Thursday, July 17, 2014

Afríkuvetur og vinnan

Hér í Malaví er vetur. Hitinn er ekki nema rétt rúmar 20 gráður yfir daginn og fer allt niður í 13 gráður á nóttunni. Látið ekki blekkjast. Það er alls ekki hlýtt - sérstaklega ekki á morgnanna, kvöldin og á nóttunni. Ég er óskaplega þakklát fyrir ullarteppin og kertin sem voru hluti af fallegu brúðargjöfunum okkar frá því í fyrrasumar. Flíspeysurnar okkar og hnéháu ullarsokkarnir eru líka hið mesta þarfaþing þessa dagana. Kannski töpuðum við bara hæfileikanum til að þola kulda við það að missa úr einn vetur?

Fyrir utan gæsahúðina ríkir almenn gleði á heimilinu þar sem mamma og María frænka eru í fjögurra vikna heimsókn hjá okkur. Þrátt fyrir ansi upptekið heimilsfólk erum við engu að síður búin að ná að eyða góðum tíma við vatnið, taka þátt í sjálfboðaliðastarfi með ljósmæðrum, heimsækja kúltúrþorpið Kumbali og skoða eina af stærri stíflum Malaví. Um þarnæstu helgi förum við síðan í safarí í Liwonde þjóðgarðinum sem ég er mjög spennt fyrir. Annars eru mamma og María ansi sjálfstæðir og geðgóðir gestir sem geta vel dundað sér sjálfar í tennis, golfi og eða bara með góða bók í hengirúminu. 

Í UNICEF er allt á fullu og júlí reynist alls ekki vera einn af þessum rólegu mánuðum (sem ég var á einhvern undarlegan hátt að búast við). Í lok júní og byrjun júlí snérist nánast öll stofnunin um komu norska forsætisráðherrans og UN fylgdarliðs sem smellti í sólarhringsheimsókn til Malaví til þess að hleypa af stokkunum þriggja ára verkefni um menntun stúlkna (Girls´ education) sem UNICEF stendur að ásamt UNFPA og WFP. Verkefnið gengur út frá því að til þess að auka raunverulega möguleika stúlkna á að njóta menntunar þurfi að koma til margvíslegra aðgerða á ýmsum stigum menntunar. Verkefnið hefur þar af leiðandi fjölbreyttar áherslur sem snerta meðal annars matargjafir og skólagarða, aðgengi stúlkna að kynfræðslu og réttindum þeirra til að hafa áhrif á eigin kynhegðun, bættar kennsluaðferðir kennara og stjórnenda í skólum, möguleika stúlkna á óformlegum menntunarleiðum, samfélagslega ábyrgð og kröfur um menntun stúlkna... Afskaplega spennandi allt saman og ég hlakka mikið til að komast á framkvæmdarstig verkefnisins og fylgja því eftir næsta árið. 

Annað verkefni sem ég er líka ábyrg fyrir og þar af leiðandi jafn spennt fyrir er 100 skóla verkefnið. Það verkefni gengur út að styðja 100 skólasamfélög til umbóta með margvíslegum hætti. Verkefnið er líka miní rannsóknarverkefni þar sem við gerðum nú í ágúst grunnrannsókn á flestum þáttum skólanna, og fengum til þess að unga mastersnema frá University of Malawi sem mér fannst alveg extra gaman að geta gert, síðan munum við fylgjast vel með öllum verkefnum sem verða innleidd í skólunum. Á þriggja mánaða fresti munum við síðan fá bæði eigindlegar upplýsingar og megindleg gögn um skólana til samanburðar og notkunar í áætlana- og verkefnagerð. Ég var eins og þið getið rétt ímyndað ykkur ólýsanlega spennt að fá að komast í gögnin úr frumrannsókninni... hef þó þurft að bíða ansi þolinmóð þar sem hlutirnir taka oft ansi langan tíma. Skrifstofan pantaði til dæmis SPSS forrit til þess að ég gæti byrjað að greina um leið og gögnin kæmu inn.... það tók sinn tíma. Forritið var síðan sett upp í tölvu sem reyndist með bilað batterí, nýtt batterí var þá pantað... það tók sinn tíma. Í gær komu skilaboð um að nýtt batterí væri á flugvellinum... (!) ...nú er ég bara farin að anda með nefinu... en vona samt að allt saman skili þetta sér í tíma og ég geti byrjað að greina sem allra allra fyrst!   

3 comments:

Hildur said...

Þetta er svakalega spennandi staða sem þú ert í og hrikalega gefandi verkefni sem þú ert aðvinn að ásamt því að nýta það sem þú ert svo góð í. Varðandi hitann þá skiptir maður svo fljótt um termostat, þið verðið örugglega að frjósa fyrstu vikurnar sem þið komið aftur til Íslands, svo verður það bara business as usual. En hvernig er staðan eruð þið fram á næsta vor?

Eyrún said...

Varðandi hitann: Það er bara kaldara í útlöndum en á Íslandi, í alvöru. (Sumum útlöndum allavega.) Og gráðurnar þýða ekki neitt, 13° heima er notalegur sumardagur, við eða sunnan við miðbaug eru 13° nístingskuldi. Og svo verður svo hræðilega kalt í þessum óupphituðu steinhúsum... ekki það að ég viti nokkuð um ykkar húsakost þarna. Ég hélt einu sinni að ég yrði frostdauð, það er eina skiptið sem ég hef óttast það af einhverri alvöru, og það var í útlöndum, Grikklandi nánar tiltekið, í janúar, í húsi með steinveggjum og engri kyndingu að heita mætti -og það var ekki einu sinni frost, ekki nálægt því. En ískalt alveg hreint. Mér finnst ekkert skrýtið að þið séuð í hnésokkum í 13°.

Lalli og Eva said...

Sammala Eyrun!

Ja Hildur vid erum buin ad framlengja ad minnsta kosti fram til september 2015 ;)