Friday, February 11, 2011

Lífsgæði

Reglulega tek ég góða umræðu um lífsgæði við sambýlismanninn minn. Hvað það er að njóta lífsgæða, hver þau eru og hvernig við getum skapað okkur lífsgæði í nútíð og framtíð. Við erum sammála um að þrátt fyrir að peningar skipti alltaf einhverju máli þegar kemur að lífsgæðum þá eru þeir á engan hátt forsenda fyrir þeim gæðum sem lífið hefur upp á að bjóða.

Það eru einfaldlega aðrir hlutir sem skipta meira máli. Ein helsta forsendan fyrir því að lífið geti talist gæfuríkt er til dæmis að vera í góðri, spennandi og krefjandi vinnu. Þess konar vinna getur verið hvaða vinna sem er og þarf ekki endilega að vera best launaðasta vinnan eða virtasta vinnan. Í nútímasamfélagi tíðkast að meta gildi og virði vinnu út frá peningum en í raun og veru felst gildi hverrar vinnu í þeim andlegu verðmætum sem hún veitir þeim sem leysir verkefnið af hendi. Persónulega þykja mér til dæmis þrjú atriði mikilvægari en önnur þegar kemur að vali á vinnu. Í fyrsta lagi þarf ég bæði að geta gefið af mér og lært af öðrum. Ef þessi forsenda væri ekki fyrir hendi ætti ég ekki mikla möguleika á að njóta mín í vinnunni eða að gera hana að hluta af mínum lífsgæðum - sama hversu vel launuð hún væri. Í öðru lagi finnst mér einstaklega gaman og gefandi að vinna með fólki og helst að vinna að verkefnum sem fela í sér einhverskonar umræður um nám, nýjungar og þekkingu. Því met ég það mikils að vinnan eða verkefnin sem ég tek að mér séu fólgin í því að leita lausna við krefjandi verkefnum. Í þriðja lagi er það ótvíræður kostur að mínu mati að hafa ákveðið frelsi, frumkvæði og sjálfstæði í vinnunni.

Lífsgæði er einnig fólgin í einfaldari en þó einstaklega mikilvægum atriðum eins og að eiga í góðum samskiptum við gott fólk - bæði vini og fjölskyldu. Að búa í notalegu og öruggu umhverfi og að hafa aðgengi að ákveðinni grunnþjónustu. Fyrst og fremst felast þó lífsgæðin í því að gera gott úr þeim aðstæðum sem við búum við - líta jákvæðum augum á hvert það verkefni sem fyrir liggur, setja sig sem oftast í spor annarra, sýna öllu fólki virðingu og takast þannig á við einn dag í einu ákveðin í því að njóta þeirra lífsgæða sem felast í hverju andartaki.

3 comments:

Valgý Arna said...

Ég er svo mikið sammála þér með vinnuna. Ég t.d. gæti aldrei unnið í vinnu þar sem ég hefði ekki möguleika á að þroskast sem persóna um leið og ég þroskast sem fagmaður. Að fá að gefa af mér um leið og ég læri af öðrum finnst mér mikil forréttindi í vinnu. Ég fékk svolítið að heyra það frá ákv. manneskju þegar ég byrjaði í mínu námi: veistu hver grunnlaun iðjuþjálfa eru? vá þú hlýtur að hafa mikinn áhuga á þessu, ekki eru það launin!
Já, það er sko klárlega áhuginn sem drífur mig áfram og ég sé mig fyrir mér vinna sem iðjuþjálfi það sem eftir er, en þó alls ekki í sama starfsumhverfinu. Hef óendanlega möguleika að vinna sem iðjuþjálfi í mjög svo ólíku umhverfi. Þessi ákv. manneskja er mjög vel menntuð, 6 ára háskólanám að baki... eeeeen ákvað að hætta og gerast heimavinnandi (sem þarf ekki endilega að vera óspennandi) þar sem hún þoldi ekki vinnuna sína. Starfsvettvangur hennar býður ekki upp á mjög fjölbreytt starfsumhverfi... þannig aaað... ég er orðin staðfastari í því að ég hafi valið rétt, að láta áhugan stjórna för ;)

Ritgerð lokið :) hahhahaa

Lalli og Eva said...

Dúlla! Já sammála þér, þetta skiptir svo miklu máli enda gífurlega stór hluti af því hvernig maður lifir lífinu.

Anonymous said...

Reynsla mín af Íslandi, sem útlendigur, var að ekki míkið fólk þarna voru sérstaklega hamingjusamir. Ég var útlendingur þarna í fjögur mánaðum og fólkið þar voru svo dónalegt og meðhöndluðu mig með yfirlæti, þrátt fyrir að ég var vínsamlegur og reyndi míkið að læra tungumálið. En það skipti ekki máli. Ég vona að í framtiðinni landið ykkar getur hafa það betur, en þegar ég var þarna sem útlendigur tók ég bara við hv
ersu míkið íslendingarnar eru upptekin við efnishyggju í staðinn fyrir ekta sambönd við aðrir manneskjur.