Monday, February 09, 2009

Ummmm daaaa

Síðan við fluttum út hef ég ekkert lagt mig sérstaklega fram við að fylgjast með dægur(þrasi)málum frá Íslandi. Er bara ponsu lítið fegin að vera ekki mitt í allri hringiðunni og að geta horft á úr ákveðinni fjarlægð. Ég freistaðist hins vegar til að horfa á fréttir í beinni á RÚV í gærkvöldi á meðan ég var að elda kvöldmat (ég er ótrúlega dugleg að elda kvöldmat fyrir þá sem ekki vita). Semsagt, ég horfði á fréttirnar og fékk óstöðvandi kjána/klisju hroll. Í fréttunum var aðallega fjallað um fólk sem fannst annað fólk leiðinlegt við sig eða koma illa fram við sig út af ástandinu. 

Uppeldi mitt sl. 27 ár (já ég held að mamma og pabbi sé ennþá að reyna að ala mig upp stundum) hefur aðallega markast af tveimur mjög skýrum og einföldum leiðarljósum sem ég hef reynt að tileinka mér í gegnum lífið. 

1. Þú tekur ábyrgð á sjálfum þér. 
2. Þú hefur frelsi til að velja. 

Þetta tvennt, frelsið og ábyrgðin haldast í hendur og mynda órjúfanlegt orsakasamhengi. Þegar ég tala um ábyrgð þá meina ég að maðurinn tekur ábyrgð á því sem hann gerir - og gerir ekki ef því er að skipta. Með frelsi til að velja á ég við það að í öllum aðstæðum getum við valið hvaða leið við förum og hvað við gerum - eða gerum ekki. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því - og mér var kennt það mjög snemma að lífið er ekki alltaf sanngjarn og maður hefur ekki alltaf val um hvað hendir mann í lífinu. En maður hefur alltaf frelsi til að velja hvernig maður bregst við í aðstæðunum. Maður hefur alltaf frelsi til að axla ábyrgð og til að takast á við það sem lífið býður manni upp á. Frelsið sem okkur er gefið kristallast að mínu mati í því að taka ábyrgð. 

Já einmitt og hana nú! Þessi moli hefði nú kannski frekar átt heima á persónulega blogginu mínu en hann fékk að fljóta hérna með. Ég slökkti allavega á fréttunum eftir smá stund og ákvað að vera bara ekkert að horfa á svo mikið á þær aftur. Enda margt annað sem á hug minn allan þessa dagana. Um helgina pössuðum við hundinn Brúnó. Ég var nú ekki mikil hundakona fyrir þessa helgi og það breyttist lítið held ég. Hundurinn fór með mig út að labba en ekki öfugt. og ég pissaði næstum á mig af hræðslu þegar aðrir, mun stærri og sterkari hundar, geltu á eftir okkur Brúnó. Hann var samt voða ljúfur og góður og hagaði sér af mikilli prúðmennsku alla helgina. 

Þegar ég kom heim úr skólanum og vinnunni í dag þá beið mín líka þessi ótrúlega spennandi pakki frá Íslandi!! :) Ég er búin að lifa ansi lengi á afmælinu mínu og hef fengið frábæra pakka með reglulega millibili síðan í byrjun janúar! Ég fékk yndislega fallega ullarsokka sem eru nú fastir við fætur mínar og heilan helling af íslensku nammi sem fór rakleitt upp í skáp (fyrir utan einn Draum). Nú býð ég spennt eftir að það renni upp nammidagur hér á M.48. Fyrir um það bil viku síðan fékk ég líka pakka fullan af nammi og fleira fallegu prjónadóti frá Reykásfjölskyldunni. Er búin að vera klædd í íslenska ull nánast frá toppi til táar síðustu daga og er algjörlega að elska það! 

Lalli er núna komin í dansfélag SISU en ekki körfuboltafélag SISU þar sem liðið hans er að æfa tímabundið með balletdönsurum að rosa flottu showi sem fer fram í DGI - byen í þessum mánuði. Showið er samblanda af körfubolta og ballet/modern dansi. Þetta verður mikið ljósa og tónlistarshow og örugglega rosalega flott og ég er mjög spennt að sjá þetta þegar þetta verður sýnt. En svo engin misskilji neitt þá fer Lárus með hlutverk körfuboltamanns í showinu :) 

Annars hef ég gleðifréttir að færa... bráðlega þegar og ef ég fæ staðfestingu á því :) (ég er samt ekki ófrísk þó svo að Óli litli fari mér einstaklega vel á myndinni úr síðustu færslu). Jæja nú er það alvaran sem tekur við og það þýðir að ég verð að lesa mér eitthvað örlítið til um samanburðarmenntunarfræði. 

Kveðja af M48

7 comments:

Anonymous said...

Þú veist að óléttan er smitandi ;) bara spurning hvort hún nær alla leið til DK!!! En hvað eigum við annars að bíða lengi eftir gleðifréttunum? :)

Já annars er lífið ekki alltaf sanngjarnt en því miður virðist langt í frelsið hjá sumum á Íslandi núna :/

Kv, Guðrún

Lalli og Eva said...

Neinei alltaf frelsi til að velja að takast á við hlutina af æðruleysi og jákvæðni. Þýðir ekkert annað!! :)

Óléttan held ég að smitist ekki út fyrir landhelgina... allavega ekki í bráð. Sjáum til þegar ég er komin heim frá Spáni!!

Anonymous said...

áhugaverðar umræður um óléttuna! verð að viðurkenna að hjartað mitt sló hraðan frænakuslátt í hálfa sekúndu...

bíðum spennt eftir að þú komir heim frá Spáni!

þú ert nú að missa af hvað það fer Guðrúnu vel að vera ófrísk! eins og hún hafi bara aldrei gert annað!

kv
Fjóla

Anonymous said...

átti nú að vera frænkuslátt...en ekki fræakurslátt haha! sem er dáldið spænskt orð ef út í það er farið :)

Lalli og Eva said...

Haha já þú meinar!! Jamm ég þyrfti kannski bara að fá nokkrar myndir sendar af henni Anny minni og svo komum við heim í barnafans um páskana eða í sumar, þá er aldrei að vita hvað gerist!! :)

Lalli og Eva said...

Haha já þú meinar!! Jamm ég þyrfti kannski bara að fá nokkrar myndir sendar af henni Anny minni og svo komum við heim í barnafans um páskana eða í sumar, þá er aldrei að vita hvað gerist!! :)

Anonymous said...

Lofa að setja myndir á netið fljótt... annars er ég í "bumbu" afneitun því ég held að hún hafi sprottið út sama dag og ég státaði mig af því að komast ennþá i Diesel buxurnar mínar!!!

Kv,
Guðrún