Friday, November 26, 2010

Keflvísk kósýheit

Í ágústlok fannst mér heldur kuldalegt til þess að hugsa að flytja "upp á völl" eins og það er kallað eða á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll enda er byggðin staðsett upp á miðri heiði, þeirri sem nefnist Miðneðsheiði.

Þessi dreifða og sundurslitna byggð gæti ekki verið ólíkari þeim miðbæjarkjörnum sem ég hef búið í á síðast liðnum fjórum árum sem eru í réttri röð: Miðbær Reykjavíkur, miðbær Kaupmannahafnar og miðbær Bilbao. Nú í fyrsta lagi er óskaplega langt á milli húsa og að Amerískum hætti er heiðin nánast malbikuð af bílastæðum. Hér við blokkina mína - sem er númer eittþúsund tvöhundruð tuttugu og fimm (þrátt fyrir þá augljósu staðreynd að ekki séu svo margar íbúðir til staðar) er til dæmis gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á hverja íbúð - planið hér fyrir utan dekkar því 24 rúmgóð stæði. Þessi einfalda (eða öllu heldur tvöfalda) regla gildir fyrir allar blokkir á svæðinu og því held ég það væri þjóðráð að halda bíladagana árlegu næst hérna á Ásbrú en ekki á Akureyri. Enda nóg af lausum stæðum...

En það er fleira sem skilur að. Við Ásbrú eru til að mynda engar sólahrings búðir líkar þeim sem ég vandist fljótlega á við Eggertsgötu í Reykjavík og Vesterbrogade í Kaupmannahöfn. Hér er ekki heldur hægt að stóla á Tyrkneska kebabsölumenn síðla næturs eða árla morguns þegar hungrið sverfur að en það kom sér oftar en ekki vel bæði á götum Kaupmannahafnar sem og í miðbæ Bilbao. Hér á Ásbrú hef ég heldur ekki rekist á einn einasta stað sem selur eitt rauðvínsglas og lítinn smárétt á spotprís eða girnilegan núðlurétt á 500 kall.

Já það er staðreynd að hér er lengra á milli húsa og lítið um úrval veitingastaða. En þrátt fyrir ólæknandi veitingastaðaást og þörfina fyrir að hafa fullt af fólki í kringum mig hefur mér tekist að þykja vænt um Ásbrú og Miðnesheiðina sem hún stendur á. Með hverjum deginum líður mér meira eins og "heima" og ég hef lært að meta ýmislegt nýtt og notalegt.

Á morgnanna þegar ég rölti í vinnuna get ég ekki annað en dáðst að því ótrúlega útsýni sem íbúum Ásbrúar býðst. Í morgunlogninu er ekkert minna en magnað að líta yfir fjallahringinn og sjá Snæfellsjökul í allri sinni dýrð. Norðurljós og stjörnur skína töluvert skærar hér á heiðinni en í miðborgum Danmerkur og Spánar og í aðdraganda jólanna hefur síðan verið einstaklega ljúft að kúra inni í hlýrri íbúð með kveikt á kertum og hlusta á vindinn blása (sem hann gerir ósjaldan hérna).

Fjöllin, útsýnið, víðáttan og vindurinn búa til sérstaka stemmingu sem eru koktell af Keflvískum kósýheitum.

2 comments:

Anonymous said...

Oh já, algjör kósýheit par exellance ;) nú er veikindaskeiðinu langa lokið á heimilinu hjá mér (finally)svo nú get ég loksins farið að bjóða óléttukonunni af heiðinni niður í sveitina í kaffi :)
Knús darling, hlakka til að fara með ykkur á tapas í des ;)
Kv, Vala

Lalli og Eva said...

Ohhh það verður æðislegt -bæði kaffið og tapasið :)