Thursday, January 20, 2011

Undirbúningur

Það er einhvervegin hávetur þessa dagana. Frostið og vindurinn láta engan í friði og úlpurnar góðu sem keyptar voru í Svíþjóð koma sér einstaklega vel. Engu að síður finn ég öðru hvoru fyrir smá vori í kroppnum... svona innst inni.

Kannski er það vegna þess að að ég veit að vorið kemur með ófædda barninu okkar og það styttist óðum í það. Það fer ekki endilega mikið fyrir hinni klassísku hreiðurgerð en engu að síður erum við farin að huga að hinu og þessu sem breytist við komu barnsins. Jafnt veraldlegum sem andlegum hlutum.

Janúar hefur nýst mér vel í hverslags undirbúning þar sem ég verð að vinna töluvert meira í febrúar og mars (fram að settum degi) og því finnst mér upplagt að nýta þessa daga í janúar til að undirbúa kennslu, ganga frá lausum endum og hafa flesta hluti á hreinu. Í febrúar og mars ætla ég nefnilega að gera mitt besta til þess að njóta hverja lausa mínútu í að slaka á og undirbúa mig bæði líkamlega og andlega fyrir stóra hlutverkið.

Þetta tvennt helst nefnilega í hendur í mínu lífi - að vera vel undirbúin veraldlega og að líða vel andlega. Það skiptir ekki öllu máli fyrir hvaða viðburð eða í hvaða aðstæðum. Þetta gildir almennt fyrir mig. Ef ég hef það á tilfinningunni að ég sé með flesta hluti á hreinu í veraldlegum skilningi þá finnst mér ég líka vera tilbúin andlega - og öfugt auðvitað. Tvær hliðar á sömu krónunni.

No comments: