Sunday, February 27, 2011

Sunnudagsmorgnar

Rás 1 er klárlega besta stöðin á sunnudagsmorgnum.

Ég get alls ekki þolað teknó-píkupoppið (afsakið orðbragðið) á FM 957. Ég get ekki ímyndað mér að neinn sé í stuði fyrir þess konar tónlist á sunnudagsmorgnum nema þá helst þeir sem ekki eru ennþá farnir að sofa og eru að poppa síðustu E-pilluna svona upp úr hádegi á sunnudegi. Já já. Verði þeim að góðu.

Ég hef um það bil þriggja mínútna þolinmæði fyrir skelfilega yfirborðskenndu og hressu útvarpsfólki á Kananum. Kaninn spilar oft ágætis tónlist - en það er mjög vafasamt hversu ótrúlega hresst og frasakennt útvarpsfólkið er.

Þjóðarsálin hjá Sirrý gæti síðan auðveldlega drepið hvaða kósýstemmingu sem er "já góðan daginn mig langar að ræða um húðsjúkdóma og strætómál".... Sirrý sem er alltaf svo jákvæð ætlar aldrei að trúa því hvað ástandið í þjóðfélaginu er slæmt og sýpur hveljur yfir hverju stórmálinu á fætur öðru.

Þá hugnast mér betur "hrífandi svanasöngur Schuberts", útvarpsleikritið og lesnar tilkynningar í bland við tónlist sem spannar allt frá íslenskum karlakórum til rúmenskrar þjóðlagatónlistar.

2 comments:

Ásta Mekkín said...

Sammála!

Annars langar mig alltaf svo að borða þetta blogg - það er einhvern veginn á litinn eins og kokteill í Afríku

Lalli og Eva said...

Það er frekar girnilegt finnst þér ekki!! ;) Svona peach bleikur er alveg málið....