Wednesday, January 15, 2014

Tímaleysi

Stundum er eins og tíminn standi í stað og æði áfram - á sama tíma. Slíkt hendir mig æ oftar hér í Afríku. Tíminn er, á einhvern óskiljanlegan hátt, afstæðari hér lengst úti í heimi, eins og Malaví sé ekki bara á öðru tímabelti (munar reyndar ekki nema 2 tímum á Malaví og Íslandi) heldur líka eins og landið sé hreinlega á öðru tímakerfi. Samt er Malaví hefðbundið land í þeim skilningi á meðan til eru lönd á borð við Eþíópíu þar sem árið er ekki 2014 heldur 2003, þar sem mánuðirnir í árinu eru 13 og klukkan byrjar á núll. 

Nei hér er ekkert óvenjulegt við tímann - svona út á við. En samt finnst mér tíminn ýmist standa í stað eða rjúka áfram. Á Ísland líður hann hratt, stundum alltof hratt, en yfirleitt svona jafnhratt. Hér finnst mér oft ríkja ákveðið tímaleysi. Svona eins og landið sé hvort eð er svo langt frá umheiminum, nútímanum, samtímanum að það skipti ekki máli hvaða ár sé, eða hvaða dagur sé, eða hvað klukkan sé. Um daginn heyrði ég í flugvél og þá leið mér allt í einu eins og um merkilegan viðburð væri að ræða og ég fór að hugsa um hvert fólkið væri að fara í flugvélinni, hvort það væri að fljúga inn í raunverulegan tíma. Þegar ég hugsa líka um að við eigum eftir að vera hér í eitt ár þá veit ég að eitt ár getur bæði liðið eins og einn dagur eða heil eilífð. Það er það sem gerir þetta líf svo snúið - að meta tímann sem við eigum. Hvernig við kjósum að verja honum, með hverjum, við hvað.   

Æ þið afsakið að ég leyfi mér svona hugleiðingar. Það er bara eitthvað svo stutt í melankólíuna svona rétt eftir jólin, sem voru undarlega notaleg. Ég held að það sé góð ástæða fyrir því að barnungir skiptinemar eru hvattir til að heimsækja ekki foreldra sína (eða fá heimsókn) á þessu eina ári sem þau dvelja í öðru landi. Eins frábært og það er að fá mömmu og pabbaskammt beint í æð þá er það líka eins og fá smá sykursjokk og eftir situr maður hálf dofinn, með smá hausverk og pínu bumbult af allri gleðinni, knúsunum, hlýjunni og nálægðinni. 

Ég finn að ég þarf að hafa mig heilmikið við að takast á við hversdaginn aftur. Mæta á skrifstofuna, hefja slaginn við menntamálaráðuneytið, framkvæmdaraðila, peningafólkið og sveitarfélögin. Boða fólk á fundi, rýna í fjárhagsáætlanir, undirbúa fyrirlestra, fara yfir rannsóknaráætlanir, sitja námskeið í kerfum Sameinuðu þjóðanna og skipuleggja skólaheimsóknir. Samt eru þetta spennandi verkefni, ótrúleg tækifæri og hafsjór af reynslu. Ég veit líka að með hverjum deginum öðlast ég styrk til að taka stærri og ákveðnari skref. Með hverri vikunni verð ég öruggari og hugrakkari og get þannig notið tímans betur.   
   

3 comments:

Anonymous said...

Vá hvað ég skil þig vel. Þegar maður fer á nýjan stað (þó það sé ekki eins framandi og Malaví meira að segja) þá venst maður lífinu, kemst fljótt í ákveðinn rythma.. en svo mæta foreldrar í heimsókn, sem eru svo dásamlegir en samt einhvern veginn tenging til baka í hinn hefðbundna raunveruleika sem við þekkjum og þegar þau svo fara þá þarf maður allt í einu að finna sig upp á nýtt í nýja raunveruleikanum sínum.
En það kemur, og það kemur fljótt. Og það sem er svo dásamlegt við svona melankólíu er einmitt að það er ástæða til að fá hana. Hugsaðu þér hvað það væri eiginlega bara ömurlegt að líða ekki svona, sakna mömmu og pabba og íslands og fólksins og umhverfisins ekki neitt, geta bara haldið áfram eins og ekkert hafi ískorist.
Það er gott að sakna og eiga svona daga.
Knús, Hildur Björk

Lalli og Eva said...

Takk og svo satt Hildur!

Anonymous said...

Vá hvað ég man eftir þessari tilfinningu þegar ég var í Hondúras. Mamma og pabbi heimsóttu mig og fóru síðan á nánast sama tíma og nánast allar vinkonur mínar flugu aftur til síns heimalands. Fannst ég var EIN í heiminum. Í svona tvær vikur. :) Þetta kemur. Tíminn er svo merkilegt fyrirbæri, við fjölskyldan erum einmitt að lesa saman Tímakistuna eftir Andra Snæ - skemmtilegar tímapælingar í henni, mæli með að þú lesir hana þegar þú kemur aftur á klakann. ;) Knúskveðjur,
Magga