Friday, February 12, 2010

Komin heim

...til Bilbao eftir frábæra og yndislega afslappandi Kaupmannahafnarferð. Það er bara best í heimi að hitta vini sína, slappa af, hafa engar áhyggjur og vera í fríi. En allt frí tekur enda og við komum heim til Bilbao í gærkvöldi í snjókomu og frost! Ekki alveg það sem við höfðum vonast til enda fórum við í um það bil 17 stiga hita. En veðrið er víst bara svona í öllum heimshornum núna, síbreytilegt og frekar óskiljanlegt. Til dæmis er miklu heitara á Íslandi núna en hérna hjá okkur á Spáni.

Njótið bara vel sem eruð á Íslandi!

Ferðin hefði ekki getað verið mikið lengri hjá okkur þar sem nú tekur við smá enskukennsla hjá mér og leikur og æfingar hjá Lalla. Hann er líka að leita fyrir sér í vinnu sem einkaþjálfari og hefur fengið eitt tilboð frá stórri líkamsræktarstöð. Erum svona að vega og meta framtíðarplön en erum ekki í neinum alvarlegum pælingum ennþá. Enda nógur tími til stefnu og við líka ákveðin í að njóta þess sem Bilbao og N-Spánn hefur upp á að bjóða þangað til eitthvað annað tekur við.

Hver mánuður framundan hefur sitt aðdráttarafl og sínar skyldur þannig að tíminn verður án efa ekki lengi að líða og áður en ég veit af verður komið sumar og síðan aftur haust. Þess vegna er um að gera að lifa í núinu en leyfa sér samt sem áður að dreyma og hlakka til framtíðarinnar.

Í mars ætlum við til dæmis að eyða langri helgi með spænskum vinapörum okkar í fjallakofa í fjöllunum hérna í nágrenninu. Við förum nokkur saman, flest strákar úr körfuboltanum og konurnar (kærusturnar) þeirra. Allt krakkar á okkar aldri sem við höfum kynnst ágætlega fram að þessu og líkar ofsalega vel við.

Aprílmánuður er síðan mikið tilhlökkunarefni þar sem við erum boðin í brúðkaup á Ítalíu og við erum ótrúlega spennt að fara. Við ætlum að fara nokkrum dögum fyrr, hjálpa til við undirbúning og njóta þess að skoða okkur um á N-Ítalíu. Við Lalli höfum einu sinni áður heimsótt Arabel (tilvonandi brúður) og fjölskylduna þeirra og vorum í sannkallaðri paradís allan tíman svo við iðum í skinninu að komast aftur til þeirra.

Í lok apríl og byrjun maí - eftir brúðkaupið ætla mamma og pabbi síðan að koma til okakr og skoða sig um í Bilbao og San Sebastian með vinafólki sínu frá Þýskalandi. Við hlökkum til að sýna þeim um og kenna þeim að borða pinxtos og drekka xtakoli.

Um sumarið er síðan von á fyrst Ottó og Elfu (sem við erum búin að bíða ótrúlega lengi eftir og hlökkum meira en allt til að fá) og Sibbu systur og kærastanum hennar sem eru á ferðinni um alla Evrópu að ég held og því frábært að þau komi við á Spáni til að heimsækja bæði Bilbao og San Sebastian.

Semsagt - nóg framundan!

Ást og Yndi

E+L

2 comments:

Ásta Mekkín said...

Hljómar allt saman rosa vel(nema hugsanlega hitastigið hjá ykkur akkurat í augnablikinu, en ykkur verði væntanlega bætt það upp fyrr en síðar). Ég eyði öllum mínum stundum með bókunum hans Lalla og var einmitt að segja Gunnari að gleyma því að fá nokkra athygli á afmælinu sínu í apríl því það eru 6 stór skil hjá mér dagana í kring.

Verið endilega sem lengst í Bilbao svo við náum að koma í heimsókn :) (megið bara flytja ef það er á e-n annan jafn eða enn meira spennandi stað) ;)

Já og: Til hamingju með styrkinn þinn!!

Lalli og Eva said...

Púff já velkomin í hóp fólks sem á önn dauðans framundan. Ég held nefnilega að ég sé í nettri afneitun svona þegar ég lít á allt "extra curricular activities" á þessari önn og býst við að þetta verði bara smooth!

En ég hef nú reyndar ekki miklar áhyggjur af þér (eða mér ef því er að skipta) við gerum þetta með annarri - eða látum amk líta út fyrir það...

Þegar (af því að það er þegar frekar en ef) við flytjum frá BIO þá skal ég sko heldur betur gera mitt besta til að velja einhvern exótískan og spennandi áfangastað.

TAKK (styrkinn) ég er að springa úr hamingju!

Hlakka til að fá ykkur í heimsókn, hvert sem það verður!!