Eins og vísindin höfðu spáð fyrir um varð dagurinn kannski ekki sá allra lukkulegasti. Ég eyddi um það bil 3 klukkutímum á læknavaktinni sem endaði með því að ég fékk ávísað lyfjaskammti sem dugar út árið. Ekkert alvarlegt svosem, króníska blöðrubólgan bara að gera vart við sig en engan veginn ánægjulegt heldur. Um kvöldið var síðan meiningin að lyfta sér örlítið upp og bæta fyrir frekar slappan dag. Þar sem ég er mikill sushi aðdáandi gerði ég dauðaleit að eina sushi staðnum í Bilbao og vildi ekkert annað fara. Okkur fór nú frekar fljótt að gruna eitthvað misjafnt þegar við sátum ALEIN inni á risastórum staðnum með þjónustustúlkurnar á næsta borði við okkur að rúlla inn sushi, plasta og leggja í mót sem kokkurinn kom svo og setti í frysti nánast fyrir framan nefið á okkur. Það þarf varla að taka það fram að sushið var vægast sagt skelfilegt, fiskurinn seigur, brúnn og gamall og hrísgrjónin hálf frosin ennþá. Öll herlegheitin voru síðan borin fram á einhverjum kínverskum drekabát úr timbri sem gerði það að verkum að sushið festist við timbrið og það flísaðist upp úr því þegar maður reyndi að losa sushið af. Huggulegt.
Við hlógum bara af þessu og héldum heim eftir að hafa gefist upp á sushinu og hrísgrjónavíninu sem okkur var boðið í sárabætur. Það var þó lán í óláni að á heimleiðinni duttum við inn á frábært vínhús, fengum súper gott hvítvín og æðislega þjónustu. Við merktum við staðinn sem "gestastaður" það er, staður til að fara með gesti á þegar við fáum næst heimsókn til Bilbao.
Þegar versti dagur ársins var yfirstaðinn tók við það sem mætti jafnvel kalla besti dagur ársins. Mér til mikillar gleði færði Ágúst Elvar okkur þær fréttir að heim til hans í Kaupmannahöfn hefði borist bréf og í því stæði að ég hefði hlotið skólastyrk úr svokölluðum Ragna Lorentz sjóð. Sjóðurinn er ætlaður fyrir íslenska stúdents sem nema menntafræði við DPU og ég rétt náði að sækja um á réttum tíma, Hildi Maríu vinkonu minni að þakka. Hún opnaði nefnilega bréf stílað á mig (sem barst heim til hennar í CPH) rétt fyrir jól og hringdi strax í mig og bað mig vinsamlegast um að senda inn umsókn.
Umsóknin virkaði svona líka vel og ég hlaut vægast sagt ríflegan styrk sem kemur vonandi til með að duga mér og Lárusi eitthvað fram eftir ári. Sannkölluð búbót og ég á eftir að þakka henni Rögnu Lorentz (veit ekkert hver það er samt) mikið og vel á næstu mánuðum fyrir að borga mér fyrir að skrifa MA ritgerð. Ég er eiginlega ennþá að ná þessu. Að vera á launum við að læra er náttúrlega draumastaða fyrir mig - eilífðarnámsmanninn. Lifelong learning kostar sitt :)
Kannski ég plati Lalla út í pinxtos og txakoli eftir körfuboltaæfingu í kvöld - það er nú í lagi að fagna pínu pons er það ekki?
2 comments:
Júts! Auðvitað má fagna. Ég vona að þið hafið gert það. Til hamingju! Ég samgleðst.
Takk elskan!
Post a Comment