Thursday, January 28, 2010

Vinna með skóla...

er eitthvað soldið séríslenskt. Að minnsta kosti þekkist það lítið sem ekkert í Evrópu að fólk í fullu námi sé sífellt að vinna meðfram skólanum. Á Íslandi er þetta frekar regla en eitthvað annað. Ég byrjaði að vinna með skólanum í 9. bekk (vann á sumrin miklu fyrr - byrjaði að passa börn hálfan daginn sumarið sem ég var 10 ára). Ég þjálfaði fimleika tvisvar í viku í 9. og 10. bekk og eyddi flestum helgum líka í þjálfun og aðra vinnu tengda fimleikunum. Í menntaskóla þjálfaði ég líka allt upp í 5 sinnum í viku með skólanum og vann flestar helgar í fataverslun. Í háskólanáminu mínu vann ég líka við að þjálfa og fór fljótlega að vinna innan skólans; aðstoða við kennslu, rannsóknir og fleira í þeim dúr. Bottom line: Ég hef unnið meðfram námi frá því að ég var 14 ára eins og svo margir aðrir íslenskir krakkar.

Ég minnist þess að í Verzló þurfti ég iðulega að færa rök fyrir þessari vinnu þar sem kennurunum mínum fannst auðvitað (og réttilega líka) að nám sé full vinna og að nemendur ættu þar af leiðandi að eyða tíma sínum í að læra heima en ekki að vinna sér inn pening (sem færi bara í einhvern óþarfa hvort eð er). Ég held nú reyndar að vinnan sem slík hafi ekki endilega haldið mér frá lærdómnum á Verzlunarskólaárunum, frekar að djammið og útstáelsið (sem þurfti einmitt að vinna fyrir) hafi rænt mig tíma og orku til að standa mig sæmilega á prófum. En ég útskrifaðist að lokum og allt fór vel ;)

Í aðra röndina er ég pínulítið stolt af þessari íslensku seiglu og í sjálfu sér skil ég (ennþá amk) ungt fólk sem þykist þurfa að vinna endalaust til að eiga fyrir hinu og þessu. Það býr jú einfaldlega í einu mesta neyslusamfélagi veraldar leyfi ég mér að segja og vill ekki verða útundan. Þetta er líka merki um ákveðið sjálfstæði og sjálfsbjargarviðleitni því ekki getur allt ungt fólk beðið mömmu og pabba endalaust um peninga. Á hinn bóginn finnst mér þetta ekki endilega "ideal" aðstæður. Við Lárus tókum stóra ákvörðun sumarið 2005 og ákváðum að eyða því í Kaupmannahöfn og vinna "bara 5 tíma á dag" - rétt til að eiga fyrir bjór og pizzu. Við eyddum fyrstu vikunum í að afsaka og réttlæta þessa ákvörðun okkar við alla þá sem urðu á vegi okkar. Það fyndna var að engum í Kaupmannahöfn fannst þetta neitt merkilegt. Krakkar á okkar aldri voru eiginlega bara hálf hissa á því að við værum að eyða sumarfríinu okkar í að vinna eitthvað yfir höfuð! Þegar ég byrjaði í MA náminu haustið 2008 ákvað ég að gera tilraun til að vinna EKKERT með náminu. Ég ætlaði að tileinka náminu allan minn tíma. Fyrr en varði var ég komin í forfallakennslu í grunnskóla, fimleikaþjálfun og í vinnu innan háskólans!

Nema hvað, síðasta önn er fyrsta önnin síðan ég var 14 ára þar sem ég hef í raun og veru ekki unnið neitt með skóla. Það skapast fyrst og fremst af því að ég tala ekki tungumálið fullkomlega og kannski líka af því að nú ætlaði ég virkilega að reyna að einbeita mér að skólanum...

Í dag réð mig í vinnu við að kenna litlum spænskum krökkum ensku. Sem betur fer segi ég nú bara!! Nú er ég hætt að reyna að berjast á móti íslensku ofvirkninni og hlakka til að hafa eitthvað að gera fyrir utan skóla... Á meðan það inniheldur ekki stanslaust djamm og útstáelsi þá held ég að það bitni ekki á frammistöðu minni í skólanum. Ef það fer að gera það... þá er ég amk í æfingu frá því í Verzló að rökræða og réttlæta þetta allt saman fyrir kennurunum mínum!

No comments: