Thursday, May 01, 2014

Að læra í starfi.... Takk Elfa fyrir innblástur og kraft!

Það er deginum ljósara að bloggið mitt líður fyrir tilkomu Facebook, Instagram og annarra samfélagsmiðla. Reyndar hef ég sjaldan verið jafn lítið viðriðin netnotkun eins og undanfarna sex mánuði. Enda nóg annað að gera, upplifa, reyna og fást við. Vinnudagurinn er miklu mun lengri og þar af leiðandi er allt umfram og afgangs nýtt í það sem mestu máli skiptir í lífinu: knús, kossa, bóklestur og ferðalög.  

Mér hefur lærst að vinnan verður ekki rólegri. Nú, hálfu ári eftir að ég byrjaði að vinna fyrir UNICEF geri ég mér ekki lengur vonir um að eiga dag í vinnunni þar sem ekki eru að minnsta kosti eitt til tvö neyðartilfelli, þrír krísufundir, eitt óvænt og algjörlega óskiljanlegt atvik, mál sem þarf að leysa á innan við fimm mínútum, krefjandi samstarfsaðilar, óútreinkanleg ríkisstjórn, endalausir tölvupóstar og símhringingar. Yfirmenn sem krefjast hins ómögulega og menntamálamaráðuneyti sem skiptir um skoðun eins og nærbuxur. 

Ég er líka búin að læra meira á hálfu ári en ég hef gert í öllum skóla til samans (og varði ófáum árum í skóla... og er ekki hætt enn). Ég fékk að skygnast inn í hugrakkt og einstakt meistaraverkefni svilkonu minnar um daginn sem minnti mig rækilega á hversu mikilvægt það er að skoða sjálfan sig í starfi. Síðastliðið hálft ár hefur reynst mér ansi góð naflaskoðun. Óhjákvæmilega hef ég þurft að endurmeta sjálfan mig, hæfni mína og getu. Viðbrögð mín og venjur. Það hefur ekki verið auðvelt. En ef það hefði verið auðvelt væri ég ekki að læra. Ég segi nemendum mínum hikstalaust að ef þeim finnist námsefnið ekki ögn erfitt, krefjandi og óskiljanlegt séu þau ekki að læra... Ef að samvinnan gangi ekki örlítið brösulega og verkefnin virðast óyfirstíganleg... þá er þetta ekki þess virði. Þegar við svitnum hæfilega, botnum ekki alveg í hlutunum og þurfum að hafa okkur við til þess að ná árangri - þá erum við að læra, þroskast og eflast. 

En það er líka mikilvægt að ná andanum inn á milli, fá tækifæri til að setjast niður, líta til baka og ígrunda. Vega og meta hvert reynslan hefur leitt okkur. Er ég færari, sterkari og hæfari? Tek ég betri ákvarðanir, er ég sterkari samstarfsaðili, hef ég breiðari þekkingu og get ég beitt þessari þekkingu á sem bestan hátt? 

Hvað er það í þínu starfi sem þroskar þig, gefur þér kraft og fær þig til að vilja gera betur?



1 comment:

Unknown said...

Hef ekki kíkt á bloggið ykkar lengi og varð hálf undrandi þegar ég kíkti núna og kíkti svo á dagsetninguna á nýjasta bloggi, fann ég þetta á mér.... :) Vona það!

Og ég er svo sammála þér, það er svo miklu sælla að ná árangri sem þú hefur lagt allt þitt í og svitnað soldið. Þú valdir nú ekkert auðveldan stað til að svitna aðeins á, sjálfa Afríku, vonandi verður veturinn bara aðeins svalari ;)