Sunday, December 22, 2013

Fjölskyldustundir

Mamma og pabbi komu fyrir tæpri viku síðan. Á þessari viku höfum við: 

  • Sýnt mömmu og pabba um Lilongwe
  • Ferðast suður til Mangochi. 
  • Tekið þátt í afhendingu nýs húsnæðis fyrir Rauða Krossinn hér í Malaví. 
  • Gist á yndislegu gistiheimili lengst upp í hlíðum fjallanna sem umkringja Mangochi þar sem er ekkert rafmagn en nóg af ást, umhyggju, góðum mat og félagsskap. 
  • Baðað okkur í útisturtum inni í miðjum skógi. 
  • Fylgst með apafjölskyldu og gefið sporðdreka að éta. 
  • Borðað regulega morgunmat úti á verönd í húsinu okkar. 
  • Horft á pabba laga ýmislegt tilfallandi. 
  • Horft á mömmu skreyta og gera jólakósý í húsinu.
  • Verslað leirpott í Dedza, eldað í honum og horft á botninn detta úr honum með öllum gómsæta matnum okkar.
  • Spilað golf. 
  • Knúsast, pakkað inn jólagjöfum og átt notalegar stundir saman. 

Trúi því varla að fyrsta vikan af rúmum þremur sé liðin. Tíminn líður alltof hratt! 

Friday, December 06, 2013

Haldist í hendur

Hér í Malaví eru handabönd mjög tíð og hafa bæði mikilvæga og margvíslega merkingu. Ég held að mér sé óhætt að segja að hefðbundið malavískt handaband sé töluvert lengra og flóknara en hið íslenska*. 

*Skilgreining á hefðbundnu íslensku handabandi felst í því að taka þéttingsfast í hönd þess aðila sem heilsað er, hrista lítið eitt og halda í um það bil 3-5 sekúndur, losa svo handabandið jafn skjótt. 

Í fyrsta lagi er hefðbundið og formleg handaband hér eiginlega einhverskonar "hómís" handaband. Æ þið vitið hvað ég á við. Þegar maður heilsar venjulega, tekur svo utan um alla hendina og endar svo á venjulegu handabandi aftur. Fyrstu dagana vissi ég ekkert hvernig ég ætti að snúa mér þegar tekið var í höndina á mér. Fyrst um sinn kippti ég hendinni iðulega alltof snemma í burtu. Eftir nokkur vandræðalega augnablik af vestrænni fljótfærni fór ég að reyna að leggja mig fram um að muna eftir seinna stigi handabandsins (sem felst í að grípa um alla hendina)... en oftast mundi ég það of seint og úr varð enn klaufalegra augnablik þar sem báðir aðilar reyna að átta sig á menningu hvors annars og gera hinum aðilanum til geðs. 

Í öðru lagi eru handabönd í Malaví ekki eingöngu notuð í upphafi samskipta eða við formlega kynningu fólks. Siður en svo. Til dæmis kemur yfirmaðurinn minn að jafnaði fjórum sinnum á dag fram á skrifstofu til okkar sem sitjum í opnu rými og tekur í höndina á hverjum og einum... Rútínan fer þannig fram að hann gengur í áttina að manni og segir eitthvað á leiðinni (eitthvað jákvætt, sniðugt eða skondið svona til að hressa upp á mannskapinn) og reisir höndina upp kæruleysislega. Á þeirri stundu er ætlast til að sá sem rætt er við reisi höndina lítilega á móti og að hendurnar mætist síðan í afslöppuðu handabandi sem er mitt á milli þess að vera "high five" og formlegt handaband. Þetta hefur reynst mér nánast erfiðara en "hómís" handabandið. Enda þarf maður að vera sérlega afslappaður og "cool" til að ná góðum tökum á þessum stíl. 

Og til þess að toppa þessi flóknu handabandasamskipti Malava er ekki vegur að meta hversu lengi handabandið á að standa yfir. Ég hef nú lent í því töluvert oft að taka í hendina á bláókunnugu fólki og finna mig síðan ýkjulaust 5 mínútum síðar enn í því handabandi. Sumt fólk einfaldlega sleppir ekki af manni hendinni - í orðsins fyllstu merkingu! Það er stundum afar pínlegt að að halda uppi samræðum við einhvern sem maður þekkir lítið sem ekki neitt og hugsa allan tíman "af hverju í ósköpunum erum við að leiðast"? Reyndar leiðist fólk yfir höfuð mjög mikið hér og þá sérstaklega karlmenn. Karlmenn leiðast úti á götu, leiðast í röðinni í búðinni, leiðast í vinnunni... Afar vinalegt og notalegt að mínu mati en jafnframt örlítið kaldhæðnislegt í landi þar sem samkynhneigð og öll hegðun sem mögulega gæti tengst slíkri hneigð er bönnuð með lögum. 

En handabandadansinn heldur áfram og vonandi fer mér fram með tímanum og finn mig sjaldnar í aðstæðum sem þessum: http://www.buzzfeed.com/daves4/the-most-awkward-moments-in-handshake-history 

Sunday, December 01, 2013

Jolaandinn

Fyrsti i adventu!

Allar staerri verslanir her i Malawi settu upp jolaskreytingar i lok oktober og spila nu jolalog i grid og erg. Mer lidur stundum eins og i einhverjum afar surum brandara thvi thad er nakvaemlega ekkert annad sem minnir a jolin her og thessi vestraena vidleitni budanna er i einstaklega mikilli motsogn vid raunveruleika folksins sem her byr. Eg er til daemis buin ad spurja allt malaviska folkid sem vinnur a skrifstofunni minni hvad thad geri i tilefni jolanna. Their sem geta latid ser detta eitthvad i hug (thvi flestir horfa bara storum augum a mig og spurja til baka... hvad meinardu eiginlega med 'ad gera eitthvad') nefna jafnan sma kenderi nidra strond - svona fyrir utan extra langa gudtjonustu  a joladag. Matur, hefdir, sidir, jolalog, bakstur, tiltekt, matarbod, jolasveinar, jolatre, jolafot, gjafir, skreytingar.... thekkist ekki - punktur og basta!

Vid Lalli erum reyndar med eitt jolamarkmid i gangi - ad kaupa grill svo vid getum eldad goda nautalund i jolamatinn thetta arid.

Saturday, November 30, 2013

Hér í hverfi 43 í húsi númer 289 eru fullkomin rólegheit á laugardagskvöldi sem þessu kærkomin. Við hjónin erum ennþá að jafna okkur eftir að hafa skemmt okkur langt fram á nótt í gærkvöldi. Norska sendiráðið bauð norðurlandabúum í afar huggulegt jólaboð. Við borðuðum yfir okkur af purursteik og piparkökum í frábærum félagsskap fólks frá öllum norðurlöndunum sem á það sameiginlegt að vera búsett og vinnandi hér í Lilongwe. Eitt af því sem aðgreinir norðurlandabúanna hér í Malaví frá öðrum er fjöldi karlkynsmaka sem fylgt hafa eiginkonum sínum yfir hnöttinn og eru það sem mætti kalla "househusbands". Yfirgnæfandi meirihluti heimavinnandi húsfeðra hér í Malaví eru semsagt skandinavískir að uppruna. Þessir eðalmenn hafa stofnað með sér félag (sem Lárus var innvinklaður í á fyrsta degi) sem þeir kalla "STuDs". Nafnið á félaginu vísar til þess mikla álags sem makar útivinnandi kvenna þurfa að þola og stendur fyrir Spouses Travelling under Durance. Skemmtiatriði kvöldsins snéru flest að því að lýsa streitumiklu, flóknu og erfiðu lífi makanna sem felst aðallega í því að skutla konum og börnum í vinnu og skóla, hittast í cappochino á besta kaffihúsi bæjarins, finna út hvar besti osturinn er seldur þann daginn, spila golf, fara í ræktina, drekka bjór.... þið getið ímyndað ykkur. 

Við skemmtum okkur konunglega í boðinu og vorum ekki komin hingað heim fyrr en undir morgun. Hera Fönn átti einnig mjög gott kvöld enda í ekki síðri félagsskap en foreldrarnir. Nýjastu meðlimirnir í íslendingahópnum hér í Malaví eru yndisleg fjölskylda sem við höfum fengið að kynnast á undanförnum vikum. Fjölskyldan öll kom í eitt allsherjar sleep over hingað til okkar í gærkvöldi sem gladdi  Heru Fönn óskaplega. Nýir vinir, gleði og gaman langt fram á kvöld. 

Nú erum við hins vegar þreyttari en orð fá lýst enda kemur sólin alltaf upp klukkan 5 með tilheyrandi fuglasöng og lífi. Heimasætan vaknaði um það bil klukkutíma seinna eins og venjulega og bað mömmu sína vinsamlegast um að koma fram og græja kornflex og mangó í morgunmat - sem ég og gerði. Það er þess vegna ósköp heillandi að fara upp í ból fyrir miðnætti í kvöld og sofa jafnvel til 7 ef að heppnin er með mér! 

