Eins og margir hafa eflaust tekið eftir litaðist janúarmánuður af neyðaraðstoð og yfirvinnu tengdri flóðaástandinu hér í Malaví. Fréttir um allan heim fjölluðu um flóðin og Ísland lagði í síðustu viku sitt af mörkum með rausnarlegum styrk til bæði Unicef og WFP hér í Malaví. Ég hef aldrei unnið í neyðarástandi fyrr og það er óhætt að segja að upplifunin og reynslan sé búin að vera ótrúlega áhrifamikil. Unicef skrifstofan mín bràst einna fyrst við ástandinu og skipaði strax á fyrsta degi flóðanna teymi sem voru send samdægurs út í þau héruð sem verst urðu úti. Flóðin hafa aðallega átt sér stað í suðurhluta landsins og í héruðum sem eiga landamæri að Mozambique. Hér í höfuðborginni hefur sannarlega rignt en ekki linnulaust eða með jafn miklum krafti eins og víða fyrir sunnan. Fyrstu Unicef teymin sàu um að meta ástandið og aðstoða fólk sem hafði flúið heimili sín og leitað skjóls í skólum, kirkjum eða tjaldbúðum. Með mikilli gagnasöfnun í fyrstu vikunni gátum við sent fyrstu hjálpargögn á þá staði sem þurftu mest á aðstoð að halda strax á fyrstu dögunum. Hátt í 200 skólar voru til að mynda nýttir sem búðir fyrir fólk sem hafði flúið heimili sín. Í mörgum þessara skóla, sem samanstanda yfirleitt af 2-5 afar einföldum kennslustofum og örfáum útikömrum... (semsagt engri stórri yfirbyggingu eins og við eigum að venjast), voru og eru í kringum 500 fjölskyldur að leita skjóls. Í Malaví samanstendur meðalfjölskylda af foreldrum með 5 börn.
Það þótti ekki gott ráð að senda konu komna sjö mánuði á leið út í feltið en sem betur fer nýttust kraftar mínir vel hér í Lilongwe. Ég vann sl. 2 vikur með stóru teymi Malava frá National department of disaster management og teymi frá OCHA (Office for the coordination of humanitarian affairs) og UNDAC (United Nations disaster assessment and coordination). Á fyrstu rúmu vikunni unnum við að því að samhæfa alla viðbragðsaðila, bæði innanlands og utan. Ná utan um alla þætti aðgerða og alla aðila með því að skrifa upp eina stóra viðbragðsáætlun. Þessi vinna var ótrúlega lærdómsrík. Það var allt annað en einfalt að sameina aðgerðir á skynsamlegan og árangursríkan hátt í jafn stóru landi og Malaví er, með jafn mörgum aðilum, stofnunum og félögum sem vilja og þurfa að koma að aðgerðunum. Hver er þörfin mest fyrir mat, vatn, skjól, vernd, lyf, læknisaðstoð, klósettaðstöðu? Og síðast en ekki síst hvernig má sjá til þess að öll börn í þessum aðstæðum geti haldið áfram að eiga eins eðlilegt líf og unnt er með því að njóta áframhaldandi kennslu og fá skjól frá amstri dagsins í gegnum nám og leik. Meðal þess sem við í Unicef gerðum í þessari viku var að veita hópi kennara ákveðinn 'crash' kúrs í hvernig á að halda úti skólastarfi í neyðarástandi. Þessir kennarar munu dreifast á mánudaginn í verst settu skólana og leiða skólastarfið þangað til að ákveðið 'normalítet' kemst á aftur.
Nú þegar allt lítur út fyrir að við séum að komast í gefnum fyrsta stig neyðaraðstoðarinnar, það er að skipuleggja raunhæfar aðgerðir, safna peningum fyrir þeim og byrja að vinna eftir áætluninni tekur við ekki síður mikilvægt tímabil. Tímabil eftirfylgni og endurmats. Það þarf líka að huga að venjulega prógramminu okkar og sjá til þess að ekki verði of mikið rof í þeirri dagskrá. Ég fór einmitt til Zomba í síðustu viku í þeim erindagjörðum; til að undirbyggja frekara samstarf milli Unicef, upplýsinga- og tölfræðideildar menntamálaráðuneytisins og malavísku Hagstofunnar. Samstarfið felst í því að deildin fari í gegnum ákveðið sjálfsmat eða innra mat og njóti við það aðstoðar Unicef og Hagstofunnar og í kjölfarið hefjist markviss umbótavinna þar sem áherslan verður á að auka gæði tölfræðilegar úrvinnslu mennta gagna, greiningu og nýtingu upplýsinga.
No comments:
Post a Comment