Tuesday, December 29, 2009

Jólin á Ísland

Jólin voru ljúf að vanda.

Í Brúarhvammi var boðið upp á rjúpur, á Giljum nörtuðum við í kaldann hrygg og fengum síðan hangikjöt á jóladag. Á annan í jólum voru tapasréttir og lambakjöt á boðstólnum að ótöldum öllum kökunum, jólabakstrinum, eftiréttunum osfrv.

Við erum búin að hitta fullt af vinum okkar, óvenju marga eiginlega miðað við að ég er búin að eyða nokkrum dögum í að vera veik - sem kallar á inniveru og rólegheit. En það er nú heil vika eftir svo að ég hef tíma til að þjóta á milli kaffiboða næstu dagana.

Í gærkvöldi áttum við til að mynda frábært kvöld og borðuðum geggjaðan mat með yndislegu fólki og í kvöld er stefnan sett á enn eina sumarbústaðaferðina, ég ætla nú reyndar bara að fara ein með Telmu vinkonu og eiga smá quality time með henni. Aldrei að vita nema að við spilum trjáspilið góða sem við spiluðum um það bil þrjúhundruð sinnum þegar við vorum litlar.

Eigiði góða rest elskurnar og gangið hægt um gleðinnar dyr - inn í nýja árið.

Tuesday, December 22, 2009

Ísland

Þá erum við komin heim.

Daginn sem við flugum frá Bilbao fór að snjóa þar og ég prísa mig himinsæla að vera stödd hér á Íslandi þar sem húsin eru upphituð og rúmlega það. Í íbúðinni okkar í Bilbao búum við nú ekki svo vel að vera með hita en getum þó stungið einum rafmagnsofn í samband ef svo ber undir. Það hefur hins vegar ekki gerst oft hingað til og ég vona að veðrið verði orðið betra þegar við lendum aftur á Spáni.


Ég hef líklegast ekki verið nægilega vel klædd miðað við aðstæður þessa fyrstu daga á landinu kalda því ég nældi mér hálsbólgu, hósta og hita. Ekki þó svínaflensu því mér skilst að maður verði svo ægilega veikur af henni, þannig að maður viti varla af sér. En ég er alls ekki það slæm, bara svona "inniveik" og kemst þar af leiðandi ekki í sund - en get eytt tímanum í að skrifa ritgerðir. Kannski eru þetta forlögin að hafa vit fyrir mér. Gera mig sæmilega veika til að vera inni en nógu hressa til að ljúka við lærdóminn. Enda ekki seinna vænna - margt að klára fyrir áramót.

Annars er þetta bara búið að vera notalegt, margir kossar (þannig nældi ég mér líklegast í flensu) og knús, vinamót og fjölskyldustundir. Yndislegt að hugsa til þess að dvölin er rétt svo hálfnuð, nóg eftir!

Wednesday, December 09, 2009

Hálfnuð

er vikan þá hafin er... eða má ekki annars segja það líka. Það er nokkuð ljóst að þessi vika ætlar ekki að vera jafn fljót að líða og fyrri vikur. Hver dagur virðist vera hundrað klukkutímar í það minnsta og hver klukkutími hundrað mínútur.

Það styttist samt sem áður og svosem nóg fyrir stafni þangað til að við leggjum í hann. Ég skrifa eins og vindurinn um borgaravitund, menntamál og lýðræði út frá hinum ýmsu hliðum. Er með tvær stórar ritgerðir nokkurn vegin hálfkláraðar sem var einmitt markmiðið - að hálfklára þær báðar áður en ég kæmi heim. Hálfnað er verk þá hafið er!

Á föstudagskvöldið er okkur boðið í kínverskan mat hjá Yanyan vinkonu minni úr skólanum. Hún mun klára Mastersnámið sitt í London og flýgur í jólafrí til Kína á laugardaginn svo það verður nokkurs konar kveðjustund. Nú er farið að verða heldur mikið um þær innan hópsins. Mjög sorglegt að hugsa til þess að jafnvel gefst ekki tækifæri til að hitta sumt af þessu góða fólki aftur sem ég er búin að eyða næstum því tveimur árum með. En við erum staðráðin í að halda sambandi, annað væri bara vitleysa. Þetta er án efa öflugasta og alheimsvæddasta network sem ég hef komist í og svoleiðis sambönd ber að rækta.

Ég hef nú þegar sett mér það markmið að heimsækja á næstu 10 árum amk þrjá bekkjarfélaga mína á þeirra heimaslóðir. Við erum 25 í bekknum og frá 15 löndum svo ég held að það sé raunhæft markmið. Svo er bara velja úr þeim löndum og heimsóknum sem standa manni til boða næstu árin. Ég er mest spennt fyrir Indlandi, Kína, Filipseyjum, Víetnam, Eþíópíu, Armeníu, Svartfjallalandi, Íran (held reyndar að vinur minn sem er frá Íran ætli ekkert endilega heim til sín aftur), Argentínu, Kanada og Króatíu.

Friday, December 04, 2009

1 ár, 1 vika, 1 dagur...

Hér á Calle Urazurrutia (prófið að segja þetta hratt 10 sinnum) er allt eins og það á að vera svona miðað við árstíma. Á meðan Jónsson keppir í körfu einu sinni í viku keppist ég við að lesa og skrifa. Eftir akkúrat eina viku verðum við síðan á heimleið til að halda upp á jólin í faðmi fjölskyldunnar.

Þetta með tímann er soldið skondið. Ég hef tekið eftir því að undanfarin ár hafa vinir og vinkonur á svipuðum aldri og ég nefnt það æ oftar að tíminn líði svo hratt. Ég er auðvitað í nákvæmlega sama pakka - geri mér betur og betur grein fyrir því hvað lífið er stutt og finn sífellt betur fyrir því hvernig tíminn gjörsamlega hleypur frá mér. Síðan held ég þetta versni bara þegar maður eignast börn þá finnst manni endanlega að lífið sé á fast forward held ég.

Sem dæmi má nefna að ég er algjörlega steinhissa á því að vera raunverulega að klára síðustu skólaönnina mína í MA náminu. Þegar ég skráði mig í námið haustið 2008 fannst mér ég næstum því vera að koma mér í eitthvað eilífðarverkefni. Tvöþúsundogtíu hugsaði ég og gat nánast ekki ímyndað mér hvenær það ár kæmi það var svo ógurlega langt í framtíðinni eitthvað... En núna er 2010 bara alveg að koma og ég að fara í síðustu "tímana" mína í náminu í næstu viku. Við tekur síðan auðvitað heil önn sem ætluð er undir rannsókn og lokaverkefni og eftir það get ég vonandi kallað mig meistara í.... uuu European Masters in lifelong learning: Policy and Management... hmmm ekki alveg að gera sig kannski?

En það skiptir engu máli það er svo langt í þetta... eða kannski ekki?

Þrátt fyrir tapleik hjá Santuxtu síðasta laugardag þá var engu að síður farið út á lífið þar sem "the rock" (Lárus Jónsson smkv liðsfélögum sínum) varð árinu eldri (þetta með tímann aftur - soldið spes). Við fórum á stað sem kallast Bilbao Deluxe og býður upp á RISA skammta af mat fyrir sanngjarnt verð. Síðan kíktum við á nokkra staði þangað til að við fengum nóg af latino og héldum heim á leið.

Fyrsta stopp heima verður í kósý hjá Fjólu og fjölskyldu og ég hlakka endalaust til!! Þá er nú heppilegt að þessi eina vika verður án efa eins og einn dagur að líða.

Hasta luego, venga, agur!

Monday, November 23, 2009

Við erum bókaormar

Vorum að setja nýtt inn á síðuna - lista yfir bækur sem við erum nýbúin að lesa og mælum með. Við uppfærum síðan listann stöku sinnum. Þeir sem hafa áhuga á bókum og lestri geta kíkt á þetta og smellt á titil bókar, þá ætti að birtast umfjöllun eða linkur á bókina.

Sunday, November 22, 2009

Basta Ya

Basta Ya eða Enough is enough eða Nú er nóg komið eru spænsk grasrótarsamtök að mínu skapi. Talsmaður þeirra og einn af stofnendum er Fernando Savater sem er fæddur og uppalin í San Sebastian, mikill baskamaður en alfarið á móti ETA sem og öllum öðrum hryðjuverkum. Basta YA býður alla borgara (frá öllum þjóðernum og löndum) til að taka þátt í að berjast fyrir þremur meginatriðum:

  • Against terrorism of any sort, regardless of origin or intensity.
  • Support for all victims of terrorism or of political violence.
  • Defend the Rule of Law, the Constitution and the Statute of Autonomy of the Basque Country.

Fernando Savatar er í algjöru uppáhaldi hjá mér. Hann er prófessor, heimspekingur og rithöfundur og uppáhaldsbókin mín eftir hann hefur einmitt verið þýdd á íslensku. Hún heitir Siðfræði Handa Amador og er algjörlega í einu orði frábær. Bókin er ekki kennslubók í siðfræði en heldur ekki skáldsaga um siðfræði. Hún er í raun bók sem Fernando skrifar til sonar síns sem er á unglingsaldri - ætluð honum sem leiðarljós í lífinu - bók sem segir frá og útskýrir nokkur grunngildi sem mér finnst að við ættum öll að geta unnið að því að lifa eftir til að lifa betra lífi.


Mæli með að allir gefi börnunum sínum (unglingum) þessa bók í jólagjöf og lesi hana síðan með þeim í góðu tómi.

Viðtal við Fernando (á ensku) um Frelsi fyrir Baskaland og bókina Siðfræði Handa Amador.


Basta Ya heimasíðan á ensku

Wednesday, November 18, 2009

Bilbao

...í lok nóvember. Fengum okkur göngutúr í sólinni og góða veðrinu.

Alltaf eitthvað fallegt að sjá.


Búið að hengja upp jólaljósin á brúnni milli gamla hverfisins og fjármálahverfisins. Það þarf ekkert að kveikja á þeim alveg strax held ég.


Þetta hús finnst mér alltaf jafn flott.



Almenningsbókasafn í Abando - æðislegir stafirnir í gluggunum.




Gamalt og nýtt mætist... ein af óteljandi fallegum kirkjum í Bilbao í hverfinu Indauxtu. Þarna fyrir aftan má síðan sjá svakalegan glerturn sem rís á ógnarhraða og kemur til með að verða stærsti turn í Baskalandi.

Eins mikið og ég vil halda í falleg hús og gamla borgarmynd þá verð ég eiginlega að segja að þeim hefur tekist ótrúlega vel upp með að blanda saman gömlu og nýju hérna í borginni. Samanber myndina af rauða spegla húsinu sem sómir sér vel innan um mis gamlar blokkir.

lengri leiðin...

Í ljósi síðustu færslu hefur verið tekin sú sameiginlega ákvörðun á þessu heimili að ég mun hér eftir taka sporvagn og ganga lengri leið í ræktina til þess að hámarka öryggi mitt og lágmarka áhyggjur velunnara og vina.

Tuesday, November 17, 2009

San Fransisco

Ég hugsa að daglega lífið okkar Lárusar sé ekki jafn hversdagslegt og líf annarra - eða jafnvel enn hversdagslegra?

Ég er að meðaltali í skólanum tvisvar sinnum í viku. Hina dagana rembist ég við að lesa eitthvað merkilegt og skrifa eitthvað enn merkilegra. Síðan fer ég á fund með leiðbeinanda og fæ ýmsar ráðleggingar sem ég reyni að botna eitthvað í þegar heim er komið og þá hefst ferlið aftur. Ég reyni að finna eitthvað af viti til að lesa sem síðan verður til þess að ég geti skrifað eitthvað vitsmunalegt.

Öðru hvoru hef ég dug og kjark í mér til að fara í ræktina. Ræktin sjálf er æðisleg en leiðin sem ég neyðist til að ganga til að komast að henni er ekki svo æðisleg. Gatan sem liggur að ræktinni er einfaldlega ekki sú álitlegasta og ég fæ ómælda og í alla staði óeftirsóknarverða (það er að segja ég sækist ekki eftir) athygli á meðan ég geng þennan um það bil 15 mínútna spotta. Þetta er kannski ekki svo alvarlegt og athyglin felst aðallega í saklausum hrópum og eftir á köllum. Algengustu frasarnir eru "rubia" sem þýðir bara einfaldlega ljóska og "guapa" sem er nú ekki amalegra en svo að það þýðir sæta (myndi kannski gleðjast ef það kæmi frá einhverjum öðrum en ókunnugum karlpeningi sem hefur því miður ekki mjög vinalegt yfirbragð á sér). Síðan færist stundum fjör í leikinn og strákarnir reyna að brúka ensku til þess að ná athygli þessarar rúbíu sem virðist vera ansi merkileg með sig, enda er hún búin að læra að stinga nefinu langt upp í loft og strunsa áfram eins og um hálfgert kapphlaup væri að ræða. Þá heyrast jafnvel setningar á borð við "hello darling", "how are you" og "see you later" (og þá þarf ég iðulega að bíta í tunguna á mér til að svara ekki "aligaiter"). En stundum getur hitnað aðeins í kolunum og orð eins og "puta", "puta madre", "sexo" sem og eitthvað muldur sem tengist rassi og brjóstum heyrast á götunni góðu - sem heitir því skemmtilega nafni San Fransisco.

En nú mega ættingjar og vinir ekki örvænta eða halda að ég sé ekki örugg hérna í baskaborginni. Þessi gata er nú yfirleitt mönnuð nokkrum lögreglumönnum og það var einmitt sagt frá því í fréttum í síðustu viku að nýbúið er að koma upp eftirlitsmyndavélakerfi á allri götunni.

Það er því aðallega þegar vantar upp á dug frekar en kjark þegar ég fer ekki í ræktina.

Wednesday, November 11, 2009

Það er heldur...

...tómlegt í íbúð númer 7 við ánna Nervion hér í Bilbao. Frábærir gestir komu til okkar og fóru svo aftur eins og gestum er von og vísa. Það var ómetanlega skemmtilegt að fá þau Höllu og Bjögga til okkar og yndislegt að láta minna sig á hversu ljónheppin við erum með fólk í kringum okkur. Vinir okkar eru æði!

Því miður voru veðurguðirnir ekki jafn spenntir fyrir komu þeirra skötuhjúa til Spánar og skelltu á beljandi rigningu og hagléli í fimm daga. Það gerði nú ekki mikið til því þau Halla Rós og Björgvin eru bjartsýnisfólk í meira lagi og létu ekki (ó)veðrið hafa áhrif á sig. Það var því með bros á vör og sól í hjarta sem við skáluðum í nokkrum bjórum, borðuðum góðan mat, hlupum á milli búða í "smá úða", þrjóskuðumst til að kaupa ekki regnhlífar, fórum í körfuboltagleði, dönsuðum til klukkan sex um morgunin, töluðum langt fram á morgun, sváfum langt fram eftir degi, borðuðum pinxtos, lögðum á ráðin um Ameríkuferðir, skáluðum fyrir jafnrétti, fórum næstum því í spilavíti og áttum hreint út sagt frábærar stundir saman. Takk fyrir yndislega ferð þið fallega fólk!

Nú tekur veruleikinn við, sem hefur sínar jákvæðu og neikvæðu hliðar eins og lífið sjálft. Skóli, vinna, skrifa, lesa og svo framvegis. En það er líka komin fiðringur í okkur fyrir heimferð í desember.

Tuesday, November 03, 2009

Haustrigning, gestir og ráðstefna

Þann 1. nóvember kom haustið til Bilbao. Þrátt fyrir að laufin hafi gulnað eilítið og eitt og eitt slysast til að falla til jarðar síðustu vikur þá hefur lítið annað minnt á haustið fyrr en það birtist okkur í formi úrhellis rigningar á fyrsta degi nóvembermánaðar. Það var sko engin surimiri rigning sem oft einkennir Bilbao og er nokkurs konar úði sem maður finnur varla fyrir.








Haustið kom okkur jafn mikið á óvart og veturinn virðist koma Íslendingum á óvart á hverju ári. Við vorum til að mynda ennþá klædd í sumarfatnað líkt og Íslendingar eru oftast ennþá á sumardekkjunum þegar fyrsti snjóbylurinn skellur á.

En þá er það semsagt opinbert, sumarið hefur kvatt í bili og nú hlökkum við bara til að koma heim í alvöru vetur og vonumst auðvitað eftir hvítum jólum með öllu tilheyrandi. Við ætlum að leyfa okkur gott jólafrí og verðum heima í næstum því mánuð. Tengdapabbi minn spurði reyndar að því hvort að þessi heimsókn okkar ætti ekki að vera skemmtileg þegar hann frétti hvað við yrðum lengi.... ;) Við gerum okkar besta til að halda uppi stuðinu í rúmar þrjár vikur og þær verða án efa mun fljótari að líða en aðrar þrjár vikur í dagatalinu.

En það er fleira sem lætur okkur hlakka til þessa dagana - ekki á morgun heldur hinn er von á gestum og við getum einfaldlega ekki beðið. Við hefðum nú svo sem alveg óskað þeim betra veðurs en veðurfar er nú einu sinni hugarfar og smá hrollur er bara hollur - eða það lærðist okkur og vinafólki okkar amk í Argentínu forðum daga.

Þessi komandi heldi verður undirlögð hjá okkur því ekki nóg með að við séum að taka á móti góðu fólki heldur er líka ráðstefna á milli skóla hjá mér. Institute of Education í London og Danish School of Education koma líka og þrír árgangar af MA LLL fólki sameinast á einni ráðstefnu hér í Bilbao. Ég ætla nú að reyna að vera sem minnst á ráðstefnunni og sem mest með gestunum en verð samt sem áður að vera með stutt erindi um ritgerðina og svona aðeins að sýna mig og sjá framan í annað fólk - til þess er leikurinn gerður.

Góðar stundir og njótið helgarinnar - við ætlum sko að njóta í botn!!

Thursday, October 29, 2009

Ó þú norður strönd Spánar....

Afrek ársins! Jæja kannski er ég full dramantísk en afrek var það engu að síður. Við Lárus lögðum upp í ansi langa göngu í bæ einum sem kallast Bakio. Bærinn sjálfur hefur kannski ekki upp á svo ýkja margt að bjóða en ströndin þar er jafn falleg og á öðrum stöðum við norður strönd Spánar sem og þessi forláta og ægifagra leið sem við löbbuðum. Leiðin liggur upp gríðarmikið og að því er virðist endalaust fjall. Útsýnið er það sem dregur óvana göngugarpa eins og mig áfram. Það er gengið í hlíðinni og því er útsýni yfir ströndina og atlantshafið alla leiðina. Dagurinn í gær var upplagður í svona göngu þó svo að það hefði verið í heitara lagi - þá var heiðskírt og því einstakt útsýni yfir í næstu firði og alveg út að ystu sjónarrönd eins og segir í laginu. Kirkjan San Juan sem var áætlaður áfangastaður og tröppurnar 300 sem ganga þurfti til að komast upp að henni var hins vegar ekki síðri en útsýnið á undan og því var það algjörlega þess virði að leggja á sig síðasta spölinn upp.

Við skötuhjú gerumst nú æ sterkari í þeirri trú að norður strönd Spánar sé engu lík og þarfnist mun nánari skoðunar, tíma og athygli okkar. Á meðan sumarið endist okkur ætlum við að halda áfram að fara í stuttar dagsferðir hingað og þangað um norður Spán og næsta vor gefst okkur síðan vonandi tími til að fara í lengri ferðir, kanna svæðið nánar og kynnast landi og þjóð enn betur. Ég hélt vitaskuld áður en við fluttum hingað að ég þekkti Spán ansi vel. Ég hef komið ágætlega víða og Spánn er jú einu sinni hluti af Evrópu -að minnsta kosti landfræðilega séð- Spánverjar sjálfir og sérstaklega þeir sem búsettir eru hérna í Baskalandi tala hins vegar um Evrópu oft á tíðum eins og Íslendingar gera. "Já þarna í Evrópu þá gera þeir þetta svona". Eins og landið þeirra tilheyri ekki Evrópu, eins og að í Evrópu sé allt annað kerfi og allt önnur menning. Það er svosem ágætlega mikið til í því hjá þeim - rétt eins og hjá Íslendingum sem finnst mörgum hverjum oft ansi erfitt að finna Evrópubúan í sjálfum sér.

Það kom hins vegar á daginn að ég þekki Spán ekki neitt. Ég þekki aðeins til hinnar klassísku staðalmyndar af Spáni og norður Spánn er svo sannarlega ekki hluti af þeirri staðalmynd. Hér er ekkert "olé, olé" ekkert "mañana, mañana" og allra síst flamengo eða nautaat. Hér býr frekar alvarlegt fólk sem vingast ekki endilega við hvern sem er og tekur ókunnugu fólki með fyrirvara. En þegar það eignast vini þá er það fyrir lífstíð er sagt. Hér er mikil og sterk ástríða fyrir mat. Fólk lifir til að borða í stað þess að borða til að lifa. Fólki hér er líka annt um fjölskylduna sína og sunnudagar eru heilagir fjölskyldudagar. Trúin er sterk og Jesúítar í meirihluta en það er aldrei þannig að trú sé þröngvað upp á fólk í daglegu tali. Trú er persónuleg og fólkið hér virðir friðhelgi einkalífsins og þína persónulegu hagi í topp. Þegar ég segi "fólkið hér" á ég vitaskuld við það fólk sem við höfum kynnst hér í Bilbao en ekki alla basknesku þjóðina eins og hún leggur sig - hana þekki ég ekki.

Fyrir utan einstaklega vinalegt fólk sem er allt af vilja gert en þó laust við alla yfirborðskennd eða tilgerð, matinn sem smakkast hættulega vel og vínið sem er bæði ódýrt og gott þá er náttúran eitthvað sem kom okkur mest á óvart. Grænar hlíðar í bland við himin bláan sjó og stórskornar klettastrendur er auðvitað himnaríki líkast. Ég gæti auðveldlega vanist því að heimsækja nýjan smábæ á hverjum degi hér bara til þess eins að sitja á ströndinni og dáðst á útsýninu - svo framarlega sem ég kæmist öðru hvoru inn á troðfullan, skemmtilegan og heimilislegan bar sem byði upp á framandi og exótískt pinxtos og txakoli - þá yrði ég sátt við guð og menn.


Tuesday, October 27, 2009

Bilbao Október

Ein gerð af pinxtos: Tigres

Street Art - sjálfstæðisáróður við húsið okkar


Night...


...and day

Stuð í sólinni í Bilbao

Monday, October 26, 2009

Erum við að af-alþjóðavæðast?

Á Spáni segir maður "he ido" en í Argentínu bara "fui" - Sara vinkona mín hérna í Bilbao sagði mér bara að segja "fui" og hafa ekki áhyggjur af þessu en Sitatxu önnur stelpa hér í Bilbao sagði það algjört grundvallaratriði að læra þáliðnu tíðina.

Púff!!

Vinir okkar sem við fórum út að borða með (pinxtos enn og aftur) á laugardagskvöldið ósköpuðust yfir því að það væri allt morandi í skyndibitastöðum hérna í Bilbao. Það er hins vegar algjörum ofsögum sagt. Í borg sem telur um það bil milljón manns hef ég séð nákvæmlega 2 alþjóðlega skyndibitastaði.

Við erum sem betur fer nánast alveg laus við að finnast skyndibitastaðir eftirsóknarverðir en höfum þó tvisvar síðan við fluttum lagt í að leita uppi Kentucky (ástæðan var einhver óvenjulegur slappleiki á sunnudagsmorgni). Í fyrra skiptið sem við fórum á Kentucky eyddum við næstum því hálftíma í að þefa hann uppi. Hann er ekki merktur með einasta skilti eða límmiða í glugga heldur leynist inni í eldgamalli bankabyggingu og fyrir gluggunum eru rimlar. Það er nánast ekkert sem minnir á hinn alþjóðlega stað Kentucky nema kjúllinn sjálfur. Auk Kentucky er að finna einn Burger King stað á aðal business torginu í bænum þar sem jakkafataklæddir menn og unglingar safnast saman til að skella í sig einum borgara á hlaupum eða kaupa klink tilboð.

Já semsagt. Vinum okkar fannst eins og áður sagði ofgnótt af skyndibitastöðum hér í Bilbao þangað til ég sagði þeim frá mekka "fast food lovers" - Íslandi. Ég stærði mig af því síðast á laugardagskvöldið að á Íslandi væru amk 10 Kentucky staðir, 10 Subway staðir og að minsta kosti 10 McDonalds staðir.

Nú þarf ég að éta þetta ofan í mig!

Sunday, October 25, 2009

Helgin í hnotskurn

Góð helgi að baki.

Við skötuhjú gerðum okkur dagamun á föstudagskvöldið og fórum á japanskan stað - fengum okkur sushi og kampavín. Hljómar ekki mjög námsmannalegt en það var innan allrar velsæmismarka og kostaði máltíðin sem samanstóð eins og fyrr segir af sushi, núðlum, rækjum, kampavíni og kaffi og ekki mikið meira en ein Eldsmiðjupizza myndi ég ætla.

Laugardeginum eyddum við í algjörri leti, ráfuðum um garða og torg, lásum bækur og sóluðum okkur í blíðunni sem brast svo einkennilega aftur á hérna í Bilbao. Ég er alveg hætt að botna í veðrinu hérna - enda var ég líka búin að lofa að hætt að blogga um það. Um kvöldið fylgdum við síðan vinum okkar héðan frá Bilbao á nokkra mjög svo lókal bari og áttum með þeim hressandi og skemmtilegt kvöld.

Klukkan breyttist síðan á laugardagsnóttina, okkur til örlítils ama þar sem við erum ekki mjög vön slíkum breytingum og urðum því einstaklega stressuð að vakna ekki á réttum tíma í körfuboltaleik daginn eftir. Við vöknuðum því eiginlega bæði upp af stressi um fimm leytið til að athuga á netinu hvað klukkan væri í raun og veru í Bilbao.

Mættum þar af leiðandi á réttum tíma á kaffihúsið París - sem er nokkurs konar meeting point strákanna í liðinu, drukkum morgunkaffið okkar ásamt hinu fólkinu úr hverfinu og héldum síðan á baskneskan körfuboltaleik. Strákarnir unnu með þvílíkum yfirburðum og eru því efstir í deildinni eftir fjórar umferðir.

Góðar stundir!

Thursday, October 22, 2009

NEI

Forláta kaffivélin sem ég gaf Lárusi í þrítugsafmælisgjöf í miðri kreppu og notaði í það dágóðan hluta af námslánunum mínum bilaði í dag. Kaffivélin sem Lárus elskar meira en mig virkar ekki lengur. Kaffivélin sem mér reiknast til að við höfum borgað um það bil 40.000 íslenskar krónur fyrir að láta flytja frá Kaupmannahöfn til Bilbao gerir ekki neitt kaffi!

Ég er að skrifa MA ritgerð - ég þarf kaffi!

Ást

Á Urazurrutia er allt með kyrrum kjörum. Um íbúðina ómar róleg og seiðandi djazztónlist og húsbóndinn býr til ilmandi expressó.

Wednesday, October 21, 2009

MEGAPARK

Við skötuhjú hálf neyddumst til að fara í verslunarferð í svokallaðan MEGAPARK í úthverfi Bilbao í gær. MEGAPARK er í senn bæði rétt og rangt nafn á verslunarsvæðinu. Svæðið sjálft er ógnvænlega stórt og heitir því með réttu MEGA en hefur enga sérstaka tengingu við PARK sem í mínum huga hlýtur að þýða garður. Það er að segja grænt svæði þar sem fólk safnast saman. PARK í þessu samhengi stendur hins vegar fyrir endalaust flæði af bílastæðum og bílakjöllurum umkringdum alþjóðlegum verslunum og verslunarkeðjum.

Við Lárus tókum strætó og báðum strætóbílstjórann vinsamlegast að láta okkur vita þegar við ættum að fara út. Eftir um það bil hálftíma keyrslu var okkur skipað út á nokkurs konar hraðbraut. Þegar út var komið blasti við risastórt IKEA skilti sem við tókum stefnuna á. Fyrir gangandi vegfaranda eru svona risagarðar (megaparks) ekki beint aðgengilegir enda varla gert ráð fyrir því að fólk komi á tveimur jafnfljótum. Við gengum því yfir aðra hraðbraut og nokkurn spöl áður en við komum inn í garðinn. Fjórum klukkutímum seinna hringdi vingjarnleg kona í tölvubúð á leigubíl fyrir okkur þar sem okkur hugnaðist ekki beint að leggja í göngutúr og strætóleiðangur með allt dótið sem við höfðum verslað.

Á leiðinni heim var ég að velta fyrir mér af hverju í ósköpunum svona verslunarsvæði væri að finna hérna á Spáni en áttaði mig síðan hægt og rólega á því að alþjóðavæðing og stöðlun á verslun og verslunarháttum á sér stað alls staðar í heiminum og ekki síst á Íslandi. Í nær öllum "alþjóðavæddum" samfélögum hefur verslun færst frá miðju samfélagsins til úthverfanna. Færst frá því að vera ákveðin samskiptaleið fyrir borgara til að koma saman, ræða um daginn og veginn, spjalla við afgreiðslufólk eða eiganda verslunarinnar í átt til þess að byggja á fjöldaframleiðslu, rútínu, sjálfsagreiðslu og ópersónulegri þjónustu. Verslun er ekki lengur þjónusta við nærsamfélagið og borgara þess heldur samansafn af kapitalískum keðjum sem taka magn umfram gæði.

Sem dæmi má nefna að við afgreiddum okkur sjálf í IKEA - ég skannaði allar vörur og renndi kortinu sjálf í gegnum posavél. Ég hafði ekkert á móti því að gera þetta sjálf, heldur er ég bara viss um að það er fólk sem væri til í að vinna við þetta og fá greitt fyrir. Við Lalli fundum það líka út að sjálfsafgreiðslan sparaði ekki tíma, fólkið á næsta kassa var mjög lélegt að skanna til dæmis og það tók það ógnar tíma og á endanum þurfti það að dingla eftir hjálp sem setur auka álag á starfsfólk sem á eflaust ekki að þurfa að sinna afgreiðslu - af því að það er sjálfsagreiðsla. Í tölvubúðinni sem við fórum í fengum við þjónustu eftir ótrúlega langa bið - aðallega af því að búðin var svo stór að við fórum í marga hringi til að leita að starfsfólki - þegar við fengum þjónustu og báðum um ákveðinn prentara tók strákurinn upp grænan post-it miða og skrifaði nr. á hann og lét okkur hafa. Þá gátum við sótt prentarann og farið og borgað. Ég hafði heldur ekki mikið á móti þessu - heldur er þetta bara gott dæmi um þær breytingar sem verslun og þjónusta hefur gengið í gegnum sl. ár.

Ég vona að þegar við lítum á öll risa torgin sem hafa risið á Íslandi (sem sum hver eru jafn stór og þau sem þjóna um það bil milljón manns hérna í Bilbao) og öll tómu vöruhúsin sem áttu að selja endalaust magn af vörum... að við spurjum okkur hvort þetta sé þróun í rétt átt... Þurfum við kannski miklu frekar á nærsamfélagi að halda, verslun sem einkennist af samskiptum og raunverulegri þörf borgara?

Sunday, October 18, 2009

Gestir til Bilbao!

Þá er það opinbert - við ílengjumst á Spáni og verðum hér í Bilbao fram á næst haust að minnsta kosti. Ég fékk semsagt úthlutað leiðbeinanda fyrir Masters ritgerðina mína á föstudaginn sl. og var yfir mig glöð með þann sem varð fyrir valinu. Ég hafði nefnilega töluverðar áhyggjur af því að fá ekki góðan leiðbeinanda hérna í Deusto og þegar ég segi góðan þá á ég við einhvern sem hefur sérfræðikunnáttu á mínu sviði og ekki síst áhuga á því sem ég er að gera. Það er algjört lykilatriði að hafa manneskju með sér í liði - einhvern sem hefur einlægan áhuga á að leiðbeina manni og læra með manni. Leiðbeinandinn lofar góðu, hefur mikið unnið með borgaravitund, lýðræði, menntamál, raddir ungmenna, fjölmenningu og fleira tengdu því sem ég hef í huga fyrir ritgerðina. Nú er bara að krossa putta og vona að við vinnum vel saman og að ritgerðin fái gott start.

Fyrsti körfuboltaleikurinn hjá Lárusi fór vel - Santuxtu vann og Lalli fékk smávegis spilatíma. Körfubolti eins og flest annað á sér sínar menningarlegu hliðar og ég held að mín persónulega upplifun af þessum fyrsta leik hafi verið menningarlega tengd að einhverju leyti. Mér fannst bæði spilamennska, áhorfendur og dómgæsla einkennast af miklu skapi, hrópum og köllum og æsingi. Nú er ég ýmsu vön og á mína spretti á leikjum (til dæmis kallaði ég einu sinni svo hátt inn á völlin að Kristinn nokkur körfuboltadómari svaraði mér fullum hálsi upp í stúku og eftir það hefur heldur lækkað í mér rostinn) en mér hálf blöskraði æðibunugangurinn og æsingurinn á fyrsta leiknum. Ég veit ekki alveg hvernig á að lýsa þessu en eins og ég segi held ég að þetta sé frekar bundið menningu og minni eigin upplifun en því endilega hvernig körfubolti var spilaður í þessum leik. Það kom mér til dæmis "spánskt fyrir sjónir" (góður djókur ha?) að áhorfendur virtust ekkert endilega vera með á nótunum hvers konar spilamennska gæti komið sér vel þá og þá stundina heldur kölluðu eingöngu "venga, venga, triple" í hvert skiptið sem einhver fékk boltann. Sem útleggst sem "koma svo, þriggja stiga". Skipti þá engu máli hver var með boltann, í hvaða leikkerfi eða við hvaða aðstæður. Lalli var líka spurður eftir leikinn af hverju í ósköpunum hann væri alltaf að GEFA boltann. "skjóttu bara". Já já svo getur bara verið að þessi leikur hafi spilast svona og við sjáum hvað setur. Hvernig þetta kemur til með að þróast og svo framvegis. Á jákvæðum nótunum þá er til dæmis líka alltaf klappað og stappað og hrópað húrra fyrir þeim sem koma með góð tilþrif inni á vellinum og skiptir þá engu frá hvoru liðinu aðilinn er. Það finnst mér alveg meiriháttar og til eftirbreytni!

Um helgina fengum við síðan þær gleðifréttir frá Íslandi að við eigum von á gestum hingað til Bilbao í byrjun nóvember. Við erum vægast sagt að kafna úr spenningi og hlökkum mikið til að taka á móti góðu fólki og eiga með þeim enn betri stundir. Það að eiga von á vinum sínum setur líka nauðsynlega og góða pressu á mig að vera dugleg að læra og koma eins og tveimur ritgerðum í gott far áður en snillingarnir Halla og Bjöggi mæta á svæðið.

Njótið komandi viku!

Monday, October 12, 2009

Lítill heimur

Hversdagslífið í Bilbao gengur sinn vanagang með ýmsum uppákomum þó.

Lárus er á góðri leið með að verða fullgildur meðlimur í basknesku körfuboltadeildinni sem ég held að heiti Liga Autonomico. Liðið sem hann ætlar að byrja að spila með heitir Santuxtu og er svona á íslenskan mælikvarða eins og meðal efstu deildar lið. Liðsfélagarnir eru hressir og skemmtilegir strákar sem eru allir af vilja gerðir til að koma okkur inn í lífið hérna í Bilbao. Þeir eru meðal annars að aðstoða Lalla við að finna vinnu. Annars erum við frekar róleg í tíðinni og ætlum að tileinka okkur slatta af þolinmæði því góðir hlutir gerast hægt.

Síðasta laugardag heimsóttum við höfuðborg Baskalands, Vitoria Gasteiz sem er mun frekar stjórnarfarsleg höfuðborg frekar en menningarleg höfuðborg. Í Vitoria er stjórnsýslan, í Bilbao er menningin og í San Sebastian er maturinn. Annars sáum við ekki mikið meira en aðalgötuna og að sjálfsögðu körfuboltavöllinn þar sem liðið hans Lalla fór með sigur af hólmi í öðrum leik sínum í vetur. Á sunnudaginn fór Lárus síðan að sjá Bilbao Basket leggja Granada að velli. Það er ótrúlega skemmtileg upplifun að fara á leiki hérna því höllin tekur um það bil 15.000 manns og það er mikið show sem fylgir heimaleikjunum.

Í síðustu viku vorum við minnt hressilega á það hvað heimurinn er í raun og veru lítill. Lalli fór í læknisskoðun til að fá leyfið sitt fullgilt og situr inni hjá lækninum að reyna að gera sig skiljanlegann á spænsku þegar kemur að aðstoðarlæknir og spyr hvort hann geti hjálpað til með tungumálið. Lalli fer að spjalla við hann á ensku og maðurinn spyr hvaðan hann sé. Þegar Lalli svarar að hann sé frá Íslandi verður maðurinn himinnlifandi og hrópar upp yfir sig að það sé uppáhalds landið hans. Hann fer þá að spyrja Lalla hvað hann sé að gera og þegar Lalli segir að hann sé að spila körfubolta og vanti heilsuvottorð þá horfir hann í smá stund á Lalla og spyr svo: Heitir kærastan þín Eva?

Lárus horfði vitanlega hálf grunsamlega á manninn og spurði hann hvernig í ósköpunum hann vissi það. Þá vildi svo skemmtilega til að ég hafði verið í sambandi við mann að nafni Carlos í gegnum e-mail síðan í vor. Birna sem ég var að vinna með í Íslandsbanka á Selfossi kom mér í samband við hann þar sem hann býr í Bilbao og elskar allt sem viðkemur Íslandi. Hann var því búinn að gefa mér góð ráð í gegnum e-mail í nokkrar vikur en við höfðum ekkert hisst. Það var því hálf skondið að hann skildi hafa hitt á Lalla svona algjörlega óvænt og lagt saman tvo plús tvo. Í Bilbao býr um það bil ein milljón manns svo þetta var heldur betur tilviljun fannst okkur!

Wednesday, October 07, 2009

Gamalt og nýtt - myndir úr Lalla Iphone


Eva og Bilbao köngulóin


Síðasta trúnóið í bili



Ottó og Birkir Smári




Calle Urasurrutia



Svanga



Valdimar Rokkari


Kjötbúð í Bilbao



Sætu hjónin Janus og Tinna




Eva í Casco Viejo



Frigg og Eva



Sóldís Lára og Birkir Smári



Kobbi og Tinna



Margrét Rós

Tuesday, October 06, 2009

*pása*

Eftir að hafa skrifað langt kvörtunarblogg um vöntun á hausti hér í suðrinu þá fékk ég auðvitað að kenna á því sem venjulega kemur með haustinu - kvef eða Gripe eins og það kallast hér. Ég er með stíflað nef og hálsbólgu sem er í engu samræmi við hitann og huggulegheitin úti. Það er ekki alveg í takt að sjúga upp í nefið og hósta í stuttbuxum og hlýrabol. Þegar maður er með kvef á maður að "passa sig á að verða ekki kalt". Hahahaha það var þá! En ég fékk hins vegar frekar formlega kvörtun á facebook í dag um að ég talaði alltof mikið um veðrið og gráðufjölda í því samhengi. Ég hef því sagt skilið við þessa umræðu og héðan í frá verður hvorki bloggað né statusað um veðrið.

...ég hætti örugglega að blogga þá?



Annars erum við ennþá södd og sæl eftir yndislegu San Sebastian ferðina okkar sem var farin síðasta laugardag. Veðrið lék við.... nei djók!! Borgin er einstaklega aðlaðandi og hefur upp á ótal margt að bjóða. Við eigum vafalaust eftir að fara þangað aftur og eyða lengri tíma. Borgin er ólík Bilbao að því að leyti að hún er yfirfull af ferðamönnum enda laðar hún að sér fólk frá öllum heimhornum. Við Lárus höfum hins vegar komist að því að ferðamenn og túristar eru ekki sama fólkið og það eru engir túristar í San Sebastian. Ferðamenn eru fólk sem ferðast til að komast í snertingu við eitthvað einstakt, satt og upprunalegt. Túristar eru meira á höttunum eftir bestu tilboðunum, skyndibitamatnum, fjöldaframleiddu Gucci úrunum eða stolnu Prada töskunum, gula bananabátnum eða froðudiskótekinu. Með þessari greiningu erum við samt sem áður ekki að leggja einn einasta dóm yfir túrista eða túristastaði.


Í San Sebastian eru hins vegar hvorki túristar né túristastaðir. Í San Sebastian eru ferðamenn sem ganga eftir ströndinni og fylgjast með sjómönnunum fiska í soðið. Fólk á ferðalagi sem grandskoðar og smakkar litríkt og dularfullt pinxtos. Fólk sem vill læra að biðja um heimagerða vínið á spænsku - eða jafnvel basknesku. Ferðamenn sem kíkja forvitnir inn á litla reykmettaða bari þar sem tíu gamlir karlar standa í hnapp með rauðar kinnar og alpahúfur. Fólk á ferðalagi sem dregur í sig menninguna og heimafólk sem, uppfullt af stolti og með bros á vör, leiðir gesti og gangandi í allan sannleikann um San Sebastian og baskenska menningararfinn.

Wednesday, September 30, 2009

Haust

Það er ekki margt sem minnir á Ísland hér í Bilbao og sjóðheitir septemberdagar hafa ruglað mig örlítið í ríminu að undanförnu. Ég hef enn ekki komist í hinn alrómaða "skólagír" sem bærir nú yfirleitt á sér með haustinu. Ég lít að jafnaði tvisvar sinnum á hitamælinn hjá apótekinu sem sýnir yfirleitt um 25 gráður þegar ég geng fram hjá honum á morgnana og tilfinningarnar sem fylgja svitanum sem lekur niður bakið á mér þegar ég bíð eftir sporvagninum eru blendnar.

Ég hef nú uppgötvað að ástæðan fyrir tilfinningalegu uppnámi mínu er sú að ég hef hvorki komist í tæri við haustværð né volæði þrátt fyrir að það sé 1. október á morgun. Haustværð og volæði hafa nefnilega að mínu mati, heilmikið að segja um lundarfar og skapgerð Íslendinga í um það bil þrjá til fjóra mánuði á ári. Tímabilið er mislangt en markast yfirleitt af endalokum verslunarmannarhelgarinnar og "feidar" út um jólin þegar við erum öll hvort eð er svo upptekin af einhverju allt öðru en því sem við ættum að vera upptekin af.

Haustværðinni fylgir því að kveikja á kertum og hafa það huggulegt á meðan vindurinn blæs úti fyrir og regnið slær á rúðurnar. Með haustværðinni hugsar fólk inn á við, þakkar fyrir lítið ljós í glugga og kúrir með sínum nánustu. Veðrið hefur þau áhrif að fólk þjappar sér saman, skipuleggur það sem þarf að gera heima við eða bara hitar sér kaffi og les bækur. Haustvolæðið lætur yfirleitt bera á sér þegar fer að draga nær jólum og lýsir sér í pirrings- og þunglyndisköstum yfir "helvítis grenjandi rigningu" og "djöfulsins roki". Í haustvolæði leyfist manni líka að hanga heilu dagana og gera ekki neitt eða eyða peningum í óþarfa hluti eins og áskrift að Stöð 2 eða einstaka sólarlandaferð, allt í nafni þess að bjarga geðheilsunni.

Á síðastliðnum mánuði hef ég gert ýmislegt sem svipar til þess að ég finni fyrir annað hvort haustværð eða volæði. Ég hef til dæmis gert mér ferð í IKEA til að kaupa hið árlega "haustdót" sem felst í óþarfa koddum, kertum og teppum. Eftir langa íhugun ákvað ég hins vegar að sleppa flísteppinu þetta árið enda var ég ennþá rennblaut af svita eftir að hafa setið í óloftkældum strætisvagni í um það bil 20 mínútur til að komast í IKEA. Ég keypti hins vegar kodda, ilmkerti, kertastjaka og 100 sprittkerti. Púðarnir líta ágætlega út í sófanum en hafa aðallega verið nýttir sem sessur á elhússtólana sem eru helst til harðir. Kertin fóru í stjaka en hafa lítið sem ekkert verið notuð sökum sólar og hita. Í síðustu viku dró ég reyndar fyrir hlerana á öllum gluggum í íbúðinni, slökkti ljósin og kveikti á kertunum - það var bara ansi nálægt því að vera huggulegt. Ég er eins og flest aðrir samlandar mínir að lesa sænsku tríólógíuna og hef reynt að mastera haustværðina með því að hjúfra mig upp í sófa með heitt kaffi og spennandi sögu en gefist upp og ég er búin að setja bókina á pásu í smá stund. Ég hef líka reynt við volæðið. Ég kvartaði til dæmis ógeðslega yfir því að skólinn væri til klukkan sjö um daginn (en það var vegna þess að ég vildi komast í sólbað). Síðan blótaði ég spænskutímunum aðeins um daginn en Lalli setti upp svo mikinn hneykslunarsvip að ég át það allt ofan í mig alveg um leið.

Spænska haustið er því eins og þið sjáið afar vafasamt og ruglar íslenskar sálir alveg í ríminu. Hér dugar hvorki að gerast áskrifandi að stöð 2 (enda er Lárus illa hamingjusamur með allar íþróttirnar sem eru sýndar frítt í sjónvarpinu hérna) eða kaupa sólarlandaferð til að bjarga geðheilsunni. Ég verð víst bara að gera mitt besta til að aðlagast aðstæðum - eða lesa nokkra íslenska facebook statusa á dag sem innihalda flestir einhvern vott af haustværð eða volæði.

Friday, September 25, 2009

Á Calle Urazurrutia

...er verið að henda í eitt kósýkvöld. Inglorious bastards komin á tölvuskjáinn og búið að færa til húsgögn til að mynda "mest kósý sjónvarpsstemmingu" sem við höfum haft í langan tíma að mati Lárusar. Kveikt á kertum, snakk og bjór og plusssófi - gerist það eitthvað betra?

Njótið helgarinnar!

Wednesday, September 23, 2009

...

Í Bilbao rignir að meðaltali um 250 daga á ári var mér sagt í gær. Í dag er hins vegar 27 stiga hiti og flennisól. Verst að ég var í skólanum frá níu til hálf sjö í dag og þannig verður morgundagurinn líka á morgun.

Lárus komst loksins á körfuboltaæfingu eftir að hafa verið hlekkjaður við skrifborðið í hálfan mánuð. Honum brá heldur betur í brún þegar hann mætti á æfinguna þar sem aðstæðurnar voru vægast sagt "Harlem like" - spilað á steingólfi og hann mætti heim eftir æfingu með sprungna vör en bros allan hringinn, sáttur með að fá loksins að sprikla. Nú hefur hann líka fyrst tíma til að líta í kringum sig og koma sér inn í hlutina hérna.

Ég er búin að tala meiri dönsku heldur en spænsku held ég síðan ég kom út. Í skólanum mínum eru nokkrir Erasmus nemendur frá Kaupmannahöfn og alveg stukku á mig þegar þær vissu að ég hefði verið í Kaupmannahöfn líka.... "ahhh du taler altso dansk ikke"... í sporvagninum í dag voru síðan týndir túristar frá Danmörku sem ég aðstoðaði örlítið og þau þökkuðu mér í bak og fyrir og aumkuðu sig í leiðinni yfir "den krise krise".

Well búðin kallar... ætla að skella mér í stuttbuxur og njóta síðdegissólarinnar.

Tuesday, September 22, 2009

Mánudagur til meistaragráðu

Meistari Lárus, meistari Lárus, sefur þú, sefur þú!! Hvað slær klukkan, hvað slær klukkan, hún slær þrjú....

Veit ekki ekki af hverju klukkan sló þrjú í þessu eftirminnilega leikskólalagi en Jakobi hefur verið skipt út fyrir Lárus í textanum að ofan auk þess sem klukkan slær nú eitt um nótt aðfaranótt þriðjudags - í gær (mánudag) skilaði MEISTARI Lárus nefnilega MA ritgerðinni sinni og hlaut þar með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum með áherslu á þróunarmál og íþróttir. Hann skrifaði sérdeilis áhugaverða og skemmtilega ritgerð upp á fjölmargar síður sem skilaði honum að lokum meistara titli, kampavínsskál og góðum kvöldverði í kvöld.

Mánudagur á þessu heimili í Baskalandi er svo sannarlega ekki til mæðu heldur til Meistaragráðu!! ekki amalegt það.

Saturday, September 19, 2009

Það rignir

eldi og brennisteini hérna í Bilbao. Eins og veðrið getur og hefur verið gott síðast liðna daga og vikur þá getur sko aldeilis rignt hérna á Norður Spáni. Þá er bara um að gera að ylja sér við tóna frá Ellý Vilhjálms og kertaljós hérna á U. 11 í gamla bænum.

Við skelltum okkur reyndar rétt áðan í miðnæturgöngutúr til að geta sagst hafa farið eitthvað út á sl. sólarhring. Erum annars búin að vera ansi mikið heima fyrir og ástæðurnar eru margþættar. Í fyrsta lagi er netið komið heim til okkar og við þurfum lítið sem ekkert að fara út (eigum fullt í ískápnum). Í öðru lagi þá er Lárus hálf límdur við tölvuna enda styttist veeeerulega í skil - mánudagsmorgun verður þetta víst að vera tilbúið og ég sem sjálfsskipaður yfirlesari hef auðvitað margt um ferlið að segja (aumingja Lalli). Þriðja ástæðan er sú að ég er búin að vera með stanslaust mígreni síðan á miðvikudag. Rétt svo að ég sjái út um augun um kvöldmatarleytið og fram að miðnætti og svo tekur við eitthvert rugl mígreni. Ég ætla að tékka á því hvernig spænsk læknisþjónusta virkar ef þetta fer ekki að skána. Læt þetta ráðast um helgina.

Annars er Brad Pitt mættur til San Sebastian og er örugglega bara að bíða eftir mér svo ég þarf að láta mér batna fljótt. Við stefnum á að fara á fimmtudag eða föstudag!! :)

Sunday, September 13, 2009

Við erum happý!

Við skötuhjú sitjum enn og aftur á netkaffihúsi í Casco Viejo í Bilbao.

Casco Viejo er hverfið sem við búum í og er eins og nafnið gefur til kynna elsti hluti borgarinnar. Borgin sjálf var stofnuð árið 1300 af kappa sem heitir Don Diego Lopez og heitir aðalgata borgarinnar í dag eftir honum. Hverfið sem við búum í er algjör andstæða við nýju og nútímalegu Bilbao sem hefur byggst upp í kringum fjármálahverfið og Guggenheim safnið. Báðir hlutar borgarinnar hafa þó sinn sjarma að mínu mati. Fjármálahverfið og hverfið í kringum Guggenheim safnið eru konfekt fyrir augað og sérstaklega fyrir þá sem aðhyllast nútímaarkitektúr og hafa gaman af mögnuðum og nær ómögulegum byggingum. En gamli hlutinn hefur líka að geyma magnaðar byggingar, meðal annars tvær kirkjur frá því í kringum 1300 og stærsta yfirbyggða ferskmarkað í Evrópu - La Ribera. Akkúrat í augnablikinu er verið að gera markaðinn algjörlega upp og ég hlakka mikið til að sjá hvernig til tekst. Sérstaklega þar sem markaðurinn sést beint út um stofugluggann minn.

Veðrið hefur leikið við okkur síðan við komum og það er sannkallað indian summer hér í borg. Hitinn hefur ekki farið undir 25 stig og hæst fór hann upp í rúm 40 stig en það gerist nokkrum sinnum á sumri þegar svokallaðir Foehn vindar blása frá fjöllunum í kring. Það var magnað að finna hvernig hitinn hækkaði um ca 10 gráður þegar vindurinn blés inn dalinn og lækkaði jafn fljótt aftur þegar lægði.

Um leið og Lárus lýkur við MA ritgerðina er síðan stefnan tekin á að ferðast örlítið víðar en um eigið hverfi (ekki það að okkur líki ekki bara ágætlega að ferðast um gamla bæinn). San Sebastian verður fyrst fyrir valinu og ætlum við að eyða nokkrum dögum þar, borða sérlega góðan Baskneskan mat og jafnvel kíkja á nokkrar vel valdar kvikmyndir þar sem við dettum akkúrat inn á Film Festival borgarinnar sem haldið er einu sinni á ári og líkist nokkuð því sem fer fram í Cannes í Frakklandi.

Ákvað að pósta nokkrum myndum (af netinu) til að sýna fjölbreytileika borgarinnar :)

Metróinn í Bilbao er ódýr, hreinn og ótrúlega fallega hannaður af Sir Norman Foster.

Guggenheim safnið er algjört meistarastykki og eiginlega hálf ótrúlegt hús. Sérstaklega fallegt þegar sólin skín á það en jafn skemmtilegt á rigningardegi þegar reykur rýkur upp úr stéttunum í kring og myndar ótrúlega mistíska og dulúðuga stemmingu.

Í Casco Viejo er yndislegt klassískt spænskt torg sem að spænskum sið hefur fjórar byggingar eða húsaraðir í kringum sig. Á þessu torgi er alltaf líf og fjör. Á sunnudögum er opin flóamarkaður þar sem fólk kemur og selur og kaupir alls konar dót og glingur. Alla aðra daga iðar allt af lífi og elstu og virtustu pinxtos = tapasbarir bæjarins eru staðsettir á torginu.



Skemmtileg mynd af götunum í Casco Viejo sem upprunalega voru 7 og er enn vitnað til Casco Viejo sem hverfis hinna sjö gatna.


Markaðurinn góði sem er verið að gera upp. Við hinn endann má sjá glitta í eina af fyrstu kirkjum borgarinnar og á því horni var borgin stofnuð. Við kirkjuna er að finna afskaplega fallega brú og sé gengið yfir þá brú má finna götu strax á vinstri hönd sem kallast Calle Urazurrutia og þar í húsi nr. 11 má finna Lárus og Evu, gleði og glaum og jafnvel rauðvín úr héraði og ferska osta af markaðnum í boðinu.

Hlökkum til að sjá ykkur!


Monday, September 07, 2009

Mánudagur um allan heim

Það skiptir víst litlu máli hvar maður býr í heiminum, á endanum er það hversdagurinn sem tekur við af ljúfa lífinu. Kaffihúsaferðum og rauðvínsglösum fækkar og við tekur venjulegur skóladagur og ritgerðarskrif. Það sem er þó að einhverju leyti óvenjulegt við lífið þetta haustið er hitinn og sólin sem skín framan í okkur Lárus á hverjum morgni.

Spænskupróf í morgun og síðan spænska á hverjum degi í þrjár vikur frá og með miðvikudegi. Nú er bekkurinn minn samansettur af rúmlega 20 krökkum frá bæði DPU háskólanum í Kaupmannahöfn og IOE í London og það verður skemmtileg tilbreyting að fá London krakkana með í hópinn og ég hef góða tilfinningu fyrir þessum vetri – ef vetur skyldi kalla.

Við erum hæstánægð með íbúðina okkar og þá helst hversu vel hún er staðsett. Ég hef síðan sannfært Hr. Jónsson um að koma með mér í ævintýraför (IKEA) á laugardaginn næsta. Eftir það verður íbúðin án efa orðin kósý og viðkunnaleg. Við ætlum meðal annars að skoða hvort okkur bjóðist rúm eða dýna á góðu verði þar sem rúmið sem við höfum deilt síðustu viku er nákvæmlega 98 cm á breidd og 185 cm á lengd. Ég var að enda við að mæla það til að vera viss um hvað við gætum látið okkur dreyma um bæta við mörgum sentimetrum. Plássleysið hefur samt sem áður ekki háð okkur það mikið enda er það er okkur Lárusi nú sem oft áður til happs og lukku hvað við erum ástfangin og ánægð með hvort annað!!! Ókei kannski líka það að við erum ekkert sérlega hávaxin eða fyrirferðamikil.

Styttist óðum í að Lárus verði meistari í alþjóðsamskiptum og við stefnum á rómantíska ferð til San Sebastian í tilefni áfangans!!


Sunday, September 06, 2009

Sunnudagur á Plaza Nueva...

Á torginu er fullt af fólki að njóta septemberblíðunnar.

Götulistamenn kasta keilum og standa á höndum. Á milli súlnanna á torginu spila börn fótbolta og elta hvort annað. Bæði fullorðnir og börn skiptast á fótboltamyndum. Skrifa skiptin niður á blað, leita að eigulegum myndum og blanda geði við hóp af fólki í sömu erindagjörðum.

Hinu megin á torginu eru seld gæludýr, páfagaukar, hamstrar, hænur, mýs, íkornar og kisur. "Vale, vale, vale" heyrist úr flestum áttum. Hér er líka hægt að fá fornbækur og gamla tónlist, plötur og plötuspilara. Ferðamenn, heimamenn, börn, unglingar og gamalmenni. Krúttlegastir finnst mér litlu gömlu karlarnir sem ganga um með staf og baskahúfur sem líkjast stórum frönskum alpahúfum.

Við horfum á fólk, njótum sólarinnar og drekkum kaffi :)

Thursday, September 03, 2009

Takk fyrir allar yndislegu heillakveðjurnar - þær virkuðu!!!

Við Lárus röltum á milli staða - rauðvínsglas hér - pintox þar. Stemmingin er öðruvísi, skemmtileg, afslöppuð og umfram allt heillandi.

Allar heillaóskirnar skiluðu sér yfir hafið og rúmlega það! Við fundum auglýsingu í háskólanum, hringdum í vinalegt fólk og gerðum leigusamning sama daginn. Fólk á aldur við mömmu og pabba (jafn ung semsagt) sem vilja allt fyrir okkur gera. Íbúðin er minni en allar íbúðir sem við höfum áður búið í (og þær eru nokkrar) en hún hentar okkur fullkomlega. Hún er nýleg, hrein og hefur allt til alls. Staðsett í Casco Viejo sem er afskaplega heillandi hluti borgarinnar, fullt af veitingastöðum, iðandi mannlífi og menningu. Fyrir utan gengur sporvagn beint í skólann minn.

Við hlökkum til að kynnast borginni og hvort öðru upp á nýtt - því nýtt umhverfi býður upp á endalaus ævintýri og nýjungar.

p.s. Það er ennþá stuttbuxna-veður ;)

Saturday, August 29, 2009

Nýju heimkynnin...

verða skoðuðu næstu daga. Ég fékk hugskeyti frá Lárusi og rölti út á götu hérna í Bilbao um hálf ellefu leytið í gærkvöldi. Þar stóð hann nýkominn í borgina, drekkhlaðinn dóti og brosti til mín. Ótrúlegt.

Fórum út að borða um miðnætti í gærkvöldi og borðuðum grínlaust besta mat sem við höfum nokkurn tíman smakkað. Tékkuðum aðeins á stemmingunni og lögðum okkur síðan. Langþráð að kúra saman enda vakti hreingerningarkonan okkur um hádegibilið og sagði okkur að hunskast á lappir ;)

Erum farin út að spássera.

Friday, August 28, 2009

Baskaland - Bilbao - Bullandi gangur á þessu...

Ferðalagið heldur áfram og eftir að hafa hlaupið nokkuð rösklega á Madridarflugvelli í þeirri trú að ég væri að missa af tengifluginu mínu til Bilbao... sem ég gerði ekki þar sem það virðist vera lenska hér í sunnanverðri Evrópu að seinka flugum... þá er ég loks komin í miðborg Bilbao, stödd á pínulitlu spænsku gistiheimili þar sem ég rogaðist upp þrjár hæðir með alla yfirvigtina mína. Það skiptir hins vegar engu máli þar sem ég er ennþá að þakka guði fyrir ítölsku stelpuna í tékk inn-inu og þann veruleika að hún rukkaði mig ekki um neina yfirvigt og fyrir það skal ég sko alveg bera kílóin á milli hæða.

IP ráðstefnan var algjört success og ég er hrikaleg ánægð með að hafa tekið þátt í þessu. Hópurinn var gríðarlega góður og ég held barasta að ég eigi eftir að sakna þeirra þrátt fyrir stutt kynni. Lúxusinn við þetta allt saman er að ég gat leyft mér, þrátt fyrir afleita tímasetningu, að lifa í akademískri kúlu í tvær vikur þar sem ég vaknaði á morgnanna til að tala um lýðræði, fjölmenningu, borgaravitund og menntamál þangað til að sólin settist. Ástæðan fyrir því að ég gat leyft mér þetta lúxuslíf er sú að ég á frábærasta kærasta í heimi sem sat eftir heima með ekki minna verkefni á herðunum að klára meistararitgerðina sína og að undirbúa, pakka og flytja án kærustunnar sinnar sem var upptekin eins og fyrr sagði við að ímynda sér hvernig hið eiginlega lýðræði birtist í skólum og hvort að borgaravitund sé í raun og veru eitthvað sem við getum kennt.... Ekki mjög pródúktívt eða praktískt þegar það þarf að setja föt og dót ofan í kassa, plana flug, panta hótel, skoða íbúðir, senda e-mail... eða klára meistararitgerð!

Ég elska Lárus út fyrir ósonlagið það eitt er víst. Vonandi við verðum svo fljót að koma okkur vel fyrir hérna í Baskaborginni og þá ætti ég nú að geta komið einhverju gagnlegu í verk ;)

Wednesday, August 26, 2009

...

Jæja gott fólk, þá er farið að styttast óðum í Bilbao-för og síga á seinni hlutann hérna hjá mér á Ítalíu. Veður og aðstæður hafa vanist ótrúlega vel og er það ekki síst að þakka frábæru fólki sem er hérna með mér í þessu prógrami. Ég hef aðallega eytt tíma með krökkum frá Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi en aðrir nemar og prófessorar sem taka þátt koma meðal annars frá Ítalíu, Grikkandi, Belgíu og Póllandi. Eins og ég sagði frá í síðustu færslu þá er þetta heljarinnar reynsla og frábært tækifæri fyrir mig. Búið að vera brjáluð vinna hins vegar og ég hef ekki farið einn einasta dag á ströndina takk fyrir. Ég héld ég verði að bæta úr því áður en yfir lýkur, sérstaklega þar sem stelpan í sjoppunn sagði við mig á mjög einlægri ensku en algjörlega út í bláinn: "you very cute, but REALLY white, maybe go to beach one hour".

Við Helena (stelpa frá Serbíu sem kemur frá sama skóla og ég) fórum út að borða á mánudaginn í tilefni þess að við höfðum lokið við að flytja fyrstu fyrirlestrana okkar á alvöru ráðstefnu. Fyrirlestrarnir gengu mjög vel og við fengum mörg góð og gagnleg komment á eftir frá bæði nemendum og prófessorum. Meira að segja Hr. Stavros, gríski prófessorinn minn óskaði mér til hamingju með góða og skemmtilega fyrirlestra. Það þykir nú harla gott hrós komandi frá alvarlegasta manni ráðstefnunnar.

Nú er mitt helsta takmark að finna þak yfir höfuð okkar Lárusar frá og með næsta föstudegi í Bilbao. Ég kem líklegast til með að bóka hótel í kvöld ef við finnum ekki gistingu einhverstaðar fyrir það....

Næst frá Bilbao :)

Wednesday, August 19, 2009

Ítalía

Ég er á Ítalíu, Lalli í Kaupmannahöfn og við bráðum saman í Bilbao.

Fyrstu dagarnir hérna á Ítalíu hafa verið frekar strembnir. Aðallega sökum þess að hitastigið hefur ekki farið niður fyrir 35 gráður og loftkæling er ekki í boðinu. Ég verð án efa búin að svitna nokkrum kílóum af vökva þegar tíma mínum lýkur hérna og verð þar af leiðandi orðin tágrönn og spengileg þegar ég hitti Lalla á Spáni þann 28. ágúst.

Aðrir byrjunarörðugleikar fólu í sér ekkert netsamband, engan síma á hótelherbergjum og litla sem enga þjónustulund starfsfólks hér á svæðinu eða kannski frekar takmarkaða enskukunnáttu. Ítalskan mín fer óðum batnandi og ég verð orðin fullfær um að leysa hin ýmsustu vandamál á ítölsku áður en yfir líkur. Ég hef nú þegar ráðið fram úr herskáum maurum og rafmagnsleysi á tungumáli sem var nokkurs konar blanda af ensku, ítölsku og tákn með tali.

Að öðru leyti er þetta frábær reynsla sem á án efa eftir að nýtast mér í framtíðinni. Ég hef ekki flutt erindið mitt ennþá (24. ágúst...) en hef hins vegar hlustað á mjög margt spennandi fólk segja frá ótrúlega áhugaverðum rannsóknum, ritgerðum og hugmyndum. Meiri hluti fólksins hérna er í miðju doktorsnámi og það eitt og sér gefur mér tækifæri til að kynnast fólki sem er komið örlítið lengra en ég í námi og hefur sambönd um alla Evrópu. Semsagt ómetanlegt tækifæri og mjög góð reynsla!

Hér í Lignano líður mér eins og ég hafi ferðast aftur í tímann þar sem umhverfið allt er mjög í anda áttunda áratugarins. Meira að segja fólkið, fötin sem það klæðist og tónlistin sem er spiluð minnir ekki agnar ögn 21. öldina. Adríahafið er engu að síður tímalaus fegurð og ströndin er að mínu mati einum of freistandi fyrir hóp af fólki sem er sagt að sitja inni í kennslustofu frá klukkan 8 á morgnanna til klukkan 8 á kvöldin.... sem reddast nú alveg vegna þess eins og þetta er allt saman ákaflega spennandi og gefandi umræður ;)

Allavega.... ég sakna Lalla og hann sagði mér á Facebook í dag að hann saknaði þess að ég rétti honum ekki handklæði eftir hann væri búinn í sturtu.

Ást og kossar til ykkar allra sem lesið.

Thursday, August 13, 2009

meira en þúsund orð...

Að keyra Öxi


Amma var steinhissa að sjá ömmustelpuna sína á Vopnafirði af öllum stöðum... :)


Að keyra inn á Vopnó


Lalli og Snúlla
Í Smáratúni. Ætluðum að heimsækja Dísu og Ívar fyrst við áttum leið um Fljótshlíðina en þau voru farin á þjóðhátíð..



Litla fjölskyldan + guðfaðirinn :)


Á Íslandi er allt sól og sumar...


...nema stundum



Meira á Facebook...

...

Mynd: Hildur María Valgarðsdóttir
Þessi dúlla kom með okkur til Íslands og var þvílík hetja í flugvélinni á leiðinni út. Við áttum yndislegar stundir á Íslandi, fengum æðislegt veður og hittum enn æðislegra fólk. Takk fyrir okkur allir!!
Heimshornaflakk Tralla og Trítlu heldur áfram og ég á flut til Feneyja á sunnudaginn. Held þaðan til Udine og verð að vinna í tvær vikur. Á meðan stefnir allt í að Lárus klári MA prófið sitt og verði orðinn meistari í alþjóðasamskiptum fyrr en varir... Þann 28. ágúst eigum við síðan flug frá sitt hvoru landinu en áfangastaðurinn er sá sami: Bilbao!

Wednesday, August 05, 2009

...

Gleði og hamingja umlykja okkur þessa dagana!

Friday, July 31, 2009

Afmæliskvedja

Tengdapabbi minn, Jón Smári Lárusson á afmæli í dag, stórafmæli meira ad segja.

Hann tengdapabbi minn er svo stór ad stundum stend ég upp á stól til ad knúsa hann. Hann leikur stundum Gunnar á Hlídarenda. Hann syngur hátt og vel. Hann vaknar alltaf fyrir klukkan sex á morgnanna. Hann er algjør hrekkjapúki. Hann á konu sem heitir Sólveig, kisu sem heitir Mía, 3 børn og 3 barnabørn.

Hann er flottur kall hann Smári á Giljum. Til hamingju med daginn!

Monday, July 27, 2009

Skemmtilegt

Dr. Gunni var í heimsokn í heimabænum mínum Hveragerdi (og ská heimabænum hans Lalla) um daginn. Strákurinn hans prýdir nefnilega Kjørísauglysingar sumarsins. Thad thotti nu heldur betur flott i mína tíd ad vera annd hvort Kjørís-stelpan eda Kjørís-strákurinn. Man enntha eftir Sigrúnu Bjørns vinkonu Heru Sifjar systur a rosa flottum Kjørís auglýsingum fyrir svona 16 árum sidan... Vá thad hljomar kannski betur ad segja fyrir mørgum arum sidan.



Allavega, eftir Hveragerdis heimsóknina setti hann Dr. Gunni saman thessa líka skemmtilegu mynd sem minnti mig á æskuslódirnar, Austurmørkina, Edenplanid og splunknýja banana sem mamma kom med heim af Gardyrkjuskólanum (yes we do have bananas).




...

Thad rignir endalaust her i Køben a medan vatnsbol tæmast a Islandi. Svona skiptist thetta alltaf milli DK og IS.


Pøntudum flugmidana okkar i gærkvøldi. Gerir thetta allt mun raunverulegra og ekki minna skemmtilegt. Eg flyg til Bilbao fra Feneyjum strax ad lokinni radstefnu og Lalli kemur sama dag til Bilbao fra Køben. Dagurinn er 28. agust sem hljomar mjøg vel i minum eyrum, ekki of langt og ekki of stutt.

Nefnilega margt spennandi framundan i juli og agust.

Sunday, July 26, 2009

Sunnudagssæla

Mikið var gaman í gær. Við getum mælt eindregið með staðnum Scarpetta sem býður upp á ítalska smárétti og góð ítölsk rauðvín. Við borðuðum okkur pakksödd og drukkum góð vín með fyrir mjög viðráðanlegan prís. Af því að við vorum í stuði þá fórum við líka út að dansa á eftir. Hjóluðum á milli mismunandi staða, koktelabara og hverfa hér í Köben og vorum ekki komin heim fyrr en undir morgun, súper sæl með kvöldið. Vöknuðum svo eldhress í morgun og skunduðum út í Godthabs bakarí þar sem fást íslenskir snúðar.

Mér er alveg sama þó svo að ég búi í 40 fermetra íbúð þar sem klósettið er inni í skáp og sturtuklefinn inni í svefnherbergi vegna þess að ég er í fyrsta skiptið í heilt ár með aðgang að súper góðum þvottavélum og algjörlega mögnuðum þurrkara sem þurrkar allt á 10 mínútum. Ég er ennþá algjörlega amazed og er stanlaust að dáðst að því að fötin koma í raun og veru HREIN út úr vélinni en ekki bara blaut með sápulykt en samt skítug eins og í flestum þvottavélum hér á götuþvottahúsum í Kaupmannahöfn. Til að toppa gleðina þá get ég hengt út á snúru og látið allt þorna úti!!!

PARTÝPAR á laugardagskvöldi í Köben




Saturday, July 25, 2009

Laugardagslíf

Fékk símtal frá Íslandi áðan. Það er alltaf jafn gaman að sjá +354 á undan nr. og fá nett fiðrildi í magann yfir því að einhver frá Íslandi sé að hringja...

Guðrún Anny vinkona mín, nýbökuð móðir
og hetja með meiru var hinu megin á línunni og við spjölluðum eins og lög gera ráð fyrir um fæðinguna, litla Túl (barnið) og nýja hlutverkið. Guðrún sagðist ennþá vera hálf sjokkeruð yfir því að þessi lifandi mannvera skildi hafa verið inni í maganum á henni. Ég á nefnilega ekki heldur eftir að skilja þetta fyrr en ég sé barn koma út um mitt eigið XXX og jafnvel ekki þá held ég...

Kollegar mínir í háskólanum halda að ég þekki allar nýbakaðar mæður á Íslandi (þau halda reyndar að allir þekki alla með nafni á Íslandi) vegna þess að ég sýni stolt myndir af splunkunýjum nýjum börnum og uppgefnum en alsælum mæðrum þeirra í hverri viku.

Samræðurnar voru nokkuð í anda dagsins þar sem ég bauð
Lárusi í "surprize" hjólatúr sem endaði á sýningu í Zoologiske museet hér í bæ. Þar er hægt að sjá sýninguna In Darwins footsteps sem bersýnilega snýst um þróunarkenninguna. Sýningin sló í gegn hjá okkur og við veltum fyrir okkur hvernig við hefðum nú í raun og veru orðið til, ímynduðum okkur líf á tímum risaeðla, skoðuðum hina ýmsu steingervinga og vorum almennt frekar intellectual... já eða bara lúðaleg, fer eftir því hvernig á það er litið.

Nú hljómar Moloko í græjunum hjá okkur og ég er komin í sparikjól þar sem við Lárus erum á leiðinni á rómantískt stefnumót á ítalska staðnum Scarpetta sem var einmitt valin besti nýji veitingastaðurinn í Köben fyrir árið 2009. Kannski við skellum okkur aðeins út að dansa líka ef við erum í stuði!




Sunday, July 19, 2009

Gleði & Glaumur



Við erum ástfangin af lífinu, fjölskyldunni okkar, vinum okkar, ströndinni, Vesterbro, Norrebro, sumrinu, görðunum, gleðinni, stemmingunni í Köben... en mest af hvort öðru. 


Wednesday, July 15, 2009

Nýjar hliðar á Köben

Það sem ég elska við stórborgir er að það má endalaust kynnast nýjum hliðum á borginni. Í dag uppgötvuðum við Lárus (eftir góðar ábendingar) að Jægerborggade og Stefansgade eru yndislega krúttlegar og skemmtilega spennandi götur í Nörrebro. Að vísu held ég að Vítisenglar eigi þessar götur með húð og hári og það voru nokkrar svona frekar vafasamar verslanir á stöku stað. En það er nú líka bara það sem gerir göturnar svona spennandi og sniðugar.

Hjóluðum um í blíðunni, fengum sms um að lítill drengur hefði fæðst inn í þennan heim í nótt, borðuðum spínat fylltar pizzusneiðar á Stefanspizza og drukkum gott kaffi á Riccos. Yndislegur dagur í sól og 25 stiga hita. Gerist varla mikið betra.

Restin af deginum fer í akademískar pælingar og íbúðarleit. Uppgötvaði allt í einu að ef ég leita eftir "flat" en ekki "apartment" þá fæ ég svona hundrað sinnum fleiri íbúðir og á mun fýsilegri prís. Hver er eiginlega munurinn á flat og apartment?? Getur einhver sagt mér það. Virkar alveg það sama en er það greinilega ekki.