Monday, May 04, 2009

Gríptu gæsina...

"Far er det sommer nu?" spurði lítil stelpa í sumarkjól og sandölum pabba sinn fyrir utan sundlaug í Gentofte um helgina. "Neeej faktiskt er det stadig forår nu" sagði pabbi hennar þá. Ekkert skrýtið að stelpuskottan hafi ruglast á árstíðum enda vorið búið að vera með eindæmum yndælt og veðursælt hérna í kóngsins Köben. Ég hef samviskusamlega, að íslenskum sið, ekki tímt að láta veðrið fara mikið fram hjá mér og gert heiðarlegar tilraunir til þess að læra á svölunum okkar. Ótrúlegt alveg hvað manni vinnst lítið í svona veðri samt, það slökknar bara á íslenska heilanum held ég, ef að hitinn fer mikið yfir 20 gráðurnar.  

Í morgun flögguðu allir strætisvagnar danska fánanum enda leit lítill prins dagsins ljós í morgun. Marie prinsessu var skutlað á fæðingardeildina af sínum heittelskaða í gærkvöldi og fæddi splunkunýjan prins inn í ört stækkandi konungsfjölskylduna. Veitir auðvitað ekkert af fleiri prinsum hér í Danmörku. 

Síðustu daga og vikur höfum við Lárus leitt hugann að íbúðum á Spáni. Alveg hreint ótrúlegt hvað tíminn okkar hérna í Kaupmannahöfn hefur liðið hratt. Fyrir tæpu ári fannst mér ég vera að skrifa undir eilífðar-samning með því að skrá mig í tveggja ára MA nám erlendis. Fyrra árið er hins vegar hér um bil liðið og næsti kafli tekur við innan skamms. Þrátt fyrir að flutningarnir til Spánar einkennist nær algjörlega af gleði og tilhlökkun þá örlar öðru hvoru fyrir örlitlum kvíða og óróleika. Það er alltaf ákveðin áhætta sem fylgir því að flytjast búferlum, rífa sig upp og hefja nýtt líf. Á sama tíma er það hins vegar áhættan, sem slík, sem getur einmitt verið uppspretta ævintýra og nýrra tækifæra. 

Tökum sjénsinn, lifum lífinu :) 

Ást og kossar

E+L

4 comments:

Anonymous said...

þú ert svo yndisleg Eva mín og hollt fyrir alla að lesa skrifin þín.
Elska þig ofur heitt skottan mín
Knús og kossar
Júlía

Lalli og Eva said...

*aawww* elsku besta mín, þú ert svo dýrmæt og ég elska þig líka!!

Anonymous said...

Mér finnst eins og sumir séu að eldast fyrst þeir eru farnir að hafa smá áhyggjur af breytingum.
Elska ykkur xoxo
mamma

Lalli og Eva said...

Hahaha já veistu það er bara satt held ég, sá einhvern danskan fræðsluþátt á DR1 um daginn allavega þar sem var sagt að andleg hrörnun hæfist við 27 ára aldurinn... svo var talað við *ógeðslega gamalt fólk* sem var svona milli 25 og 30 og það var alveg miður sín yfir því að vera orðið svona gamalt, gat ekkert eignast börn, var alltaf þreytt og lúið eftir vinnudaginn og fannst lífið brátt á enda....

En ég slökkti nú bara, tók sjónvarpið úr sambandi og hef ekki horft á það síðan... og aldrei verið sprækari! :)

Hahaha sjáum til hvernig við verðum þegar við erum á leiðinni til Spánar, húsnæðis- og peningalaus.... kannski virkar ekki lengur að segja "æ það reddast" :) eða hvað?? Kemur í ljós!! :)

Knús, elskum ykkur líka!

p.s. fólk sem les þetta heldur að við séum örugglega væmnasta fjölskylda í heimi - við verðum að reyna að vera aðeins meira töff síðan í næstu commentum..... ;)