Monday, October 14, 2013

Ævintýraleg helgi

UN stofnanir um heim allan ákveða tiltekinn fjölda af frídögum á ári í samræmi við mismunandi trúarbrögð og þá frídaga sem gilda í hverju landi fyrir sig. Í dag og á morgun er frí hjá sameinuðu þjóðunum í Malaví. Í fyrsta lagi vegna mæðradags sem haldin er mjög svo heilagur hér í landi. Útvarpsþulir hafa til að mynda á síðast liðinni viku ítrekað minnt hlustendur á að versla eitthvað fallegt handa mæðrum sínum og malavískar konur af skrifstofunni minni pósta löngum færslum á Facebook til heiðurs mæðrum sínum. Í öðru lagi vegna Eid al-Fitr eða "feast of breaking the fast" - lokadagur Ramödunar. 

Við fjölskyldan nutum þess í botn af fá langa helgi og héldum suður að Malavívatni þar sem dekruðum við okkur í meira lagi. Það var algjörlega frábært að komast út fyrir borgarmörkin og sjá meira af þessu fallega og margbreytilega landi. Við keyrðum í gegnum sléttur og fjöll alla leið niður að vatninu sem ég tala ennþá um sem sjó enda erfitt að ímynda sér vatn af slíkri stærðargráðu. Í ferðum sínum um Afríku árið 1859 nefndi Livingstone vatnið "Nyasa" eða "lake of stars" - eftir að hafa séð sólina setjast tvö kvöld í röð við vatnið skil ég vel nafngiftina og hefði jafnvel bætt við "stjarna og drauma" eða einhverju álíka væmnu og rómantísku en slíkur er andinn sem svífur yfir. Við snæddum morgun- hádegis og kvöldmat með útsýni yfir spegilslétt vatnið þar sem hafernir svifu um og klófestu sinn snæðing. Yfir daginn svömluðum við í sundlauginni og töldum áreiðannlega yfir 30 fuglategundir. Lalli og Hera Fönn sigldu á kajak á meðan mamman lá á ströndinni og síðan fórum við öll saman í sólseturssiglingu á seglskútu. Á morgnanna fylgdumst með apafjölskyldu vakna fyrir utan svalirnar okkar, gefa apabörnum brjóst og snyrta hvert annað.   

Ef einhverjir voru að láta sig dreyma um að koma í heimsókn en voru ekki alveg vissir þá ættu meðfylgjandi myndir og þær sem birtast á Facebook að auðvelda fólki að láta draumana rætast! 

Morgundagurinn verður síðan nýttur í að plana komandi daga og vikur þar sem við erum loksin komin á ról með að búa okkur til okkar eigið líf hér í borginni. Við hlökkum til að komast inn í húsið okkar í þar næstu viku og hefjast handa við að gera það huggulegt. Hera Fönn fer á nýjan leikskóla í sömu viku og þá erum við loksins komin með langtímapláss fyrir hana. Leikskólinn er æðislegur, heldur húsdýr og býður upp á frábært úti- og leiksvæði. Við erum spennt að komast í okkar eigin rútínu og segja frá öllum hversdagslegu hlutunum sem gera lífið að ekki minna ævintýri en helgar líkt og sú sem leið.     



























Wednesday, October 09, 2013

Raddir barna

Nú er ég aftur komin á ról vinnulega séð eftir ferðalög síðustu viku. Eins og ég hef sagt frá áður eru verkefnin mín á skrifstofu UNICEF hér í Malaví æði mörg og krefjandi. Eitt af stærri verkefnunum sem ég tók að mér er að sinna ráðgefandi hlutverki fyrir menntamálaráðuneytið sem vinnur þessa dagana að stefnumótun um menntun án aðgreiningar eða Inclusive Education. Hér sýnist mér helsta áskorunin vera fólgin í því að fjalla um börn með fatlanir á upplýstan og ábyrgan hátt og móta síðan skólastefnu sem byggir á slíkri umfjöllun og umræðu.  

Í fyrradag hitti ég félaga mína úr ráðuneytinu, tvo menn á miðjum aldri, og fékk að heyra af áætlunum þeirra. Áætlanir þeirra um upphaf slíkrar stefnumótunar fólust í góðum hugmyndum um þrjá samráðs- og vinnufundi í hverjum landshluta fyrir sig en landinu er skipt upp í norður-, mið- og suðurhluta. Mér leist strax mjög vel á slíkt fyrirkomulag en setti þó spurningarmerki við tvennt. Í fyrsta lagi fjárhagsáætlunina sem hljóðaði upp á ansi háa reikninga fyrir akstur og hótelgistingu ýmissa aðila og í öðru lagi boðaða þátttakendur á fundina.  

Í tengslum við akstur og hótelkostnað sem áætlaður var á hvern einasta héraðsmenntafulltrúa (24 talsins) og aðra fyrirmenn fékk ég einfaldlega þá skýringu að ekki væri hægt að ætlast til þess að fólk í jafn háum stöðum kæmi sér sjálft á áfangastað og því einungis eðlilegt að útvega bílstjóra og tilheyrandi. Ég er hrædd um að það muni taka uppeldis- og menntunarfræðing ofan af Íslandi nokkuð langan tíma að venjast þessari hugsun (ef einhverntíman). Ég sá hins vegar strax að þetta væri ekki til frekari umræðu og snéri mér því bara að næsta atriði sem skiptir líka meira máli. Það tengdist lista þátttakenda. Á fundinn voru boðaðir fjölmargir hagsmunaaðilar sem tengjast hugtakinu menntun án aðgreiningar. Til dæmis kennarar, skólastjórar, menntafulltrúar héraða eins og áður sagði og fleiri sem tengjast rekstri og utan um haldi skólanna. Þá voru einnig boðuð á fundinn hin ýmsu félagasamtök og stofnanir (NGO's) sem tengjast fötluðum börnum á einn eða annan hátt. Á listann vantaði hins vegar afar mikilvægt fólk að mínu mati: Foreldra og börn! 

Ég viðraði þetta á mjög svo diplómatískan hátt og benti á að það væri lítil stoð í því að móta stefnu um menntun án aðgreiningar ef ekki væri haft samráð við þá sem virkilega eiga að njóta góðs af slíkri stefnu - foreldra barna með fatlanir og sérþarfir og börnin sjálf. Það eru þau sem þekkja það best á eigin skinni að hafa ekki aðgengi að menntun, að vera útilokuð eða aðskilin frá öðrum. Þau hljóta því að hafa mest um málið að segja.

Félagar mínir í ráðuneytinu voru fyrst í stað ekki mjög spenntir fyrir því að "bæta fleira fólki á listann" eins og þeir orðuðu það. En eftir smá spjall urðum við sammála um að samráðs- og vinnufundir þar sem umfjöllunarefnið er aukið aðgengi að menntun fyrir ÖLL börn ættu að gera ráð fyrir börnum og forráðamönnum þeirra. Sérstaklega þeirra sem búa við fatlanir eða skerðingar. Börn í þeirri stöðu hér í Malaví hafa afar takmarkaða möguleika á menntun sökum aðgengis, úrræðaleysis, þekkingarleysis eða fordóma. Þess vegna skiptir gífurlegu máli að hlusta á - og taka mið af - skoðunum þeirra og reynslu.  

Eða eins og slagorðið segir: "Nothing about us without us". Tékkið endilega á þessu myndbandi þar sem réttindi barna með fatlanir eru í brennidepli  hjá UNICEF nú sem aldrei fyrr. Fyrir þá sem vilja fræðast enn betur þá er þessi kynning líka stórgóð. Hvet alla kennara til þess að kíkja á myndböndin líka þar sem þau nýtast vel í kennslu í margs konar samhengi (félagsfræði, samfélagsfræði, þróunarfræði, lífsleikni, enska...)