Litla fjölskyldan í Malaví hefur nú flutt búferlum innan borgarinnar. Við fluttum um hverfi og erum nú búsett í hverfi 12 í húsi númer 571. Við erum afskaplega sæl og sátt með flutningana sem voru frekar skrautlegir og án nokkurs vafa þeir allra óskipulögðustu. En allt hafðist þetta og viku seinna má segja að nánast allt sé komið á sinn stað... það þykir heldur betur gott hér í Malaví og meira að segja líka ef miðað er við íslenskan tíma :)
Eitt af því sem stórbatnaði við flutningana er aðgengi okkar að rafmagni. Staðan er nefnilega þannig hér í landi að rafmagnsveitan skammtar íbúum borgarinnar rafmagn. Iðulega birtast auglýsingar í blöðunum þar sem tekið er fram hvenær tiltekin hverfi í borginni eiga að búast við rafmagnsleysi. Smá saman hefur okkur lærst að treysta sem minnst á þessar tilkynningar og búast frekar við því að rafmagnið sé yfir höfuð ekki á nema rétt fram að hádegi (þegar maður þarf minnst á því að halda).
Byggt á þessari reynslu okkar úr hverfi 43 lögðum við sérstaka áherslu á að koma rafalnum okkar (auka rafstöð sem keyrir ljósin og ísskápinn í rafmagnsleysi) í stand í nýja húsinu. Við eyddum bæði tíma og peningum í að láta tengja hann sérstaklega þannig að við gætum startað honum innan úr húsi því ég er lítið fyrir það að fara út í kolniða myrkri til þess að snúa tryllitækinu í gang.
Nema hvað, ég þori varla að skrifa þetta... viku seinna hefur ekki verið rafmagnslaust í eina mínútu (sjö, níu, þrettán og ég lamdi í borðið). Ástæðan ku vera sú að húsið okkar liggur á svo kallaðri forsetalínu sem þýðir að ef rafmagnið er tekið af okkar línu þá fer það af í forsetahöllinni líka. Það er því nánast óskrifuð regla að ef forsetinn er staddur í Malaví og á heimili sínu þá helst rafmagnið á þessari línu.
Þvílíkur lúxus að geta hitað kaffi, kveikt á viftunni, lýst upp kvöldin, hlustað á útvarpið og hlaðið símann án nokkurs vafsturs eða vesens.
Þvílíkur lúxus að geta hitað kaffi, kveikt á viftunni, lýst upp kvöldin, hlustað á útvarpið og hlaðið símann án nokkurs vafsturs eða vesens.
Nú vonum við bara að herra forseti fari ekki í löng ferðalög á næstunni...
No comments:
Post a Comment