Monday, December 07, 2015

Afleiðingar veðurs

Akkúrat núna eru flestir heima á Íslandi búnir að gera einhverjar ráðstafanir vegna væntanlegs veðurofsa sem gengur yfir landið í kvöld. Sumir keyptu kannski einum poka of mikið í bónus - bara til vonar og vara - aðrir kveiktu óvart á öllum aðventukertunum í spenningskasti og einhverjir keppast við að baka til þess að róa taugarnar og "hafa kósý". 

Á meðan á þessu stendur lekur af okkur svitinn hér í hjarta Afríku þar sem sumarhitinn er í hámarki og rigningartímabilið ennþá svo að segja í startholunum. Í morgun skutlaði ég Heru Fönn fyrir allar aldir í leikskólann og fékk að launum eitt af betri bílastæðunum á planinu. Undir skyggni og stóru tréi, rétt hjá aðalhurðinni. Gæti ekki verið betra. Þegar ég kom út í bíl í hádeginu var ég því engan vegin viðbúin því að setjast inn í þann 45 gráðu suðupott sem myndast hafði í bílnum um morguninn. Þegar ég settist inn og lokaði hurðinni snarlega á eftir mér sortnaði mér fyrir augum og náði ekki andanum. Ég opnaði því hurðina aftur og hleypti "fersku og kaldara" (37 gráðu) lofti inn í bílinn til þess að ná áttum. 

Á leiðinni heim veðjaði ég við Heru Fönn um að það myndi rigna afar fljótlega. Ég svindlaði kannski smávegis því það var orðið svo rakt að rigningin var gjörsamlega áþreifanleg þrátt fyrir að það væri varla ský á himni. Það breyttist fljótt því fljótlega upp úr hádegi fóru að myndast feit og pattarleg ský á himninum sem gáfu góð fyrirheit um gusugang. Þegar ég renndi síðan í hlaðið heima hjá mér um kaffileytið var orðið ansi þungbúið. Nú voru hins vegar allir úti við því við skýin gáfu nú í fyrsta skiptið í langan tíma grið fyrir sólinni og því tækifæri til að leika sér úti. Hera og Chifundo voru í frisbee og Alexander fékk að horfa á þær stöllur úr hæfilegri fjarlægð vafinn inn í chitenga á baki barnfóstrunnar.

Nokkrum mínútum eftir að ég kom upphófst drynjandi þrumugangur, himininn logaði af eldingum og síðan kom HELLIDEMBA. Ekta útlandarigning - jaðraði við að vera hagl slík voru lætin. Allt saman þó beint niður og enginn veðurofsi þannig séð. Hvílíkur léttir! Hugtakið "gott fyrir gróðurinn" fær aðra og margfalda merkingu í landi þar sem hefur ekki rignt í um það bil 8 mánuði. Það er bókstaflega hægt að sjá með berum augum þegar plöntur og gras teygja sig eftir dropunum, vaxa og spretta. 

Einn af fylgifiskum regntímabilsins hér í Malaví er fjölgun á ýmsum skordýrum, þar á meðal eru fljúgandi maurar. Já einmitt, fljúgandi maurar. Í kvöld gerðist það að eftir rigninguna heltók okkur eitthvað kæruleysi, íslenskt veðurblæti og hugsunarleysi þegar við lokuðum ekki hurðunum eftir skúrinn heldur opnuðum hreinlega upp á gátt til að leyfa ferska loftinu að komast inn. Þetta þýddi að sjálfsögðu að það komst fleira inn en ferska loftið. Á nokkrum sekúndum fylltist eldhúsið af fljúgandi maurum sem leituðu í ljósið. Ég sýndi töluverða stillingu og hugrekki og óð í gegnum skýið til þess að loka útidyrahurðinni. Síðan lokaði þá af inni í eldhúsi og leitaði skjóls í stofunni. Lárus fór síðan og gerði út um þá með þar til gerðu spreyi. Samvinna! Annars eru þetta hin meinlausustu grey sem eiga sér afar stutta og dramantíska ævi. Við rigningar sem þessar fljúga þessir tilteknu maurar í massavís upp úr grasinu og leita beint í fyrstu ljóstýruna sem þeir sjá... flugið sem varir einungis í nokkrar mínútur endar með því að þeir missa vængina, falla til jarðar og drepast nokkrum mínútum eftir að þeir fengu frelsið og flugkraftinn! 

Flippaða hliðin á þessu öllu er síðan að nú lýsa verðirnir mínir um allan garð með vasaljósi í leit að þessum maurum því hér í landi þykja þeir hið mesta sælgæti steiktir á pönnu með dassi af salti. 


  

No comments: