Það er óhætt að segja að síðastliðið ár hafi verið ansi viðburðarríkt og ekki á allan hátt venjulegt fyrir okkur litlu fjölskylduna. Ferðalög og vinna, og þetta tvennt í bland, settu svip sinn á árið. Ársins verður líka minnst sem árs aðlögunar, lærdóms, reynslu og þroska. Ég hef á tilfinningunni að með tímanum verði liðið ár og það sem er í vændum sterkari og áhrifaríkari í huga okkar en við gerum okkur endilega grein fyrir akkúrat núna.
Árið hófst með frábærri safaríferð með mömmu og pabba þar sem við féllum algjörlega fyrir töfrum Afríku. Það er eitthvað alveg sérstakt við það að njóta þess að horfa á sólina setjast í miðjum þjóðgarði, sneisafullum af framandi dýrum. Kyrrðin, lyktin, birtan og umgjörðin skapa ótrúlegt augnablik sem verður seint eða aldrei máð úr minni fólks.
Að eiga og eignast vini er ómetanleg gjöf og við erum svo heppin að árin okkar eru yfirleitt mörkuð af bæði gamalli og nýrri vináttu. Við eyddum til að mynda stórum hluta ársins í ferðalög um Malaví með bæði nýjum og gömlum vinum. Við nutum þess að vera á framandi slóðum og kynnast einstakri fegurð og náttúru Malaví. Styttri og lengri ferðalög niður að vatni, út á eyjur og upp í fjöllin voru án efa með ríkari upplifunum á árinu. Hluti af því sem fór í reynslubanka Heru Fannar á liðnu ári var meðal annars að sigla ansi nálægt krókódílum, fræðast um og fylgjast með flóðhestum, ljónum, gíröfum, fuglum, antilópum og hýenum (sem hún heldur einstaklega upp á), læra að vara sig á sporðdrekum, snákum og köngulóm, baða sig og læra að synda í vatni stjarnanna (Lake of Stars eins og Livingstone nefndi það), læra og lifa í fjölmenningarlegu umhverfi þar sem allir hafa sína sögu, sín sérkenni og eiga sér ríka og mikilvæga menningu og síðast en ekki síst að njóta þess mikla frelsis að fá að vera berfætt á hverjum degi í hlýrakjól!
Við erum óskaplega þakklát fyrir heimsóknirnar á árinu frá pabba, mömmu sem kom tvisvar, Maríu frænku sem kom og aðstoðaði heilan helling í mánaðardvöl og að lokum Garðabæjarfjölskyldunni sem hikar aldrei við að láta draumana rætast! Við skiljum svo ósköp vel að það er ekki á allra færi að hoppa yfir hálfan hnöttinn en vonum að þeir sem létu slag standa hafi upplifað eitthvað alveg sérstakt, ógleymanlegt og ómetanlegt.
Það var líka ýmislegt sem reyndi á okkur í sambandi við veru okkar hér í Malaví á liðnu ári þrátt fyrir yndisleg ferðalög, minningar og upplifanir. Vinnulega þurftum við bæði að stíga vel út fyrir þægindarrammann og láta reyna á nýja hæfileika, aðlögunarhæfni, þrautseigju og sveigjanleika. Umhverfið var oft á tíðum afar krefjandi, framandi og óskiljanlegt á köflum. En svo lifir sem lærir og það höfum við svo sannarlega gert. Það er margnotaður frasi innan UNICEF að þú þurfir að vera einstaklega góður að synda ef þú ætlar að komast af innan stofnunarinnar. Ég held að það eigi ekki bara við um UNICEF heldur almennt þegar fólk hendir sér í jafn djúpa laug og við gerðum með því að flytjast til Malaví og hefja algjörlega nýtt líf. Við hjónin höfum aldrei verið sérstaklega rómuð fyrir raunverulega sundhæfileika - en í þessari samlíkingu held ég að við séum ansi hreint ágætlega fær. Við höfum ákveðið að með hverri hraðahindruninni, sem hafa verið óteljandi í framandi landi, hljóti að felast reynsla og tækifæri. Þannig höfum við siglt í gegnum liðið ár og stöndum vonandi uppi sem örlítið betri manneskjur fyrir vikið.
Næsta ár verður ekki síður stútfullt nýrri reynslu. Fjölskyldan stækkar um páskaleytið þegar litla systir Heru Fannar kemur í heiminn. Fæðing og orlof eru plönuð á Íslandi í öruggum faðmi fjölskyldu og vina. Samningurinn minn við UNICEF verður svo framlengdur um ár eftir að fæðingarorlofinu lýkur og við snúum því aftur til Malaví og stefnum á að fá að læra áfram af landi og þjóð fram til haustsins 2016. Við hlökkum til en reynum líka að lifa í núinu, njóta augnabliksins og samverunnar.
No comments:
Post a Comment