Tuesday, June 09, 2009

Á döfinni

Ólíkt öllum sumarmyndunum sem ég hlóð inná Facebook í gærkvöldi þá rignir nú eins og hellt væri úr fötu hérna í borginni. Ég fór á sandölum og ermalausum bol (eins og segir í laginu) í vinnuna í morgun og hálf drukknaði síðan á leiðinni heim. Er náttúrlega hjólandi eins og allt fullfrískt fólk hérna í Köben. En enginn er verri þó hann vökni og þetta er víst gott fyrir gróðurinn og allt það... 

Nú styttist heldur betur í annan endan á Kaupmannhafnardvöl okkar Lárusar. Við erum komin í smávegis ferðagír enda þarf að huga að ýmsu áður en við flytjum okkur enn og aftur um set. Við ætlum samt að njóta danska sumarsins út í ystu æsar og eigum eftir að fá fullt af góðum gestum í heimsókn næstu tvo mánuðina. 

Í næstu viku klára ég formlega fyrsta árið mitt í meistaranáminu og ver tvær ritgerðir. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það gengur þar sem ég var pínulítið "lost" svo ég sletti aðeins með þessar tvær ritgerðir. Sérstaklega þó aðra þeira sem er einmitt sú ritgerð sem ég er síðan að fara að kynna og flytja erindi upp úr á ráðstefnu núna í ágúst. En þetta kemur allt saman í ljós og fer bara eins og það fer... 

Lárus er formlega hættur hjá SISU núna en heldur áfram að æfa, lyfta og undirbúa sig fyrir næsta körfubolta tímabil, sem vonandi verður á Spáni, nánar tiltekið í Baskalandi. Það kemur líka allt betur í ljós með tíð og tíma og við erum í sjálfu sér frekar róleg yfir þessu öllu saman. Einstaka fiðrildi sem flögrar um í maganum en mamma segir að það sé bara aldurinn... það er að segja henni finnst ég hafa elst vegna þess að ég er ekki alveg jafn yfirmáta kærulaus og venjulega í sambandi við hvað tekur við hjá okkur. 

Eitt er þó víst að ég við yfirgefum Kaupmannahöfn hérna í ágúst og höldum á vit nýrra ævintýra, hvernig þau birtast okkur verður síðan bara að koma okkur á óvart, enda er lífið miklu skemmtilegra þannig. Við höfum líka "efni" á að láta koma okkur soldið á óvart í orðsins fyllstu merkingu þar sem ég fékk það staðfest formlega í síðstu viku að ég hlaut skólastyrk frá CIRIUS sem er stofnun innan danska menntamálaráðuneytisins og styrkir 2 meistaranema og 2 doktorsnema á ári til náms. Styrkur nemur um það bil 1 milljón íslenskra króna í heilt ár. Styrkinn fæ ég greiddan í skömtum eða mánaðarlega sem á að kosta bæði uppihald og námskostnað. Ég er óendanlega þakklát og hamingjusöm fyrir þetta tækifæri sem leiðir til þess að við Lalli getum farið saman til Spánar með töluvert færri fiðrildi í maganum... að minnsta kosti ekki áhyggjufiðrildi... meira svona bara tilhlökkunarfiðrildi... já semsagt... æ þið vitið! 


Ætla að skella mér í að lesa og skrifa. Undirbúningur fyrir Ítalíuráðstefnu og próf í næstu viku næst á dagskrá. Annars ætlum við skötuhjú líka að reyna að fara eins á eina ljósmyndasýningu hjá Hildi Maríu ofurljósmyndara og í eitt afmæli hjá Ingu Dóru ofurafmælisbarni á næstu dögum. 

Þangað til næst :* 

E+L

4 comments:

Anonymous said...

Vá þú ert svo klár!! :)Innilega til hamingju með þennan ef ég hef ekki sagt það áður, ég held ég sé að missa tölu á þessu, heilinn á óléttri konu virkar bara ekki eins og venjulega hef ég komist að ;)

Knús&Kossar,
Guðrún

Anonymous said...

Til lukku snillingurinn minn litli.... bara brill :-)
Hér á bæ fer að styttast í got....
Hvenær er svo von á ykkur heim í stutt frí milli landsflutninga ?
kv.MUS

Lalli og Eva said...

Takk takk báðar tvær!

Magga því miður lítur út fyrir að komum ekkert heim í sumar. Verðum að vinna út júlí og síðan er ég á ráðstefnu á Ítalíu síðustu tvær vikurnar í ágúst og þá er bara komin skóli enn og aftur!! Finnst sumarið næstum búið áður en það nær að byrja!!

Anonymous said...

Innilega til hamingju með styrkinn, frábært!
Spennandi tímar framundan hjá ykkur.. allt svo spennandi!
Væri nú ekki leiðinlegt að geta heimsótt ykkur á Spán næsta vetur...!

Gaman að sjá ykkur aðeins á íslandinu um daginn, ég var heppin að vera akkurat að vinna! :)

Kveðja úr Hveró
Bjarney