Tuesday, November 26, 2013

Þakklæti fyrir leikskólana!

Í morgun lögðum við extra snemma af stað í leikskólann hennar Heru Fannar (Rainbow!) til þess að móðirin gæti einstaka sinnum farið með barnið í leikskólann og komið í veg fyrir þann misskilning (eða óskhyggju) af hálfu leikskólakennaranna að Lárus sé einstæður faðir. Á leikskólanum er ekki skortur á leikskólakennurum eins og heima á Íslandi - ó nei aldeilis ekki. Ef ég ætti að giska myndi ég halda að það væri ca 1 kennari á 1--2 börn. Síðan eru það ráðskonurnar, konan sem opnar hliðið á morgnanna, maðurinn sem stýrir bílaumferðinni á bílastæðinu, fólkið sem sér um dýrin, byggingarnar, garðana.... and the list goes on. Reyndar er aðeins minna lagt upp úr prófgráðum og ég held að eini menntaði leikskólakennarinn sé leikskólastýran sjálf. En hvað sem menntun líður er starfsfólkið allt óksaplega vinalegt, barnvænt og kann sitt fag. Hera Fönn byrjar daginn sinn á að fara í stóra úti/inni stofu sem er full af leikföngum og þar er frjáls leikur í morgunsvalanum. Hún hefur síðan val yfir daginn um ótal afþreygingu og leik. Hún lærir líka markvisst um stafina, formin og litina. Í leikskólanum eru söngstundir, útivera, þemadagar og allt það sem við tengjum við gott leikskólastarf. Ég er óskaplega þakklát fyrir að hafa fundið leikskóla sem við erum öll ánægð með. Leikskóla sem aðstoðar okkur foreldrana við uppeldið á barninu okkar. Veitir okkur fullorðna fólkinu ákveðið frelsi (til að sinna vinnu og heimili) og barninu tækifæri til að umgangast jafnaldra í skipulögðu og örvandi starfi. 

Hér í Malaví gerum við okkur hins vegar óhjákvæmilega grein fyrir því að við erum í hópi afar fárra og útvaldra sem hafa efni á og aðstæður til að njóta slíkra forréttinda. Það er alls ekki gefið að koma barninu sínu í leikskóla og þessi tiltekni skóli sem Hera Fönn er í er dýrari en leikskólar heima á Íslandi verða nokkurn tíman. Í Malaví fá einungis rétt tæp 30% barna leikskólaþjónustu af einhverju tagi. Þegar ég segi "þjónstu" þá á ég ekki við það sem ég taldi upp hér að ofan. Nei það er langur vegur frá. Einu almennu leikskólarnir í Malaví eru nefnilega eingöngu reknir af sjálfboðaliðum í hverju samfélagi fyrir sig og eru því afar óstöðugir og tilviljunarkenndir. Tilkoma þeirra er engu að síður gríðarleg viðbótarþjónusta við Malavískar konur sem annars eru bundnar börnum sínum allan daginn og verða þar af leiðandi langflestar af tækifærum til vinnu eða menntunar. Reyndar vinna allar konur hér sama hvað börnum líður - þær binda bara börnin á bakið fyrstu þrjú árin og halda áfram að strita. Af því leiðir að meirihluti barna hér í Malaví nær ekki fullkomlegum líkamlegum þroska, hæð eða þyngd. Leikskólarnir umræddu eru kallaðir Community Care Centers og eru í raun og veru frekar nýir af nálinni. UNICEF hefur unnið að því síðastliðin ár að styrkja þessa þjónustu með ýmsum hætti. Til að mynda hafa verið haldin námskeið fyrir konurnar sem starfa sem sjálfboðaliðar í leikskólunum. Þá hefur verið reynt að styrkja ákveðinn fjölda skóla með grunnaðbúnað eins og drykkjavatni og klósettaðstöðu.

Það sem mér finnst hins vegar vera ein af stærri vörðum í átt til gæðaleikskólamenningar og bættrar stöðu og heilsu barna hér í Malaví eru svo kallaðir Early Learning Development Standards eða staðlar fyrir þroska ungra barna. UNICEF hefur á undanförnu ári aðstoðað jafnréttisráðuneytið og menntamálaráðuneytið við að þróa og gefa út slíka staðla. Staðlarnir eru til þess ætlaðir að hafa opinber viðmið um hvað þykir eðlilegt fyrir börn að geta, kunna eða afreka á hverju aldurskeiði fyrir sig. Heima á Íslandi þykir okkur þetta sjálfsasgt og jafnvel oft á tíðum jaðra við afskiptasemi. Vaxtakúrvan og þroskaprófin umdeildu eru til að mynda hluti af svona stöðlum. Við getum leyft okkur að gera grín að þroskaprófunum og ypta öxlum þegar börnin okkar (til að mynda barnið mitt) fylgir ekki kúrvunni en ástæðan fyrir því að við getum leyft okkur að taka slíka staðla misalvarlega er hið ótrúlega góða kerfi sem umlykur börnin okkar. Við vitum með nokkurri vissu að ólíkar stofnanir og aðilar fylgjast með því að barnið okkar þroskist og dafni á heilbrigðan hátt allt frá fæðingu. Ef að frávika verður vart eru ótal leiðir færar og ýmiskonar þjónusta í boði til þess að gera líf barnanna okkar betra hvað varðar jöfn tækifæri og gæði. Við höfum auk þess aðgengi að ógrynni af upplýsingum - sjálf var ég áskrifandi að upplýsingaveitu á netinu (www.babycenter.com) sem sendi mér aldurstengdar upplýsingar frá fæðingu Heru Fannar og til dagsins í dag. Mörg börn Í Malaví deyja af því að foreldrar þeirra og umönnunaraðilar einfaldlega vissu ekki betur, gátu ekki betur eða kunnu ekki betur.

Nú. Hvert er ég að fara með þessu? Einfaldlega í þá átt að þrátt fyrir að hægt sé að finna gloppur eða vankanta á kerfinu á Íslandi (og að sjálfsögðu má alltaf gera betur) þá ber okkur samt að þakka fyrir það að hafa fæðst inn í samfélag þar sem kerfið er til þess gert að halda utan um hvert barn sem fæðist. Þar sem menntun og fræðsla er á því stigi að við teljum okkur oft vita betur en kúrvan eða vaxtarprófið (sem er oft raunin). Og síðast en ekki síst fyrir að hafa aðgengi að sérsniðinni aðstöðu í formi leikskóla og þar innan hámenntuðu og metnaðarfullu starfsfólki (þetta leyfi ég mér að segja þar sem ég þekki slíkt fólk afar persónulega) En því miður er það svo að hér í Malaví þar sem slíkum mannauð eða aðstöðu er ekki fyrir að fara gætu slíkar upplýsingar og viðmið orðið barni til lífs. Ef að til að mynda móðir eða umönnunaraðili í leikskóla rekin af sjálfboðaliðum í afksekktu þorpi í Malaví fær haldbærar upplýsingar og fræðslu um eðlilegt holdarfar, heilsu og getu barna á tilteknu aldurskeiði og getur brugðist við frávikum með tilheyrandi leiðum er víst að framtíð barna í Malaví er bjartari. 

Monday, November 25, 2013

Skúli rafvirki

Elskurnar okkar!

Hér í Malaví gengur lífið sinn vanagang ef hæt er að tala um slíkt. Viðgerðir og framkvæmdir í húsinu hafa nú staðið yfir í rúmar tvær vikur og við erum í raun og veru ansi hissa á hversu vel gengur. Hér hefur allt verið málað að utan eins og við minntumst á um daginn - í fallega hvítu þökk sé eftirtekt og eftirfylgni Lárusar. Síðan þá hefur einnig verið skipt um nokkrar brotnar flísar í eldhúsinu og lúin moskítónet fyrir hurðunum, þakrennur og skyggni hafa verið máluð og skipt um spegla á baðherberjum. Kósýheitin aukast með hverjum deginum þó svo að hlutirnir gerist ansi hægt og rólega. Við fengum til dæmis rafvirkja til að koma og græja títt nefndan "generator" á þann hátt að ég gæti kveikt á honum inni þegar rafmagnsleysið gerir vart við sig. Hann tók um það bil viku í að vinna verkið - og þurfti á þeim tíma að fá nokkrum sinnum frí til þess að vera viðstaddur ýmsa fjölskyldu- og menningarviðburði. Rafvirkinn lauk síðan vinnunni sinni í gær - nema hvað að Lárus tók þá eftir því að allt virkaði í húsinu í dag nema eldavélin og lýsingin hjá vörðunum okkar. Rafvirkinn kom þá aftur við hjá okkur og gerði við það sem hafði vantað upp á. Nema hvað að þegar maður fær iðnaðarmenn heim til sín þá þarf að leggja út fyrir bensíni (sem fer hríðhækkandi). Um kvöldmatarleytið kom í ljós að nú þegar eldavélin virkaði þá voru öll ljós úti. Þá var aftur kallað í rafvirkjann sem Lárus segir að líti út eins og góð blanda af Don King og Bill Cosby (?). Hann kom með liðsauka með sér og fékk loksins allt til að virka - og fékk auðvitað auka bensínpening að launum. 

Nú njótum við fjölskyldustundar með rafmagn á öllum tækjum og horfum öll þrjú saman á Lion King II - á ensku til að æfa litlu prinsessuna á heimilinu. 

See you later and good night...  

Sunday, November 10, 2013

Fréttabréf með stóru F-i

Nú er löngu komin tími á stöðufærslu og fréttir frá Afríku. Tíminn hefur liðið á ógnarhraða síðan við komum hingað sem er í undarlegri mótsögn við almenn rólegheit og tímaleysi heimamanna. Við erum loksins flutt inn í húsið okkar sem stendur við nafnlausa götu í hverfi 43 og er númer 289. Það þekkist best sem húsið í beygjunni með hvítu veggjunum og svarta hliðinu. Það verður að viðurkennast að mér hálf féllust hendur fyrst þegar við komum inn í húsið sem var óheyrilega skítugt og illa frágengið. brotnar klósettsetur, málningarslettur á gólfum, biluð blöndunartæki, myglaður eldhússkápur, gamlar matarleifar upp um allt.... Þessi mikilvæga og notalega "heima-tilfinning" virtist í órafjarlægð og jafnvel ómöguleg með öllu þennan fyrst dag. Eftir hugreystandi spjall við vini og fjölskyldu vorum við samt sem áður staðráðin í að gera þetta hús að heimilinu okkar og líta á björtu hliðarnar. Fyrsta daginn þreif ég svenherbergið hátt og lágt til þess að geta að minnsta kosti sofið án gæsahúðar. Dagarnir þar á eftir fóru í þrif og tiltekt og smátt og smátt hafa herbergin tekið á sig vistlegri blæ. Skortur á húsgögnum er enn verulegur en fer þó minnkandi. Við náðum að kaupa sófasett af einni samstarfskonu minni sem er að færa sig um set. Af henni keyptum við líka draumarúmið okkar. Hjónarúm með fjórum stólpum og moskítóneti sem límist ekki við andlitið á manni. Húsgögnin týnast inn og húsið hefur tekið töluverðum breytingum til batnaðar við það að vera málað að utan. Það er hins vegar ekki alveg gefið að treysta á iðnaðarmenn og eins gott að Lalli hefur tíma til að fylgjast með og taka út þær framkvæmdir sem eiga að fara fram hér á húsinu. Við höfðum til að mynda samið um að húsið væri málað hvítt (í sama lit og er núna en hann er orðinn ansi hreint lúinn og grár). Daginn sem málararnir komu og hófust handa tók Lalli eftir því að þeir voru með allt annan lit í dollunum, einhvern beis-brúnan sem var vafalaust ódýrasti liturinn í búðinni. Lalli gat sem betur fer stoppað þá af áður en húsið varð beisbrúnt. "Oh but boss but this is the original color of the house".... Hmmm já já en hvítt skal það vera! 

Nú förum við í reglulegar eftirlitsferðir og höldum fram sérfræðikunnáttu okkar í krafti þess að vera smiðsbörn, systkini og tengdabörn. Við vorum til dæmis ekki hér til að fara yfir málningarvinnuna sem unnin var innandyra - sem varð til þess að það eru vænar málningaslettur á öllum gólfum, gluggalistum, loftinu og víðar. Litirnir eru líka ansi vafasamir og á flestum stöðum hefur ekki verið splæst í meira en eina umferð. Ég er búin að vera með málningu á heilanum síðan við fluttum hingað og mér varð ljóst að glansmálning er vestrænn lúxus sem finnst ekki í Malaví. Málningin er því öll mött sem gerir það að verkum að það er nánast ógjörningur að þrífa veggina með öðru en þurri tusku. Blaut tuska á mattan vegg gerir yfirleitt bara illt verra.   

Við höfum komið okkur upp ansi góðri daglegri rútínu sem felst í því að vakna rétt fyrir sex, græja Heru Fönn í leikskólann og mig í vinnuna. Við leggjum af stað um sjö leytið og keyrum mig fyrst á UNICEF skrifstofuna og síðan Heru Fönn á Rainbow. Lalli fer og stússast (græja og gera fyrir heimilið í bland við tennis, golf og göngutúra) og sækir svo Heru aftur rétt fyrir hádegi. Þau eru komin í nokkrar grúbbur þar sem bæðið foreldrar og pössunarpíur koma með börn í allskonar föndur, músík og leikjaafþreygingu. Foreldrar skiptast á að undirbúa og halda svona uppákomur. Mjög gott fyrirkomulag því þetta eru flest allt foreldrar úr hverfinu okkar sem skipuleggja og því stutt að fara og gaman fyrir Heru Fönn að fá smá auka leiktíma með krökkunum úr hverfinu.

Ein af verulega bjartari hliðum þess að hafa ákveðið að taka þetta hús er sannarlega staðsetningin. Við höfum hægt og rólega uppgötvað að talsvert af börnum sem Hera Fönn er með á deild í leikskólanum búa hér í götunni eða í næstu götum. Það er auðvitað ekki svo gott að börnin geti hlaupið sjálf hér á milli húsa - öryggisins vegna en það er engu að síður stutt að fara og í dagsbirtu getum við rölt saman og heimsótt litla vini og vinkonur. Það eru ekki bara vinir hennar Heru Fannar sem eru hér í göngufjarlægð heldur líka mjög gott og skemmtilegt fólk sem við höfum verið að kynnast á undanförnum tveimur mánuðum. Við eyddum kvöldstund með fjórum pörum (frá Noregi, Malaví, Hollandi og Danmörku) í gær sem öll eiga heima hér í kringum okkur og eru hressandi félagsskapur.

Ég hef verið á faraldsfæti í tengslum við vinnuna mína bæði innanlands og utan. Við ferðuðumst síðast til Blantyre í liðinni viku þar sem við héldum árlegan fund fyrir alla samstarfsaðilana okkar. Fórum yfir síðasta ár og skipulögðum næsta ár. Ég var með erindi um mikilvægi þess að gera reglulegt mat á því sem við erum að vinna að. Mikilvægi upplýsingabanka, rannsókna og greiningar til þess að geta sýnt með sannfærandi hætti fram á að við séum að ná árangri (eða ekki). Stór hluti stöðunnar minnar á skrifstofunni felst í því að halda utan um rannsóknir, passa upp á "monitoring og evaluation" ramma í hverju verkefni fyrir sig og gefa góð ráð til þess að öllum nauðysnlegum upplýsingum um árangur og stöðu verkefna sé haldið til haga. 

Blantyre er mun nærri því að vera BORG í hefðbundinni merkingu þessa orð. Þéttleiki og háhýsi, samliggjandi verslanir, barir og veitingastaðir setja nútímalegan blæ á borgina. Í Blantyre fann ég líka það sem ég hélt að fyrirfyndist ekki í Malaví - glansmálningu. Ekki í málningabúð heldur á veggjum klósetts á einum besta veitingastað sem ég hef farið á á ævi minni. Ég sat grínlaust á klósettinu og strauk veggina með hrifningarandvarpi. Lilongwe virðist ekki byggjast upp í sama anda og Blantyre. Hér eru vissulega háar byggingar en þær rísa með margra kílómetra millibili og eru umkringdar háum girðingum svo það vottar sárasjaldan fyrir lífi eða fólki á svæðinu. Gamli bærinn er reyndar alveg fullkomlega stappaður af fólki en hann er ekki sérlega aðlaðandi fyrir gangandi vegfarendur sem vilja eiga notalega stund án þess að þurfa að banda póstkorta-, ávaxta- og grænmetissölufólki frá sér í gríð og erg. En Lilongwe er að byggjast upp og kannski þéttist hún með árunum. Hún hefur  líka upp á þó nokkrar yndislegar perlur að bjóða og við erum hægt og rólega að finna "okkar" staði í borginni. Kaffihús með góðum cappochino. Veitingastað með frábærum indverskum mat. Sundlaug og grill sem er huggulegt að fara í á sunnudögum og svo framvegis. Í hvert skipti sem við finnum nýja staði sem eru litlar perlur í borginni líður okkur aðeins meira eins og "heima" og verðum aðeins öruggari fyrir vikið.

Þegar við fluttum inn í húsið okkar ættleiddum við kisu - kisan fékk ekki nafn til að byrja með en á endanum spurðum við fyrri eiganda hvaða nafn kisan hefði. Kisan hét Clover sem útleggst sem Smári á íslensku. Við höfum því kallað kisuna Smára, Clover eða bara hreinlega kisu. Við fundum hins vegar út í dag að kisan er stelpa... en það er nú algjört aukaatriði. Lárus, sem er ekki mikill kattamaður, sættir sig ágætlega við kisuna en er þó ekkert sérlega hrifin af henni. Kisa er hins vegar mjög hrifin af Lárusi og gerir í því að reyna að vingast við hann. Fyrsta daginn tók Lalli upp á því að henda kisu út með tilþrifum þegar hún var að þvælast upp á borði. Ég hóstaði aðeins yfir meðferðinni á kettinum og minnti Lalla á að hann væri fyrirmynd litlu dömunnar sem fylgdist grannt með. Lalli fussaði eitthvað aðeins yfir því þangað til daginn eftir þegar hann kom að Heru Fönn þar sem hún var búin að rogast með kisu í fanginu inn ganginn fram að eldhúsdyrum og grýtir henni svo út með skömmum..... (já það læra nefnilega börnin sem fyrir þeim er haft...). 

Hera Fönn, sem hefur verið óskaplega dugleg að aðlagast nýju umhverfi, langoftast með bros og þolinmæði að vopni, hefur þó átt aðeins erfitt með að vera góð við kisu. Hún virðist taka það út á kisu að hvergi í daglega lífinu er hún við stjórnvölin, enda tæplega sem hún skilur aðra eða er skilin. Aumingja kisa má forða sér þegar Hera Fönn skipar henni fyrir, togar í rófuna hennar, ýtir henni fram og til baka og stjórnast með hana. Kötturinn er hins vegar ekki ennþá strokin að heima og er ótrúlega þolinmóð við Heru Fönn. Á meðan höldum við áfram að reyna að gera litlu skessu grein fyrir því að kisa vill ekki láta baða sig í dúkkubaði, borða við dúkkuborð eða sofa í vagni. 

Hið daglega 6-9 rafmagsleysi hrjáir okkur akkúrat í þessum skrifuðum orðum þar sem við erum ekki enn búin að koma generatornum (auka rafmagnsstöð sem keyrir hluta af húsinu upp þegar rafmagnið fer) í fullt gagn. Við erum ekki alveg komin í flæði við þetta stöðuga rafmagsleysi og erum ennþá alveg gapandi hissa í hvert skiptið sem rafmagnið fer. Við lærum þetta vonandi fljótlega og verðum ekki með pizzuna og fröllurnar hálf hitaðar um hálf sjö leytið þegar allt dettur út. Ég er aðeins öfundsjúk út í vinafólk okkar í næsta húsi sem vinnur fyrir norska sendiráðið - þau eru án efa með stærsta og háværasta generatorinn í hverfinu því  ég vakna á nóttinni ef að hann fer í gang og svalahurðirnar mínar hristast eins og um undanfara að jarðskjálfta væri að ræða. Rafmagnsleysið er þó kannski einna verst upp á viftuleysi að gera. Þegar hitinn er orðinn að jafnaði 40 gráður alla daga er viftuleysi mun alvarlegra en ljósleysi. Við vorum með plön um að fá okkur loftkælingu í húsið en það er ansi kostnaðarsamt og heilmikið fyrirtæki að setja hana upp svo við höfum sætt okkur við loftvifturnar sem eru til staðar bæði í stofunni og í svefnherberginu. Þær eru líka ansi góðar og við höfum ekki verið í miklum vandræðum fram að þessu. Vonandi komumst við yfir heitasta tímabilið sem stendur yfir núna og fram í miðjan desember. Um leið og rigningarnar hefjast lækkar hitinn og loftslagið allt breytist. Við erum reyndar mjög spennt yfir rigningunni enda mun allt hér umhorfs breytast verulega, gras og plöntur vaxa af krafti og borgin breyta um svip. Rigningartímabilið hér er ekki einn samfelldur skúr heldur rignir frekar seinnipartinn og á nóttunni, loftið hreinsast og hitastigið er bærilegra... það verður yndislegt tilbreyting.  

Nú ætlum við fjölskyldan að fara að gæða okkur á hálfheitu pizunni og skipuleggja vikuna sem framundan er. Góðar stundir, ást og friður frá Malaví. 

Tuesday, October 15, 2013

Praktísku atriðin

Við höfum átt heima á ólíkum stöðum í heiminum: Íslandi, Spáni, Argentínu og Kaupmannahöfn sem dæmi. Í hvert skipti sem við flytjum og hefjum búskap í nýju landi fer um mig tilfnning sem er sambland af spennu, stressi, eftirvæntingu og gleði. Það er eitthvað alveg sérstakt við að koma sér upp heimili; innrétta, huga að stóru hlutunum jafnt sem smáatriðunum. Við höfum langoftast þurft að vera ansi úrræðagóð, nýta það sem til er, gera mikið úr litlu... Sjaldan höfum við hins vegar þurft að huga að jafn ólíkum hlutum og nú þegar við flytjum inn í nýtt hús í Malaví.

 Á "to do" listanum í þessari viku er til dæmis að hringja og panta mann til þess að fara yfir íbúðina með varnarúða gegn hvers kyns skordýrum. Þá þurfa einnig að koma menn til að taka út almennt öryggi á lóðinni með tilliti til UN reglna. Við þurfum líka að huga að loftkælingu og uppsetningu á slíkri græju því henni er ekki fyrir að fara í íbúðinni sem stendur. Okkur hefur hins vegar hitnað jafnt og þétt síðustu daga og erum nú á því stigi að merkja ósýnilega línu í mitt rúmið og biðja svo hvort annað afar vinsamlegast að fara ekki yfir þessa línu til þess að lágmarka klístraða og sveitta snertingu yfir nóttina. Loftkæling er þar af leiðandi nauðsynleg ef vel á að fara. Við þurfum síðan að huga sjálf að sorphirðu en slíkt fer yfirleitt í gegnum einkafyrirtæki. Klóakmál eru líka í höndum húseiganda og því þurfum við að skoða þau mál vandlega þegar við flytjum inn. Hefur verið hreinsað nýlega eða þarf að huga að því?  

Talin moskitóbit á húsfrúnni eru orðin um það bil 30 talsins og því er eitt af mikilvægari verkum fyrir flutninga að fjárfesta í góðum moskítómeðhöndluðum netum sem hægt er að sofa vært undir. Við viljum helst fá net sem ná vel utan um rúmið en liggja ekki þétt upp við andlit og útlimi (þær bíta mig til dæmis bara í gegnum netið ef handleggurinn liggur upp við það). Netin hef ég ekki ennþá séð í búðum og þarf því að leggjast í rannsóknarvinnu. Rúmdýnur virðast líka vera afar sjaldgæfar hér í borginni. Ítrekaðar leiðangursferðir Lárusar hafa lítinn sem engann árangur borið og við sjáum fyrir okkur að sofa á 90 cm vindsæng fyrstu dagana ef ekki fer að birta til. Á síðasta kvenfélagsfundi fékk Lalli þó einhverjar aukaupplýsingar og ætlar að láta reyna á það í vikunni. 

Já svona eru verkefnin bæði mörg og mismunandi þegar hugað er að flutningum. Við leyfum ykkur að sjálfsögðu að fylgjast með þessum æsispennandi dögum sem framundan eru hér hjá okkur í Lilongwe.   

Monday, October 14, 2013

Ævintýraleg helgi

UN stofnanir um heim allan ákveða tiltekinn fjölda af frídögum á ári í samræmi við mismunandi trúarbrögð og þá frídaga sem gilda í hverju landi fyrir sig. Í dag og á morgun er frí hjá sameinuðu þjóðunum í Malaví. Í fyrsta lagi vegna mæðradags sem haldin er mjög svo heilagur hér í landi. Útvarpsþulir hafa til að mynda á síðast liðinni viku ítrekað minnt hlustendur á að versla eitthvað fallegt handa mæðrum sínum og malavískar konur af skrifstofunni minni pósta löngum færslum á Facebook til heiðurs mæðrum sínum. Í öðru lagi vegna Eid al-Fitr eða "feast of breaking the fast" - lokadagur Ramödunar. 

Við fjölskyldan nutum þess í botn af fá langa helgi og héldum suður að Malavívatni þar sem dekruðum við okkur í meira lagi. Það var algjörlega frábært að komast út fyrir borgarmörkin og sjá meira af þessu fallega og margbreytilega landi. Við keyrðum í gegnum sléttur og fjöll alla leið niður að vatninu sem ég tala ennþá um sem sjó enda erfitt að ímynda sér vatn af slíkri stærðargráðu. Í ferðum sínum um Afríku árið 1859 nefndi Livingstone vatnið "Nyasa" eða "lake of stars" - eftir að hafa séð sólina setjast tvö kvöld í röð við vatnið skil ég vel nafngiftina og hefði jafnvel bætt við "stjarna og drauma" eða einhverju álíka væmnu og rómantísku en slíkur er andinn sem svífur yfir. Við snæddum morgun- hádegis og kvöldmat með útsýni yfir spegilslétt vatnið þar sem hafernir svifu um og klófestu sinn snæðing. Yfir daginn svömluðum við í sundlauginni og töldum áreiðannlega yfir 30 fuglategundir. Lalli og Hera Fönn sigldu á kajak á meðan mamman lá á ströndinni og síðan fórum við öll saman í sólseturssiglingu á seglskútu. Á morgnanna fylgdumst með apafjölskyldu vakna fyrir utan svalirnar okkar, gefa apabörnum brjóst og snyrta hvert annað.   

Ef einhverjir voru að láta sig dreyma um að koma í heimsókn en voru ekki alveg vissir þá ættu meðfylgjandi myndir og þær sem birtast á Facebook að auðvelda fólki að láta draumana rætast! 

Morgundagurinn verður síðan nýttur í að plana komandi daga og vikur þar sem við erum loksin komin á ról með að búa okkur til okkar eigið líf hér í borginni. Við hlökkum til að komast inn í húsið okkar í þar næstu viku og hefjast handa við að gera það huggulegt. Hera Fönn fer á nýjan leikskóla í sömu viku og þá erum við loksins komin með langtímapláss fyrir hana. Leikskólinn er æðislegur, heldur húsdýr og býður upp á frábært úti- og leiksvæði. Við erum spennt að komast í okkar eigin rútínu og segja frá öllum hversdagslegu hlutunum sem gera lífið að ekki minna ævintýri en helgar líkt og sú sem leið.     



























Wednesday, October 09, 2013

Raddir barna

Nú er ég aftur komin á ról vinnulega séð eftir ferðalög síðustu viku. Eins og ég hef sagt frá áður eru verkefnin mín á skrifstofu UNICEF hér í Malaví æði mörg og krefjandi. Eitt af stærri verkefnunum sem ég tók að mér er að sinna ráðgefandi hlutverki fyrir menntamálaráðuneytið sem vinnur þessa dagana að stefnumótun um menntun án aðgreiningar eða Inclusive Education. Hér sýnist mér helsta áskorunin vera fólgin í því að fjalla um börn með fatlanir á upplýstan og ábyrgan hátt og móta síðan skólastefnu sem byggir á slíkri umfjöllun og umræðu.  

Í fyrradag hitti ég félaga mína úr ráðuneytinu, tvo menn á miðjum aldri, og fékk að heyra af áætlunum þeirra. Áætlanir þeirra um upphaf slíkrar stefnumótunar fólust í góðum hugmyndum um þrjá samráðs- og vinnufundi í hverjum landshluta fyrir sig en landinu er skipt upp í norður-, mið- og suðurhluta. Mér leist strax mjög vel á slíkt fyrirkomulag en setti þó spurningarmerki við tvennt. Í fyrsta lagi fjárhagsáætlunina sem hljóðaði upp á ansi háa reikninga fyrir akstur og hótelgistingu ýmissa aðila og í öðru lagi boðaða þátttakendur á fundina.  

Í tengslum við akstur og hótelkostnað sem áætlaður var á hvern einasta héraðsmenntafulltrúa (24 talsins) og aðra fyrirmenn fékk ég einfaldlega þá skýringu að ekki væri hægt að ætlast til þess að fólk í jafn háum stöðum kæmi sér sjálft á áfangastað og því einungis eðlilegt að útvega bílstjóra og tilheyrandi. Ég er hrædd um að það muni taka uppeldis- og menntunarfræðing ofan af Íslandi nokkuð langan tíma að venjast þessari hugsun (ef einhverntíman). Ég sá hins vegar strax að þetta væri ekki til frekari umræðu og snéri mér því bara að næsta atriði sem skiptir líka meira máli. Það tengdist lista þátttakenda. Á fundinn voru boðaðir fjölmargir hagsmunaaðilar sem tengjast hugtakinu menntun án aðgreiningar. Til dæmis kennarar, skólastjórar, menntafulltrúar héraða eins og áður sagði og fleiri sem tengjast rekstri og utan um haldi skólanna. Þá voru einnig boðuð á fundinn hin ýmsu félagasamtök og stofnanir (NGO's) sem tengjast fötluðum börnum á einn eða annan hátt. Á listann vantaði hins vegar afar mikilvægt fólk að mínu mati: Foreldra og börn! 

Ég viðraði þetta á mjög svo diplómatískan hátt og benti á að það væri lítil stoð í því að móta stefnu um menntun án aðgreiningar ef ekki væri haft samráð við þá sem virkilega eiga að njóta góðs af slíkri stefnu - foreldra barna með fatlanir og sérþarfir og börnin sjálf. Það eru þau sem þekkja það best á eigin skinni að hafa ekki aðgengi að menntun, að vera útilokuð eða aðskilin frá öðrum. Þau hljóta því að hafa mest um málið að segja.

Félagar mínir í ráðuneytinu voru fyrst í stað ekki mjög spenntir fyrir því að "bæta fleira fólki á listann" eins og þeir orðuðu það. En eftir smá spjall urðum við sammála um að samráðs- og vinnufundir þar sem umfjöllunarefnið er aukið aðgengi að menntun fyrir ÖLL börn ættu að gera ráð fyrir börnum og forráðamönnum þeirra. Sérstaklega þeirra sem búa við fatlanir eða skerðingar. Börn í þeirri stöðu hér í Malaví hafa afar takmarkaða möguleika á menntun sökum aðgengis, úrræðaleysis, þekkingarleysis eða fordóma. Þess vegna skiptir gífurlegu máli að hlusta á - og taka mið af - skoðunum þeirra og reynslu.  

Eða eins og slagorðið segir: "Nothing about us without us". Tékkið endilega á þessu myndbandi þar sem réttindi barna með fatlanir eru í brennidepli  hjá UNICEF nú sem aldrei fyrr. Fyrir þá sem vilja fræðast enn betur þá er þessi kynning líka stórgóð. Hvet alla kennara til þess að kíkja á myndböndin líka þar sem þau nýtast vel í kennslu í margs konar samhengi (félagsfræði, samfélagsfræði, þróunarfræði, lífsleikni, enska...)


Sunday, October 06, 2013


Hera Fönn og Lalli eru búin að vera mjög dugleg að "sósíalisera" hér í Lilongwe, kynnast fólki og styrkja tengslanetið. Lalli er meðal annars búinn að skella sér í göngutúr og teboð með kvenfélags- "kellingum", þar var honum boðið í foreldrahóp sem hittist þrisvar í viku eftir hádegi og á föstudögum er lifandi tónlist og drykkir í boði. Einu sinni í mánuði eru síðan Skandínavakvöld á golfvellinum sem þau feðgin eru búin að fara á - og kynnast fullt af áhugaverðu fólki sem ýmist sinnir skurðlækningum, ljóðagerð, sjálfboðastörfum, tómatarækt, kennslu eða bara einhverju allt öðru. Á fyrsta degi nánast var Lalli líka boðið í klúbb svo kallaðra house-husbands. Klúbburinn kallast "the STUDS" og þið megið giska fyrir hvað skamstöfunin stendur :)   

Að mánuði liðnum...

er óhætt að segja að Malaví hafi komið við þrjú hjörtu frá Íslandi. Endalaus uppspretta vinalegaheita af hálfu fólksins hér, bæði Íslendinga og Malava, er auðvitað forsendan fyrir því hversu vel okkur hefur liðið frá fyrsta degi. Það hefur til að mynda verið ómetanlegt að búa á góðu heimili - að hafa fastan punkt í tilverunni - á meðan við komum okkur fyrir. Eins og ég hef komið að áður taka hlutirnir hér í Malaví sinn tíma og það eru forréttindi að vera í þeirri stöðu að geta andað rólega, hugað vel að hlutunum og tekið góðan tíma í að byggja upp stoðirnar í kringum okkur. Það er heldur ekki alltaf sem kerfið hér í Afríku segir sig sjálft eða virkar eins og við ætlumst til. Þá er mikilvægt að geta leitað til þeirra sem þekkja betur til, kunna á kerfið og geta miðlað af reynslu til okkar nýbúanna.  

Í síðast liðinni viku hélt ég til á sveitasetri í Nairobi, Kenya. Þar var haldin svo kallaður Regional Education Meeting þar sem fulltrúar frá menntasviði UNICEF frá öllum löndum í suður- og austurhluta Afríku komu saman til að ræða nýjustu stefnur og strauma, deila hugmyndum og læra af hvort öðru. Fundurinn var ansi langur og en vikan leið hratt því efnistökin voru bæði spennandi og krefjandi. Fallegu feðgin undu sér hins vegar heima í Malaví - við ekki síður mikilvæg verkefni sem fólust í að reisa stoðirnar í lífinu okkar. Hera Fönn byrjaði í leikskólanum First Steps þar sem hún virðist una sér vel. Leikskólarnir hér í Malaví leggja meiri áherslu á formlegt nám en leikskólar í Skandinavíu gera. Sem dæmi læra börnin strax frá 2 ára aldri mjög markvisst stafi, tölur og form. Kennarnir höfðu í fyrstu ákveðnar áhyggjur af því að Hera Fönn væri ekki tilbúin í þetta form af leiksóla komandi frá Skandinavíu. Við foreldrarnir höfum hins vegar litlar áhyggjur vitandi það að þessi formlegi og skýri rammi hentaði okkar stúlku eflaust betur en nokkuð annað. Enda unir hún sér vel og lærir nú stafina á ensku - sem hún kunni alla fyrir á íslensku. Kennararnir hennar eru afar ánægðir með hana. Hún er farin að segja nokkur orð á ensku í leikskólanum (segir fleiri heima í öruggu umhverfi) og virðist ekki eiga í neinum erfiðleikum með að taka þátt í leik eða nálgast hin börnin þó svo að þau tali ekki ennþá sama málið. Um daginn kallaði hún til dæmis "lets go" á öll börnin þegar þau áttu að koma inn í tíma. 

Nú bindum við vonir við að flytja inn í húsið okkar í næstu viku. Húsið sem er í eigu tóbakssamtaka (tóbak er helsta útflutningsvara Malava) þarfnast töluverða viðgerða sem við óskuðum eftir að yrðu gerðar. Nú erum við að bíða eftir því að fyrirtækið taki ákvörðun um hvort og hversu mikið þau telja sig tilbúin að gera við áður en við flytjum inn. Það er reyndar ágætt að við höfum smá tíma fyrir okkur þar sem okkur vantar nákvæmlega allt inn í húsið. Þegar ég segi allt, þá meina ég allt. Húsinu fylgir til að mynda hvorki eldavél, þvottavél eða ísskápur. Í Lilongwe er ein búð sem selur tæki af þessu tagi og þau fást sko ekki á neinum afslætti. Við erum þess vegna búin að leita hingað og þangað til fólks sem er að flytja og gæti mögulega verið að selja dótið sitt fyrir örlítið hagstæðari kjör - það gengur ágætlega.... en hratt gengur það ekki! Við höfum fest kaup á eftirfarandi hlutum: Ísskáp, gervihnattadisk, bastsófasetti og ketti. 

Okkur hlakkar óskaplega til að fá kisuna í hendurnar en hún á heima í húsinu okkar núna og fær að fylgja með í stað þess að fara aftur í Kattholt þaðan sem fyrri eigendur fengu hana. Hera Fönn veit að hún mun eignast kisu þegar við flytjum og þið getið rétt ímyndað ykkur spenningin.  


Sunday, September 22, 2013

Hera Fönn

Flestir í fjölskyldunni eru spenntastir að vita hvernig litla daman (sem í dag kallar sig skrímsla prinsessu af því að hún klæðist skrímslabol frá Kjörís) plummar sig hér í landi eldanna, hinu heita hjarta Afríku. Afdrif foreldranna virðast einhvern vegin skipta töluvert minna máli og mun sjaldnar spurt um aðlögunarhæfni okkar hvernig sem stendur á því...??? 

En það verður að segjast að við erum óskaplega stolt af litlu stelpunni okkar sem tekur hverjum degi fagnandi og spreytir sig í nýju umhverfi alls óhrædd og yfirleitt alveg pollróleg. Hún skilur mjög vel að fólk talar ekki tungumálið hennar og við reynum að æfa okkur reglulega bæði með því að lesa bækur á ensku og með því að horfa á Dóru vinkonu okkar allra (!) Hún kann núna að telja upp á 10 á ensku og segir "see you" "my name is Hera" og "thank you".

Yfirleitt er hún mjög mannblendin og heilsar þegar fólk talar við hana en stundum verður athyglin (sem nóg er af) henni ofviða og hún neitar að tala við allt fólkið sem vill klípa í kinnarnar, koma við hana og kjá framan í hana. Hera Fönn spyr margra skemmtilegra spurninga um Afríku og á oft nokkuð margar og skondnar athugasemdir á dag um það sem fyrir augu og eyru ber. 

Í morgun spurði hún til dæmis þegar hún leit út um gluggann hvort að það væri alltaf sumar í Afríku. Við útskýrðum þá árstíðirnar hér og muninn á þurrka og regntímabilinu. Hún hefur líka verið áhugasöm um flugur og pöddur hvers konar og hefur flokkað þær í tvo flokka: 1) sætar og 2) ógeðslegar. Hún er óhrædd við nánasta umhverfi og pempíuskapurinn sem var nokkur heima fyrir virðist vera búin að skolast af henni (eða kannski grafist undir skítugum fótunum sem verða ekki hreinir þó svo að farið sé í sturtu tvisvar á dag).

Hera hefur mikilvægu hlutverki að gegna í daglegri rútínu öryggisvarðanna hér í húsinu. Hún færir þeim kaffið sitt nokkrum sinnum á dag og þeir launa henni með því að leika við hana og gæta hennar þegar hún nálgast sundlaugina. Hún dundar sér ótrúlega vel hér með pabba sínum og ein síns liðs. Það verður vafalaust mun skemmtilegra fyrir hana að komast á leikskóla og vonandi er ekki langt að bíða en þangað til þá lætur hún sér ekki leiðast! 










  

Friday, September 20, 2013

Eitt og annað

"Er aftur kominn föstudagur?" spurði Lalli mig í morgun... "já ég veit" sagði ég innilega sammála því sem ég vissi að hann væri að hugsa. Vikan hreinlega þaut framhjá okkur. Mín vika einkenndist af ótal fundum enda margt fólk að hitta og mikið að læra þegar maður er nýr í stórri stofnun líkt og UNICEF. Fyrsti fundurinn minn var svo kallaður All staff meeting þar sem starfsmenn allra deilda mæta og ræða um ýmislegt sem er á döfinni. Eftir um það bil 5 mínútur af fundinum (sem var 3 klukkutímar) áttaði ég mig á því að ég skyldi ekki nema annað hvert orð sem fram fór því tungumálið sem er talað innan UN er svo sannarlega ekki hin hefðbundna enska sem við eigum að venjast. Ég hef aldrei á ævinni heyrt jafn mikið af skamstöfunum og jargonum á ævinni. Yfirmaður minn sagði til dæmis við mig á fyrsta fundinum okkar:

"The CFS will only be able to feed into the SIP if the M&E are in order, thats why we want it to be a part of MORES".  

Yes, I totally understand that - var svarið mitt!

Hera Fönn og Lalli eru búin að fara sér örlítið hægar en ég - á meðan við erum bíllaus fara þau ekki langt enda lítið hægt að fara hér um nema í bíl. Í dag fengu þau hins vegar lánaðann bíl hjá Huld og rúntuðu þá um allan bæ, skoðuðu leikskóla og fóru í búðir. Þeim leist best á leikskóla sem margir expatar (útlendingar) hér í Lilongwe hafa mælt með en þar er því miður biðlisti. Sá leikskóli er yndislega fallegur og með mikið og metnaðarfullt starf í gangi. Garðurinn er auðvitað alveg ævintýraheimur út af fyrir sig þar sem alls konar ávextir og grænmeti eru ræktuð. Síðan eru haldin ýmis dýr í hluta af garðinum. Við vonumst til að komast inn fyrr en síðar.

Okkur hlakkar mikið til helgarinnar en við ætlum að hitta fólk í brunch á morgun á svo kölluðum "farmers market". Þau eiga lítinn strák á sama aldri og Hera Fönn en þau hafa hist einu sinni áður og okkur kom öllum mjög vel saman. Seinnipart laugardags ætlum við síðan að heimsækja hefðbundið Malavískt þorp hér í nágrenninu en þar spila nokkrir strákar fótbolta - og Lalli er auðvitað kominn í liðið!
Góða helgi elskurnar.   
   

Tuesday, September 17, 2013

Í leit að húsi með garði

Daginn eftir komuna til Lilongwe var ekki eftir neinu að bíða og ég byrjaði að vinna á skrifstofunni daginn eftir. Ég samdi reyndar um að fá að koma eftir hádegi til þess að ná andanum. Fyrsta morguninn okkar í Lilongwe fengum við annan hjálplegan og yndælan Íslending (þeir leynast víða) til þess að fara með okkur á rúntinn. Hún Gulla kom og sótti okkur í fyrra fallinu enda byrjar dagurinn snemma hér í Malaví – sólin kemur upp um fimm leytið og sest aftur klukkan sex. Birtan ákvarðar daginn. Flestir vakna á milli fimm og sex og börnin byrja í skólanum klukkan sjö.

Við þeyttumst um borgina allan fyrsta morguninn og reyndum eftir bestu getu að leggja helstu byggingar og kennimerki á minnið enda lítið um skilti, hvað þá götuheiti. Nokkrar langar og fjölfarnar götur bera reyndar heiti en það er líka nauðsynlegt að taka eftir og þekkja ýmislegt annað eins og lit á húsum og gróður í görðum til þess að rata um borgina. Ég segi til dæmis við UNICEF bílstjórann sem skutlar mér heim eftir vinnu að ég eigi heima á malarveginum bak við Ufulu götu, í húsinu á hæðinni með rauða hliðinu og pálmatrjánum.   

Skipulagt kaos er eflaust ágæt lýsing á borginni sem er í veruleikanum ekki eiginleg borg heldur frekar stór bær sem skiptist í gamlan bæ, nýjan bæ og númeruð íbúðarhverfi. Hverfin og húsin eru númeruð eftir aldri þannig að hús númer 1 í hverfinu er fyrsta húsið sem var byggt þar og hús númer 2 annað húsið sem var byggt og svo koll af kolli. Númerin eru því alls óháð staðsetningu á húsunum og því allt eins líklegt að hús sem standa hlið við hlið beri númerin 2 og 99.

Við erum búin að nýta vikuna í að skoða nokkur hús til þess að leigja. Erum með eitt í sigtinu en bökkuðum líka ansi hratt – eða neituðum hreinlega – að fara inn í önnur. Hér er leiguverð ansi hátt ef ætlunin er að búa í húsi sem kemst nálægt því að vera „vestrænt“ í staðli. Smiðsdóttirin á örlítið erfitt með þá staðreynd að hurðar passa sjaldan inn í falsið, rafmagnssnúrur liggja afar sjaldan inn í veggjum heldur mun frekar utan á þeim og nákvæmni er eflaust ekki það sem er predikað þegar flísar eru lagðar. Pabbi og mamma – sem eru búin að kaupa sér miða til Malaví um jólin, húrra fyrir þeim – fá eflaust lista yfir hluti sem þarf að koma með úr smíðakassanum. Pabbi er ekki örugglega pláss fyrir falshefil?

En staðlar og norm eru tilbúnar og lærðar  þarfir sem eiga eftir að breytast eins og heimsmyndin okkar. Við erum fyrst og fremst að leita að húsi í hverfi sem verður ekki oft fyrir vatns- eða rafmagnsskorti. Samkvæmt innherjaupplýsingum verða hús sem tengjast inn á sömu rafmagnslínu og forsetahöllin sárasjaldan fyrir rafmagnstruflunum á meðan önnur hús  og jafnvel heilu hverfin geta verið án rafmagns marga klukkutíma á dag, oft í viku. Þá þarf líka að huga að því hvort að húsið sem við leigjum sé búið vatnstanki ef að skortur yrði á vatni. Lúxusinn sem við komum til með að leita eftir felst í því hvort að húsið hafi góðan garð þar sem litlir fætur geta hlaupið um og þar sem hægt er að rækta eigið grænmeti og ávexti. Enda góðri sprettu og fjölbreytni fyrir að fara í þessum heimshluta. Margir sem við þekkjum geta hæglega náð sér í mangó, avakadó, appelsínur og banana úr garðinum. Það heillar mig persónulega frekar en að þurfa að prútta við sölumenn á götunum um verð. Prútt er ekki mín sterkasta hlið. Sem betur fer höfum við verið í fylgd Huldar fyrstu dagana hér – annars hefði ég líklega borgað hátt í 3000 íslenskar krónur fyrir bananaknippi um daginn.

Monday, September 16, 2013

Ferðalagið og fólkið

Eftir einungis vikudvöl í Malaví er óhætt að segja að við litla fjölskyldan höfum öðlast nýja sýn á lífið – eða að minnsta kosti fengið að kynnast nýju og ansi hreint öðruvísi lífi. Lífi sem við hlökkum til að kynnast betur, læra betur á og lifa. Við lögðum af stað fyrir rúmri viku síðan frá Íslandi, áttum yndislegt pitstop í Stokkhólmi hjá góðum vinum. Hlóðum batteríin í sænsku Indian summer. Við erum ennþá að taka fyrstu skrefin hvað varðar vinnu, húsnæði, bílamál, leikskólamál og öllu því sem snýr að daglegu lífi. Við tókum strax þá ákvörðun að anda afar rólega í gegnum þessa fyrstu daga enda mikið að taka inn og margt að hugsa um. Þar að auki gerast hlutirnir á örlítið öðrum hraða en við erum vön og því mikilvægt að „sýna biðlund“ eins og Hera Fönn er vön að predika.


Fyrsta upplifun okkar af borginni Lilongwe og íbúum hennar var mjög góð. Ég fékk reyndar örlítið í magann þegar við flugum yfir Malaví og út um gluggann blasti við ekkert nema eyðimerkurlegt rautt og bleikt landslag og síðan vatnið endalausa sem, meira að segja úr lofti, lítur út fyrir að vera úthaf. En Malavívatn er einmitt 11 stærsta stöðuvatn í heimi og það 3ja stærsta í Afríku. Við vatnið finnast hvítar strendur og litlir sjarmerandi strandbæir. Við stefnum á að heimsækja það fyrr en síðar – enda ekki nema um það bil klukkutíma akstur úr borginni og niður að vatni.

Við lentum hér í  Lilongwe um hádegisbil eftir töluvert langt ferðalag frá Stokkhólmi til Eþíópíu og þaðan frá Eþíópíu til Malaví. Í Eþíópíu var bæði kalt og rigning en í Malaví tók á móti okkur notalegur andvari og 25 stiga hiti. Okkur leið því strax mjög vel í landi eldanna – hjarta Afríku. Hitinn hefur farið heldur hækkandi síðan við komum og við finnum ágætlega fyrir því að vera frá Íslandi, alls óvön hækkandi hitastigi á þessum tíma árs. Kvörtum ekki! En nóg af veðri – enda er það ekki sérstaklega krassandi umræðuefni í landi þar sem veðrið breytist um það bil einu sinni á ári. Mannlífið, umhverfið og menningin eru hins vegar óþrjótandi uppspretta umræðu hjá okkur þessa fyrstu daga.

Við fengum allar töskur og kerruna hennar Heru Fannar heilu og höldnu á vellinum í Malawi okkur til mikillar gleði. Glæru loftþéttu geymslupokarnir okkar vöktu reyndar ákveðnar grunsemdir og við vorum spurð að því hvort við ætluðum nokkuð að selja fötin á svörtum markaði. Segir kannski eitthvað um það hversu mikið af fötum við töldum okkur þurfa að taka með okkur (!) Við útskýrðum samviskusamlega að við værum að flytja til landsins og værum í heiðvirðri vinnu hjá UNICEF. Þá fengum við bara stórt bros og „Welcome to Malawi“ sem hefur heyrst mjög oft síðustu daga. Við vorum síðan sótt af hinum yndæla og hlátumilda Steve sem er einn af bílstjórum UNICEF. Steve skutlaði okkur heim til Huldar sem er íslensk splunkuný vinkona okkar hér í Lilongwe. Huld bauðst til að hýsa okkur litlu fjölskylduna á meðan við værum að koma undir okkur fótunum og fyrir það erum við henni óendanlega þakklát. Það var einstaklega notalegt að koma strax inn á heimili í stað hótels og að eiga strax fastan punkt í nýrri og örlítið ruglingslegri tilveru. Það hefur líka verið yndislegt fyrir Heru Fönn að fá strax öruggt og vinalegt umhverfi til að aðlagast í. 

Það tók ekki nema hálftíma að keyra frá flugvellinum heim að húsinu okkar - sem er til marks um hversu langan tíma það tekur að breyta heimsmynd fólks. Litirnir, fólkið – ó allt fallega fólkið – umferðin, tréin, fuglarnir, lyktin. Hlaupandi skólabörn í bláum búningum, konur með stór vatnsílát og mörg kíló af bönunum á höfðinu, heil fjölskylda á einu reiðhjóli, strákahópar undir tré, lítil börn á baki mæðra sinna, menn og konur að elda við opinn eld, unglingar á mótórhjólum, breiður af fjólublám og rauðum trjám, fólk að vinna, heilu fjölskyldurnar við vegkantinn. Orðin duga eiginlega ekki til og lýsingin verður tæplega til marks um það sem fyrir augun bar. Við vorum þreytt en ákaflega spennt fjölskylda sem kom sér fyrir í fallegu húsi uppi á hæð hér í hverfi 43 í Lilongwe.  






   

Sunday, September 01, 2013

Lokaundirbúningur

Vikan sem nú gengur í garð verður að öllum líkindum síðasta vikan okkar hér á landi. Við höfum nú lokið við að pakka niður í tvo "tröllakassa" sem munu fylgja okkur út. Í þá fékk að fara ýmislegt dót sem okkur hefur verið tjáð að sé erfitt að verða sér úti um úti í Malaví. Meðal annars bækur, barnadót, sjónvarpstæki, föt og annað smálegt. Við tökum einnig þetta helsta sem þarf til að reka heimili - enda óþarfi að byrja á því að versla allt upp á nýtt. Það er ekki endilega mikið um lúxusvörur á borð við raftæki ýmiskonar, leikföng, búsháhöld osfrv. og það sem er til er að jafnaði mjög dýrt.  

Við vitum ekki ennþá hvernig húsakosturinn okkar verður - en vitum þó að við munum fá góða aðstoð frá starfsfólki UNICEF til þess að skoða og velja okkur hús eða íbúð. Þeir Íslendingar sem búa nú í Lilongwe hafa verið okkur einstaklega hjálplegir líka í sambandi við ýmsar upplýsingar, undirbúning og góð ráð. Við fáum meira að segja að gista fyrstu næturnar (óráðið hversu margar) hjá íslenskri konu sem vinnur fyrir World Food Program. Það er sérlega góð tilfinning að vita af fólki sem þekkir hvern krók og kima af borginni og er tilbúið að vera okkur innan handar.

Nú bíðum við eftir því að fá svokallað "security clearance" frá UNICEF og þá hoppum við upp í flugvél og hefjum ferðalagið mikla.    

Thursday, July 18, 2013

Af hverju Afríka?

Hér á þessari síðu: http://www.malawitourism.com/ má skoða fallega landið sem við komum til með að búa í. Við erum þegar byrjuð að taka á móti heimsóknapöntunum. Bæði vinir og foreldrar hafa þegar ákveðið að láta Afríkudrauminn rætast og heimsækja okkur hálfa leið yfir hnöttinn. 

Fyrir þá sem ekki vita þá erum við að flytja til Malaví í tengslum við starf sem ég mun sinna á vegum Sameinuðu þjóðanna - UNICEF. Í að minnsta kosti eitt ár ætla ég að sinna menntastefnumótun, skólamálum og jafnréttismálum. Þegar þetta tækifæri gafst vorum við kærustuparið sammála um að það væri "once in a lifetime" og við yrðum að grípa það. Eins og fólki er kunnugt um hefur Lalli verið sérstaklega skilningsríkur þegar kemur að ævintýramennsku og útþrá unnustannar. Svona ævintýri væru ekki möguleg nema fyrir óbilandi traust og trú á hvort annað. Á meðan mamman skoðar skólamálin ætla feðginin að þreifa fyrir sér í  Malavísku samfélagi, læra á umhverfið, eignast nýja vini og læra nýja siði.

Við komum til með að skrifa pistla hingað inn og vonandi getum við haldið úti videódagbók að einhverju leyti líka. Viljum endilega deila reynslunni með sem flestum! 

Thursday, July 11, 2013

Nýtt gistiheimili!

Elskurnar mínar,

Þeir sem eru ennþá í vandræðum með gistingu endilega tékkið á þessum gistimöguleika.Nýopnað aftur - voða fínt.

Hótel Hlíð í Ölfusi
S. 483 5444

Sunday, June 16, 2013

Kveðjupartý og brúðkaup


Þar sem við, litla fjölskyldan, munum flytja á fjarlægar slóðir í lok sumars - nánar tiltekið til Malaví (smellið á linkinn) fannst okkur bæði skynsamlegt og skemmtilegt að kveðja vini og vandamenn með pompi og prakt. Af því tilefni bjóðum við til kveðju- og brúðkaupsgleði þann 27. júlí nk. 

Gleðin mun hefjast í Brúarhvammi klukkan 16.00 að staðartíma þar sem við ætlum að setja upp hefðbundna giftingahringa með óhefðbundnum hætti. Gleðin færist síðan yfir á gamla hótelið betur þekkt sem Hótel Ljósbrá, Þinghúsið, Þinghúskaffi, Snúllabar eða Hótel Hveragerði... (fer aðeins eftir því hvað þið eruð gömul við hvaða nafn þið tengið) og mun væntanlega standa fram á nótt. 

Við lofum veigum, veitingum og veglegum gleðiskammti í skiptum fyrir félagsskap ykkar. Ef svo óheppilega vill til að þið getið ekki verið með okkur á þessum degi endilega látið okkur vita í gegnum e-mail, kommentakerfið hér á síðunni, með símtali eða bara í eigin persónu.

Hlökkum til að dansa!


ÝMSAR UPPLÝSINGAR


HVAR ER BRÚARHVAMMUR?
Brúarhvammur III er afar huggulegt heimili foreldra Evu og er strangt til tekið í Ölfusi - en engu að síður í miðbæ Hveragerðis... flókið aha! Til að rugla sem fæsta (!) má nálgast kort hér: BRÚARHVAMMUR III


ÚFF, HVERAGERÐI - HVERNIG KEMST ÉG HEIM...?
Fyrir þá sem geta ekki mútað 17 ára ungmenni sem er nýkomið með bílpróf til þess að sækja hressan frænda eða frænku í partý um miðja nótt eða bara fyrir þá sem vilja eyða nóttinni í Hveragerði bendum við á eftirfarandi valmöguleika: 
 
Gistiheimilið Frumskógar www.frumskogar.is - fimm stjörnu gistiheimili í hjarta bæjarins, hinni frægu skáldagötu. Útisturtur og bíó á risa útiskjá á meðan þið svamlið í heita pottinum! 

Hótel Eldhestar - www.eldhestar.is - hinu megin við þjóðveginn, huggulegt hestahótel.

Orlofsíbúðir í Ölfusborgum - www.olfusborgir.is  - Eames stólar í stofunni, heitur pottur og fallegar gönguleiðir (sem má njóta til dæmis á leiðinni heim úr veislunni um nóttina).

Frost og Funi
- www.frostogfuni.is -  Heitur pottur nánast ofan í Varmá og splunkunýr veitingastaður á sama stað. 


Hótel Örk - www.hotel-ork.is - uppfyllið drauminn um salibunu í rennibrautinni bæði fyrir og eftir veisluna!  

Sumarhús á Núpum - www.nupar.is - litir sumarbústaðir til leigu rétt utan við Hveragerði. 

Hjarðarból gistiheimili - www.hjardarbol.is - huggó sveitagistiheimili mitt á milli Selfoss og Hveragerði.  
 
Tjaldstæðið - frekar kósý fyrir þá sem eru í útilegugír. Hægt að láta vekja sig með heitum rúnstykkjum úr bakaríinu (án djóks). 

Gamlir eða nýir vinir - í brúðkaupinu gefst gott tækifæri til þess að sníkja gistingu hjá þeim sem búa í Hveragerði eða nágrenni, mætið með auka nærur og tannburstann og þið getið örugglega fengið að krassa í sófanum hjá einhverjum góðhjörtuðum veislugesti ;) 

 
ÚTIBRÚÐKAUP? 
Já! Athöfnin mun fara fram utandyra og þess vegna er það þjóðráð að líta til himins áður en lagt er af stað og græja sig eftir veðri. Veislan sjálf verður hins vegar mest megnis undir traustu þaki gamla hótelsins. 

Bílastæðamál: Vegna þess að athöfnin og veislan eru ekki á sama stað (en þó nánast á sama blettinum) viljum við biðja gesti um að leggja bílunum sínum annað hvort við gamla hótelið eða íþróttahúsið/skólann og rölta síðan upp í Brúarhvamm í athöfnina. Við löbbum síðan öll saman úr athöfninni og yfir á hótelið til þess að halda veislunni áfram. Með þessu móti skapast ekki umferðaröngþveiti í litlu malargötunni fyrir utan húsið hjá mömmu og pabba og stutt í bílinn þegar gleðinni lýkur :-) 

   

HVAR LÆT ÉG VITA? 
Skildu eftir komment - eða ef þú ert ekki mikið fyrir að tjá þig á alnetinu geturðu sent tölvupóst eða hreinlega hringt og spjallað :-)

evahardar@gmail.com  -  s. 8419737
lallijons12@gmail.com -  s. 6964763