustu íbúðinni eða húsnæðinu og leiðslurnar í húsinu okkar hrukkur eitthvað til, það tók daginn að koma heita vatninu á aftur. Jarðskjálftinn var samt hið mesta grey miðað við það sem við eigum að venjast. Við rétt svo rugguðum til í rúminu og þjófavarnakerfið í nokkrum bílum fór í gang fyrir utan. Meira var það nú ekki. 

Annars styttist í okkur. Það er klárlega alltof mikið að gera hjá okkur fram að heimför og líklegast verðum við bæði að vinna eitthvað á Íslandinu. En við minnum hvort annað á það hversu gott það er að hafa mikið að gera, og hversu heppin við erum að hafa nóg fyrir stafni. Manni leiðist þá ekki á meðan :) 

Síðasti leikurinn hjá Lárusi á fimmtudaginn næstkomandi og ég klára skólann formlega á morgun, miðvikudag. Fór í smávegis próf í gær sem heppnaðist bara ágætlega held ég... Hvernig mér gengur kemur nú reyndar ekki í ljós fyrr en seint í janúar - þetta er soddan ferli. Fyrst er það að skila ritgerðum, svo er næstum mánaðarfrí sem á víst að fara í undirbúning fyrir vörn sem fer fram 23. og 25. janúar. Ég er að vona að ég fái að kenna aðeins hjá CIS í þessu mánaðarfríi... væri ekki verra að eiga fyrir leigunni :) 

Annars erum við Lárus í góðum málum vinnulega séð, ég tók 12 tíma vakt í DPU um daginn. Stóð heilan dag og hellti jólabjór og snafs ofan í prófessorana mína, það var semsagt julefrokost hjá kennurum og starfsliði skólans. Síðan hef ég þurft að segja nei oftar en já við forfallakennslu, þar sem akkúrat í augnablikinu verð ég að vinna að verkefnunum mínum í skólanum. Fimleikarnir ganga þrusu vel og ég kenni 20 krökkum einu sinni í viku að fara í handahlaup og arabastökk. Lárus er síðan farinn að kenna badminton einu sinni í viku við sama skóla, CIS. Hann lætur krakkana fara í runu og allir eru hamingjusamir :) 

Svo ég monti mig nú aðeins af Hr. Jónssyni þá var honum líka boðin meira vinna hjá SISU. Vinna sem felst í því að vera manager yfir öllum leikjum hjá SISU, það er að segja öllum körfuboltanum, ekki bara elítuliðinu. Hann kemur þar af leiðandi til með að stýra öllu keppnistengdu fyrir allt SISU liðið. Síðan var hann tilnefndur sem fyrirliði SISU Copenhagen í síðustu viku og spilar nú sinn annan leik sem fyrirliði á fimmtudaginn næsta :) 

Þegar ég les yfir færsluna þá sé ég að líf okkar tengist óneitanlega hinum ýmsu skammstöfunum. Bara svona til að fólk glöggvi sig á þessu þá stendur SISU fyrir körfuboltafélagið sem Lárus keppir með, SISU Copenhagen er elítuliðið eða semsagt meistaraflokkur karla, sem er sérstakt félag með sérstakan framkvæmdarstjóra og stjórn. DPU er skólinn minn www.dpu.dk fyrir þá sem hafa áhuga og stendur fyrir Danmarks Pædagogiske Universitet. CIS stendur fyrir Copenhagen International School og það er semsagt skólinn sem við Lalli erum bæði að vinna hjá við að kenna fimleika og badminton og sem forfallakennarar. 

Já þá er það semsagt komið á hreint... Við hlökkum ofsalega til að koma heim og eiga notalegar stundir með vinum og fjölskyldu. Efast um að ég skrifi staf í fríinu á Íslandi, því ég ætla svo sannarlega að njóta þess að kúpla mig algjörlega út úr netheimum, tölvunotkun og öllu slíku. 

Þess vegna segi ég bara: Gleðileg jól, takk fyrir að lesa og takk fyrir allar kveðjurnar og kommentin - við kunnum ofslega vel að meta það að fólk sé að fylgjast með okkur. Megi nýja árið færa ykkur öllum ógrynnin öll af gleði og gæfu, hamingju og heilsu. 

Ást & Kossar
E+L


No comments: