Thursday, December 30, 2010
Doktorsdraumurinn
Monday, December 27, 2010
Huggulegheit að vanda...
Sunday, December 05, 2010
Spænskir siðir = íslenskur vandræðagangur
Alla tíð hef ég staðið mig að því að hlægja pínulítið inní mér að fólki sem er að flytja aftur til Íslands eftir að hafa búið um tíma í útlöndum og er þá allt í einu komið með rosa hreim, segist ekki muna íslensk orð eða talar í sífellu um hvernig hlutirnir voru nú gerðir í útlandinu... Það er semsagt eins og aumingjans fólkið eigi í ægilegum erfiðleikum með að aðlaga sig að íslenskri menningu (þrátt fyrir að hafa átt heima hér á landi bróðurpartinn af lífinu).
Síðan gerist það, eftir að við komum heim til Íslands eftir einungis rúm 2 ár í útlegð, að ég stend mig í sífellu að því að sletta einhverju á spænsku eða ensku og finnst ég ekki finna íslensku orðin. Ég roðna alveg niður í tær og hundskammast mín þegar ég heyri sjálfa mig segja: “Æ ég man ekki alveg íslenska orðið”. Ég fékk líka smá hnút í magann þegar Lalli spurði mig að því um daginn hvort ég væri viss um að mamma og pabbi skyldu allt sem ég segði við þau því helmingurinn af því sem ég segði væri ekki íslenska. Ég sagðist nú halda það! Að minnsta kosti jánkuðu þau alltaf og hlustuðu á mig... Lalli setti bara upp einhvern svip sem hægt var að túlka sem “Einmitt Eva!”.
Verst þykir mér þó þegar ég haga mér ekki alveg eftir tilætluðum en óskrifuðum siðareglum íslenskrar menningar... og til þess að réttlæta ýmislega ósæmilega eða óæskilega hegðun þá hef ég brugðið á það lúalega ráð að skrifa hana alfarið á hughrif mín og reynslu af annarri og ólíkri menningu. Um daginn skrifaði ég til dæmis um passlegt kæruleysi og óskipulag. En upp á síðkastið hefur borið á öllu verri og alvarlegri hegðunarvandamálum.
Fyrir nokkrum vikum fór ég semsagt í einstaklega huggulegt afmælisboð hjá góðri vinkonu minni. Þegar ég kem inn í stofu voru nánast allir veislugestir mættir (er að vinna í þessu með tímasetningarnar). Eðli málsins samkvæmt þekkti ég flest af þessu fólki sem eru vinir mínir eða kunningjar... eða svona þið vitið ég hef allavega séð myndir af þeim á facebook!
Eins og sjálfsagt þykir kyssi ég afmælisbarnið til lukku með daginn og smelli svo líka kossum á fyrsta fólkið sem ég mæti þegar ég kem inn sem voru stelpur sem ég þekki vel en hef ekki séð lengi. Nú, ég held síðan uppteknum hætti og kyssi einn eða tvo stráka sem hafði nú ekkert hitt oft (eða kannski aldrei) áður en vissi svosem alveg hverra manna þeir voru...
Akkúrat þarna, á þessum tímapunkti, skynja ég að yfir stofuna og veislugesti færast gífurleg vandræðalegheit. Þið vitið að mannfólkið er búið þeim kosti að geta upplifað tilfinningar annarra (kallast empathy) og þessvegna gráta til dæmis lítil börn ósjálfrátt ef þau heyra önnur börn gráta. Þannig leið mér í um það bil 10 sekúndur. Ég fann vandræðatilfinninguna hellast yfir mig og upplifði hvernig veislugestir voru farnir að hugsa: Jeminn ætli hún kyssi MIG næst!
Nú, þar sem ég er ekki ungabarn og get hrist af mér samhyggðina hægi ég aðeins á mér í kossaflensinu en segi síðan stundarhátt með smá afsökunartón í röddinni: “Ég kyssi bara alla fyrst ég er byrjuð....” (síðan hlæ ég smá til að reyna að gera gott úr þessu).
Þetta virtist sem betur fer virka þar sem andinn í stofunni varð aðeins léttari og fólki fannst það kannski geta undirbúið sig fyrir komandi koss á kinn(!). Síðan hélt ég uppteknum hætti og kyssti restina af veislugestum eldsnöggt á kinnina og reyndi að láta þetta ekki alveg eyðileggja veisluna.
Þeim sem virtust hvað mest brugðið yfir þessum atgangi héldu sig í hæfilegri fjarlægð frá mér það sem eftir lifði að veislunni og seinna heyrði ég útundan mér að einhverjir voru greinilega ennþá að jafna sig þar sem fólk talaði saman inni í stofu “já hún kyssti víst bara ALLA þegar hún kom”.
Þessi veisla er því miður ekkert einsdæmi hvað varðar óviðeigandi snertingu, kossa eða innileika af minni hendi. Fyrir nokkru síðan hitti ég til dæmis fólk í IKEA sem ég hafði ekki hitt í mörg ár og kyssti þá strákinn (sem ég þekki ágætlega) á kinnina þegar ég heilsaði honum. Konan hans (sem ég þekki hins vegar ekki) varð auðvitað yfirmáta vandræðaleg og hann ennþá frekar. Ég áttaði mig ekki á þessum mistökum fyrr en kossinn var yfirstaðinn og skaðinn skeður.
Héðan í frá tek ég mig taki og hef í heiðri íslenska handabandið og hæfilega fjarlægð frá náunganum!
Saturday, December 04, 2010
Tilhlökkun og jólakúla
Friday, November 26, 2010
Keflvísk kósýheit
Thursday, November 18, 2010
Æ það reddast...
Tuesday, November 16, 2010
Jólaskapið
Thursday, October 21, 2010
Nýtt líf
Tuesday, August 10, 2010
Nýtt tímabil - ný verkefni
Wednesday, July 28, 2010
Sumarsæla
Thursday, July 22, 2010
Another Iceland
Sunday, July 04, 2010
Friday, June 25, 2010
Kaflaskil
Síðasta vikan í Bilbao staðreynd. Árið hefur liðið heldur betur hratt og við erum reynslunni ríkari. Auk þess græddum við líka nokkra vini og sitthvora MA gráðuna.
Sibba systir og Gestur kærastinn hennar eru væntanleg á morgun og við ætlum að eyða síðustu dögunum í Bilbao með þeim. Reyndar förum við meira að segja á undan þeim heim - en ekki nema deginum fyrr því þannig fengum við hentugasta flugið.
Hlakka til að eyða viku í Bilbao í algjörri afslöppun, búðum og veitingastöðum (ekki að það sé einhver nýbreytni). Sjáumst á Íslandi - þar sem ég reikna með að skrifa minna en knúsa ykkur öll þeim mun meira.
Besos y abrazos
E+L
Sunday, June 20, 2010
sól sól skín á mig
Vinir okkar í Bilbao hafa eiginlega bannað okkur að fá fleiri gesti þar sem veðrið virðist ekki leika við okkur í þann tíma. Spurning hvað gerist í næstu viku??
Ég er ósofin, óvakin og með óráði svona yfir höfuð held ég almennt. Vika í skil og ég krossa putta fyrir því að þetta gangi upp. Ef ekki þá tek ég U-turn í skólamálum og gerist veðurfræðingur, ræddi þessa hugmynd í dag við Lárus sem tók vel í hana.
Lifið heil - með sól í hjarta!
Monday, June 14, 2010
þegar botnin á rúminu gefur sig...
Erum nú í miklum ham við að pakka ofan í kassa, undirbúa komu gesta og krossa við ýmis "to do" atriði sem ég hef samviskusamlega skrifað á blað og hengt upp á vegg í stofunni.
Eitt atriðið er til dæmis: Klára MA ritgerð!! Meira um það á öðrum bloggum...
og að veðrinu (Lalli heldur að í mér búi leyndur draumur um að verða veðurfræðingur, held hann hafi eitthvað til síns máls) en það er búið að vera ógeðslega leiðinlegt veður hér í Bilbao nákvæmlega jafn lengi og það er búið að vera frábært á Íslandi. Rigning og (ókei ekki rok) en samt svona suddaveður eins og maður myndi kalla það á Íslandi. Ef það verður 27 stiga hiti á norðausturlandi um næstu helgi eins og spáð er þá fer ég ráðum móður minnar og sæki um skólastjórastöðuna á Þórshöfn!
En já semsagt, Lárus vaknaði í nótt á gólfinu, því botninn í rúminu okkar gaf sig. Ekki í fyrsta skiptið reyndar. Sem segir okkur kannski að það sé komin tími til að skipta um íverustað. Ágætis merki um að flytja sig um set.
Wednesday, June 09, 2010
Rífur upp meðaltalið
Lyftingar og hlaup ganga vel, skrif ganga vel og veðrið er gott. Það er svona það helsta, ef frá er talið brákuð rist (ofmat á eigin fimi borgar sig ekki) og harðsperrur sem ágerast með hverjum degi þrátt fyrir fögur loforð Lárusar um að þetta gangi yfir fljótlega.
Stressið er samt hægt og rólega að læðast inn í vitund mína og veruleika. Mig dreymir alls konar vitleysu og vakna í svitabaði á hverjum morgni núna. Yfirleitt er ég að klúðra einhverju verkefni, búin að týna mikilvægum hlutum eða í hávaða rifrildi við enhvern sem ég myni aldrei rífast við í lifanda lífi.
Svona draumar eru auðvitað tengdir þeirri óumflýjanlegu staðreynd að það er allt að gerast í einu hjá mér og mér finnst dagarnir of stuttir. Í þessari viku á til dæmis stærsti hluti ritgerðarinnar að klárast, við þurfum að byrja að pakka, finna kassa, semja við leiguaðilana, finna pláss til að geyma dótið okkar, flytja það þangað, panta flug heim, fá skráða dagsetningu til að verja ritgerðina, útbúa enskuefni fyrir litlu gríslingana sem ég kenni.... og ég get eflaust látið mér detta eitthvað fleira í hug.
Held ég byrji samt bara á því að raða upp á nýtt í fataskápinn minn, eftir lit og notkun... það hefur reynst mér fljótlegasta, ódýrasta og besta sálfræðimeðferðin hingað til. Þegar ég lít yfir fataskápinn allan í röð og reglu þá hverfa allar áhyggjur úr huga mér og ég heyri fugla syngja.
Ást.
Friday, June 04, 2010
Fyrir þá...
Thursday, May 27, 2010
Tilhlökkunarefnin
Ég ætla að
-grilla (mest pulsur)
-fara í útilegur (já þið lásuð rétt)
-fara á Vestfirði (þar sem ég hef heyrt að fólk búi þar)
-fara í sund (helst á hverjum degi)
-borða bragðaref (líka helst á hverjum degi)
-knúsa vini mína (alla með tölu og skilja engann útundan)
-knúsa fjölskylduna (lengi og oft og svo aftur og svo aðeins lengur)
-skoða börn (vina minna sem virðast öll vera í útungunarkeppni)
-skoða elgosið (æ nei það er hætt, bömmer)
-skrifa grein (þetta er ekki bara afslöppunarferð ef þið hélduð það)
hlakka til þangað til....
Tuesday, May 25, 2010
Spennandi veðbanki
Um er að ræða æsispennandi veðmál þar sem veðjað er um næsta áfangastað og heimili okkar Lárusar. Í boðinu eru eftirfarandi valmöguleikar:
1. Bilbao
2. Reykjavík
3. Kaupmannahöfn
4. Barcelona
Til þess að upplýsa þátttakendur örlítið þá set ég hér með pros/cons fyrir hvern stað eins og staðan lítur út í dag 25. maí 2010. Þessar forsendur gætu hins vegar breyst og því hvet ég alla til að fylgjast vel með gangi mála.
BILBAO KOSTIR
-góð vinasambönd að myndast
-lærum spænsku
-möguleikar á doktorsnámi
BILBAO ÓKOSTIR
-fá körfuboltalið
-lítið um vinnutækifæri
-rignir ógeðslega mikið
BARCELONA KOSTIR
-súper fín strönd
-fullt af körfuboltaliðum (og Lakers eru að spila í október)
-lærum spænsku
BARCELONA ÓKOSTIR
-rosa erfitt að fá vinnu
-engir vinir
-byrja allt upp á nýtt
REYKJAVÍK KOSTIR
-fjölskylda
-vinir
-vinna í boðinu
REYKJAVÍK ÓKOSTIR
-lærum enga spænsku
-lítil laun og dýrt að lifa
-förum aldrei út aftur ef við komum heim??
KÖBEN KOSTIR
-vinir
-körfuboltalið
-vinna jafnvel
KÖBEN ÓKOSTIR
-engin spænska
-kalt kalt kalt
-dýrt að leigja
Fólki er líka frjálst að segja sína skoðun á þessu og leggja til fleiri atriði í kosti eða ókosti einnar eða fleiri borga. Línur munu skýrast í sumar og í allra síðasta lagi um miðjan ágúst.
BILBAO
BARCELONA
REYKJAVÍK
Saturday, May 08, 2010
Viðburðir og verkefni
Heljarinnar Ítalíuferð var líka stórt en mun skemmtilegra verkefni. Í andans ofboði tókst okkur að smala allri fjölskyldunni saman eftir lúxushremmingar (eins og að vera fastur á 5 stjörnu hóteli) í mismunandi löndum. Fjölskyldufaðirinn sýndi af sér einstakt hugprýði og ferðaðist aleinn yfir hafið stóra sem skilur að Ísland og alla hina í heiminum. Þar sem hann lenti í Skotlandi tókst honum að húkka sér far til höfuðborgar Bretlands og endaði þar í faðmi sinnar heittelskuðu. Ég er ekki frá því að mamma og pabbi hafi elskað hvort annað eins og einni gráðu heitar eftir aðskilnaðinn.
Ást & Yndi.
Wednesday, April 14, 2010
vikur, dagar, ár...
Lárus var það sem kallast grasekkill á íslensku en "Rodrigues" á spænsku á meðan ég skrapp í nokkurskonar vinnuferð til Kaupmannahafnar. Þrátt fyrir makaleysið átti hann samt góða viku, spilaði körfubolta, þjálfaði og eyddi góðum tíma með vinum sínum. Í danaveldi átti ég fyrirkvíðanlegt samtal við skattinn sem endaði eins og í ævintýri (góðu ævintýri ekki neinu Grimm ævintýri). Ég eyddi líka tíma með nokkrum góðum vinkonum og vinum sem minnti mig rækilega á gildi vináttu og notalegheita í lífinu. Ég fór í klippingu, borðaði góðan mat og hjólaði um alla borg með vindinn í fangið - semsagt afar frískandi og upplífgandi ferð.
Það var samt ágætt að koma aftur í faðm ástmannsins, fá smá skammt af sól og sumaryl, finna stresshnútinn myndast í maganum og opna bækurnar. Nú er vika í Ítalíuferðina og á þessari viku þarf ansi mikið að gerast í ritgerðarmálum. Ég var þess fullviss í gær að ég hefði góðar tvær vikur til stefnu en svona svíkur tíminn mann oft og iðulega. Þá er bara að setja í fimmta gír og læra bæði nótt og dag - skipuleggja hvern klukkutíma og vona það besta
Við erum ennþá svo gott sem grunlaus um hvað framtíðin (næsta haust) kemur til með að bjóða okkur upp á og höfum ekki tekið neina ákvörðun um borg, land, stað eða störf... við lifum á ystu nöf!
Síðar vinir, óskum allra góðrar viku og segjum næst frá Ítalíuför okkar
Thursday, April 08, 2010
Pastellitaðir páskar
Castille y León er stórkostlegt hérað á Spáni. Allt öðruvísi en Baskaland. Undurfallegir og mildir pastellitir; gul og ljósbrún jörð, ljósblár himinn og bleikir steinar... Storkar með hreiður efst í kirkjuturnum og á raflínumöstrum. Týndur froskur í Salamanca, háskólinn, kirkjan, fólkið og allt hitt. Undurfagurt.
Muy bien - todo (sem var einmitt frasi ferðarinnar).
Tuesday, March 30, 2010
Salamanca
Við sendum ykkur annars bara sjóðheitar páskakveðjur og vonum að þið hafið það gott um hátíðirnar.
Ást og gleði
E+L
Friday, March 26, 2010
Ég sé....
Tuesday, March 23, 2010
Pakkaflóð
Lestur og skriftir halda áfram - eilítið erfitt þegar veðrið batnar með hverjum deginum. En svona fer fyrir fólki sem ákveður að skrifa MA ritgerð um vor og sumar... á Spáni.
Saturday, March 20, 2010
Föstudagur í Frakklandi
Thursday, March 18, 2010
Vorið hefur verið að minna á sig og hitinn nálgast nú 20 gráðurnar þriðja daginn í röð. Það spáir nú reyndar ekki svona góðu um helgina en þetta er allt á réttri leið myndi ég ætla.
MA skrifin ganga hægt en vel fyrir sig. Ég skrifa eitthvað smá á hverjum degi og er best ef ég næ smá "samfellu" í daginn. Er með 500 orða markmið á dag, sem gengur nú svona lala - en ég bæti yfirleitt upp lélega daga með því að taka smá skurk aðra daga og afreka þá kannski allt upp í rúmlega 1000 orð. Orðafjöldinn er kannski ekki svo gífurlegur en ég miða við "góð" orð. Semsagt engin bull orð, helst bara eitthvað sem ég er sátt við og þarf ekki mikið að endurorða. Síðan situr í mér eilíf ritskoðun eftir að hafa verið í námskeiðinu "málstofa - efst á baugi" hjá Jóni Torfa í HÍ. Allir þeir sem hafa tekið þetta námskeið vita um hvað ég er að tala.
Þar var ekki skrifuð ein setning nema að hún hefði alveg stútfullt gildi, segði allt sem segja þyrfti en væri samt gjörsamlega laus við allan óþarfa. Það er því svo að í hvert skipti sem ég skrifa eina vesæla setningu þá hefst ritskoðunin í hausnum á mér og ég spyr mig: "segir þessi setning eitthvað mikilvægt?" "er þessi setning til bóta fyrir verkið sjálft?" "bætir hún nýrri þekkingu við verkið?" "er hún nauðsynleg fyrir lesendann að lesa?" og svona mæti lengi telja... Kannski ekki mjög efektívt þegar maður ætti bara að vera að skrifa "í flæðinu"...
En það er ekkert svoleiðis hjá mér þegar ég skrifa ritgerðir - það er meira svona eitt þrep í einu, upp langan og brattan stiga og ekki mikið um frjáls og óheft skrif.
Um helgina verður aðeins meira stuð á okkur skötuhjúum en vanalega þar sem ég ætla að setja stigaklifrið á hold og við ætlum að skreppa til Loredo sem er smábær á milli Bilbao og Santander. Bærinn skartar brjálæðislega langri og fallegri strandlengju og því er vonast eftir góðu veðri. Held reyndar að það eigi að rigna! En engu að síður skemmtilegt að komast aðeins út fyrir borgina og skoða sig um í Baskalandi. Við förum nokkuð stór hópur saman í ferðina. Allir ætla að njóta þess að á morgun er "día del padre" eða feðradagur sem er, í feðraveldinu Spáni, auðvitað heilagur frídagur.
"Mæðradagurinn kemur síðan alltaf upp á sunnudegi og þá eldar konan læri" sagði vinur okkar í gær þegar hann var að útskýra hefðir og siði Spánverja. Ég sit á feministanum í mér og þakka fyrir góðan frídag í þetta skiptið :)
Njótið helgarinnar!
Monday, March 15, 2010
einn, tveir..
Ást og gleði
Wednesday, March 10, 2010
"í lamasessi"
Saturday, March 06, 2010
Læra - borða - sofa
Hitinn hérna á N-Spáni er bara sæmilegur, fer sjálfsagt aldrei mikið yfir 30 og á veturnar er hreinlega bara hrollkalt í amk 3 mánuði. Menu del día er hins vegar þannig máltíð að maður getur lítið annað gert en að leggja sig eftir matinn. "Seðillinn" kostar 10 EUR og samanstendur af þremur réttum. Primero Plato sem getur verið allt mögulegt, oftast er þó í boði salat, súpa, pastaréttir, aspasréttir, brauð með pate eða svona réttir í léttari kantinum (þó svo að risa diskur af pasta og brauði sé ekkert sérstaklega létt fyrir mér). Segundo Plato er síðan aðalrétturinn og þá er yfirleitt hægt að velja á milli 3-4 fisk eða kjötrétta. Ég er núna fyrst farin að þora í fiskinn því yfirleitt er hann reiddur fram með haus og sporði og öllu tilheyrandi og ég hef því ekki lagt í það. Kemur sér illa núna að hafa aldrei unnið í fiski! Á seðlinum í gær var hins vegar eitthvað sem hét Salmonita og ég hélt nú að ég væri frekar örugg með lax. Eftir að hafa næstum borðað mig pakksadda af salati með eggjum, síld og brauði þá kom Salmonit-að (í mínum huga lítill lax) á borðið til mín í líki þriggja mjög svo undarlegra fiska. Þeir litu út eins og risavaxin síld með stóran haus og svört augu. Ég gerði mitt besta í að flaka og beinhreinsa og þetta smakkaðist bara þónokkuð vel. Þjónarnir fylgdust hins vegar grannt með mér allan tíman og mig grunar að þeim hafi ekki fundist mikið til aðfaranna koma hjá mér.
Í eftirrétt er síðan hægt að fá sér ís, ávexti, ost og bara yfirleitt allt milli himins og jarðar. Í gær spilaði tungumálið aðeins með mig og það er greinilega langt í land hjá mér... Ég sem hélt að ég væri einmitt komin á "veitingastaða levelið" í spænskunni. En ég ætlaði semsagt að biðja um súkkulaðiköku en fékk geitaost í staðin. Eftir svona þriggja rétta máltíðir sem skolað er niður með flösku af rauðvíni og flösku af vatni þá er heppilegt að gangan heim er ekki löng og leiðin í rúmið enn styttri. Síðan vaknar maður endurnærður (eða mjög stúrin og myglaður eins og ég) um 6 leytið og fer aftur út á röltið samkvæmt hefðinni.
Thursday, March 04, 2010
Hið venjulega blogg
Hins vegar er það svo að þau blogg sem ég les eru lang sjaldnast þannig skrifuð. Í blogghringnum mínum svokallaða (blogg sem ég kíki jafnvel vikulega á) eru nefnilega einmitt "hin venjulegustu blogg". Blogg frá Jóni og Gunnu sem fjalla yfirleitt bara um daginn og veginn. Ég hef nefnilega lúmskt gaman af því að lesa um gráan hversdagleikann í lífi annars fólks. Ég er reyndar örlítið veik fyrir þeim hversdagsleika sem gerist annarstaðar en á Íslandi og því eru ýmiskonar ferðblogg oft ofarlega á lista hjá mér. Hins vegar er það þannig að ég verð fljótt leið á að lesa kvabbið, argaþrasið og svekkelsið sem einkennir mörg þau blogg sem eru í gangi núna.
Nú má ekki misskilja mig sem svo að mér finnist ekki bæði nauðsynlegt og í alla staði frábært að fólk geti tjáð sig um samfélagsleg og pólitísk málefni á veraldarvefnum. Ég er meira að segja þeirrar skoðunar að internetið sem slíkt, blogg og annar samskiptamáti í gegnum netið geti bætt lýðræðið okkar heilmikið og sé ein af "leiðunum" við að þróa lýðræðishugmyndina í nútímasamfélagi. Það er gott og gilt að fólk komi skoðunum sínum á framfæri og noti þennan vettvang til þess. Bloggin virðast engu að síður fljótlega renna saman í eitt og eftir stendur ekki mikið sem breytir, bætir eða kætir.
Hið hversdagslega blogg er aftur á móti mun nær sagnahefðinni og það er kannski þess vegna sem það höfðar betur til mín. Mér finnst ég vera að lesa litlar örsögur um líf fólks og þar sem fólk, alls konar fólk, hefur alltaf átt hug minn og hjarta þá heillast ég upp úr skónum við það eitt að lesa að kona í París stundi morgunleikfimina sína af mikilli samvisku eða að fjölskylda í Ameríku sé komin í umhverfisverndar átak og flokki nú allt rusl eða að maður í Barcelona hafi lent í vandræðum með að kaupa kennaratyggjó.
Ást
Friday, February 26, 2010
rafmagnsofninn
Það yljar okkur líka að þessa dagana detta inn heimsóknir og ferðaplön fyrir vorið og sumarið og tilhlökkunin er mikil. Á dagatalið er búið að merkja inn með mismunandi litum og tilheyrandi glósutækni komu foreldra, vina, svilkonu og mágs, systur og fylgisveins. Við höfum einnig tryggt okkur flugmiða til Ítalíu, hótel og bílaleigubíl.
En á undan þessum ævintýrum öllum ætlum við að heimsækja Salamanca með spænskum vinum. Borgin heillar sannarlega en ekki síður stemmingin í kringum þessa ferð. Það er nettur menntaskóla-andi sem svífur yfir vötnum. Mér líður pínu lítið eins og við séum að fara í "íþróttaferð" (þar sem aldrei voru stundaðar neinar íþróttir að ráði nema þá helst glasalyftingar) svona eins og í Verzló í gamla daga. En ferðin er líka einstakt tækifæri fyrir okkur Lárus að kynnast vinum okkar betur og láta reyna á tungumálið fyrir alvöru!
Wednesday, February 24, 2010
Nei, þú hér??
fenomenial!!
Fórum "aðeins út að borða" á þriðjudagskvöldi í Bilbao. Þar sem við búum niðrí bæ höfum við ekki prófað helming staðanna sem eru hérna megin við ánna en engu að síður þekkjum við bæinn ágætlega vel. Staðurinn sem varð fyrir valinu í kvöld er staður sem býður ekki upp á neinn sérstakan aðalrétt heldur einungis "platos especiales" sem eru nokkurs konar diskar af góðgæti... Fyrsti rétturinn okkar var kolkrabba carpaccio. Fyrir þá sem þekkja til nauta carpaccio sem hefur jú verið nokkuð vinsælt á Íslandi sl. ár skýrir þetta sig kannski sjálft en fyrir hina þá er kolkrabba carpaccio niðurskorinn hrár kolkrabbi marineraður í olíu og rauðum pipar... *ekkert nema lostæti*
Annar rétturinn okkar var nýbakað brauð með lomo iberico (úrvals skinku) - þarf varla að ræða hversu ljúfeng skinkan var!! síðasti rétturinn var síðan foe gras (andalifur) með rifsberjasultu, stjörnuávöxtum, kavíar, súrum gúrkum og gulrótum.... Ég veit, hljómar alveg absúrd samsetning en það er einmitt það sem gerði þetta svo ótrúlega sérstakt og spennandi!! Ég get varla skrifað annað en.....
Mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmm!!!! þetta var út fyrir ósónlagið gott og ekkert minna en það, takk fyrir. Drukkum með 2 glös af Crianza frá 2005 sem var algjört himnaríki!
Tuesday, February 23, 2010
og þvotturinn þornar á snúrunni
Það besta við þetta veðurfar er samt sem áður ekki endilega hitinn eða sólin sem slík heldur minnkandi rakastig í loftinu sem gerir það að verkum að þvotturinn sem ég hengi út á snúru þornar á innan við sólahring en hangir ekki úti blautur eða rakur í viku eins og hefur verið síðastliðna 3 til 4 mánuði. Já það þarf ekki mikið til að gleðja mann!
Í síðustu viku uppgötvuðum við Argentískt veitingahús (sáum það bara álengdar, höfum ekki ennþá farið þangað) en erum æsispennt að prófa staðinn. Síðan höfum við gert tvær heiðarlegar tilraunir til að fara á annað grillhús sem heitir Henao 40 og á víst að vera eitt það allra besta hér í borginni. Í fyrsta skiptið var allt fullt og ekki séns að koma okkur að það kvöldið og í seinna skiptið var hreinlega lokað þrátt fyrir að það stæði á heimasíðunni þeirra að það væri opið. En allt er þegar þrennt er og við gefumst ekkert upp.
Sunday, February 21, 2010
Úrslitaleikurinn
Það er eitt sem hefur vakið furðu mína og ánægju. Í fjóra daga hefur núna safnast saman fólk alls staðar af frá Spáni (um það bil 15.000 manns) sem heldur allt með sitthvoru liðinu og það kallar og syngur og púar og hvetur til skiptis en ekki einu sinni eru búin að koma upp slagsmál af þeim toga sem oft eru kennd við íþróttaviðburði eins og þennan, kannski sérstaklega fótbolta. Borgin er full af fólki uppáklæddu í búninga sem hefur hátt og syngur en það er svo gott sem enginn í leit af einhverjum vandræðum. Það hefur aðeins bæst í lögregluliðið bæði í borginni og sérstaklega í kringum höllina en ég hef ekki einu sinni séð þá í action enda allir bara vinir um leið og leiknum lýkur alveg sama í hverslags búning þú ert eða með hvaða liði þú heldur.
Til fyrirmyndar!
Thursday, February 18, 2010
Öskudagur fyrir alla
David og Alfonso voru bob-sleðamenn frá Jamica. Hver man ekki eftir hinni stórskemmtilegu mynd Cool Runnings?
Ég veit ekki alveg hvað Iker og Monni voru en mér fannst þeir sætir.
Friday, February 12, 2010
Komin heim
Njótið bara vel sem eruð á Íslandi!
Ferðin hefði ekki getað verið mikið lengri hjá okkur þar sem nú tekur við smá enskukennsla hjá mér og leikur og æfingar hjá Lalla. Hann er líka að leita fyrir sér í vinnu sem einkaþjálfari og hefur fengið eitt tilboð frá stórri líkamsræktarstöð. Erum svona að vega og meta framtíðarplön en erum ekki í neinum alvarlegum pælingum ennþá. Enda nógur tími til stefnu og við líka ákveðin í að njóta þess sem Bilbao og N-Spánn hefur upp á að bjóða þangað til eitthvað annað tekur við.
Hver mánuður framundan hefur sitt aðdráttarafl og sínar skyldur þannig að tíminn verður án efa ekki lengi að líða og áður en ég veit af verður komið sumar og síðan aftur haust. Þess vegna er um að gera að lifa í núinu en leyfa sér samt sem áður að dreyma og hlakka til framtíðarinnar.
Í mars ætlum við til dæmis að eyða langri helgi með spænskum vinapörum okkar í fjallakofa í fjöllunum hérna í nágrenninu. Við förum nokkur saman, flest strákar úr körfuboltanum og konurnar (kærusturnar) þeirra. Allt krakkar á okkar aldri sem við höfum kynnst ágætlega fram að þessu og líkar ofsalega vel við.
Aprílmánuður er síðan mikið tilhlökkunarefni þar sem við erum boðin í brúðkaup á Ítalíu og við erum ótrúlega spennt að fara. Við ætlum að fara nokkrum dögum fyrr, hjálpa til við undirbúning og njóta þess að skoða okkur um á N-Ítalíu. Við Lalli höfum einu sinni áður heimsótt Arabel (tilvonandi brúður) og fjölskylduna þeirra og vorum í sannkallaðri paradís allan tíman svo við iðum í skinninu að komast aftur til þeirra.
Í lok apríl og byrjun maí - eftir brúðkaupið ætla mamma og pabbi síðan að koma til okakr og skoða sig um í Bilbao og San Sebastian með vinafólki sínu frá Þýskalandi. Við hlökkum til að sýna þeim um og kenna þeim að borða pinxtos og drekka xtakoli.
Um sumarið er síðan von á fyrst Ottó og Elfu (sem við erum búin að bíða ótrúlega lengi eftir og hlökkum meira en allt til að fá) og Sibbu systur og kærastanum hennar sem eru á ferðinni um alla Evrópu að ég held og því frábært að þau komi við á Spáni til að heimsækja bæði Bilbao og San Sebastian.
Semsagt - nóg framundan!
Ást og Yndi
E+L
Monday, February 01, 2010
Á leið
Það vill svo (ó)heppilega til að við "neyðumst" til að heimsækja Kaupmannahöfn í fjárhagslegum erindagjörðum.
Hlökkum til að hitta allt frábæra fólkið okkar í Köben.
Thursday, January 28, 2010
Vinna með skóla...
Nema hvað, síðasta önn er fyrsta önnin síðan ég var 14 ára þar sem ég hef í raun og veru ekki unnið neitt með skóla. Það skapast fyrst og fremst af því að ég tala ekki tungumálið fullkomlega og kannski líka af því að nú ætlaði ég virkilega að reyna að einbeita mér að skólanum...
Í dag réð mig í vinnu við að kenna litlum spænskum krökkum ensku. Sem betur fer segi ég nú bara!! Nú er ég hætt að reyna að berjast á móti íslensku ofvirkninni og hlakka til að hafa eitthvað að gera fyrir utan skóla... Á meðan það inniheldur ekki stanslaust djamm og útstáelsi þá held ég að það bitni ekki á frammistöðu minni í skólanum. Ef það fer að gera það... þá er ég amk í æfingu frá því í Verzló að rökræða og réttlæta þetta allt saman fyrir kennurunum mínum!
Bókaormar
Wednesday, January 27, 2010
Kuldakast
Annars er tilfinningin góð sem fylgir því að hafa lokið við síðasta áfangaprófið í þessu meistaranámi. Nú tekur við frímánuður sem ég hafði hugsað mér að nota til að safna heimildum og undirbúa ritgerðarskrifin. Prófið gekk vel og ég ræddi um heima og geima við prófdómarann í rúman klukkutíma. Nánast ekkert um ritgerðina, mestmegnis um baskneska þjóðernisvitund, ETA, heimspeki, kúltúrmun á S-Spáni og N-Spáni, siðmenningu og fleira fróðlegt. Ég þekki hann aðeins þar sem hann var yfir prógramminu í fyrra en hætti nú í ár og var ráðinn sem forseti education-deildarinnar í staðinn. Honum finnst jafnvel skemmtilegra að tala en mér og þess vegna varð prófið svona í lengri kantinum en að lokum komumst við að þeirri niðurstöðu að hætta að masa og fallast á það að ritgerðin hefði bara verið í fína lagi. Einkunn fæ ég hins vegar ekki fyrr en 1. mars. Ég hugsa að hann hafi bara samþykkt þá einkunn sem leiðbeinandinn minn gaf mér (sem ég veit ekki enn hver er).
Þrátt fyrir kuldakastið erum við Lalli spræk að vanda og bjartsýn á komandi tímabil. Lalli verður að spila körfubolta fram í maí enda er deildin hérna töluvert stærra en heima og þar af leiðandi fleiri leikir spilaðir. Í vor og sumar er síðan von á fullt af góðum gestum og við erum aðeins byrjuð að skipuleggja tímann okkar til þess að engar tvær heimsóknir rekist nú á og til þess að hafa örugglega tíma fyrir allt það góða fólk sem ætlar að kíkja til okkar.
Sunday, January 24, 2010
BB
Tuesday, January 19, 2010
Afmælisdagurinn...
Eins og vísindin höfðu spáð fyrir um varð dagurinn kannski ekki sá allra lukkulegasti. Ég eyddi um það bil 3 klukkutímum á læknavaktinni sem endaði með því að ég fékk ávísað lyfjaskammti sem dugar út árið. Ekkert alvarlegt svosem, króníska blöðrubólgan bara að gera vart við sig en engan veginn ánægjulegt heldur. Um kvöldið var síðan meiningin að lyfta sér örlítið upp og bæta fyrir frekar slappan dag. Þar sem ég er mikill sushi aðdáandi gerði ég dauðaleit að eina sushi staðnum í Bilbao og vildi ekkert annað fara. Okkur fór nú frekar fljótt að gruna eitthvað misjafnt þegar við sátum ALEIN inni á risastórum staðnum með þjónustustúlkurnar á næsta borði við okkur að rúlla inn sushi, plasta og leggja í mót sem kokkurinn kom svo og setti í frysti nánast fyrir framan nefið á okkur. Það þarf varla að taka það fram að sushið var vægast sagt skelfilegt, fiskurinn seigur, brúnn og gamall og hrísgrjónin hálf frosin ennþá. Öll herlegheitin voru síðan borin fram á einhverjum kínverskum drekabát úr timbri sem gerði það að verkum að sushið festist við timbrið og það flísaðist upp úr því þegar maður reyndi að losa sushið af. Huggulegt.
Við hlógum bara af þessu og héldum heim eftir að hafa gefist upp á sushinu og hrísgrjónavíninu sem okkur var boðið í sárabætur. Það var þó lán í óláni að á heimleiðinni duttum við inn á frábært vínhús, fengum súper gott hvítvín og æðislega þjónustu. Við merktum við staðinn sem "gestastaður" það er, staður til að fara með gesti á þegar við fáum næst heimsókn til Bilbao.
Þegar versti dagur ársins var yfirstaðinn tók við það sem mætti jafnvel kalla besti dagur ársins. Mér til mikillar gleði færði Ágúst Elvar okkur þær fréttir að heim til hans í Kaupmannahöfn hefði borist bréf og í því stæði að ég hefði hlotið skólastyrk úr svokölluðum Ragna Lorentz sjóð. Sjóðurinn er ætlaður fyrir íslenska stúdents sem nema menntafræði við DPU og ég rétt náði að sækja um á réttum tíma, Hildi Maríu vinkonu minni að þakka. Hún opnaði nefnilega bréf stílað á mig (sem barst heim til hennar í CPH) rétt fyrir jól og hringdi strax í mig og bað mig vinsamlegast um að senda inn umsókn.
Umsóknin virkaði svona líka vel og ég hlaut vægast sagt ríflegan styrk sem kemur vonandi til með að duga mér og Lárusi eitthvað fram eftir ári. Sannkölluð búbót og ég á eftir að þakka henni Rögnu Lorentz (veit ekkert hver það er samt) mikið og vel á næstu mánuðum fyrir að borga mér fyrir að skrifa MA ritgerð. Ég er eiginlega ennþá að ná þessu. Að vera á launum við að læra er náttúrlega draumastaða fyrir mig - eilífðarnámsmanninn. Lifelong learning kostar sitt :)
Kannski ég plati Lalla út í pinxtos og txakoli eftir körfuboltaæfingu í kvöld - það er nú í lagi að fagna pínu pons er það ekki?
Wednesday, January 13, 2010
2009 í máli og myndum
Janúar hófst með glaðningi frá Íslandi. Fullt af nammi, lýsi, harðfiski og flatkökum.
Við skötuhjú skelltum okkur líka til Aarhus að heimsækja Hadda og Bjarney
Valentínusardagurinn var haldinn hátíðlegur á okkar heimili í febrúar
Ég horfði á ófáa körfuboltaleiki með Agne
Námsmannalífið í Köben bauð bara upp á heimaklippingar :)
og veturinn bauð upp á nokkur pigeaften á Matthæusgade 48
Lárus gerði meira en að spila körfubolta í mars tók hann líka þátt í leik/dans sýningu sem byggðist á körfubolta og dansi.
Í apríl mætti síðan vorið til Köben og svalirnar voru óspart notaðar
Ég hélt fyrirlestur fyrir danska menntaskólanemendur
Við skruppum aðeins til Íslands og sáum BSO alveg splunkunýjan
Fyrstu sumargestirnir okkar til Köben voru Berglind og Hilmar :)
Stórfjölskyldan frá Giljum kom líka í heimsókn
sem og litla fjölskyldan úr Brúarhvammi
Við fórum síðan í surprize heimsókn til Íslands og næstum beint á Vopnafjörð
Það var blíða á Íslandi í ágúst
Við fluttum síðan inn í töluvert minni íbúð í Köben þar sem voru ekki svalir
En veðrið var gott og við borðuðum bara oftar úti í garði
og fórum oft á ströndina
Í ágúst hélt ég fyrirlestur um borgaravitund á ráðstefnu á Ítalíu í 40 stiga hita
Við fluttum síðan til Bilbao í byrjun september og þar tók blíðan á móti okkur
og Guggenheimsafnið í allri sinni dýrð
Lárus henti í eina meistararitgerð í september og útskrifaðist sem meistari í alþjóðasamskiptum
Við fengum síðan fyrstu gestina okkar sem voru á pílagrímsgöngu
Borðuðum góðan mat og ferðuðumst um Norður strönd Spánar
Lárus efst uppi....
...á þessari hæð
Við erum spennt fyrir árinu 2010. Það mun vonandi færa okkur gleði og hamingju, ást og umhyggju fyrir hvort öðru og okkar nánustu. Við erum oftar sem áður ekki með niðurneglt plan fyrir árið og ætlum að taka opnum örmum á móti því sem okkur býðst. Í gegnum árin höfum við lært að lífið er ekki endilega alltaf dans á rósum og yfirleitt þarf að vinna örlítið fyrir hamingjunni. En við höfum líka lært að lífið býður upp á óteljandi möguleika og það er okkar að grípa tækifærin þegar þau gefast. Þykja vænt um hvort annað og vera sátt með það líf sem við veljum okkur.
Takk fyrir árið 2009 við hlökkum til að takast á við árið 2010 með ykkur öllum.