Í Malaví tók heit Afríkusólin á móti okkur og við flugum í gegnum landamæraeftirlitið þrátt fyrir vöntun á ýmsum stimplum og leyfum - enda við nú loksins á heimavelli og þá er mun auðveldara að tala sig út úr klemmu ;) Allar töskur skiluðu sér á áfangastað en því miður láðist okkur að tryggja að kerran hans Alexanders fengi nægilega góðar merkingar og því vantaði kerrustykkið í pokann sem kerrunni var pakkað í (búið að rífa gat á pokann og fjarlægja kerrustykkið frá hjólunum). Við lærum svo lengi sem við lifum og næst læt ég merkja allt sérstaklega sem er möguleiki á að taka í sundur.
Þetta blessaða ólán elti okkur síðan alla leið heim í húsið okkar þar sem við fengum afar óvelkomna gesti í heimsókn aðra nóttina okkar heima. Þjófar brutu sér leið inn til okkar og náðu í eitt og annað úr stofu og eldhúsi. Okkur var að vonum brugðið og tókum nokkra daga í að jafna okkur á ónotatilfinninguni sem fylgir því að vita af einhverjum inni í húsinu sínu um miðja nótt. Til þess að róa alla vorum við alltaf örugg í svo kölluðu ´safe haven´í húsinu sem er aðskilið frá stofu og eldhúsi með stálhurð. Við fengum síðan mjög mikla og góða aðstoð og umhyggju frá vinum og samstarfsmönnum. Hjá UNICEF fór heilmikið batterí í gang og sama dag fékk ég símtal frá sálfræðingi og við höfðum öll aðgengi að aðstoð og áfallahjálp. Mestu máli skiptir að þjófarnir reyndu ekki að komast inn til okkar í svefnálmuna og við erum öll heil og í góðu jafnvægi. Síðan má gera örlítið grín að þessu þegar frá líður og undra sig á því hversu erlendan smekk þjófarnir virtust hafa í ljósi þess að þeir stálu bara innflutta víninu okkar og skildu malavíska ginið eftir. Ég sá þá fyrir mér drekka dýra rauðvínið mitt með bönununum sem þeir stálu líka!
Þetta atvik hins vegar ásamt heilmiklu viðhaldi á húsinu síðastliðið ár og síhækkandi leigu varð til þess að við fórum að leita okkur að nýju húsi til að leigja hér í borginni. Við erum nú búin að finna hús sem okkur líst mjög vel á. Húsið er í hverfi hér rétt hjá og stendur beint á móti brasilíska sendiráðinu. Eigendurnir eru að taka það í gegn - meðal annars að setja upp nýja eldhúsinnréttingu en slíkt er algjör munaður hér í borg. Við stefnum á flutninga um miðjan mánuð og vonumst eftir ferskri og hressandi byrjun á nýjum stað.
Annars hafa þessar fyrstu tvær vikur gengið óskaplega vel og við fundum strax hversu notalegt það er að vera komin aftur (þrátt fyrir miður skemmtilegar móttökur). Vð uppgötvuðum nefnilega í þessum hremmingum hversu rík við erum af frábæru og yndislega hlýju fólki hér í borginni. Við fengum strax hringingar, heimsóknir og pósta frá öllu þessu góða fólki. Nágrannar, vinnufélagar og hreinlega ókunnugt fólk úti á götu sem frétti af innbrotinu og vildi bara láta okkur vita að við værum ekki ein ef okkur vantaði eitthvað. Í Lilongwe er samfélagið nefnilega oft vandræðalega lítið en á sama tíma mjög náið og vinalegt - sérstaklega þegar á reynir.
Vinnan fer vel af stað. Mannhæðarháir bunkar biðu mín að sjálfsögðu en ég er með góðan yfirmann og fæ þess vegna mikinn sveigjanleika og skilning. Við Alexander og pabbi hans erum búin að koma okkur upp ansi fínni rútínu þar sem ég gef brjóst á morgnanna, í hádeginu og síðan aftur um klukkan þrjú en þá er ég alkomin heim úr vinnu. Svona getum við haft þetta í amk mánuð í viðbót. Þeir feðgar eru að brillera saman og Alex er farinn að borða banana, avakadó og graut inn á milli gjafa. Hera Fönn var spennt, pínulítið kvíðin en óskaplega dugleg að byrja aftur í leikskólanum. Þar á bæ var mikil gleði að fá hana aftur og hún var knúsuð í kaf fyrsta daginn sinn. Enskan hennar hefur komið mun hraðar en við bjuggumst við og hún er orðin altalandi aftur - dugleg að spyrja ef hún skilur ekki og æfir sig á hverjum degi í forritinu sínu ´learning and playing with sounds´. Props til Védísar og mömmu hennar fyrir frábært forrit.
Já kæru vinir það er margt í mörgu og við erum búin að vera í dágóðum rússíbana síðan við lentum. En þannig er lífið - upp og niður - aftur á bak og áfram. Við erum glöð og góð, æfum saman daglega (allir í familíunni hafa sitt hlutverk), borðum góðan mat, hittum gott fólk, innbyrðum ofgnótt af d-vítamíni, elskum hvort annað og gerum okkar besta til þess að njóta hverrar stundar.
Pís át!
1 comment:
Vó vó vó! Elsku vinir. Þetta er rosalegt að heyra. Við sendum okkar hlýjustu strauma. Mikið lán að fór ekki verr. <3 Gaman að lesa um hversdagsleikann og ljúft að vita að þið eruð umvafin snillingum. Eins og vera ber :) Gott hjá Heru Fönn að æfa sig í enskunni, þykir vænt um að heyra að hún njóti góðs af forritinu. Skype við hæfi sem fyrst, mín kæra Eva. Þú stendur þig ótrúlega vel! Áfram veginn! xXx
Post a Comment