Hér á Spáni sem og annars staðar í Evrópu hefur verið sannkölluð karnivals-stemming síðustu daga þar sem búningar og skrúðgöngur hafa sett svip sinn á bæinn. Aðaldagurinn hérna á Spáni er reyndar ekki kenndur við öskudag heldur eitthvað allt annað og hefur ívið trúarlegri skírskotun hér í samfélagi Jesúíta og kaþólikka heldur en heima á Fróni. Það er enginn dauður köttur inní tunnu og börn syngja ekki Sá ég Spóa 150 sinnum í keðjusöng fyrir vesælt starfsfólk í búðum eins og tíðkaðist í minni barnæsku.
Það verður seint sagt um Spánverja að þeir kunni ekki að skemmta sér eða búa til gott karnival. Hér í Bilbao hófst gamanið sl. laugardag þar sem fór meðal annars fram mikil og metnaðarfull búningakeppni innan spænska vinahópsins okkar. Allan daginn var það fullorðið fólk en ekki börn sem mátti sjá í búningum og um kvöldið var varla nokkur maður úti á götu sem "sýndi sitt rétta andlit". Okkur Lárusi fannst búningakeppnin í vinahópnum, sem fór fram í pörum, sniðugt og krúttlegt uppátæki en gerðum okkur litla grein fyrir alvarleika málsins fyrr en við sáum afrakstur margra daga vinnu og saumaskaps á laugardagskvöldinu.
David og Alfonso voru bob-sleðamenn frá Jamica. Hver man ekki eftir hinni stórskemmtilegu mynd Cool Runnings?
Ég veit ekki alveg hvað Iker og Monni voru en mér fannst þeir sætir.
Mánudag, þriðjudag og miðvikudag var síðan tileinkaður börnum og þeirra karnivalgleði. Börn út um allan bæ breyttust í prinsessur eða nornir, kisur eða ljón, batman eða súperman. Eftir mjög svo vísindalega könnun mína sem fólst í að skoða og meta búninga barnanna á meðan ég skrapp niður í bæ í gær og á mánudaginn þá virðist mér sem sígaunakonur og karlar hafi verið vinsælasti búningurinn í ár. Man ekki eftir að hafa beðið um að vera sígaunakona... Ég var yfirleitt norn eða prinsessa til skiptis (segir kannski eitthvað um mitt innra eðli sem togast á)
Um helgina tekur við annað karnival sem inniheldur ekki mikið af búningum ef frá eru taldir körfuboltabúningar þeirra 8 liða sem koma til með að berjast um konungsbikarinn í körfubolta hér í borginni á næstu fjórum dögum. Við Lárus eigum miða á herlegheitin og erum nokkuð spennt fyrir helginni. Kóngurinn mætir á svæðið sem og um það bil þúsund aðdáendur frá Barcelona og aðrir þúsund frá Madrid. Getur ekki klikkað!
No comments:
Post a Comment