Wednesday, January 27, 2010

Kuldakast

Smávegis kuldakast sem skall á hérna Í Bilbao í gær. Í nótt fór hitinn niður í 0 gráður og var um það bil +6 þegar ég lagði af stað í síðasta prófið mitt í morgun. Ég andaði bara ofan í hálsmálið og var í tvennum sokkabuxum svo mér varð ekki meint af. Veit hins vegar ekki hvernig okkur Lárusi á eftir að reiða af þegar við fljúgum til Kaupmannahafnar eftir helgi. Þar er víst fimbulkuldi, snjóbylur og ekki hundi út sigandi.

Annars er tilfinningin góð sem fylgir því að hafa lokið við síðasta áfangaprófið í þessu meistaranámi. Nú tekur við frímánuður sem ég hafði hugsað mér að nota til að safna heimildum og undirbúa ritgerðarskrifin. Prófið gekk vel og ég ræddi um heima og geima við prófdómarann í rúman klukkutíma. Nánast ekkert um ritgerðina, mestmegnis um baskneska þjóðernisvitund, ETA, heimspeki, kúltúrmun á S-Spáni og N-Spáni, siðmenningu og fleira fróðlegt. Ég þekki hann aðeins þar sem hann var yfir prógramminu í fyrra en hætti nú í ár og var ráðinn sem forseti education-deildarinnar í staðinn. Honum finnst jafnvel skemmtilegra að tala en mér og þess vegna varð prófið svona í lengri kantinum en að lokum komumst við að þeirri niðurstöðu að hætta að masa og fallast á það að ritgerðin hefði bara verið í fína lagi. Einkunn fæ ég hins vegar ekki fyrr en 1. mars. Ég hugsa að hann hafi bara samþykkt þá einkunn sem leiðbeinandinn minn gaf mér (sem ég veit ekki enn hver er).

Þrátt fyrir kuldakastið erum við Lalli spræk að vanda og bjartsýn á komandi tímabil. Lalli verður að spila körfubolta fram í maí enda er deildin hérna töluvert stærra en heima og þar af leiðandi fleiri leikir spilaðir. Í vor og sumar er síðan von á fullt af góðum gestum og við erum aðeins byrjuð að skipuleggja tímann okkar til þess að engar tvær heimsóknir rekist nú á og til þess að hafa örugglega tíma fyrir allt það góða fólk sem ætlar að kíkja til okkar.

No comments: