Thursday, March 04, 2010

Hið venjulega blogg

Stundum fæ ég samviskubit yfir því að skrifa of hversdagslegt og leiðinlegt blogg. Það hvarflar iðulega að mér að ég þurfi að flíka pólitískum skoðunum, sniðugri heimspeki eða jafnvel einhverju fræðilegu. Í það minnsta einhverju fréttnæmu til þess að geta réttlæt skrifþörfina.

Hins vegar er það svo að þau blogg sem ég les eru lang sjaldnast þannig skrifuð. Í blogghringnum mínum svokallaða (blogg sem ég kíki jafnvel vikulega á) eru nefnilega einmitt "hin venjulegustu blogg". Blogg frá Jóni og Gunnu sem fjalla yfirleitt bara um daginn og veginn. Ég hef nefnilega lúmskt gaman af því að lesa um gráan hversdagleikann í lífi annars fólks. Ég er reyndar örlítið veik fyrir þeim hversdagsleika sem gerist annarstaðar en á Íslandi og því eru ýmiskonar ferðblogg oft ofarlega á lista hjá mér. Hins vegar er það þannig að ég verð fljótt leið á að lesa kvabbið, argaþrasið og svekkelsið sem einkennir mörg þau blogg sem eru í gangi núna.

Nú má ekki misskilja mig sem svo að mér finnist ekki bæði nauðsynlegt og í alla staði frábært að fólk geti tjáð sig um samfélagsleg og pólitísk málefni á veraldarvefnum. Ég er meira að segja þeirrar skoðunar að internetið sem slíkt, blogg og annar samskiptamáti í gegnum netið geti bætt lýðræðið okkar heilmikið og sé ein af "leiðunum" við að þróa lýðræðishugmyndina í nútímasamfélagi. Það er gott og gilt að fólk komi skoðunum sínum á framfæri og noti þennan vettvang til þess. Bloggin virðast engu að síður fljótlega renna saman í eitt og eftir stendur ekki mikið sem breytir, bætir eða kætir.

Hið hversdagslega blogg er aftur á móti mun nær sagnahefðinni og það er kannski þess vegna sem það höfðar betur til mín. Mér finnst ég vera að lesa litlar örsögur um líf fólks og þar sem fólk, alls konar fólk, hefur alltaf átt hug minn og hjarta þá heillast ég upp úr skónum við það eitt að lesa að kona í París stundi morgunleikfimina sína af mikilli samvisku eða að fjölskylda í Ameríku sé komin í umhverfisverndar átak og flokki nú allt rusl eða að maður í Barcelona hafi lent í vandræðum með að kaupa kennaratyggjó.


Ást

2 comments:

Fjóla said...

Sammála, mér finnst bloggið þitt mjög mjög skemmtilegt aflestrar...eins og ég hef áður sagt þá ert þú mjög góður penni, maður lifir sig inn í skrifin!

Kveðja,
Fjóla

Anonymous said...

Independent [url=http://www.COOLINVOICES.COM]make an invoice[/url] software, inventory software and billing software to create competent invoices in before you can say 'jack robinson' while tracking your customers.