Thursday, November 18, 2010

Æ það reddast...

Síðan við fluttum heim höfum við skötuhjú haft meira en nóg að gera. Hr. Jónsson vinnur í grunnskóla sem umsjónakennari og það eitt og sér er starf fyrir heilt þorp en ekki eina manneskju... "it takes a village to raise a child..." þið vitið. Síðan er það körfuboltinn, æfingar og einkaþjálfun. Ég er semsagt að reyna að færa björg í bú líka og er að kenna bæði upp í HÍ og hérna suður með sjó í Keili. Síðan er ég líka að vinna að rannsóknum fyrir Háskólann sem er auðvitað ótrúlega skemmtilegt og nauðsynleg fyrir svona námslúða eins og mig.

Allavega þetta er allt gott og blessað og alls ekkert einsdæmi... ég og Lalli erum ekkert "ofur" ef þið fáið það á tilfinninguna (sem þið fenguð samt örugglega ekki). Þegar ég tala við vinkonur mínar eru þær nefnilega langflestar sjálfar í mörgum vinnum eða jafnvel mörgum vinnum OG skóla. Síðan eiga þær líka þrjú börn og mæta reglulega í ræktina. Það er því augljóst að ég tapa þessari keppni strax enda bara með eitt barn sem er meira að segja ennþá í maganum - og eina ræktin mín er slökunar-meðgöngujóga á þriðjudagskvöldum sem ég er nýbyrjuð í.

Staðreyndin er nefnilega sú að fólk hérna á Íslandi er upp til hópa ofvirkt, vinnusjúkt og þarf sífellt að vera allt í öllu - allstaðar. Ég var eiginlega búin að gleyma þessu samfélagsmunstri þangað til að ég kom heim aftur og sogaðist inn í þetta fyrirkomulag nánast frá fyrsta degi. Nú er ég ekki að kvarta enda vita allir að áttunda dauðasyndin (amk hérlendis) er að kvarta yfir því að það sé of mikið að gera. Í þeim anda spurjum við fólk hvort það sé "ekki brjálað að gera" til þess að staðfesta velgengni og velmegun náungans en ekki endilega til þess að láta okkur annt um til dæmis heilsu viðkomandi.

Þrátt fyrir að hafa sogast hratt inn í þessa skemmtilega klikkuðu hringiðu hef ég átt í örlitlum erfiðleikum með að aðlaga mig að þessum aðstæðum. Ég er til dæmis ennþá mjög oft á spænskum tíma og er þar af leiðandi oftar en ekki aaaaðeins of sein. Ég keypti ekki dagbók fyrr en nokkrum mánuðum eftir að við komum heim (enda var ég löngu hætt að nota slíkt aparat) og lenti þar af leiðandi ítrekað í því að tví- og þríbóka mig á hin og þessi stefnumót. Ég afrekaði til dæmis að vera búin að bóka mig í viðtal í Reykjavík í síðustu viku á sama tíma og ég átti að vera í 20 vikna sónarskoðun og reyndar líka á kennarafundi í Keili... Úbbs!

Nú það skrýtna og skemmtilega við þetta allt saman er að þrátt fyrir annríkið, stressið, ofbókanir og áætlanir úr skorðum þá hef ég nákvæmlega engar áhyggjur af þessu ástandi og þetta truflar mig ekki vitund. ÞAÐ er mjög óvenjulegt þar sem venjulega myndi ég takast á við þessar aðstæður (eins og ég hef alltaf gert hingað til) með því að reita hár mitt, fá stresskast og hætta að borða.

En nú er öldin önnur! Ég held nefnilega að einu hormónabreytingarnar sem fylgja krílinu í kúlunni séu of stórir skammtar af kæruleysishormóni. Ég er ekkert sérstaklega viðkvæm, ekki slæm í húðinni, ekki skapstór, ekki grátgjörn, finn ekki til í brjóstunum og fæ ekki reiðiköst eða önnur merkjanleg hormónaviðbrögð... nema þau að mér er bara gjörsamlega alveg slétt sama þó svo að það sé mikið að gera hjá mér. Mitt í öllu stressinu og kapphlaupinu segi ég einfaldlega við sjálfan mig "æ þetta reddast" og það besta er að það gerir það yfirleitt alltaf.

Ég mæli með að fólk þrói með sér slatta af kæruleysi (með barneignum eða án) og taki á móti öllu jóla/vinnu/fjölskyldu stressinu með því að slaka örlítið á, yppta öxlum og leyfa hlutunum að ráðast.

4 comments:

Anonymous said...

Ég er bara í einni vinnu og á bara eitt barn :) .... samt er ég alltaf massa stessuð! ;)

En þetta er alveg rétti andinn!

Kv,
Guðrún

Lalli og Eva said...

"bara" eitt barn...

það er nú bara nóg myndi ég halda ;) Við tökum því rólega á Tapasbarnum til dæmis... hlakka ýkt til!

Anonymous said...

mikið er ég sammála þessu hjá þér Eva mín - tökum þessu bara rólega.
kv
Lory frænka

Lalli og Eva said...

Er það ekki bara?