Hér í Malaví eru handabönd mjög tíð og hafa bæði mikilvæga og margvíslega merkingu. Ég held að mér sé óhætt að segja að hefðbundið malavískt handaband sé töluvert lengra og flóknara en hið íslenska*.
*Skilgreining á hefðbundnu íslensku handabandi felst í því að taka þéttingsfast í hönd þess aðila sem heilsað er, hrista lítið eitt og halda í um það bil 3-5 sekúndur, losa svo handabandið jafn skjótt.
Í fyrsta lagi er hefðbundið og formleg handaband hér eiginlega einhverskonar "hómís" handaband. Æ þið vitið hvað ég á við. Þegar maður heilsar venjulega, tekur svo utan um alla hendina og endar svo á venjulegu handabandi aftur. Fyrstu dagana vissi ég ekkert hvernig ég ætti að snúa mér þegar tekið var í höndina á mér. Fyrst um sinn kippti ég hendinni iðulega alltof snemma í burtu. Eftir nokkur vandræðalega augnablik af vestrænni fljótfærni fór ég að reyna að leggja mig fram um að muna eftir seinna stigi handabandsins (sem felst í að grípa um alla hendina)... en oftast mundi ég það of seint og úr varð enn klaufalegra augnablik þar sem báðir aðilar reyna að átta sig á menningu hvors annars og gera hinum aðilanum til geðs.
Í öðru lagi eru handabönd í Malaví ekki eingöngu notuð í upphafi samskipta eða við formlega kynningu fólks. Siður en svo. Til dæmis kemur yfirmaðurinn minn að jafnaði fjórum sinnum á dag fram á skrifstofu til okkar sem sitjum í opnu rými og tekur í höndina á hverjum og einum... Rútínan fer þannig fram að hann gengur í áttina að manni og segir eitthvað á leiðinni (eitthvað jákvætt, sniðugt eða skondið svona til að hressa upp á mannskapinn) og reisir höndina upp kæruleysislega. Á þeirri stundu er ætlast til að sá sem rætt er við reisi höndina lítilega á móti og að hendurnar mætist síðan í afslöppuðu handabandi sem er mitt á milli þess að vera "high five" og formlegt handaband. Þetta hefur reynst mér nánast erfiðara en "hómís" handabandið. Enda þarf maður að vera sérlega afslappaður og "cool" til að ná góðum tökum á þessum stíl.
Og til þess að toppa þessi flóknu handabandasamskipti Malava er ekki vegur að meta hversu lengi handabandið á að standa yfir. Ég hef nú lent í því töluvert oft að taka í hendina á bláókunnugu fólki og finna mig síðan ýkjulaust 5 mínútum síðar enn í því handabandi. Sumt fólk einfaldlega sleppir ekki af manni hendinni - í orðsins fyllstu merkingu! Það er stundum afar pínlegt að að halda uppi samræðum við einhvern sem maður þekkir lítið sem ekki neitt og hugsa allan tíman "af hverju í ósköpunum erum við að leiðast"? Reyndar leiðist fólk yfir höfuð mjög mikið hér og þá sérstaklega karlmenn. Karlmenn leiðast úti á götu, leiðast í röðinni í búðinni, leiðast í vinnunni... Afar vinalegt og notalegt að mínu mati en jafnframt örlítið kaldhæðnislegt í landi þar sem samkynhneigð og öll hegðun sem mögulega gæti tengst slíkri hneigð er bönnuð með lögum.
En handabandadansinn heldur áfram og vonandi fer mér fram með tímanum og finn mig sjaldnar í aðstæðum sem þessum: http://www.buzzfeed.com/daves4/the-most-awkward-moments-in-handshake-history
1 comment:
Hahaha! Hló upphátt við þennan lestur! Alltaf skemmtilegir þessir vandræðalegu menningarlegu árekstrar. :)
Knús, MaggaA
Post a Comment