Sunday, November 08, 2015

Pabbi þarf að klifra

Þessa helgina söknum við Lárusar sem er önnum kafinn við að klífa hæsta fjall Malaví ásamt fríðu föruneyti. Það hefur ýmislegt gengið á í fjarveru húsbóndans sem er jú vanur að sjá um flesta praktíska hluti á þessu heimili. Ber þar helst að nefna: 

  • Þjófavörnin sett í gang af hreinum klunnaskap klukkan 8 um morgun sem hafði þær afleiðingar í för með sér að sex manna vopnuð sveit birtist á dyratröppunum hjá mér... (gott að vita að kerfið virkar). 
  • Börnin voru neydd á veitingastað í 37 stiga hita... þegar dýrkeyptum hádegisverðinum hafði verið sporðrennt í hraði (því við vorum svo sein á staðinn að hann var að fara að loka) þá uppgötvaðist að engir peningar voru tiltækir. Sem betur fer erum við fastakúnnar og gátum samið um greiðslufrest! 
  • Tvær skálar brotnuðu í þúsund mola við tilraunir til baksturs.
  • Tilraunirnar heppnuðust misvel...
  • Alexander fékk kúlu þegar hann rúllaði sér á sófann (og svo festist hann undir sófanum).

Þetta er nú bara svona brot af því besta. Við erum hins vegar alveg slök núna á sunnudegi, hlökkum til að fá pabba heim og heyra ferðasöguna. Við ætlum bara að halda okkur inni við, hlusta á Kardimommubæinn og borða það sem til er í ísskápnum! 

Ljúfar stundir. 

No comments: