Saturday, October 17, 2015

Að eignast milljón og eitt barn...

Hugarheimur fjögurra ára stúlkna er jafnan afar frjór og skemmtilegur. Hera Fönn heldur okkur foreldrunum við efnið með því að spyrja krefjandi spurninga og ígrunda hin ólíkustu málefni. Þessa dagana er hún staðráðin í að eignast mörg börn. Helst milljón. Eða milljón og eitt, eftir að hún uppgötvaði að milljón er ekki stærsta tala í heimi. Við ræddum þessar fyrirhuguðu barneignir um daginn út frá hinum ýmsu hliðum. Ég spurði hana meðal annars hvernig hún ætlaði að hafa tíma fyrir öll börnin. Því svaraði hún til að hún yrði með fullt af fólki til að aðstoða sig. Hún gæti til dæmis sent börnin reglulega í pössun og þá helst yfir matartímann því þá yrði örugglega mjög flókið að vera með mörg börn í einu. Sjálf hafði hún örlitlar áhyggjur af baðferðum barnanna en sagðist bara ætla að eiga sundlaug og þá væri ekkert mál að setja þau öll í bað í einu. Þegar ég síðan spurði hvort hún héldi ekki að hún yrði þreytt á að vera stanlaust ófrísk því það væri nú ekkert grín - þá sagði hún kæruleysislega: iss mamma ég get bara ætleitt slatta af þessum börnum.  

No comments: