Monday, December 07, 2015

Afleiðingar veðurs

Akkúrat núna eru flestir heima á Íslandi búnir að gera einhverjar ráðstafanir vegna væntanlegs veðurofsa sem gengur yfir landið í kvöld. Sumir keyptu kannski einum poka of mikið í bónus - bara til vonar og vara - aðrir kveiktu óvart á öllum aðventukertunum í spenningskasti og einhverjir keppast við að baka til þess að róa taugarnar og "hafa kósý". 

Á meðan á þessu stendur lekur af okkur svitinn hér í hjarta Afríku þar sem sumarhitinn er í hámarki og rigningartímabilið ennþá svo að segja í startholunum. Í morgun skutlaði ég Heru Fönn fyrir allar aldir í leikskólann og fékk að launum eitt af betri bílastæðunum á planinu. Undir skyggni og stóru tréi, rétt hjá aðalhurðinni. Gæti ekki verið betra. Þegar ég kom út í bíl í hádeginu var ég því engan vegin viðbúin því að setjast inn í þann 45 gráðu suðupott sem myndast hafði í bílnum um morguninn. Þegar ég settist inn og lokaði hurðinni snarlega á eftir mér sortnaði mér fyrir augum og náði ekki andanum. Ég opnaði því hurðina aftur og hleypti "fersku og kaldara" (37 gráðu) lofti inn í bílinn til þess að ná áttum. 

Á leiðinni heim veðjaði ég við Heru Fönn um að það myndi rigna afar fljótlega. Ég svindlaði kannski smávegis því það var orðið svo rakt að rigningin var gjörsamlega áþreifanleg þrátt fyrir að það væri varla ský á himni. Það breyttist fljótt því fljótlega upp úr hádegi fóru að myndast feit og pattarleg ský á himninum sem gáfu góð fyrirheit um gusugang. Þegar ég renndi síðan í hlaðið heima hjá mér um kaffileytið var orðið ansi þungbúið. Nú voru hins vegar allir úti við því við skýin gáfu nú í fyrsta skiptið í langan tíma grið fyrir sólinni og því tækifæri til að leika sér úti. Hera og Chifundo voru í frisbee og Alexander fékk að horfa á þær stöllur úr hæfilegri fjarlægð vafinn inn í chitenga á baki barnfóstrunnar.

Nokkrum mínútum eftir að ég kom upphófst drynjandi þrumugangur, himininn logaði af eldingum og síðan kom HELLIDEMBA. Ekta útlandarigning - jaðraði við að vera hagl slík voru lætin. Allt saman þó beint niður og enginn veðurofsi þannig séð. Hvílíkur léttir! Hugtakið "gott fyrir gróðurinn" fær aðra og margfalda merkingu í landi þar sem hefur ekki rignt í um það bil 8 mánuði. Það er bókstaflega hægt að sjá með berum augum þegar plöntur og gras teygja sig eftir dropunum, vaxa og spretta. 

Einn af fylgifiskum regntímabilsins hér í Malaví er fjölgun á ýmsum skordýrum, þar á meðal eru fljúgandi maurar. Já einmitt, fljúgandi maurar. Í kvöld gerðist það að eftir rigninguna heltók okkur eitthvað kæruleysi, íslenskt veðurblæti og hugsunarleysi þegar við lokuðum ekki hurðunum eftir skúrinn heldur opnuðum hreinlega upp á gátt til að leyfa ferska loftinu að komast inn. Þetta þýddi að sjálfsögðu að það komst fleira inn en ferska loftið. Á nokkrum sekúndum fylltist eldhúsið af fljúgandi maurum sem leituðu í ljósið. Ég sýndi töluverða stillingu og hugrekki og óð í gegnum skýið til þess að loka útidyrahurðinni. Síðan lokaði þá af inni í eldhúsi og leitaði skjóls í stofunni. Lárus fór síðan og gerði út um þá með þar til gerðu spreyi. Samvinna! Annars eru þetta hin meinlausustu grey sem eiga sér afar stutta og dramantíska ævi. Við rigningar sem þessar fljúga þessir tilteknu maurar í massavís upp úr grasinu og leita beint í fyrstu ljóstýruna sem þeir sjá... flugið sem varir einungis í nokkrar mínútur endar með því að þeir missa vængina, falla til jarðar og drepast nokkrum mínútum eftir að þeir fengu frelsið og flugkraftinn! 

Flippaða hliðin á þessu öllu er síðan að nú lýsa verðirnir mínir um allan garð með vasaljósi í leit að þessum maurum því hér í landi þykja þeir hið mesta sælgæti steiktir á pönnu með dassi af salti. 


  

Wednesday, December 02, 2015

Þessi fallegi dagur...

Nánast án undantekningar og óháð vikudegi vaknar fjölskyldan um fimm leytið. Enda ekki eftir neinu að bíða. Sólin er farin að skína, haninn í næsta garði farinn að gala og litla mannlega vekjaraklukkan okkar hann Alexander Hafsteinn er glaðvaknaður og farin að hjala eftir mjólk að súpa. 

Okkur mæðgum til mikillar lukku, og fyrir þá sem ekki vita, er Lárus einstaklega mikill morgunrútínukall. Rútínan hans er okkar lukka því hún felst í því að við fáum morgunmat á hverjum morgni sem myndi á flestum heimilum flokkast sem algjör spari-morgunmatur. Normið er yfirleitt eggjahræra eða eggjakaka stútfull af grænmeti og vítamínum. Þessu fylgir jafnan ristað brauð ásamt jógúrt með ferskum jarðarberjum og heimagerðu múslí. Heimasætan vill yfirleitt smá kornflex líka og fær það. 

Eftir svona start á deginum getur lífið ekki annað en brosað við manni. Oftast er það líka raunin. Eftir að hafa kysst og knúsað kallana okkar keyrum við Hera Fönn á leikskólann hennar með útvarpið í botni. Í dag hlustuðum við á Ásgeir Trausta og sungum með. Sökum þess hversu snemma ég þarf að vera mætt á skrifstofuna er Hera oftast fyrst eða með fyrstu börnunum a leikskólann. Hún fer stundum með kál og gulrætur með sér til að gefa kanínunum sem skólinn heldur og fer nánast án undantekningar beint að róla enda ALLTAF veður til að leika úti. Leiðin á leikskólann er ekki löng en engu að síður er ótrúlega margt að sjá. Í fyrradag urðu til að mynda 10 afar skrautlegir (og vígalegir) hanar á vegi okkar og í gær hljóp apaköttur fyrir bílinn rétt áður en ég beygði inn á Unicef bílastæðið. Það er líka ótrúlega margt fólk á götunum. Hjólandi og gangandi. Fjögurra manna fjölskylda a einu hjóli. Konur í hefðbundnum klæðum að koma úr nærliggjandi þorpum með mörg kíló af tómötum á höfðinu og óteljandi börn í bláum skólabúningum á leið í skóla. Eftir rúm tvö ár hér í Malaví er ég ennþá jafn undrandi á öllu því sem fyrir augu ber, sérstaklega á morgnana þegar göturnar iða af lífi. Einstaka sinnum keyri ég líka fram hjá góðum vini okkar honum Gumma sem vinnur hjá Þróunarsamvinnustofnun og fer hjólandi í vinnuna. Ég þekki hann á hjálminum! 

Ég mæti í vinnuna um sjö leytið. Heilsa vörðunum sem vakta bílastæðið á chichewa "muli banji" og reyni síðan að ná stæði undir skyggni svo það verði líft í bílnum um hádegisleytið. Í vinnunni er enginn dagur eins en yfirleitt eyði ég fyrsta hálftímanum í að fara yfir tölvupóstinn og forgangsraða verkefnum. Akkúrat þessa dagana er mikið um skýrsluskrif og ársuppgjör bæði við þá sem hafa styrkt menntadeildina um fjármagn en líka innan Unicef. Síðan er ég þessar vikurnar að vinna að tveimur stórum verkefnum með menntamálaráðuneytinu hér í landi. Hið fyrra snýr að því að reyna að tryggja nokkrum forgangsatriðum úr menntaáætlun landsins brautargengi. Staðan er nefnilega sú að ráðuneytið getur ekki tekið við beinum styrkjum í gegnum þróunaraðstoð vegna fjármálaskandals sem kom upp hér í Malaví árið 2013. Þetta ástand hefur óneitanlega leitt til heilmikillar seinkunar á mikilvægum verkefnum. Norska sendiráðið hér í landi er með frábæran menntasérfræðing á sínum vegum sem hefur undanfarnar vikur unnið með mér í því að útbúa verkefni sem miðar eingöngu að því að styðja við þau verkefni sem eru efst á baugi samkvæmt menntaáætlun landsins til þess að reyna að sporna gegn þessari miklu seinkun á mikilvægum verkefnum. Norska sendiráðið leggur því til umtalsverða peninga til ráðuneytisins en beinir þeim í gegnum UNICEF til að tryggja gegnsæi og að allir sjóðir séu notaðir á réttmætan hátt. Ég hef skrifað um það áður hversu mikilvægt það er að mínu mati að styðja við þá ferla, ramma og áætlanir sem eru til staðar í landinu og það er markmiðið okkar í þessu verkefni númer eitt, tvö og þrjú. Við erum ekki að búa til okkar eigin verkefni heldur eingöngu að styðja við það sem stendur í áætluninni þeirra. Seinna verkefnið sem tekur mikinn tíma þessa dagana er afar spennandi verkefni sem snýst um að koma á gagnaöflun í rauntíma eða það sem kallast á ensku "real time monitoring". Í samvinnu við menntamálaráðuneytið erum við að koma á fót kerfi þar sem skólastjórar og kennarar geta sent upplýsingar í gegnum SMS um skólann sinn á viku til mánaðarfresti. Til dæmis hversu margir nemendur og kennarar eru mættir, upplýsingar um brottfall og hvort að matargjöf hafi átt sér stað eða ekki. Í aðstæðum þar sem sárafáir skólar búa við rafmagn og enginn í skólunum hefur aðgengi að tölvu er gagnaöflun af þessu tagi ómetanleg. Það er nefnilega svo ótrúlegt að hér eiga allir gsm síma (nema ég akkúrat þessa stundina). Það er hægt að fá mjög fína síma á ótrúlega lágu verði og einhvern veginn virðist sem að nákvæmlega þetta tæki sé það sem Malavar forgangsraða. Enda afar mikilvægt samskiptatæki. Gögnin sem kennararnir senda berast í rauntíma til ráðuneytisins sem og okkar í Unicef þar sem við getum greint þau og brugðist við á skömmum tíma til þess að bæta eða breyta eftir því sem þarf. 

En aftur að daglega lífinu... á skrifstofunni er ég með forláta viftu á skrifborðinu mínu sem ég útvegaði mér sjálf eftir að hafa lært af biturri reynslu að loftkælingin virkar sjaldnar en einu sinni í viku. Ég þarf að passa vel upp á hana því fólk girnist hana að sjálfsögðu í mestu hitabrælunni. Ég sit við glugga en hef mjög takmarkað útsýni. Beint út á bílastæðið! En ég sé reyndar líka UNICEF fánann sem blaktir beint fyrir utan gluggann minn og síðan heimsækir mig lítill skærgulur og blár fugl á hverjum degi. Hann situr á gluggasyllunni og goggar án afláts í rúðuna. Hann speglast nefnilega í rúðunni og heldur því að þar sé annar fugl alveg eins og hann. Ég hef reynt að gefa honum að borða en hann flýgur jafn harðan í burtu ef ég opna gluggann.

Ég er ennþá með Alexander á brjósti og fæ því að fara ca hálftíma fyrr úr vinnunni í hádegismat. Ég nýti tímann líka til að sækja Heru Fönn í leikskólann. Hún er yfirleitt inni þegar ég kem enda heitasti tími dagsins og varla verandi úti á þessum árstíma. Við kaupum oft banana og avakadó af sölumönnum við veginn á leiðinni heim. Þeir þekkja okkur vel en það er sama hversu oft ég versla af þeim þeir reyna alltaf að selja mér ávextina á hærri verði í dag en í gær. Undanfarið hefur reyndar verið mjög góður jarðarberja sölumaður fyrir utan leikskólann sem kemur með jarðarber inn í borgina sem vaxa sunnar í Malaví. Yndislega góð, safarík og á frábærum díl! Þessi tími í bílnum með Heru Fönn bæði til og frá leikskóla er okkur mæðgum mjög mikilvægur því þá náum við að spjalla heilmikið saman um margt sem skiptir máli. Það er líka búið að vera ómetanlegt að komast heim í hádeginu til að eiga smá fjölskyldutíma þar sem við erum öll saman í rólegheitum. Ég skutlast síðan aftur í vinnuna og skil öll krúttin eftir heima. Stundum skutlar Lárus mér og stússast eitthvað niðrí bæ (gerir allt sem þarf að gera semsagt). Hera Fönn leikur sér oftast við Chifundo vinkonu sína seinnipartinn sem á heima hér á lóðinni okkar og er dóttir hennar Gloríu sem hjálpar okkur með húsið og börnin. Hera og Chifundo bralla ótrúlegustu hluti saman, allt frá því að lita og púsla til þess að syngja þjóðsöng Malaví hástöfum. Þær eru alveg eins og systur (knúsast og slást) og eru báðar mjög heppnar að eiga hvor aðra. Lárus nýtir daginn sinn mjög vel í að vinna og læra, enda bæði að  sinna stórum kúnnahóp í fjarþjálfun og að klára diplómu í næringarþjálfun (fyrir utan að hugsa um konuna sína og börn). 

Kvöldverkin okkar eru mjög hefðbundin. Yfirleitt fær Hera að svamla í köldu baði á meðan Alexander tekur sér stuttan seinnipartslúr og við Lárus æfum á svefnherbergisgólfinu. Við eigum tvær jógadýnur og fjárfestum nýlega í einu lóði, bolta og teygju. Annars höfum við notast við það sem hendi er næst og gert allar æfingarnar í prógramminu hérna heima. Myrkrið kemur klukkan sex, á slaginu, og þá erum við yfirleitt öll orðin frekar lúin. Matartíminn okkar er nánast alltaf í fyrra fallinu og við erum oftast búin að gera vikumatseðil sem hjálpar ótrúlega mikið þegar kvöldin eru stutt og tíminn knappur. Börnin sofna yfirleitt um sjö leytið eftir sögu og söng og við Lárus stuttu seinna.... 

Sunday, November 08, 2015

Pabbi þarf að klifra

Þessa helgina söknum við Lárusar sem er önnum kafinn við að klífa hæsta fjall Malaví ásamt fríðu föruneyti. Það hefur ýmislegt gengið á í fjarveru húsbóndans sem er jú vanur að sjá um flesta praktíska hluti á þessu heimili. Ber þar helst að nefna: 

  • Þjófavörnin sett í gang af hreinum klunnaskap klukkan 8 um morgun sem hafði þær afleiðingar í för með sér að sex manna vopnuð sveit birtist á dyratröppunum hjá mér... (gott að vita að kerfið virkar). 
  • Börnin voru neydd á veitingastað í 37 stiga hita... þegar dýrkeyptum hádegisverðinum hafði verið sporðrennt í hraði (því við vorum svo sein á staðinn að hann var að fara að loka) þá uppgötvaðist að engir peningar voru tiltækir. Sem betur fer erum við fastakúnnar og gátum samið um greiðslufrest! 
  • Tvær skálar brotnuðu í þúsund mola við tilraunir til baksturs.
  • Tilraunirnar heppnuðust misvel...
  • Alexander fékk kúlu þegar hann rúllaði sér á sófann (og svo festist hann undir sófanum).

Þetta er nú bara svona brot af því besta. Við erum hins vegar alveg slök núna á sunnudegi, hlökkum til að fá pabba heim og heyra ferðasöguna. Við ætlum bara að halda okkur inni við, hlusta á Kardimommubæinn og borða það sem til er í ísskápnum! 

Ljúfar stundir. 

Sunday, October 25, 2015

Forsetalínan

Litla fjölskyldan í Malaví hefur nú flutt búferlum innan borgarinnar. Við fluttum um hverfi og erum nú búsett í hverfi 12 í húsi númer 571. Við erum afskaplega sæl og sátt með flutningana sem voru frekar skrautlegir og án nokkurs vafa þeir allra óskipulögðustu. En allt hafðist þetta og viku seinna má segja að nánast allt sé komið á sinn stað... það þykir heldur betur gott hér í Malaví og meira að segja líka ef miðað er við íslenskan tíma :) 

Eitt af því sem stórbatnaði við flutningana er aðgengi okkar að rafmagni. Staðan er nefnilega þannig hér í landi að rafmagnsveitan skammtar íbúum borgarinnar rafmagn. Iðulega birtast auglýsingar í blöðunum þar sem tekið er fram hvenær tiltekin hverfi í borginni eiga að búast við rafmagnsleysi. Smá saman hefur okkur lærst að treysta sem minnst á þessar tilkynningar og búast frekar við því að rafmagnið sé yfir höfuð ekki á nema rétt fram að hádegi (þegar maður þarf minnst á því að halda). 

Byggt á þessari reynslu okkar úr hverfi 43 lögðum við sérstaka áherslu á að koma rafalnum okkar (auka rafstöð sem keyrir ljósin og ísskápinn í rafmagnsleysi) í stand í nýja húsinu. Við eyddum bæði tíma og peningum í að láta tengja hann sérstaklega þannig að við gætum startað honum innan úr húsi því ég er lítið fyrir það að fara út í kolniða myrkri til þess að snúa tryllitækinu í gang. 

Nema hvað, ég þori varla að skrifa þetta... viku seinna hefur ekki verið rafmagnslaust í eina mínútu (sjö, níu, þrettán og ég lamdi í borðið). Ástæðan ku vera sú að húsið okkar liggur á svo kallaðri forsetalínu sem þýðir að ef rafmagnið er tekið af okkar línu þá fer það af í forsetahöllinni líka. Það er því nánast óskrifuð regla að ef forsetinn er staddur í Malaví og á heimili sínu þá helst rafmagnið á þessari línu.

Þvílíkur lúxus að geta hitað kaffi, kveikt á viftunni, lýst upp kvöldin, hlustað á útvarpið og hlaðið símann án nokkurs vafsturs eða vesens. 

Nú vonum við bara að herra forseti fari ekki í löng ferðalög á næstunni...  

Saturday, October 17, 2015

Að eignast milljón og eitt barn...

Hugarheimur fjögurra ára stúlkna er jafnan afar frjór og skemmtilegur. Hera Fönn heldur okkur foreldrunum við efnið með því að spyrja krefjandi spurninga og ígrunda hin ólíkustu málefni. Þessa dagana er hún staðráðin í að eignast mörg börn. Helst milljón. Eða milljón og eitt, eftir að hún uppgötvaði að milljón er ekki stærsta tala í heimi. Við ræddum þessar fyrirhuguðu barneignir um daginn út frá hinum ýmsu hliðum. Ég spurði hana meðal annars hvernig hún ætlaði að hafa tíma fyrir öll börnin. Því svaraði hún til að hún yrði með fullt af fólki til að aðstoða sig. Hún gæti til dæmis sent börnin reglulega í pössun og þá helst yfir matartímann því þá yrði örugglega mjög flókið að vera með mörg börn í einu. Sjálf hafði hún örlitlar áhyggjur af baðferðum barnanna en sagðist bara ætla að eiga sundlaug og þá væri ekkert mál að setja þau öll í bað í einu. Þegar ég síðan spurði hvort hún héldi ekki að hún yrði þreytt á að vera stanlaust ófrísk því það væri nú ekkert grín - þá sagði hún kæruleysislega: iss mamma ég get bara ætleitt slatta af þessum börnum.  

Saturday, October 10, 2015

Þar sem þetta blogg hefur aldrei haft neinn sérstakan ristjóra, stíl eða tilgang annan en að færa fréttir af fjölskyldu sem flytur yfir meðallagi oft búferlum - hefur það fengið að fjalla um daglegt líf og vinnu í bland. Ég réttlæti vinnutengdar bloggfærslur byggt á töluverðri sannfæringu um að einhverjir lesendur hafi jafn mikinn áhuga og ég á menntamálum og lesi því ekki síður ítarlega, of langa og tæknilega pistla um þróunaraðstoð og skólamál.

Síðan ég hóf störf hjá UNICEF í september 2013 hefur menntamálaráðuneytið unnið að umsókn um styrk frá Global Partnership of Education (hef skrifað um þetta batterí áður en á www.globalpartnership.org er hægt að læra meira). Umsóknarferlið er langt og strangt og að því koma flest allir sem vinna að þróunaraðstoð og menntamálum í landinu. Ég hef, ásamt yfirmanni mínum, haft hlutverk ráðgefanda aðili í gegnum umsóknarferlið og lært ótrúlega margt á þessum tíma. Nú er semsagt kominn heilmikill gangur í umsóknarferlið og styttist óðum í að aðalumsóknin, sem hljóðar upp á styrk að andvirði 44,5 milljónir bandaríkjadollara, verði lögð fyrir stjórn GPE (við stefnum á desember). Áður en hægt er að leggja inn umsókn af þessu tagi er ótrúlega margt sem þarf að vera til staðar í menntakerfinu.

Eitt af því sem er algjört frumskilyrði fyrir styrkveitingu frá GPE er tilvist menntaáætlunar til fimm ára. Okkur gæti þótt afar hversdagslegt og sjálfsagt að menntamálaráðuneyti búi yfir slíkri áætlun. En fyrir land eins og Malaví tók það bæði langan tíma og mikið erfiði að koma slíkri áætlun saman. Mikið af vinnunni minni árið 2013 og byrjun 2014 snérist einmitt um að útbúa, skrifa upp, leggja mat á og samþykkja slíka áætlun. Í dag er ég ótrúlega ánægð með að hafa fengið að vinna þessa vinnu, þrátt fyrir að oft á tíðum hafi mér fundist hún ganga fullhægt og erfiðlega fyrir sig.

Fyrir utan þá staðreynd að Malaví hefði ekki getað sótt um GPE styrkinn ef ekki hefði verið fyrir tilurð þessarar tilteknu stefnu og áætlun, hef ég líka orðið vitni að því hversu mikilvæg stefnumótunin var og er í tengslum við vinnulag og val á menntaverkefnum flestra stærri þróunaraðilanna hér í Malaví.

Þeir sem ekki hafa brennandi áhuga á stefnumótun gætu fussað og hugsað með sér hvernig á eitthvað plagg (sem örugglega enginn les) að breyta einhverju um raunveruleika barna í Malaví. Þurfum við ekki miklu frekar að fjölga skólastofum, mennta kennara og bjóða upp á skólamáltíðir. Jú við þurfum þess að sjálfsögðu... Reyndar þarf líka að mennta skólastjóra betur, bjóða upp á almenna símenntun, fá foreldra til þess að meta menntun umfram hjónabönd, tryggja öryggi allra barna í skólunum, útrýma líkamlegum refsingum, tryggja bækur í skólum, tryggja aðgengi að hreinu vatni, fækka nemendafjölda í hverjum bekk úr 150 í 30, sjá til þess að börnin læri raunverulega að lesa og svo framvegis og framvegis.

Það er nákvæmlega þetta sem er mergur málsins. Í landi eins og Malaví þar sem staðan í menntamálum er slík að það er ekki neitt eitt sem kemur til með að gera kraftaverk fyrir börn og möguleika þeirra á menntun þá skiptir í raun mestu máli að hafa stefnu um hvað skal gera. Skýr, einföld og raunhæf menntaáætlun sem gerir vel grein fyrir stöðu mála og forgangsraðar verkefnum í samræmi við ástandið er eitt það allra mikilvægasta fyrir menntamál í landi eins og Malaví.

Ráðuneytið hér í landi þarf nefnilega að sætta sig við það að eiga sama sem enga peninga. Það reiðir sig nánast að fullu á styrki frá hinum ýmsum velgjörðarsamtökum, stofnunum og þróunaraðilum. Þessir fjölmörgu aðilar og stofnanir (sama hvort þeir heita alþjóðabankinn, íslenska ríkið, USAID eða UNICEF) hafa oftast ákveðnar hugmyndir um hvað eigi að gera við peningana þeirra. Langoftast koma stofnanir með afar mótaðar hugmyndir eða jafnvel fyrirfram ákveðin verkefni að borðinu og bjóða þannig fram aðstoð undir mjög skýrum og oft á tíðum ósveigjanlegum formerkjum. Oftar en ekki vilja þróunaraðilar sanna ákveðna kenningu eða rannsóknarspurningu og vilja því gera eitthvað mjög afmarkað á litlu svæði, bjóða ákveðna aðstoð fram í tilteknum skólum eða setja af stað verkefni sem sinnir einhverju sem er efst á baugi og áhugavert að þeirra mati (gefa snjallsíma til dæmis).

Þetta er að mörgu leiti skiljanlegt þar sem þróunaraðilar hafa jú ákveðnum skyldum að gegna gagnvart þeim sem veita peningana en þetta setur sárafátæk og oft á tíðum ekki mjög öflug ráðuneyti í töluverða klemmu. Það vita það flestir að of mörg markmið, mikill fjöldi verkefna og sundurleitar nálganir eru ekki vænleg leið til árangurs. Þetta er alltaf að koma betur og betur í ljós í öllu þróunarstarfi og get ég bent á splunkunýja skýrslu NORAD á starfi alþjóðabankans og UNICEF í Malaví á árunum 2008 - 2011 sem dæmi.

Það er nefnilega gífurleg pressa á ráðuneytum í þróunarlöndum eins og Malaví að samhæfa og samræma þá aðstoð sem þeim býðst. Því miður hafa mörg ráðuneyti, menntamálaráðuneytið hér í landi þar á meðal, oftar en ekki afar litla burði til þess að gera það vel. Fyrir utan hefðbundin innanbúðar átök og pólitík þá vantar of sárlega skýra stefnu til þess að fara eftir og ráðuneytin eru oft á tíðum hrædd við að sveigja frá vilja þeirra sem bjóða fram aðstoð af ótta við að missa af peningunum. Forgangsröðunin verður lítil sem engin og ráðuneytin eiga erfitt með að ákveða hvert skal haldið.

Ef maður veit ekki hvert maður ætlar, þá er engin leið að komast þangað.

Þetta hefur því miður verið raunin hér í landi þar sem menntamálaráðuneytið hefur, að mínu mati, ekki veitt nægilega skýra stefnu eða stjórn þegar kemur að vali á verkefnum sem hinir ýmsu þróunaraðilar stinga upp á og framkvæma. Niðurstaðan er sundurslitið og ósamræmt menntakerfi þar sem úir og grúir af litlum verkefnum sem hafa litla eða enga tengingu við hvort annað eða þann veg sem menntakerfið er að reyna að feta.

Nú þegar ég sit fundi með ráðuneytinu og nokkrum af stærstu þróunaraðilum í menntamálum í landinu fyllist ég ákveðinni von. Stefnuáætlunin sem við unnum hörðum höndum að (oft var ráðuneytið við það að gefast upp og hætta við) á tímabilinu 2013 til 2014 er í raun og veru að breyta heilmiklu um það hvernig helstu þróunaraðilar í menntamálum í landinu vinna saman og að hverju er nú stefnt í tengslum við framvindu menntakerfisins. Menntaáætlunin sem nú er til staðar hefur (þrátt fyrir ýmsa vankanta) lagt grunn að afar ríflegum styrk GPE og öllu því prógrammi. Það verkefni tekur sem dæmi algjörlega mið af þeim forgangsatriðum sem ráðuneytið útlistaði í stefnu sinni til næstu fimm ára. Þegar jafn háum styrk og GPE styrkunum (fimm og hálfur milljarður íslenskra króna) er varið í afar skýr forgangsatriði í menntamálum er von til þess að áþreifanlegur árangur náist. Ekki bara það, heldur er líka óhjákvæmilegt fyrir alla þá þróunaraðila sem vilja að peningum sínum sé vel varið - það er að segja varið í heildarmyndina en ekki sértæk og óaðskilin verkefni, að samræma sín verkefni og styrki einnig að þeim forgangsatriðum sem menntastefna landsins bendir á. Ég er algjörlega á þeirri skoðun að sé ekki unnið fyrst og fremst eftir stefnu stjórnvalda í hverjum málaflokki fyrir sig (og þá er ég ekki að tala bara um gróflega heldur eins nákvæmlega og unnt er) með tengingu verkefna og ráðuneytið í ökusætinu er enginn möguleiki á sjálfbærri þróun mála.

Eitt af því fjölmörgu sem ég er búin að læra á sl. tveimur árum í vinnu minni sem menntasérfræðingur hér í Malaví er að samvinna og samhæfing aðgerða er eitt það allra mikilvægasta til þess að eiga möguleika á árangri sem endist. Þess vegna getur oft verið þörf á að eyða miklum tíma í að leggja góðan grunn. Grunn að forgangsröðun og grunn að því að hægt sé að samhæfa og samræma verkefni til þess að ráðuneytin geti orðið sjálfbær með þau á endanum.

Fyrir þá sem hafa ekki fengið nægju sína af þróunarhjali er hægt að kíkja á nýju Sustainable Development markmiðin sem leggja einmitt gífurlega áherslu á sjálfbærni, samvinnu og samhæfingu þegar kemur að þróunaraðstoð og samvinnu.






Saturday, October 03, 2015

Margt í mörgu

Jæja krakkar þá erum við mætt aftur til Malaví. Það stóð nú reyndar ansi tæpt vegna ýmissa örðugleika í tengslum við flugmálaskilmála, vegabréfaáritanir (eða vöntun þar á) og ósveigjanlegan yfirmann á Kaupmannahafnarflugvelli. Eftir ævintýralega björgun frá góðu fólki, sem reyndar er orðið ansi sjóað í að bjarga þessari litlu fjölskyldu úr klemmu, var okkur naumlega hleypt með í fyrsta flugið af fimm. Vegna seinkunnar settum við tímamet í flugvallarhlaupi þegar við lentum í Katar... Sjáið fyrir ykkur fjögurra manna fjölskyldu sem hleypur sveitt á eftir veifandi flugvallarstarfsmanni. Verst að geta ekki rölt í rólegheitum um gylltan og glitrandi Katarflugvöll en upp í vél komumst við (aftur síðust) og seinni hluti ferðarinnar hófst.

Í Malaví tók heit Afríkusólin á móti okkur og við flugum í gegnum landamæraeftirlitið þrátt fyrir vöntun á ýmsum stimplum og leyfum - enda við nú loksins á heimavelli og þá er mun auðveldara að tala sig út úr klemmu ;) Allar töskur skiluðu sér á áfangastað en því miður láðist okkur að tryggja að kerran hans Alexanders fengi nægilega góðar merkingar og því vantaði kerrustykkið í pokann sem kerrunni var pakkað í (búið að rífa gat á pokann og fjarlægja kerrustykkið frá hjólunum). Við lærum svo lengi sem við lifum og næst læt ég merkja allt sérstaklega sem er möguleiki á að taka í sundur. 

Þetta blessaða ólán elti okkur síðan alla leið heim í húsið okkar þar sem við fengum afar óvelkomna gesti í heimsókn aðra nóttina okkar heima. Þjófar brutu sér leið inn til okkar og náðu í eitt og annað úr stofu og eldhúsi. Okkur var að vonum brugðið og tókum nokkra daga í að jafna okkur á ónotatilfinninguni sem fylgir því að vita af einhverjum inni í húsinu sínu um miðja nótt. Til þess að róa alla vorum við alltaf örugg í svo kölluðu ´safe haven´í húsinu sem er aðskilið frá stofu og eldhúsi með stálhurð. Við fengum síðan mjög mikla og góða aðstoð og umhyggju frá vinum og samstarfsmönnum. Hjá UNICEF fór heilmikið batterí í gang og sama dag fékk ég símtal frá sálfræðingi og við höfðum öll aðgengi að aðstoð og áfallahjálp. Mestu máli skiptir að þjófarnir reyndu ekki að komast inn til okkar í svefnálmuna og við erum öll heil og í góðu jafnvægi. Síðan má gera örlítið grín að þessu þegar frá líður og undra sig á því hversu erlendan smekk þjófarnir virtust hafa í ljósi þess að þeir stálu bara innflutta víninu okkar og skildu malavíska ginið eftir. Ég sá þá fyrir mér drekka dýra rauðvínið mitt með bönununum sem þeir stálu líka! 

Þetta atvik hins vegar ásamt heilmiklu viðhaldi á húsinu síðastliðið ár og síhækkandi leigu varð til þess að við fórum að leita okkur að nýju húsi til að leigja hér í borginni. Við erum nú búin að finna hús sem okkur líst mjög vel á. Húsið er í hverfi hér rétt hjá og stendur beint á móti brasilíska sendiráðinu. Eigendurnir eru að taka það í gegn - meðal annars að setja upp nýja eldhúsinnréttingu en slíkt er algjör munaður hér í borg. Við stefnum á flutninga um miðjan mánuð og vonumst eftir ferskri og hressandi byrjun á nýjum stað. 

Annars hafa þessar fyrstu tvær vikur gengið óskaplega vel og við fundum strax hversu notalegt það er að vera komin aftur (þrátt fyrir miður skemmtilegar móttökur). Vð uppgötvuðum nefnilega í þessum hremmingum hversu rík við erum af frábæru og yndislega hlýju fólki hér í borginni. Við fengum strax hringingar, heimsóknir og pósta frá öllu þessu góða fólki. Nágrannar, vinnufélagar og hreinlega ókunnugt fólk úti á götu sem frétti af innbrotinu og vildi bara láta okkur vita að við værum ekki ein ef okkur vantaði eitthvað. Í Lilongwe er samfélagið nefnilega oft vandræðalega lítið en á sama tíma mjög náið og vinalegt - sérstaklega þegar á reynir. 

Vinnan fer vel af stað. Mannhæðarháir bunkar biðu mín að sjálfsögðu en ég er með góðan yfirmann og fæ þess vegna mikinn sveigjanleika og skilning. Við Alexander og pabbi hans erum búin að koma okkur upp ansi fínni rútínu þar sem ég gef brjóst á morgnanna, í hádeginu og síðan aftur um klukkan þrjú en þá er ég alkomin heim úr vinnu. Svona getum við haft þetta í amk mánuð í viðbót. Þeir feðgar eru að brillera saman og Alex er farinn að borða banana, avakadó og graut inn á milli gjafa. Hera Fönn var spennt, pínulítið kvíðin en óskaplega dugleg að byrja aftur í leikskólanum. Þar á bæ var mikil gleði að fá hana aftur og hún var knúsuð í kaf fyrsta daginn sinn. Enskan hennar hefur komið mun hraðar en við bjuggumst við og hún er orðin altalandi aftur - dugleg að spyrja ef hún skilur ekki og æfir sig á hverjum degi í forritinu sínu ´learning and playing with sounds´. Props til Védísar og mömmu hennar fyrir frábært forrit. 

Já kæru vinir það er margt í mörgu og við erum búin að vera í dágóðum rússíbana síðan við lentum. En þannig er lífið - upp og niður - aftur á bak og áfram. Við erum glöð og góð, æfum saman daglega (allir í familíunni hafa sitt hlutverk), borðum góðan mat, hittum gott fólk, innbyrðum ofgnótt af d-vítamíni, elskum hvort annað og gerum okkar besta til þess að njóta hverrar stundar. 

Pís át! 

Wednesday, September 02, 2015

Að deila hjarta og lækna heila

Mig langar að deila smá samtali sem átti sér stað fyrir nokkrum dögum á milli mín og Heru Fannar um líffæragjöf og möguleika á lækningu.

Ástæðan fyrir því að mig langar til að deila þessu samtali er einfaldlega sú að ég trúi því svo einlæglega að það sé bæði hægt og hollt að ræða nánast allt við börn sé tekið mið af aldri þeirra og þroska. Síðan eiga börn það líka til að koma okkur fullorðna fólkinu á óvart með óvæntum skilningi sem oftast byggir á  mjög skýru fordómaleysi og sannri hluttekningu. Allt þetta kristallaðist í þessu stutta samtali okkar Heru... sem mig grunar reyndar að sé bara rétt að byrja.

Samtalið átti sér stað á pallinum í Brúarhvammi hjá foreldrum mínum þar sem við mæðgur sátum í sólinni ásamt Valdísi ömmu (mömmu minni) og Heru Sif systur minni. Hera Sif er eins og margir vita lömuð og situr í hjólastól. Hún getur ekki tjáð sig - hvorki með máli eða hreyfingum. Hún hefur verið í þessu ástandi í rúm 20 ár eða allt frá árinu 1994. Það ár tók hún afdrifaríka ákvörðun um að reyna að svipta sig lífi sem endaði með þessum einstaklega sorglegu afleiðingum. Nafna hennar hún Hera Fönn er mjög þenkjandi lítil stúlka og hefur alla tíð spurt mikið um ástand og líðan Heru Sifjar frænku sinnar. Við höfum alltaf svarað öllum spurningum hennar á eins hreinskilinn hátt og kostur er og aldrei leynt hana staðreyndum málsins. Að sjálfsögðu með það í huga að hún hafi þroska og getu til að skilja ákveðin hugtök og hugarástand fólks. En í stuttu máli þá gerir Hera Fönn sér fulla grein fyrir því hvað leiddi til þess ástands sem Hera Sif er nú í, að það séu skemmdir á heila sem valdi ástandinu og að einu sinni hafi Hera Sif verið heilbrigð og með fulla líkamlega getu.

Á undanförnum dögum hefur Heru Fönn verið tíðrætt um ástand Heru Sifjar og möguleikann á lækningu. Það kallar óhjákvæmilega fram tár í augum þegar hún horfir lengi og hugsandi á frænku sína og spyr mig svo hvort henni leiðist ekki að geta ekki talað við okkur. Eða þegar hún strýkur henni um vangann og segir við hana "ég veit að þú ert að reyna að segja mér eitthvað". Að sama skapi veitir það mér ótrúlega gleði að sjá hana brölta upp í fangið til hennar óumbeðin og segja "mamma ég held bara að hana langi í knús".

En að samtalinu sem kemur hér eins orðrétt og ég man það:

Hera Fönn: Mamma ég var að hugsa, getur læknir eða sjúkrahús læknað Heru Sif?
Ég: Nei veistu það er ekki alveg svo einfalt. Það er nefnilega soldið flókið að laga það sem er að Heru Sif.
Hera Fönn: En kannski er það hægt ef maður bara sker einhverstaðar í heilann og lagar þannig.
Ég: Já ég skil þig en það er ekki svo einfalt að skera í heilann. Læknarnir eru ekki alveg nógu klárir ennþá til þess að skera í heilann og gera við hann.
Hera Fönn: En það er hægt að skera í hjartað... það er hægt að skipta um hjarta ef maður er með bilað hjarta er það ekki?
Ég: Jú það er hægt, fólk getur fengið nýtt hjarta ef það er með bilað hjarta.
Hera Fönn: En hvernig er eiginlega hægt að fá hjarta... er bara í lagi að vera ekki með hjarta?
Ég: Nei það er ekki hægt, maður þarf hjartað til að lifa. En maður getur ákveðið að gefa hjartað sitt einhverjum öðrum eftir að maður deyr.
Hera Fönn: Vá í alvöru? (Sýnilega mjög spennt yfir þessum möguleika). Hvernig gerir maður það? Gera það ekki allir það mamma? Það eru örugglega allir sem vilja gera það!
Ég: Jú sumir gera það.
Hera Fönn: Mamma ég vil deila mínu hjarta!

...þarna bráðnaði ég alveg og hugsaði eiginlega líffæragjöf upp á nýtt (að deila hjarta með einhverjum) ég er by the way búin að vera skráður líffæragjafi frá árinu 2000 en þetta var alveg ný hlið fyrir mér. Við ræddum síðan leiðir til að láta vilja sinn til líffæragjafar í ljós og hún var alveg harðákveðin í því að gefa allt sem hægt væri að gefa eftir að hennar tíma á jörðinni lyki.

Tveimur dögum seinna sagði Hera Fönn mér síðan að kannski í framtíðinni yrði hægt að lækna heila eins og hjörtu og þá gæti Hera Sif örugglega talað við okkur aftur. Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér og hvort að hægt verði að deila heila en hún lofar góðu ef hún verður full af bráðsnjöllum og hjartahlýju fullorðnum manneskjum sem nú eru börn.



Monday, July 27, 2015

Á Fróni

Tíminn líður og lífið líka. Frá febrúarlokum snérist lífið að mestu leyti um væntanlegan fjölskyldumeðlim sem lét síðan sjá sig þann 27. apríl síðastliðin. Alexander Hafsteinn fæddist í vatni í í lítilli íbúð við Haáleitisbraut - synti í heiminn í faðm foreldra sinna sem leið eins og þau hefðu alltaf átt hann. Hann er fullkomin viðbót við fjölskylduna og fyllir akkúrat upp í það rúm sem við vissum ekki að þyrfti að fylla fyrr en hann birtist. 

Við erum nú búin að eyða bróðurpartinum af fæðingarorlofinu hér á Íslandi í faðmi fjölskyldu og vina. Það hafa verið sannkölluð forréttindi að fá að njóta tíma með sínum nánustu, hafa afnot af fullkomnu heilbrigðiskerfi á viðkvæmasta skeiði nýrrar manneskju, drekka ferskt kranavatn á hverjum degi, borða hollan og góðan fisk, taka lýsi og anda að sér ferska loftinu. 

Tíminn líður að vanda óvenju hratt og það styttist í Afríkuævintýrin okkar að nýju. Ég fæ að læra og þroskast í vinnu hjá UNICEF í að minnsta kosti í eitt ár í viðbót. Það er dýrmæt reynsla sem við munum öll í fjölskyldunni búa að um ókomna tíð. Við erum orðin spennt að komast heim því heima er svo sannarlega á fleiri stöðum en bara á Íslandi. Heima er líka þar sem morgnarnir anga af brenndum viði, þar sem fólk brosir breiðar en annars staðar í heiminum, þar sem ávextirnir vaxa á trjánum og þar sem börnin hlaupa berfætt allt árið um kring.   

 

Wednesday, February 18, 2015

Hið óvænta

Hér á bæ verður heimilisfólkið afar sjaldan veikt enda veðrátta með eindæmum góð þrátt fyrir einstaka rigningardaga og hressilegar vindhviður. Ein slík braut reyndar stóra grein af mun stærra tréi í garðinum okkar um síðustu helgi með þeim afleiðingum að greinin féll á trampólínið hennar Heru Fannar og reif það í sundur. Það var frekar leiðinleg uppgötvun en vonandi finnum við viðgerðarmann eða konu hér í borginni.

En semsagt... ég var að hreykja mér af almennum hraustleika fjölskyldunnar sem hefur varla fengið kvef síðan við fluttum til Malaví. Staðföst í þeirri trú að ég verði aldrei veik dró ég það því í nokkrar vikur að fara til læknis vegna óþæginda í eyra. Í nokkrar vikur, núna bráðum þrjá mánuði, var ég - og er enn - með reglulega hellu fyrir hægra eyra. Þegar ekkert lát virtist á þessum óþægindum drattaðist ég semsagt loksins til læknis. Aðallega þó til að fá úr því skorið hvort að eitthvað kvikt hefði tekið sér bústað í eyranu... Læknirinn sem ég heimsótti starfar á einkarekinni læknastofu í hverfinu mínu (sem þykir með því fínna hér í borginni). Hann var ekki við þegar ég kom en hjúkkurnar sem tóku á móti mér sögðust kalla hann á vakt. Á meðan við biðum eftir lækninum tók við hefðbundin skoðun þar sem ég var vigtuð, hitamæld og blóðþrýstingsmæld (SOP). Þegar læknirinn kom leit hann út fyrir að hafa verið truflaður við síðdegslúrinn sinn, úti í garði, því hann var bæði hálf illa áttaður og í félagsskap nokkurra maura sem skriðu um á skyrtukraganum hans. Ég greindi frá hellunni í eyranu og hann tók óðara til við að reyna að leita að einhverjum græjum til að skoða inní eyrað. Eftir mikið fum og fát við brotnar og batteríslausar græjur segir hann við mig: tækin á þessari stofu eru bara til sýnis, ekki til notkunar. Síðan teygði hann sig í eintak af gömlu dagblaði sem lá á borðinu hans, rúllarði því upp í lítinn kíkir og dró svo nýlegan snjallsíma upp úr mauraskyrtunni. Potaði svo dagblaðinu inní eyrað á mér og lýsti með símanum. "In Malawi you improvise" sagði hann og hvað upp þann dóm að ég væri með smá sýkingu og kannski vatn í eyranu. Ràðlagði sýklalyf og malaríupróf - ég afþakkaði bæði og er enn með hellu.

Aðrar læknisheimsóknir fjölskyldunnar hafa tengst væntanlegri viðbót í fjölskylduna. Við erum mjög sátt við læknirinn okkar þar. Hann starfar líka á einkarekinni læknastofu sem er afar þægilega staðsett við hlið heimilis íslenska sendiherrans, sem bakar heimsins bestu vöfflur... Læknirinn hefur yfir að ráða afar öflugu sónartæki sem gefur færi á að reikna út ýmislegt eins og stærð, hlutföll og aldur barnsins. Í þriðju skoðun, um það bil á 21. viku, ákváðum við að spyrja lækninn út í kyn barnsins. Ástæðan var einna helst sú að við vildum geta undirbúið stóru systur sem virtist ekki halda að það væri líffræðilegur möguleiki á því að barnið yrði neitt annað en "stúlka, stelpa eða girl" eins og hún sagði sjálf. Læknirinn skoðaði barnið vandlega og sagðist næstum því 100% viss um að Hera hefði haft rétt fyrir sér því þetta væri lítil stelpa. Við urðum voða glöð og ræddum það við Heru sem aðstoðaði við að finna nafn á litlu systur. Í fyrradag héldum við fjölskyldan öll saman í síðustu sónarskoðunina hér í Malaví, áður en við höldum heim. Læknirinn var ánægður með gang mála og sagði okkur að líklegast væri ég gengin aðeins lengra en hann hafði reiknað með upphaflega og bætti svo við: "Þetta er að verða stór strákur..."

Ha! ...já við vorum búin að tala um kynið var það ekki?

Það er skemmst frá því að segja að gera varð hlé á sónarskoðuninni því ég hló svo mikið á bekknum hjá honum. Hann þóttist nú alveg handviss um kyn barnsins og benti okkur á lítið typpi því til sönnunar (hefði getað verið hné, olnbogi eða bara hvít skella á sónarmyndinni í mínum augum). Við tóku heimspekilegar umræður við Heru Fönn á leiðinni heim sem enduðu reyndar mjög kasúalt á því að Hera sagði: Mamma ég var bara að grínast þegar ég sagðist ekki elska lita bræður ég geri það líka, við skulum skíra hann Zorró (sem síðan breyttist í Kári, af augljósum ástæðum, og síðan í Fagur).

Við erum himinlifandi með hvort kynið sem er og erum reyndar á þeirri skoðun að kannski er bara best að sjá til hvað verður þegar barnið kemur í heiminn. Ég hugsa að èg fari líka til læknis vegna hellunar í eyranu fljótlega eftir að við komum heim.

Sunday, February 08, 2015

og svo auðvitað fjölskyldulífið...

...sem gengur sinn vanagang í byrjun febrúar. Veðrið batnar óðum (ekki að það sé yfir miklu að kvarta) en bærilegri hiti og færri rigningardagar bjóða nú æ oftar upp á fleiri notalegar stundir í garðinum og á pallinum þar sem hvorki þarf að flýja úrhellisrigningu eða kæfandi hita. Það koma ennþá góðir skúrir sem leiða óneitanlega til leka á ótal stöðum, rafmagnsleysis og skordýrafaraldurs... En það er allt í góðu, eitthvað sem venst hvort sem þið trúið því eða ekki og núllast nánast út þegar hægt er að breiða út jógadýnuna á pallinum í skugga mangótrès, fylgjast með eðlunni sem býr undir pallinum og njóta fuglasöngsins. 

Það fækkaði um einn á stóra heimilinu okkar núna í febrúar þegar Huld vinkona okkar sem hefur búið og starfað hér í Malaví sl. 3 ár kláraði samninginn sinn við World Food Program og flaug til Zimbawbe. Fyrir utan Huld höfum við líka verið með yndislega norska stelpu í gestaálmunni okkar en hún er líka á förum í mars. Það verður því 'eingöngu' við litla fjölskyldan sem flytur aftur inní kisuhúsið (eins og Hera Fönn kallar það) þegar við snúum aftur til Malaví. Það fyrsta sem Guðrún vinkona tók eftir þegar þau komu í heimsókn var hálfgerður kommúnubragur á heimilinu sökum fjölda fólks sem annað hvort hefur aðgengi að húsinu eða býr hér. Það verður því heldur betur breyting á heimilisbragnum - sem er hið besta mál held ég. Það verður ekki bara notalegt að fá góðan tíma til að læra inn á það að vera fjögurra manna fjölskylda í Malaví heldur verður líka nóg pláss fyrir góða gesti sem hyggjast láta Afríkudrauminn rætast á komandi ári. 

En ef við lítum okkur nær í tíma þá erum við öll sem eitt vægast sagt spennt fyrir næstu mánuðum. Við komum heim í byrjun mars þar sem litla systir er væntanleg í apríl. Við vorum svo lánsöm að UNICEF lengdi barneignarorlofið í sex mánuði nýlega sem er afar óvenjulegt fyrir alþjóðleg samtök eða fyrirtæki en auðvitað mjög viðeigandi og í alla staði eðlilegt fyrir stofnun eins og UNICEF. Við getum þar af leiðandi notið þess að vera á Íslandi í faðmi fjölskyldu og vina alvega fram í september. Lukkustjarnan sem iðulega virðist fylgja okkur hefur ekki brugðist okkur núna og það virðist allt vera að smella fyrir komandi heimferð. Reyndar hefur lukkan okkar alltaf byggst á því afbragðsfólki sem í kringum okkur er. Ég er sannfærð um það að fátt fólk er jafn heppið með vini og fjölskyldu og við Lárus. Endalaus greiðvikni, hjálpsemi og góðir straumar hafa leitt til þess að við komum heim í fimm mánaða barneignarfrí sultuslök og áhyggjulaus. 

Hera Fönn er án nokkurs vafa sú spenntasta og það eru ekki bara jólin sem virðast fela í sér endalausa bið. Hún er reyndar ennþá að bisa við að setja skóinn út í glugga á kvöldin, bara svona ef ske kynni að það væru allt í einu komin jól. Við lásum jólasögu síðast í gærkvöldi og ræddum í hundraðasta skiptið um það að jólin koma bara einu sinni á ári. En það er fleira að brjótast um í litlu höfði þessa dagana, margt alveg óskaplega skondið og skemmtileg. Hún er að vonum mjög spennt að fá litlu systur sína í heiminn og hefur að viðmiði að fyrst þurfi hún að verða fjögurra ára. Þar er komin enn ein biðin - að bíða eftir afmælinu. Hún er afar upptekin af því að eldast og hefur varla jafnað sig af gleði eftir að hún uppgötvaði að að hún yrði alltaf, um aldur og ævi, eldri en litla systir sín. Hún tók sig til um daginn og bað um að fá að tala við litlu systur um eitt mikilvægt mál. Ég varð við óskinni og vippaði upp bolnum. Hún setti munninn alveg að naflanum (fyrir þá sem þekkja mig vita að ég þurfti að sýna styrk á því augnabliki) og kallaði hátt inn um naflann: "Litla systir ég er mjög spennt að fá þig út úr maganum, en það er eitt sem þú þarft að vita. Ég verð alltaf eldri en þú og þú verður alltaf yngri en ég því ég fæddist löngu á undan þér!"  

Síðan bætti hún reyndar við að hún væri líka ekki síður spennt að fá bæði skúter og prinsessu ipad en þess hefur hún óskað sér á hverjum degi núna í dágóðan tíma. Við höfum tekið langar og misheitar umræðu um það að börn eigi ekki sinn eigin ipad (við erum nýbúin að fjárfesta í einum fjölskyldu ipad sem inniheldur 2 leiki fyrir hana) og að hún eigi stórgott hjól svo kannski sé engin þörf á skúter. Þær umræður virðast engu skila og hún heldur staðföst áfram að bera upp þessa ósk við hin ýmsu tækifæri. Auk þessara óska hefur líka borið á miklum vilja og áhuga fyrir því að komast í skíðaskóla og á sundnámskeið (hvorugt í boði í Malaví þó svo að reglulega sé farið í sund). Því hefur henni nánast verið lofað báðum tómstundum á meðan á Íslandsdvölinni stendur. 

Foreldrarnir eru eins og gefur að skilja spenntastir fyrir því að komast heim til þess að taka á móti nýjum fjölskyldumeðlim, hitta góða vini, njóta íslenska vatnsins og eyða tíma með fjölskyldunni áður en síðasta árið okkar í Malaví rennur upp. 

Sunday, February 01, 2015

Vinnuskýrsla

Eins og margir hafa eflaust tekið eftir litaðist janúarmánuður af neyðaraðstoð og yfirvinnu tengdri flóðaástandinu hér í Malaví. Fréttir um allan heim fjölluðu um flóðin og Ísland lagði í síðustu viku sitt af mörkum með rausnarlegum styrk til bæði Unicef og WFP hér í Malaví. Ég hef aldrei unnið í neyðarástandi fyrr og það er óhætt að segja að upplifunin og reynslan sé búin að vera ótrúlega áhrifamikil. Unicef skrifstofan mín bràst einna fyrst við ástandinu og skipaði strax á fyrsta degi flóðanna teymi sem voru send samdægurs út í þau héruð sem verst urðu úti. Flóðin hafa aðallega átt sér stað í suðurhluta landsins og í héruðum sem eiga landamæri að Mozambique. Hér í höfuðborginni hefur sannarlega rignt en ekki linnulaust eða með jafn miklum krafti eins og víða fyrir sunnan. Fyrstu Unicef teymin sàu um að meta ástandið og aðstoða fólk sem hafði flúið heimili sín og leitað skjóls í skólum, kirkjum eða tjaldbúðum. Með mikilli gagnasöfnun í fyrstu vikunni gátum við sent fyrstu hjálpargögn á þá staði sem þurftu mest á aðstoð að halda strax á fyrstu dögunum. Hátt í 200 skólar voru til að mynda nýttir sem búðir fyrir fólk sem hafði flúið heimili sín. Í mörgum þessara skóla, sem samanstanda yfirleitt af 2-5 afar einföldum kennslustofum og örfáum útikömrum... (semsagt engri stórri yfirbyggingu eins og við eigum að venjast), voru og eru í kringum 500 fjölskyldur að leita skjóls. Í Malaví samanstendur meðalfjölskylda af foreldrum með 5 börn. 

Það þótti ekki gott ráð að senda konu komna sjö mánuði á leið út í feltið en sem betur fer nýttust kraftar mínir vel hér í Lilongwe. Ég vann sl. 2 vikur með stóru teymi Malava frá National department of disaster management og teymi frá OCHA (Office for the coordination of humanitarian affairs) og UNDAC (United Nations disaster assessment and coordination). Á fyrstu rúmu vikunni unnum við að því að samhæfa alla viðbragðsaðila, bæði innanlands og utan. Ná utan um alla þætti aðgerða og alla aðila með því að skrifa upp eina stóra viðbragðsáætlun. Þessi vinna var ótrúlega lærdómsrík. Það var allt annað en einfalt að sameina aðgerðir á skynsamlegan og árangursríkan hátt í jafn stóru landi og Malaví er, með jafn mörgum aðilum, stofnunum og félögum sem vilja og þurfa að koma að aðgerðunum. Hver er þörfin mest fyrir mat, vatn, skjól, vernd, lyf, læknisaðstoð, klósettaðstöðu? Og síðast en ekki síst hvernig má sjá til þess að öll börn í þessum aðstæðum geti haldið áfram að eiga eins eðlilegt líf og unnt er með því að njóta áframhaldandi kennslu og fá skjól frá amstri dagsins í  gegnum nám og leik. Meðal þess sem við í Unicef gerðum í þessari viku var að veita hópi kennara ákveðinn 'crash' kúrs í hvernig á að halda úti skólastarfi í neyðarástandi. Þessir kennarar munu dreifast á mánudaginn í verst settu skólana og leiða skólastarfið þangað til að ákveðið 'normalítet' kemst á aftur. 

Nú þegar allt lítur út fyrir að við séum að komast í gefnum fyrsta stig neyðaraðstoðarinnar, það er að skipuleggja raunhæfar aðgerðir, safna peningum fyrir þeim og byrja að vinna eftir áætluninni tekur við ekki síður mikilvægt tímabil. Tímabil eftirfylgni og endurmats. Það þarf líka að huga að venjulega prógramminu okkar og sjá til þess að ekki verði of mikið rof í þeirri dagskrá. Ég fór einmitt til Zomba í síðustu viku í þeim erindagjörðum; til að undirbyggja frekara samstarf milli Unicef, upplýsinga- og tölfræðideildar menntamálaráðuneytisins og malavísku Hagstofunnar. Samstarfið felst í því að deildin fari í gegnum ákveðið sjálfsmat eða innra mat og njóti við það aðstoðar Unicef og Hagstofunnar og í kjölfarið hefjist markviss umbótavinna þar sem áherslan verður á að auka gæði tölfræðilegar úrvinnslu mennta gagna, greiningu og nýtingu upplýsinga. 

Thursday, January 08, 2015

Fyrsta vikan í janúar: þung augnlok

Fyrsta vikan í janúar hefur verið ansi löng. Augnlokin voru að minnsta kosti aðeins þyngri í morgun en oft áður svona rétt fyrir sex sem er alvanalegur fótaferðatími hjá okkur. Ég var líka orðin frekar glaseygð upp úr klukkan fimm við tölvuskjáinn á skrifstofunni í dag. Það verður ansi notalegt að hætta snemma í vinnu á morgun og eiga helgarfríið framundan. Annars verður voða gott að komast aftur í rútínu þegar við erum búin að venjast fótaferðartímanum aftur. Hera Fönn var skínandi glöð með að komast í leikskólann aftur og syngja á hverjum morgni: Hello, good morning everybody we are so happy to see you! 

Nú eru rólegheitin sem einkenndu skrifstofuna mína um jólin að syngja sitt síðasta... Ég spái því að í næstu viku fjölgi tölvupóstum um helming og neyðartilfellum fjölgi ansi hratt. Ég er búin að nýta þennan frekar rólega tíma til að komast yfir ýmislegt sem hefur annars setið á hakanum. Það er stundum voða gott að vera einn á skrifstofu sem að öllu jafna er eins og umferðarmiðstöð. Það er ýmislegt sem ég ætla að vera búin að koma í verk áður en ég fer í fæðingarorlof og mig grunar að panikið komi eins og vanalega svona um það bil korter í brottför. Nú finnst mér eins og flest sé í góðum skorðum en síðan kemur að því að fara og þá finnst manni eins og allt sitji á hakanum. Það er nú samt bara þannig að flest erum við á engan hátt ómissandi og verkefnin því yfirleitt í góðum höndum - sama hver er á staðnum.

Í vinnunni er ýmsilegt skemmtilegt framundan í (svona fyrir utan almenn skýrsluskrif og ársplanleggingar sem einkenna oft tímann eftir áramót). Í byrjun febrúar ætlum við að fagna 50 ára veru sameinuðu þjóðanna í Malaví með því að safna saman stórum hluta starfsfólks hinna ýmsu UN stofnanna - sameinast í tveimur skólum sem þarfnast mikilla viðgerða og taka þá í gegn. Við ætlum semsagt að mála skólana að innan og utan í anda ´child friendly school´ hugmyndafræðinnar sem UNICEF stendur fyrir, planta trjám og leggja áherslu á að gera umhverfið barnvænt og fallegt. Þetta er svona framtak sem er ekki endilega stórt í sniðum en hefur fallegt og gott hugmyndafræðilegt gildi og sameinar krafta allra UN stofnanna í Malaví. 

Í febrúar verður líka áhugaverð kynning á viðamikilli rannsókn á ofbeldi gagnvart börnum í Malaví - Violence Against Children - þar sem fjallað verður sérstaklega um niðurstöður rannsóknarinnar í tengslum við ofbeldi í skólum, af hendi kennara, skólafélaga eða á skólalóð. UNICEF studdi þessa rannsókn bæði í gegnum menntadeildina mína og í gegnum Child Protection deildina. Við erum með sérstakt prógram í gangi núna hjá UNICEF þar sem kraftar þessara tveggja deilda eru sameinaðir í markvissri vinnu þar sem áherslan er á að fyrirbyggja og draga úr kynbundnu ofbeldi, ofbeldi innan veggja skólans (bæði af hendi kennara og nemenda) og ofbeldi á skólalóð. 

Annars er það helst að frétta að jólin okkar fengu skemmtilega framlengingu þegar jólapakki barst frá Íslandi í gærdag (póstlagður ca 4 vikum fyrr). Hann innihélt dásamlegt góðgæti, góðar bækur og fallega hluti fyrir Heru Fönn. Hún fékk meðal annars ævintýrið um Ronju ræningjadóttur á hljóðbók og hefur setið alveg stjörf við í allan dag og hlustað. Fjarþjálfunin hans Lalla stækkar jafnt og þétt sem er ekki skrýtið þar sem hann er svo ótrúlega áhugasamur um efnið og kúnnana sína. Síðan er hann líka búin að uppfæra allt kerfið á ensku og getur þess vegna tekið enska kúnna líka. Það er strax farið að spyrjast út. Litla systir stækkar líka jafnt og þétt. Kannski bara frekar hratt svona miðað við fyrri meðgöngu - en það er víst bara eðlilegt. Ég fer í næsta vaxtarsónar um miðjan febrúar og þá fáum við að vita með vissu settan fæðingardag... sem hefur rokkað aðeins á milli 20. apríl og 2. maí. Við sjáum hvað setur þegar nær dregur. 

Í febrúar stefnum við skötuhjú á síðasta rómó ferðalagið okkar í bili. Ætlum að tríta Heru Fönn með næturpössun (sem henni finnst ekki leiðinlegt) og heimsækja te- og kaffiekrur sem kallast Huntingdon House í suðurhluta Malaví. Þar ætlum við að njóta huggulegheita í rúman sólarhing og safna orku fyrir komandi ferðalag heim til Íslands og fjölskyldufjölgunina. Við setjum síðan stefnuna á heimferð í byrjun mars ef allt gengur upp í samabandi við vinnu og fæðingarorlof. 

Jæja nú er að smella út jógadýnunni og starta prenatal pregnancy jóga-appinu... og kannski gæða sér á lakkrísdraumi beint frá Íslandi.  

Thursday, January 01, 2015

Árið 2014

Það er óhætt að segja að síðastliðið ár hafi verið ansi viðburðarríkt og ekki á allan hátt venjulegt fyrir okkur litlu fjölskylduna. Ferðalög og vinna, og þetta tvennt í bland, settu svip sinn á árið. Ársins verður líka minnst sem árs aðlögunar, lærdóms, reynslu og þroska. Ég hef á tilfinningunni að með tímanum verði liðið ár og það sem er í vændum sterkari og áhrifaríkari í huga okkar en við gerum okkur endilega grein fyrir akkúrat núna.

Árið hófst með frábærri safaríferð með mömmu og pabba þar sem við féllum algjörlega fyrir töfrum Afríku. Það er eitthvað alveg sérstakt við það að njóta þess að horfa á sólina setjast í miðjum þjóðgarði, sneisafullum af framandi dýrum. Kyrrðin, lyktin, birtan og umgjörðin skapa ótrúlegt augnablik sem verður seint eða aldrei máð úr minni fólks. 

Að eiga og eignast vini er ómetanleg gjöf og við erum svo heppin að árin okkar eru yfirleitt mörkuð af bæði gamalli og nýrri vináttu. Við eyddum til að mynda stórum hluta ársins í ferðalög um Malaví með bæði nýjum og gömlum vinum. Við nutum þess að vera á framandi slóðum og kynnast einstakri fegurð og náttúru Malaví. Styttri og lengri ferðalög niður að vatni, út á eyjur og upp í fjöllin voru án efa með ríkari upplifunum á árinu. Hluti af því sem fór í reynslubanka Heru Fannar á liðnu ári var meðal annars að sigla ansi nálægt krókódílum, fræðast um og fylgjast með flóðhestum, ljónum, gíröfum, fuglum, antilópum og hýenum (sem hún heldur einstaklega upp á), læra að vara sig á sporðdrekum, snákum og köngulóm, baða sig og læra að synda í vatni stjarnanna (Lake of Stars eins og Livingstone nefndi það), læra og lifa í fjölmenningarlegu umhverfi þar sem allir hafa sína sögu, sín sérkenni og eiga sér ríka og mikilvæga menningu og síðast en ekki síst að njóta þess mikla frelsis að fá að vera berfætt á hverjum degi í hlýrakjól! 

Við erum óskaplega þakklát fyrir heimsóknirnar á árinu frá pabba, mömmu sem kom tvisvar, Maríu frænku sem kom og aðstoðaði heilan helling í mánaðardvöl og að lokum Garðabæjarfjölskyldunni sem hikar aldrei við að láta draumana rætast! Við skiljum svo ósköp vel að það er ekki á allra færi að hoppa yfir hálfan hnöttinn en vonum að þeir sem létu slag standa hafi upplifað eitthvað alveg sérstakt, ógleymanlegt og ómetanlegt. 

Það var líka ýmislegt sem reyndi á okkur í sambandi við veru okkar hér í Malaví á liðnu ári þrátt fyrir yndisleg ferðalög, minningar og upplifanir. Vinnulega þurftum við bæði að stíga vel út fyrir þægindarrammann og láta reyna á nýja hæfileika, aðlögunarhæfni, þrautseigju og sveigjanleika. Umhverfið var oft á tíðum afar krefjandi, framandi og óskiljanlegt á köflum. En svo lifir sem lærir og það höfum við svo sannarlega gert. Það er margnotaður frasi innan UNICEF að þú þurfir að vera einstaklega góður að synda ef þú ætlar að komast af innan stofnunarinnar. Ég held að það eigi ekki bara við um UNICEF heldur almennt þegar fólk hendir sér í jafn djúpa laug og við gerðum með því að flytjast til Malaví og hefja algjörlega nýtt líf. Við hjónin höfum aldrei verið sérstaklega rómuð fyrir raunverulega sundhæfileika  - en í þessari samlíkingu held ég að við séum ansi hreint ágætlega fær. Við höfum ákveðið að með hverri hraðahindruninni, sem hafa verið óteljandi í framandi landi, hljóti að felast reynsla og tækifæri. Þannig höfum við siglt í gegnum liðið ár og stöndum vonandi uppi sem örlítið betri manneskjur fyrir vikið. 

Næsta ár verður ekki síður stútfullt nýrri reynslu. Fjölskyldan stækkar um páskaleytið þegar litla systir Heru Fannar kemur í heiminn. Fæðing og orlof eru plönuð á Íslandi í öruggum faðmi fjölskyldu og vina. Samningurinn minn við UNICEF verður svo framlengdur um ár eftir að fæðingarorlofinu lýkur og við snúum því aftur til Malaví og stefnum á að fá að læra áfram af landi og þjóð fram til haustsins 2016. Við hlökkum til en reynum líka að lifa í núinu, njóta augnabliksins og samverunnar.