Wednesday, June 20, 2007

Argentína

Á köldu janúarkvöldi villtist Lárus inn á heimsíðu þar sem boðið var upp á spænskukennslu í Argentínu og Chile. Á meðan haglélið lamdi á rúðuna lét Lárus sig dreyma um sumar og sól á suðrænum slóðum. Eftir nokkra daga umhugsun og nánari eftirgrennslan spurði hann mig hvort ég hefði áhuga á að fara í spænskuskóla í sumar. Ég þurfti mun minni umhugsunarfrest en Lárus og sagði einfaldlega já takk.

Við bókuðum skólann sama kvöld og völdum Argentínu sem áfangastað. Argentína lætur einfaldlega vel í eyrum og við töldum að nautasteik og rauðvín á hverju kvöldi gæti vanist ágætlega. Að auki heillaði lágt verðlagið okkur, eftir að fjármálamarkaðurinn í Argentínu féll árið 2002 hefur gjaldmiðilinn þeirra verið í sögulegu lágmarki. Það ætti því ekki að kosta mikið að fæða okkur og klæða á meðan dvölinni stæði. Við bókuðum því 10 vikur í það heila og brostum út að eyrum.

Ferðin krafðist vissulega einhvers undirbúnings - sem hefur reyndar verið í algjöru lágmarki svona miðað við fyrri ferðir og skipulagsáráttu. Ég persónulega vissi ekki neitt um Argentínu áður en ég fór að afla mér upplýsinga.

Það fyrsta sem ég lærði er að sökum þess að Argentína liggur hinu megin á jörðinni þá er VETUR þar þegar það er sumar hér... Þessi nöturlega staðreynd plantaði örlitlum efasemdarfræjum í huga minn. Ég eyddi þeim hins vegar fljótt og hef verið ötul við að sannfæra bæði mig og aðra að þessi vetur verði einn sá heitasti og að meðalvetur þar sé þónokkuð betri en meðalsumar hérna á Íslandi.

Meðalhitinn í Argentínu er afar misjafn, enda landið álíka stórt og Evrópa mæld frá Norður Noregi til Spánar og er 8. stærsta land í heimi. Í höfuðborginni, Buenos Aires, þar sem við hyggjumst eyða bróðurpartinum af tímanum er meðalhitinn í kringum 15-17 gráður yfir vetrartímann. Á nóttunni getur hitinn hins vegar hæglega fallið niður í 5 gráður og þar sem ekki fer mikið fyrir kyndingu í Suður-Ameríku mætti ætla að föðurlandið og flíspeysan kæmu sér vel.

Til að róa eldri aðstandendur og þá sem fyllast óhug þegar flogið er til fjarlægari landa en norðurlandanna þá er Argentína talin vera öruggasta land Suður-Ameríku. Glæpir utan stórborga eru afar sjaldgæfir og fólkið yfirleitt tilbúið að hjálpa og aðstoða ferðamenn (þessu lofar Lonely Planet bókin mín allavega).

En nóg í bili af Argentínu - ætla að segja ykkur betur frá skólanum sem við völdum og stórborginni Buenos Aires þar sem við komum til með að eyða ca 6 vikum af 10. Hinar þrjár eru undirlagðar í ferðalag á heitari staði og kaldari reyndar...

1 comment:

Anonymous said...

Bíð spennt eftir næstu færslum. Hafið það frábært ævintýraglöðu turtildúfur:) Góða ferð!