Fyrsta vikan í janúar hefur verið ansi löng. Augnlokin voru að minnsta kosti aðeins þyngri í morgun en oft áður svona rétt fyrir sex sem er alvanalegur fótaferðatími hjá okkur. Ég var líka orðin frekar glaseygð upp úr klukkan fimm við tölvuskjáinn á skrifstofunni í dag. Það verður ansi notalegt að hætta snemma í vinnu á morgun og eiga helgarfríið framundan. Annars verður voða gott að komast aftur í rútínu þegar við erum búin að venjast fótaferðartímanum aftur. Hera Fönn var skínandi glöð með að komast í leikskólann aftur og syngja á hverjum morgni: Hello, good morning everybody we are so happy to see you!
Nú eru rólegheitin sem einkenndu skrifstofuna mína um jólin að syngja sitt síðasta... Ég spái því að í næstu viku fjölgi tölvupóstum um helming og neyðartilfellum fjölgi ansi hratt. Ég er búin að nýta þennan frekar rólega tíma til að komast yfir ýmislegt sem hefur annars setið á hakanum. Það er stundum voða gott að vera einn á skrifstofu sem að öllu jafna er eins og umferðarmiðstöð. Það er ýmislegt sem ég ætla að vera búin að koma í verk áður en ég fer í fæðingarorlof og mig grunar að panikið komi eins og vanalega svona um það bil korter í brottför. Nú finnst mér eins og flest sé í góðum skorðum en síðan kemur að því að fara og þá finnst manni eins og allt sitji á hakanum. Það er nú samt bara þannig að flest erum við á engan hátt ómissandi og verkefnin því yfirleitt í góðum höndum - sama hver er á staðnum.
Í vinnunni er ýmsilegt skemmtilegt framundan í (svona fyrir utan almenn skýrsluskrif og ársplanleggingar sem einkenna oft tímann eftir áramót). Í byrjun febrúar ætlum við að fagna 50 ára veru sameinuðu þjóðanna í Malaví með því að safna saman stórum hluta starfsfólks hinna ýmsu UN stofnanna - sameinast í tveimur skólum sem þarfnast mikilla viðgerða og taka þá í gegn. Við ætlum semsagt að mála skólana að innan og utan í anda ´child friendly school´ hugmyndafræðinnar sem UNICEF stendur fyrir, planta trjám og leggja áherslu á að gera umhverfið barnvænt og fallegt. Þetta er svona framtak sem er ekki endilega stórt í sniðum en hefur fallegt og gott hugmyndafræðilegt gildi og sameinar krafta allra UN stofnanna í Malaví.
Í febrúar verður líka áhugaverð kynning á viðamikilli rannsókn á ofbeldi gagnvart börnum í Malaví - Violence Against Children - þar sem fjallað verður sérstaklega um niðurstöður rannsóknarinnar í tengslum við ofbeldi í skólum, af hendi kennara, skólafélaga eða á skólalóð. UNICEF studdi þessa rannsókn bæði í gegnum menntadeildina mína og í gegnum Child Protection deildina. Við erum með sérstakt prógram í gangi núna hjá UNICEF þar sem kraftar þessara tveggja deilda eru sameinaðir í markvissri vinnu þar sem áherslan er á að fyrirbyggja og draga úr kynbundnu ofbeldi, ofbeldi innan veggja skólans (bæði af hendi kennara og nemenda) og ofbeldi á skólalóð.
Annars er það helst að frétta að jólin okkar fengu skemmtilega framlengingu þegar jólapakki barst frá Íslandi í gærdag (póstlagður ca 4 vikum fyrr). Hann innihélt dásamlegt góðgæti, góðar bækur og fallega hluti fyrir Heru Fönn. Hún fékk meðal annars ævintýrið um Ronju ræningjadóttur á hljóðbók og hefur setið alveg stjörf við í allan dag og hlustað. Fjarþjálfunin hans Lalla stækkar jafnt og þétt sem er ekki skrýtið þar sem hann er svo ótrúlega áhugasamur um efnið og kúnnana sína. Síðan er hann líka búin að uppfæra allt kerfið á ensku og getur þess vegna tekið enska kúnna líka. Það er strax farið að spyrjast út. Litla systir stækkar líka jafnt og þétt. Kannski bara frekar hratt svona miðað við fyrri meðgöngu - en það er víst bara eðlilegt. Ég fer í næsta vaxtarsónar um miðjan febrúar og þá fáum við að vita með vissu settan fæðingardag... sem hefur rokkað aðeins á milli 20. apríl og 2. maí. Við sjáum hvað setur þegar nær dregur.
Í febrúar stefnum við skötuhjú á síðasta rómó ferðalagið okkar í bili. Ætlum að tríta Heru Fönn með næturpössun (sem henni finnst ekki leiðinlegt) og heimsækja te- og kaffiekrur sem kallast Huntingdon House í suðurhluta Malaví. Þar ætlum við að njóta huggulegheita í rúman sólarhing og safna orku fyrir komandi ferðalag heim til Íslands og fjölskyldufjölgunina. Við setjum síðan stefnuna á heimferð í byrjun mars ef allt gengur upp í samabandi við vinnu og fæðingarorlof.
Jæja nú er að smella út jógadýnunni og starta prenatal pregnancy jóga-appinu... og kannski gæða sér á lakkrísdraumi beint frá Íslandi.
No comments:
Post a Comment