Tuesday, February 23, 2010

og þvotturinn þornar á snúrunni

Sólin skín í Baskalandi þessa dagana og hitinn fór upp í 19 gráður í gærdag. Henni er hins vegar ekki jafn skipt veðursældinni og í Valencia eru mikil flóð, rigningar og leiðindaveður. En á meðan þetta helst svona hjá okkur er sannkallað vor í lofti.

Það besta við þetta veðurfar er samt sem áður ekki endilega hitinn eða sólin sem slík heldur minnkandi rakastig í loftinu sem gerir það að verkum að þvotturinn sem ég hengi út á snúru þornar á innan við sólahring en hangir ekki úti blautur eða rakur í viku eins og hefur verið síðastliðna 3 til 4 mánuði. Já það þarf ekki mikið til að gleðja mann!

Í síðustu viku uppgötvuðum við Argentískt veitingahús (sáum það bara álengdar, höfum ekki ennþá farið þangað) en erum æsispennt að prófa staðinn. Síðan höfum við gert tvær heiðarlegar tilraunir til að fara á annað grillhús sem heitir Henao 40 og á víst að vera eitt það allra besta hér í borginni. Í fyrsta skiptið var allt fullt og ekki séns að koma okkur að það kvöldið og í seinna skiptið var hreinlega lokað þrátt fyrir að það stæði á heimasíðunni þeirra að það væri opið. En allt er þegar þrennt er og við gefumst ekkert upp.

No comments: