Wednesday, March 10, 2010

"í lamasessi"

Ég er svo hrifin af tölum að ég var næstum hætt við að blogga þegar ég uppgötvaði að ég myndi eyðileggja þá tölulegu staðreynd að á þessu bloggi eru 250 færslur. Nú verða þær 251 sem er náttúrlega arfaslök tala. En það kemur einhver betri um síðir...

Á Spáni hefur snjóað heil ósköp á ólíklegustu stöðum eins og í Barcelona og víðar. Hér í Bilbao snjóaði aðeins en fólk er nú nokkuð vant því að fá yfir sig smá slyddu og því var Bilbao ekki "í lamasessi" á meðan Barcelona var sögð vera svo - þar sem meðal annars 200.000 manns misstu rafmagn og hita í marga daga vegna slyddunnar.

Snjórinn var hins vegar fyrirboði fyrir örlitlum hindrunum sem henda víst allt gott fólk í lífinu. Sama dag og hitinn fór niður fyrir núllið, fengum við vinalegt bréf frá skattayfirvöldum í Danmörku þar sem ég var vinsamlegast beðin um að borga helminginn af skólastyrknum mínum til samfélagsins aftur.

Í því fjármálaumhverfi sem einkennir Ísland í dag (það sem allir skulda trilljónir og milljarðar eru bara fyrir pelabörn) virðist kannski ein milljón íslenskar kr. ekki vera svo ýkja há upphæð... Ég hef hins vegar ekki verið mikið í því "að græða" og finnst því alveg nóg um að eiga að borga skattinum helminginn af styrknum mínum sem var jú ætlaður til þess að lifa, borga leigu og læra fram á næsta haust. Sama dag hugnaðist mér líka að kíkja inn á "mitt svæði" hjá LÍN til þess eins að komast að því að ég hafði hreinlega gleymt (!!) að sækja um námslán fyrir haustönnina. Ég hafði hins vegar ekki gleymt að taka svimandi háan yfirdrátt sem átti að greiðast með námslánum (sem eru nú gleymd og grafin).

Svona getur lífið verið snúið stundum - og það mætti segja að þó svo að Bilbao hafi ekki verið í lamasessi sökum slyddu þá hafi tvær sálir í eldri hluta borgarinnar lamast að hluta til við síður en svo uppörvandi fréttir daginn sem snjóaði á Spáni.

En nú er bara að snúa vörn í sókn og leita að frk. Pollýönnu því hún er þarna einhverstaðar - um leið og hún fær kraft í lappirnar þá sprettur hún fram .... ég er viss um það.

Blogga þegar hún mætir á svæðið!

No comments: