...sem gengur sinn vanagang í byrjun febrúar. Veðrið batnar óðum (ekki að það sé yfir miklu að kvarta) en bærilegri hiti og færri rigningardagar bjóða nú æ oftar upp á fleiri notalegar stundir í garðinum og á pallinum þar sem hvorki þarf að flýja úrhellisrigningu eða kæfandi hita. Það koma ennþá góðir skúrir sem leiða óneitanlega til leka á ótal stöðum, rafmagnsleysis og skordýrafaraldurs... En það er allt í góðu, eitthvað sem venst hvort sem þið trúið því eða ekki og núllast nánast út þegar hægt er að breiða út jógadýnuna á pallinum í skugga mangótrès, fylgjast með eðlunni sem býr undir pallinum og njóta fuglasöngsins.
Það fækkaði um einn á stóra heimilinu okkar núna í febrúar þegar Huld vinkona okkar sem hefur búið og starfað hér í Malaví sl. 3 ár kláraði samninginn sinn við World Food Program og flaug til Zimbawbe. Fyrir utan Huld höfum við líka verið með yndislega norska stelpu í gestaálmunni okkar en hún er líka á förum í mars. Það verður því 'eingöngu' við litla fjölskyldan sem flytur aftur inní kisuhúsið (eins og Hera Fönn kallar það) þegar við snúum aftur til Malaví. Það fyrsta sem Guðrún vinkona tók eftir þegar þau komu í heimsókn var hálfgerður kommúnubragur á heimilinu sökum fjölda fólks sem annað hvort hefur aðgengi að húsinu eða býr hér. Það verður því heldur betur breyting á heimilisbragnum - sem er hið besta mál held ég. Það verður ekki bara notalegt að fá góðan tíma til að læra inn á það að vera fjögurra manna fjölskylda í Malaví heldur verður líka nóg pláss fyrir góða gesti sem hyggjast láta Afríkudrauminn rætast á komandi ári.
En ef við lítum okkur nær í tíma þá erum við öll sem eitt vægast sagt spennt fyrir næstu mánuðum. Við komum heim í byrjun mars þar sem litla systir er væntanleg í apríl. Við vorum svo lánsöm að UNICEF lengdi barneignarorlofið í sex mánuði nýlega sem er afar óvenjulegt fyrir alþjóðleg samtök eða fyrirtæki en auðvitað mjög viðeigandi og í alla staði eðlilegt fyrir stofnun eins og UNICEF. Við getum þar af leiðandi notið þess að vera á Íslandi í faðmi fjölskyldu og vina alvega fram í september. Lukkustjarnan sem iðulega virðist fylgja okkur hefur ekki brugðist okkur núna og það virðist allt vera að smella fyrir komandi heimferð. Reyndar hefur lukkan okkar alltaf byggst á því afbragðsfólki sem í kringum okkur er. Ég er sannfærð um það að fátt fólk er jafn heppið með vini og fjölskyldu og við Lárus. Endalaus greiðvikni, hjálpsemi og góðir straumar hafa leitt til þess að við komum heim í fimm mánaða barneignarfrí sultuslök og áhyggjulaus.
Hera Fönn er án nokkurs vafa sú spenntasta og það eru ekki bara jólin sem virðast fela í sér endalausa bið. Hún er reyndar ennþá að bisa við að setja skóinn út í glugga á kvöldin, bara svona ef ske kynni að það væru allt í einu komin jól. Við lásum jólasögu síðast í gærkvöldi og ræddum í hundraðasta skiptið um það að jólin koma bara einu sinni á ári. En það er fleira að brjótast um í litlu höfði þessa dagana, margt alveg óskaplega skondið og skemmtileg. Hún er að vonum mjög spennt að fá litlu systur sína í heiminn og hefur að viðmiði að fyrst þurfi hún að verða fjögurra ára. Þar er komin enn ein biðin - að bíða eftir afmælinu. Hún er afar upptekin af því að eldast og hefur varla jafnað sig af gleði eftir að hún uppgötvaði að að hún yrði alltaf, um aldur og ævi, eldri en litla systir sín. Hún tók sig til um daginn og bað um að fá að tala við litlu systur um eitt mikilvægt mál. Ég varð við óskinni og vippaði upp bolnum. Hún setti munninn alveg að naflanum (fyrir þá sem þekkja mig vita að ég þurfti að sýna styrk á því augnabliki) og kallaði hátt inn um naflann: "Litla systir ég er mjög spennt að fá þig út úr maganum, en það er eitt sem þú þarft að vita. Ég verð alltaf eldri en þú og þú verður alltaf yngri en ég því ég fæddist löngu á undan þér!"
Síðan bætti hún reyndar við að hún væri líka ekki síður spennt að fá bæði skúter og prinsessu ipad en þess hefur hún óskað sér á hverjum degi núna í dágóðan tíma. Við höfum tekið langar og misheitar umræðu um það að börn eigi ekki sinn eigin ipad (við erum nýbúin að fjárfesta í einum fjölskyldu ipad sem inniheldur 2 leiki fyrir hana) og að hún eigi stórgott hjól svo kannski sé engin þörf á skúter. Þær umræður virðast engu skila og hún heldur staðföst áfram að bera upp þessa ósk við hin ýmsu tækifæri. Auk þessara óska hefur líka borið á miklum vilja og áhuga fyrir því að komast í skíðaskóla og á sundnámskeið (hvorugt í boði í Malaví þó svo að reglulega sé farið í sund). Því hefur henni nánast verið lofað báðum tómstundum á meðan á Íslandsdvölinni stendur.
Foreldrarnir eru eins og gefur að skilja spenntastir fyrir því að komast heim til þess að taka á móti nýjum fjölskyldumeðlim, hitta góða vini, njóta íslenska vatnsins og eyða tíma með fjölskyldunni áður en síðasta árið okkar í Malaví rennur upp.
No comments:
Post a Comment